Það er sannur heiður að fjalla um þessa þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur og Gunnars Þorra Péturssonar sem Forlagið hefur nýlega gefið út. Ingibjörg gerði auðvitað íslenskri menningu ómetanlegt gagn á löngum ferli með þýðingum sínum úr rússnesku – sem og eigin skáldskap. Þar má helstar nefna íslenskar þýðingar á öllum helstu meistaraverkum Dostojevskí. Eins og kunnugt er dó Ingibjörg árið 2016 og náði því ekki að klára þýðinguna sem hér um ræðir, Hinir smánuðu og svívirtu. Blessunarlega tók Gunnar Þorri Pétursson við henni og sá til þess að enn eitt verk Dostojevskís er nú aðgengilegt á íslensku.
Það þarf bara að minnast á að það er í rauninni hálf ótrúlegt, í þessu menningarlega árferði, að minna og í raun lítið þekkt skáldsaga eftir Dostojevskí skuli nú koma út í íslenskri þýðingu. Hér tekur maður bara hattinn ofan.
Hinir smánuðu og svívirtu er verk sem ég hafði ekki lesið áður. Hún kom út árið 1861 og er því undanfari þeirra fjögurra tímalausu meistaraverka heimsbókmenntanna sem hann átti eftir að reiða fram: Glæpur og refsing, Fávitinn, Djöflarnir og Karamazovbræðurnir. Þessar bækur þýddi Ingibjörg allar, ásamt nóvellunum Minnisblöð úr undirdjúpunum og Fjárhættuspilarinn. Það er nokkuð langt síðan undirritaður las flest þessara verka (í enskum þýðingum Constance Garnett þó) fyrir utan Minnisblöðin og einstaka smásögur og nóvellur öðru hverju. Það var því áhugaverð og kærkomin upplifun að takast á við aðra skáldsögu hans eftir svo langt hlé.
Sögumaður bókarinnar er Vanja, fátækur en metnaðarfullur rithöfundur. Í gegnum hann fylgjumst við í raun með tveimur ólíkum sögum sem renna svo saman í lokin. Annars vegar er það samband Vanja við Natöshu, æskuvinar sem hann ólst upp með og er ástfanginn af. Natasha er hins vegar ástfangin af Alyosha sem er sonur Prins Valkovskí, voldugs yfirstéttarmanns. Valkovskí er á móti sambandinu við Natöshu og vill frekar að Alyosha giftist Kötju. Slíkt hjónaband myndi fela í sér töluverðan fjárhagslegan ávinning fyrir hann sjálfan. Þessi ástarþríhyrningur,eða ferhyrningur kannski réttara sagt þar sem Vanja stendur með og hjálpar Natöshu þrátt fyrir höfnun hans á honum, er annar hluti frásagnarinnar. Hinn hlutinn fjallar um Nellý, bláfátækan munaðarleysingja sem Vanja kynnist, hefur mikla samúð með og reynir að hjálpa. Á endanum kemst Vanja að sorglegri fjölskyldusögu Nellý og tengslum hennar við persónur hinnar frásagnarinnar.
Dostojevskí fjallar þannig um þemu eins og þjáningu og endurlausn, fyrirgefningu og illsku þeirra betur settu gegn „hinum smánuðu og svívirtu.“ Raunar mætti segja að Katja súmmeri vel upp helsta þema bókarinnar á einum stað „Í gegnum þjáninguna þurfum við einhvern veginn að öðlast hamingjuna á ný; borga fyrir hana með einhverri nýrri áþján. Ó, Vanja, afhverju er svona mikil þjáning í lífinu!“ (bls.119).
Það er ekki hægt að segja að það sé neitt sérstakt óréttlæti í því fólgið að Hinir smánuðu og svívirtu sé eitt af minna þekktum verkum Dostojevskís. Það er nokkuð ljóst að það stenst ekki samanburðinn við skala og dýpt síðari meistaraverkanna. Áhrif Hugos en fyrst og fremst Dickens eru svo ljós að þau eru nánast yfirgnæfandi, en bókin stenst þó ekki samanburð við verk hans heldur. Einkennandi og einstök snilld Dostojevskí, sem ekki er almennilega komin fram í verkinu, er á allt öðru sviði en ritsnilld Dickens. Án lýsinga og persóna enska meistarans er Dostojevskí því í þessu verki nokkuð langt frá verkum þess áhrifavalds (sem hann las af mikilli ástríðu í fangabúðunum í Síberíu).
Það sem var sérstaklega áhugavert við endurnýjun kynnanna við Dostojevskí var hversu sláandi þessar frægu takmarkanir hans eru þegar kemur að stíl og rithæfileikum. Frægasti gagnrýnandi hans er líklega Nabokov sem úthúðar honum hreinlega í frægum fyrirlestrum sínum um rússneskar bókmenntir. Hemingway velti einnig fyrir sér „How can a man write so badly, so unbelievably badly, and make you feel so deeply?“. Sem er einmitt það sem hann gerir líka í þessu verki.
Að segja að bókin standist ekki samanburð við einhver helstu meistaraverk allra tíma er auðvitað ekkert sérstaklega hörð gagnrýni. Þrátt fyrir ýmsa augljósa vankanta í frásögninni og persónusköpun (sérstaklega þegar kemur að Vanja sem gerir á stórum köflum ekkert annað en að hlaupa endurtekið á milli kvenkynspersónanna og hlusta á ræður þeirra), þá er Hinir smánuðu og svívirtu gríðarlega áhrifarík skáldsaga sem hefur margt mikilvægt og áhugavert uppá að bjóða. Snilld Dostojevskí, sem finna má í síðari meistaraverkunum, er heldur ekki með öllu fjarverandi. Hana er að finna á ýmsum stöðum.
Eitt helsta einkenni Dostojevskí er þessi öfgafulla, jafnvel hryllilega, sjálfsmeðvitund persóna hans, tjáð í löngum ræðum þar sem þær kafa sláandi djúpt í eigið sálarlíf – sem allir lesendur hans þekkja vel. Sjálfsþekking og rannsókn persóna hans er svo framandi nútíma yfirborðsmennsku og sjálfsdýrkun að manni líður eins og Dostojevskí sé frá Mars frekar en nítjándu öldinni. Því í gegnum þessar sjálfsrannsóknir þeirra leiðir Dostojevskí lesandann djúpt niður slóðir vitundarinnar og tilvistarinnar, allt frá hæstu trúarlegum og siðferðilegum hæðum til martraðarkenndra botna. Þegar ég las Dostojevskí fyrst, á unglingsaldri, fannst mér eins og opnað hefði verið fyrir eitthvað hliðarhólf í vitund minni. Ræður margra persóna hans, t.d. Ívans í Karamazovbræðrunum, hafa setið þar fast og bergmálað síðan.
Hér er það sama uppá teningnum, þó hann kafi ekki eins djúpt í mannlega sálfræði og hann gerði svo síðar. En þessi hryllingur sjálfs-meðvitundar (sem hafði mikil áhrif á tilvistarspekina, þ.á.m. Peter Wessel Zappfe) sem sögumaður Minnisblöð úr undirdjúpunum lýsti svo vel á einnig við persónur hans hér (hef ekki tök á að komast í íslensku þýðinguna, svo ensk verður að duga):
Now I would like to tell you, gentlemen, whether or not you want to hear it, why it is that I couldn’t even become an insect. I’ll tell you solemnly that I wished to become an insect many times. But not even that wish was granted. I swear to you, gentlemen, that being overl conscious is a disease, a genuine, full-fledged disease. Ordinary human consciousness would be more than sufficient for everyday human needs-that is, even half or a quarter of the amount of consciousness that’s available to a cultured man in our unfortunate nineteenth century, especially to one who has the particular misfortune of living in St. Petersburg, the most abstract and premeditated city in the whole world. (Cities can be either premeditated or unpremeditated.) It would have been entirely sufficient, for example, to have the consciousness with which all so-called spontaneous people and men of action are endowed. I’ll bet that you think I’m writing all this to show off, to make fun of these men of action, that I’m clanging my saber just like that officer did to show off in bad taste. But, gentlemen, who could possibly be proud of his illnesses and want to show them off?
(Michael R. Katz þýð.)
Best heppnuðu og eftirminnilegustu persónur þessa verks eru feðgarnir Aljosha og Valkovski (annar hæfileiki sem Dostojevskí skorti einmitt var að skapa sterkar kvenkyns persónur), en í þeim má sjá sterku satíru krafta Dostojevskí. Aljosha, þrátt fyrir að deila nafni með yngsta Karamazovbróðirnum, á þó lítið skylt með trúarlegri ástríðu og siðferðilegri dýpt þeirrar persónu. Deilir kannski sakleysinu. En það er á einhvern aumkunarverðan hátt, persónueinkenni sem Dostojevskí er auðvitað meistari í að tjá og minnir að vissu leyti á sögumanninn í Minnisblöðunum:
– Pabbi – tók hann dapur til máls, – hvers vegna hæðist þú að mér? Ég leita til þín af opnum og heilum hug. Ef ég tala heimskulega, teldu mér þá hughvarf í stað þess að hæðast að mér. Hvað er það eiginlega sem er svona hlægilegt? Eru það hlutirnir sem mér eru nú kærir, mikilsverðir? Kannski hef ég rangt fyrir mér, kannski er þetta allt saman tóm vitleysa, kannski er ég kjáni, einsog þú hefur oftar en einu sinni kallað mig, – en þótt ég hafi rangt fyrir mér er ég að minnsta kosti einlægur og sannur í viðleitni minni; ég hef ekki ég hef ekki misst sjónar á því sem er göfugt. Ég heillast af háleitnum hugmyndum. Ef til vill standast þær ekki, en það sem er á bak við þær er heilagt. Eins og ég sagði við þig hafa þú og þínir líkar aldrei sagt við mig nokkurn skapaðan hlut sem jafnast á við þetta, eitthvað sem vísað gæti veginn eða hvatt mig til að slást í för með ykkur. Afsannaðu þetta, komdu með eitthvað betra og ég skal fylgja þér; en ekki hlæja að mér, því það tekur mig svo sárt.
(bls.267)
Þó hann deili egócentrísku skilningar- og skeytingarleysinu gagnvart tilfinningum annarra, þá er naív og aumkunarverð einlægni engu að síður andstæðan við það sem einkennir helst Furstann Valkovski, föður hans og langsterkustu og eftirminnilegustu persónu bókarinnar. Með henni reiðir Dostojevskí jafnvel fram eitthvað áhugaverðasta illmennið í verkum sínum, þó hann sé auðvitað langt frá skrímslinu föðurnum í Karamozbræðurnir. En níhilískar ræður hans og sjálfsréttlætingar eru það sem stóð upp úr hvað mest eftir lesturinn:
Horfið ekki svona á mig vegna þess að ég hampa fordómum, hef ákveðnar hefðir í hávegum, sækist eftir áhrifum; ég veit að ég lifi í innantómu samfélagi; en einsog sakir standa hef ég komið mér vel fyrir í því, ég kinka kolli, læt sem ég styðji samfélagið til síðasta manns, en mun yfirgefa það við fyrsta tækifæri ef svo ber undir. Látið mig þekkja allar þessar nýju hugmyndir ykkar, þótt ég hafi aldrei þjáðst fyrir þær eða nokkurn skapaðan hlut, ef út í það er farið. Ég er ekki með vonda samvisku yfir neinu. Ég er sammála öllu, svo lengi sem það kemur sér vel fyrir mig og við erum legíó sem hugsum svona, og við höfum það bara mjög gott. Þá má allt fara til fjandans, við munum eigi að síður halda velli. Okkar mun njóta við svo lengi sem heimurinn stendur. Þótt heimurinn sykki í svartan sæ mundum við fljóta uppá yfirborðið. Vel á minnst: Hafið þér tekið eftir því einu, hve lífseigt fólk einsog við er! Það er ekki einleikið og raunar sérstakt rannsóknarefni hve lífseig við erum; ofbýður yður aldrei sú tilhugsun? Þetta þýðir aðeins eitt, að náttúran heldur yfir okkur hlífiskildi, he he he!
(bls.368-369)
Þetta er auðvitað ekki einungis dæmi um snilld Dostojevskís, heldur persóna eða persónugerð sem við könnumst vel við í nútímanum. Sem þarf einmitt sárlega á nítjándu aldar skáldsögum eins og Hinir smánuðu og svívirtu að halda. Af mörgum ástæðum auðvitað, en sérstaklega vegna þess að þær afhjúpa fyrir lesendum, á dýpri og áhrifaríkari hátt en nokkrar fréttir eða skýrslur eru færar um, afleiðingarnar sem fólk eins og Furstinn hefur á fólk eins og Nellý. Eins og Vanja segir við hana á einum stað „Allt, segðu allt! Og þegar þú segir frá öllu saman mun samkenndin vakna af værum blundi…“ (bls.445).
Að meta þýðinguna er hins vegar vandasamt. Bæði vegna þess að ég þekki verkið ekki á upprunamálinu, en einnig vegna þeirra takmarkana á stíl og hæfileikum Dostojevskís sjálfs. Frasar eins og „eftir japl, juml og fuður…“ koma fyrir síendurtekið. Orðalag er oft vandræðalegt, og lýsingar langt frá því að vera til fyrirmyndar. Margt af þessu þekkir maður jafnvel úr enskum þýðingum, svo það skrifast eflaust á upprunalega textann. Það er auðvitað ekki í verkahring þýðenda að betrumbæta hann. Hins vegar velti ég fyrir mér ýmsum nútímafrösum og tungumáli sem voru áberandi, t.d. „var mökkaður“ og „Ég er í ruglinu“. Að heyra slíkt í nítjándu áldar skáldsögu var eitthvað sem ég var ekki sérstaklega hrifinn af. Geri mér þó fulla grein fyrir að það að þýða nítjándu aldar rússnesku yfir á íslensku er vandasamt verkefni svo ekki sé meira sagt. Þýðingin er annars að öðru leyti mjög góður lestur sem á skilið mikið hrós.
Lesturinn var raunar svo góður að mig langaði strax að lesa hinar skáldsögur Dostojevskís í íslenskri þýðingu einnig. Ég vissi í rauninni ekki einu sinni að þær hefðu verið þýddar fyrr en bara nýlega. Hvers vegna þessar þýðingar eru ekki fáanlegar í öllum bókabúðum og gefnar árlega í fermingargjafir er eitthvað sem ég skil hreinlega ekki. En vona innilega að þessi þýðing verði breytingar þar á, því sjálfsþekkingin sem verk Dostojevskís færa lesendum er einfaldlega eitthvað sem fæst hvergi annars staðar.