Verkalýðsdeginum ber að fagna í rigningu. Svo var það einnig þetta árið. Bændur og búalið fagna vætunni, sérlega falli hún lóðrétt sem mildur úði í blanka logni. Mjúklega strýkur hún grængresið og smýgur ofaní svörðinn, veitir gróðrinum næringu og kraft. Litar jörðina græna.
Búmaðurinn andar léttar á svona dögum. Hárfínir regndroparnir vökva líka harðindaþreytta sálina. Gefa þar vaxtarsprotum vonarinnar þá vætu sem þeir þurfa til að gægjast uppúr sprungum heilabarkarins og grænka.
Fénaðurinn tekur matarkistu rigningarinnar fagnandi. Langþreyttur á vakúmpökkuðum eftirstöðvum síðasta sumars hámar hann í sig nýgræðinginn áður en sá síðarnefndi nær að átta sig á tilveru sinni.
Við fórum líka í kröfugöngu. Þjóðbúningaklædd á okkar vísu í samfestingum, saumsprettum úlpum og gúmmískóm. Í broddi fylkingar voru hvorki syngjandi sjálfstæðishetjur né rauðlogandi verkalýðsforingjar heldur hringhyrndir, vetrarstaðnir hrútar, sem fluttir skyldu í bjartari salarkynni. Á eftir fylgdu svo nokkrar mannkindur, sem reyndu að halda hópinn. Svartflekkótt hálandaættuð hundtík hringstökk síðan allt saman.
Forystusauðurinn réði ferð skrúðgöngunnar, nema hvað. Eitthvað hafði leiðarlýsingin þó skolast til því hann tók stefnuna óðfluga í ranga átt.
Hinir á eftir.
Við á eftir. Með andnauð, ragni og óhljóðum.
Spretturinn stóð í blóðspreng uppað fjárhúsi, þar sem gimbrarlyktin lá lokkandi í loftinu.