Þessi babýloníski ruglingur orðanna
stafar af því að þau eru tungumál
þeirra sem farast
það að við skiljum þau ekki lengur
stafar af því að
ekkert stoðar nú lengur að skilja þau
hvað stoðar það hina dauðu
að segja þeim hvernig maður hefði
getað lifað betur, ekki þrýsta á
þá náköldu að
svipast um í veröldinni
ekki deila
við þann sem snýr baki
í garðmennina sem þegar bíða hans
hafðu heldur biðlund
Nýlega vildi ég
útsmoginn segja ykkur
söguna af hveitikaupmanni í borginni
Chicago, í miðri framsögn
yfirgaf röddin mig í snatri
því mér varð
skyndilega ljóst: hvílíkt átak
það myndi kosta mig að segja
þessa sögu þeim sem enn eru óbornir
en bornir verða og sem
lifa munu á allt öðrum tímum
og – gæfunnar börn! – verða alls
ófærir um að skilja hvað hveitikaupmaður er
af þeirri gerð sem við höfum nú
og ég hóf að útskýra það fyrir þeim og í huganum
heyrði ég sjálfan mig tala í sjö ár
en einu undirtektir allra
minna óbornu áheyrenda
voru að hrista höfuðið þegjandi
þá rann upp fyrir mér að
ég var að segja frá nokkru
sem manneskja fær ekki skilið
Þau sögðu við mig: þið hefðuð átt
að breyta húsum ykkar eða fæði ykkar
eða ykkur sjálfum, segðu okkur, var ekki til
nein fyrirmynd handa ykkur og var hún
ef til vill aðeins í fornum bókum
fyrirmynd að mannfólki, teiknuð eða
færð í orð, því okkur virðist það
sem þið glímduð við harla léttvægt
afar auðbreytanlegt, nánast á allra færi
að sjá í gegnum sem rangt, ómannúðlegt einsdæmi
var ekki til nein slík gömul
einföld áætlun, sem þið
í fáti ykkar hefðuð getað fylgt?
Ég sagði: áætlanir voru til
en sko, þær voru útkrotaðar
með nýjum táknum fimmfalt umritaðar ólesanlegar
fimm sinnum var fyrirmyndinni breytt eftir okkar
spilltu ímynd, svo að jafnvel
feður okkar, á þessum plöggum,
líktust bara okkur þeim mun meir
þá létu þau hugfallast og vísuðu mér frá
með tómlátri hryggð
gæfuríks fólks