Klám á Íslandi: Titillinn vekur athygli. Ertu ekki dálítið forvitin/n? Langar þig ekki til að handfjatla gripinn? Þú ert næsta víst ekki sá eini/a sem finnur fyrir þeim áhuga. Hér er ekki gefið í skyn að þú sért klámhundur. Ef svo er ertu líkast til ekki á réttum stað án þess að fullyrða megi um slíkt. Fólk hefir mismunandi perversjónir
Um Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Sögufélag gefur út. 341 síða. 2018.
Það er auðvelt er að nálgast klám. Á nettengdum tímum er klám í nokkurra smella fjarlægð. Með klámi (hér) er átt við bersýnar kynlífsathafnir, myndbönd og myndir (einkum myndbönd) sem sína allt, kynfæri og hvernig þau kunna að vera notuð í kynlífi. Fjöldinn vefsíðna þar sem slík myndbönd má berja augum er „óteljanlegur“ og ásóknin mikil meðal allra aldurshópa. Þetta er alkunna. Líklegt er og að flestir telji sig vita hvað klám sé, þeir þekki það þegar það rekur á þeirra fjörur. Hugsanlega er þó málið ekki svo einfalt þegar kemur að útlistunum, mörkum og lögum. Aukinheldur kann að vera vandkvæðum bundið að greina á milli klámfenginnar listar og kláms.
210. Grein hegningarlagna er svohljóðandi (fengið héðan):
Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum … 1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. [Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.] 2)
Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.
[Hver sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.]
Klám getur verið refsivert. En hvað er klám? Í lögum er það ekki skilgreint og hlýtur því að vera túlkunaratriði. Og túlkanir breytast með tíð og tíma, taka mið af ríkjandi tíðaranda hverju sinni.
Þessu ásamt fleiru, er velt fyrir sér í sagnfræðiriti Kristínar Svövu Tómasdóttur sagnfræðings. Byggir verkið á meistararitgerð hennar við Háskóla Íslands frá árinu 2014 og er „fyrsta rannsóknin sem gerð er á menningarsögu kláms á Íslandi.“ (bls. 271) Megináherslan er lögð á tíma kynlífsbyltingarinnar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
Þá jókst sýnileiki nektar og kynlífs í vestrænni menningu og tekist var á um það, í opinberri umræðu og fyrir dómstólum, hvar mörkin skyldu liggja milli þess sem mætti vera til sýnis og þess sem ætti að standa fyrir utan sviðsljósið, milli þess sem var ob/scene og þess sem var on/scene (bls. 271).
Verkið samanstendur af átta köflum. Í þeim fyrsta eru klámfræðin tekin fyrir og kenningar ýmissa fræðimanna kynntar auk þess sem hugtakinu klám er velt fyrir sér. Hugtaki sem samkvæmt verkinu er loðið og teygjanlegt. Annar kafli rekur klámsöguna. Er þar stiklað á stóru frá fornöld til nútímans. Þriðji kafli tíundar stöðu kláms eða bersýns og bersöguls efnis á Íslandi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og leggur grunninn að næstu þrem köflum sem taka á meginrannsóknarefni verksins. Þar eru rakin sex dómsmál sem talin voru brjóta í bága við 210. grein hegningarlaganna. Málin eru skoðuð og sú skoðun varpar ljósi á þau viðhorf sem ríktu gagnvart klámi á Íslandi svo og hvers konar bersýnt eða bersögult efni átti upp á pallborðið á umræddu tímabili. Aukinheldur getur lesandi orðið margs fróðari um hugtakið sem slíkt. Gildir það um bókina í heild.
Í sjöunda kafla er stiklað á klámi á Íslandi eftir 1980 eða eftir að myndbandstæki og vídeóleigur urðu almennar og því samhliða aðgengi kynlífsmyndbanda meira. Í síðasta kafla má finna samantekt. Þar að auki er viðauka að finna sem inniheldur klámsögur úr sjoppuritum og vasabókum sem lentu á borði dómstóla á umræddu tímabili. Heimildaskrá og myndskrá er einnig að finna eins og tíðkast í sagnfræðiritum.
Nú er augljóst að viðhorf gagnvert nekt og kynlífi hafa breyst í gegnum tíðina og eru enn að breytast. Þær breytingar eru sumum til vansa öðrum til happs eins og gengur og gerist. Bók þessi tekur á þeim breytingum en þar að auki má finna ýmislegt fróðlegt og þá einkum og sér í lagi það er lítur að íslenskri sögu, íslensku klámi eða öllu heldur klámsögum sem útgefnar voru í svokölluðum sjoppuritum. Auk þess er fjallað um aðra útgáfa og kvikmyndir sem vöktu umtal og hneykslan og fleira á þeim slóðum.
En lykilorðin eru að þótt margur kunni að telja að hann eður hún kunni á klámi skil þá gæti, þegar til kastanna kemur, raunin verið önnur. Hafi einhver áhuga á að komast að því er verk þetta kjörið til þess atarna.
Það er því skemmst frá því að segja að verkið er einkar áhugavert og vel þessi virði að gefa gaum. Og kunni svo að fara að þú sért vandur að virðingu þinni og viljir eigi leggjast með klámi þá ætti þessi bók ekki að saurga þig um of. Also hér er ekki markmiðið að höfða til staðs neðan þindar. Vissulega má finna eitthvað sem særa kann blygðurnarkennd þína en það litast jú af því að umfjöllunarefnið er það sem það er.
Öll uppsetning er skýr og greinagóð og fróðleiksfús lesandi ætti að sannlega að geta haft ánægju af lestrinum.