Á því herrans ári 2017 bar sköpunargáfa tveggja ungra, frómra og íslenskra rappmenna ríkulegan ávöxt þegar dægurlagið B.O.B.A leit dagsins ljós. Naut það gífurlegrar lýðhylli og varð á snöggu augabragði vinsælla á Íslandi en Jesús Kristur, sonur Guðs nokkurs sem ku bera ábyrgð á jólasveininum, gúmmíinu, garðslöngunni og því að gera Ricky Gervais að trúleysingja. Eigi vill þó svo til að spyrða megi laginu og rappmennunum við Guð að öðru leyti en því að hann, hún, það eða hán hafi vafalítið séð að það var gott og kallað það gott dægurlag þótt ekki kenni það beinlínis guðsótta né að ganga í dag svo höfundi mannsins og þeim sem Orðið er hjá megi líka.
Hér er gengið út frá því að Guði þyki æskilegast að hann (notum bara karlkyn og sleppum kynjöfnuninni að þessu sinni) sé lofsunginn og dásamaður út í eitt fyrir að bera ábyrgð á tilvist vorri eða allavega þeim sem trúa á hinn eina sanna Guð og eru ekki kynvillingar eða eitthvað þaðan af verra í Biblíulegum skilningi. Dætur sem sænga hjá föður sínum sleppa þó fyrir horn. Nóg um það. Vér erum ekki rödd í eyðimörk sem leitast við að gera beinan veg Drottins.
Vér ætlum oss að líta á téðan dægurlagatexta við lagið B.O.B.A. sem Ísfirðingurinn og XXXXXX 1 Þormóður Eiríksson vann með þeim Jóapé og Króla. Piltarnir ganga undir þeim nafnbótum innan íslenska rapp-kosmosins. Eigi var reynt að hafa upp á skírnarnöfnum þeirra.
Umræddur texti, sem vel að merkja er fenginn héðan, er ekki flókinn, hann er blátt áfram einfaldur. Í honum fjallar rappmælandi í fyrstu persónu um ást og hrifningu sína á þeim Evudætrum sem hvað ókindarlegastar eru við hann. Að vísu er mælandi nokkuð óstöðugur í tölunni, hvort honum falli ein eða fleiri í geð. Leiða verður þó líkur að því að honum hugnist almennt dömur sem eru einhvers konar háskakvendi, koma illa fram. Hér er þó hvorki átt við Babýlon-hórur né tálkvendi. Ungæðisbragur er á kveðskap þessum.
Rappmælandi er í fórnarlambshlutverki sem hann hefir valið sér sjálfur, ef vér trúum á val mannkynsins, að það sé fært um að skapa sér sín eigin örlög. Ef til vill kallast þetta á við aukna baráttu kvenna fyrir allslags réttindum og hvernig þær sumar hverjar hafa fyllst kvenfrelsisanda og neita sköpunarsögunni, því að vera gerðar úr rifi Adams. Kann það að gera margan góðan drenginn óöruggan og lúffuhneigaðan, svona eins og brennt barn sem leitar í eldinn, drukknað barn sem í brunninn leitar og klárinn sem þangað leitar sem hann er kvaldastur. Also að karlpeningurinn fái hugsanlegt „kikk“ úr því að verða undirleitur hvolpur í anda kvenna liðina alda sem taka oní sig, taki sér stöðu hins undirokaða.
Ekki úr vegi, í ljósi þessa, að vitna í Frank Zappa og dægurlag hans „Bobby Brown Goes Down“ af plötunni Sheik Yerbouti Anno Domini 1979
Womans liberation
Came creeping all across the nation
I tell you, people, I was not ready
When I fucked this Dyke by the name of Freddi!
She made a little speech then,
Oh she tried to make me say when
She had my balls in a vice but she left the dick,
I guess it’s still hooked on but now it shoots to quick!
Viðhorf þetta má sjá í margvíslegum mannleysubókmenntum þar sem tilvistarkreppa karlmannsins, karlmennskunnar er tekin fyrir. Þess finnst víða staður þótt ei verði hér leitast við að færa sönnur á þá fullyrðingu.
Svo er það hinn hliðin á teningnum, þeir sem virðast trúa því að kvenfrelsissjúkdómurinn verði læknaður með brandi í bílskúrinn, typpamyndum eða því að níða kvensköp og kerlingar. En það er önnur saga er ekki verður kostgæfð á þessum tímapunkti.
Lítum á umræddan texta.
B.O.B.A.
[Intro]
Þetta var algjör bomba. Seg’ég og skrifa, B.O.B.A
Í upphafi lagsins heyrist Bubbi nokkur Morthens arga af miklum móð. Argið atarna er fengið frá þeim tíma þegar hann, ásamt Ómari Ragnarssyni, lýsti hnefaleikum á Stöð 2. Hefir líkast til einhver þjarkurinn smettað annan kappsmann þungu hnefahöggi, hnefabombu. Gildir þar einu hvaða hnefaleikamenn áttu í hlut enda var Bubbi ávallt æstur og ástríðufullur við lýsingarnar. Svo óðagotslegur var hann að oft varð honum á einhver vitleysan og telst B.O.B.A ein þeirra. Honum varð oft hnefaskortur á tungunni.
Í þessu tilfelli verður þó ekki betur séð en orðið eigi við álitlegan kvenkost, vel hugsanlega kynbombu, litla Lólítu kannski. Þau hugrenningatengsl kunna að skapast þótt lag og texti verði ekki sakað um að ýta undir slíka þanka. Æsingurinn í Morthens kallast á við lagið og það gerir misræmið í stafsetningunni einnig þegar kemur að stöðu rappmælanda gagnvart bombunum sem hann þarf að þola af hendi Bombunnar.
[Chorus]
B.O.B.A. það er bomba
Fýla ekki góða píu, fýla bara vonda
Fyrsta deiti, púlla upp í i30 Hyundai
Slæmar stelpur gera mig svo rousey eins og RondaB.O.B.A. hún er bomba
Fýla ekki góða píu, fýla bara vonda
Fyrsta deiti, púlla upp í i30 Hyundai
Slæmar gellur gera mig svo rousey eins og Ronda
Viðlag er tekið í tvígang, að líkindum til að undirstrika hve rappmælandi hneigist mikið til pía með illt innræti. Að vísu má skilja viðlag sem svo að eingöngu sé um eina gellu að ræða. Fyrsta vers rappar þó í berhögg við eina vonda gellu, vegna fleirtölunotkunar. Bíllinn, Hyundai i30 (lítill fjölskyldubíll), sem viðkomandi ekur gefur til kynna að gaurinn sé lítill bógur. Ökutækið er í hrópandi mótsögn við vanabundinn farartæki rappara sem allajafna eru ekki marktæk nema þau kosti fúlgur fjár og laði að sé bossahristandi, rassíðar skutlur.
Myndin sem dregin er upp er því af íslenskum strákstaula, máski með sultardropa og þúfnagang. Strákstaula sem ekki rappar sig inn í vanabundið rapplandslag „blings“, vergjarna „beiba“ og dýrra farartækja í villum (amerískum blökkumönnum er tamt að nota crib) á sólríkum stað. Hann rappar sig ekki heldur inn í hættulegt fátækrarhverfi með tilheyrandi eiturlyfjasölum, fíkniefnum og byssum. Sum sé amerískt stórborgarlandslag á Íslandi sem er auðvitað, þannig að notuð séu orð kvikmyndagerðarmannsins Árna Sveinssonar á Ísafirði í byrjun ársins 2000 (hann lét þau ekki falla um rapp) alveg frábært en það er samt eitthvað ömurlegt við það.
Af síðustu línu viðlags má gera því skóna að sveinninn finni fyrir hræringum neðan beltisstaðs en ólíklegt verður að teljast að hann fái liðsinni kvendisins við að fullnægja þeirri girnd sem látið hefir á sér kræla.
[Verse 1 – Króli]
Ég fýla stelpur sem að strauja kortið mitt
Tease’a og tala og spjalla smá of mikið fyrir kortið shit
Já, hún er mín biii
Og ef henni vantar far, þá hringir hún sko í migSvörin eru ójöfn og bara stundum
Og þekkir mig og pabba minn ekki alltaf í sundur
En hey, já ég dýrka þessa píu
Og hún sýnir mér sko áhuga, samt bara pínu
Meir af því sama. Grey drengurinn. Stúlkukindin færir sér linkind rappmælanda í nyt og er, í æsingnum, meira að segja ópersónulegu sögninni vanta gefið frumlag í þágufalli. Rímið er áhugavert með hálfrími og alrími, meira rími en finnst hjá mörgum rapp-kollegum Segjast verður eins og er að versin eru grínaktug. Ánægjulegt er að hér sé notast við orðið pía sem líkast til er fengið úr dönsku. Á okkar enskulegu slangurs- og slettutímum er dásamlegt að spyrða megi slíkt við dönsku. Það er svo íslenskt að Gylfi Ægisson fær örugglega ballfró við að hlýða á.
Viðlag kemur svo aftur fyrir og er endurtakið í tvígang líkt og í byrjun lags. Ekki þarf að hafa fleiri orð um viðlagið.
[Verse 2 – Jói Pé]
B.O.B.O bomba
Fýla gellu frekar vonda
Sem að erfitt er að bonda með
Og hring’ekki hvenær sem er
Gella með glingur, já hún er vond
Púllup óboðinn nei, ding dongHún fýlar ekki lögin mín en, en mér er sama
Eitt er fyrir víst að þessi gell’er slæm dama
Hún er alltaf vond við mig, orðið að vana
Myndi gera allt saman, allt fyrir hana
Í laginu hefir verið skipt um rappara og því spurning hvort um félag strákstaula sem hneigjast til miður vel innrætra pía sé að ræða eða hvort sá nýi túlki sömu karlpersónu, mannleysu. Það gildir svo sem einu. Enn er róið á sömu mið. Stúlkan vill lítið sem ekkert með viðkomandi hafa þótt hann sé, ólíkt Meatloaf kallinum, boðinn og búinn til að gera allt fyrir ástina. Hún hefir eigi áhuga á því sem hann tekur sér fyrir hendur og eru líkur á því að þau eigi ekki margt sameiginlegt. Þetta er nokkuð endurtektarsamt, en þannig er lífið, það fer í hringi og svo deyr maður. Það að viðlagið sé endurtekið í fjórgang undir lok lagsins rímar við þá staðreynd.
1. | ↑ | Hér var brúkað hugtak sem vísaði til kunningjahjals tveggja manna – ísfirðingsins og gagnrýnanda – fyrir margt löngu og þá tilfyndniskenningu að rauðhærður maður, kominn af írskum þrælum, sem fæst við tónlist sem á uppruna sinn og essens hjá svörtum bandaríkjamönnum ætti eitthvað skylt með því fólki. Orðið er vægast sagt ómóðins og kenningin sett fram í gríni. Þetta var vanhugsað. |