Ég hef ekki tíma til að deyja, ég er of upptekin. Verkefnin hrannast upp, því tel ég það ótímabært að yfirgefa þessa jörð.
Ég er hringrásin, ég hrannast upp. Gömul útgáfa, ný útgáfa, endurútgáfa af sjálfi. Sem ég þarf að endurvinna, yfirfara og prófarkalesa. Endurskoða skoðanir, ákvarðanir. Verkefnin hrannast upp.
Minningar staflast upp, staflast í hverju þili, kytru, skonsu. Fallegir staflar, háir turnar. Engin ringulreið því ég er hringrásin. Sögur bókanna eru hringrásir. Staflarnir eru spíralar, spíralar eru hringrásir í sitt hvora áttina. Staflar, sögur, hringrásir.
En dauðinn heimtar athygli, býst við að ég geti troðið honum inn í dagskrána, en það gengur því miður ekki upp. Ég er of upptekin og verkefnin hrannast upp. Hann verður því miður að bíða, ég get haft samband í næsta mánuði, eða þar næsta. Það er því miður ekkert pláss á útgáfulistanum.
Ég hef ekki tíma til að deyja, ég er of upptekin.
Ég er hringrásin, ég hrannast upp.