Uppreisn á röngunni

Þættir úr náttúrusögu óeirðar
Gallerí Úthverfa á Ísafirði
11.8-9.8, 2018

Óeirð í eintölu er ekki alveg sama orð og óeirðir í fleirtölu. Óeirð er ókyrrð, órói; en óeirðir eru uppþot og óspektir. Tvær óeirðir gera engar óeirðir heldur bara meiri óróa. Einhvern veginn minnir eintöluóeirðin líka meira á eirðarleysi en byltingu. Í sýningu Unnars Arnar, Þættir úr náttúrusögu óeirðar má kannski segja að þær mætist loks – óeirðin og óeirðirnar, uppreisnin og eirðarleysið.  

Splundrun meðalhófsreglunnar?

Sýningin ku marka endalok „vettvangsathugunar“ Unnars Arnar á sögu óeirðar og hugsanlega færi best að skoða hana sem hluta af þeirri heild, sýningum Unnars á síðustu árum. Það er hins vegar ekki í boði – hvorki fyrir þann sem hér skrifar né flesta aðra gesti Gallerís Úthverfu á Ísafirði – sökum takmarkana tíma og rúms. Hér verður hún því skoðuð sem stök sýning, enda ætti hún að öllu eðlilegu að standa undir sér sem slík.   

Á galleríveggjunum sjálfum er fátt að sjá – þrjár ljósmyndir, hvít gardína yfir tveimur veggjum og loks lítil bók á standi. Bókin, sem er samnefnd sýningunni, er ríflega 100 blaðsíður. Í henni er að finna ljósmyndir af ýmis konar samkomum á Íslandi; mótmælum, fjöldagöngum, hátíðum og formlegum athöfnum, auk stuttrar ritgerðar eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson um anarkisma ljósmynda á ensku og íslensku. 1 Ritgerð þessi – sem er nokkuð kreist og óskýr og hefði mátt við góðum prófarkalestri og jafnvel ritstjórn, en er annars áhugaverð fyrir ástríðu sína – hefst á fullyrðingu um að flest af því sem skrifað hafi verið um ljósmyndir sé rangt. 

Góðkunningjar póst-strúktúralískra fræða um ljósmyndir; Roland Barthes og Susan Sontag, hafa fallið í þá gryfju að halda því fram að hægt sé að lýsa ljósmyndum á þann hátt að þær séu sveipaðar meðalhófsreglu. Að ljósmyndin eigi sér einhver markmið sem séu greinanleg og að framleiðendur ljósmynda og notendur þeirra séu sífellt að taka þvingandi ákvarðanir með þau markmið í huga.

Síðan er heimi ljósmyndarinnar lýst sem „anarkísku ástandi“ eða „tilraun sem kenna má við óróleika eða upplausn kaos [svo] sem er í raun ástand sem hafnar (vitandi eða óafvitandi) öllum þvingunum, hvaða nafni sem þær nefnast; ætlun ljósmyndarans, ætlun stofnunarinnar, ætlun þess sem handfjatlar ljósmyndina. Engin orð sem skrifuð hafa verið um ljósmyndir hafa reynt að grípa þetta ástand, fram að þessu.“ Þá segir Sigurjón að undrun sé lítt rannsakað fyrirbæri þar sem undrunin sé „lágt skrifuð í stigveldi þekkingarleitar mannsins“ – sem ég held að hljóti að teljast í hæsta máta vafasöm fullyrðing. Því er svo að endingu haldið fram að „meðalhófsreglan“ muni að endingu „afhjúpast og splundrast“ og klykkt út með að þetta sé sannleikurinn um ljósmyndir. Sem er bara andskoti hressilegt. 

Ég skil ekkert nema tjörulyktina

Sennilega þarf ekkert að flækja þetta neitt. Ég næ ekki tengingu við sýninguna. Myndirnar á veggjunum, stemningin í rýminu – þetta nær einfaldlega ekki til mín, hvað sem ég reyni. Að blaða í bókinni, glugga í hana og gaumgæfa, er ekki ósvipuð tilfinning og að skoða sögubækur eða vafra um á timarit.is – fínt og forvitnilegt en skortir súblímítet eða kraft eða greiningu eða merkingarþrungið samhengi. Það er ekkert að gerast hérna nema það sem ég geri sjálfur. Ég blaða í gegn og leita að fólki sem ég þekki í mannfjöldanum á mynd úr búsó – og rifja upp dagana í kringum hrunið, fyrir tíu árum, þegar ég sat úti í Helsinki og skoðaði svipaðar myndir, í lit á mbl.is og Nei.inu – og einhvern veginn truflar það mig bara að þetta sé orðið blætisóbjekt. Spyr mig hvers vegna þetta sé allt svarthvítt – óeirðin tilheyrir fortíðinni, orðin að „náttúrusögu“, ekkert nema lágstemmd nostalgía í fallegu broti, minnisvarði. 

Ég veit ekki hvar ég á að ná taki – hvaða þræði ég á að toga í til að sýningin vakni til lífsins. Í sýningarskrá stendur að Unnar Örn vinni „gjarnan með staðreyndir, frásagnir og merkingu Sögunnar, og gefur henni annað samhengi innan ramma myndlistarinnar“. Sem er svo sem allt satt og rétt – en þetta er allt saman kannski samt of augljóst? Ég veit að maður þarf að koma til móts við listaverk, finna leið sína að því, en það eru líka takmörk fyrir því hvað maður nennir að fara langt. Listaverkið verður að vinna eitthvað af vinnunni og þessi sýning og bók er hreinlega of hugmyndafræðilega löt, blandan of þunn. Langsterkasta upplifunin í rýminu var þrálát tjörulyktin frá sýningunni á undan. 

Orðagjálfur utan um ekki neitt?

Auk ritgerðarinnar í bókinni fylgir sýningunni stuttur texti eftir Heiðar Kára Rannversson. Sá er talsvert skýrari – og formlegri – en texti Sigurjóns 2. Þar segir meðal annars:

[F]orm bókarinnar sem er í litlu vasabroti, minnir á kennslurit. En hvaða sögu er hér verið að segja? Ólíkt kennslubók er ekki um að ræða hefðbundna línulega frásögn þar sem atburðum er fylgt eftir í tímaröð, því heimildirnar sem Unnar Örn notar hafa löngum glatað markmiði sínu og inntaki. Heimild um einn atburð verður minning um annan í tímans rás. […] Til verður ný frásögn í bókinni þar sem Unnar endurtekur verknaðinn með því að endurramma myndirnar og beina athyglinni að spennu í myndfletinum. Í myndum á veggjum gallerísins, sem ekki eru að finna í bókinni, er auk þess beitt annarri grunntækni ljósmyndarinnar og þær sýndar negatífar. Verkin eru neikvæð, ljósi og skugga hefur verið snúið við, og gefa til kynna ástand óeirðar.

Það er ágætt að hafa þetta með, svo fólk sjái að einhver hafi fundið snertiflöt við sýninguna.  Sigurjón Baldur og Heiðar Kári eru báðir hámenntaðir – safnfræðingur og listfræðingur – og sjá allan fjárann sem ég missi af og/eða finnst ómerkilegt. Kannski vantar bara eitthvað í mig. Kannski er ég hreinlega ólæs á sýninguna eða óviljugur til þess að lesa hreyfingar hennar og tækni – t.d. að ljósmyndirnar á veggjunum séu negatífar eða að ljósmyndirnar séu ekki í krónólógískri röð – sem þrungnar merkingu, hvort sem það er af heimsku, menntunarleysi, fáfræði eða hroka. Nema sýningin sé bara í alvöru svona letileg og þá gerir ritgerðafjöldinn í kringum hana illt verra – blæs ekki í hana lífi heldur fyllir hana af heitu lofti og innantómum loforðum. 

   [ + ]

1. Á ensku er titillinn Anarchy of photography en á íslensku Anarkismi ljósmynda – þetta er auðvitað algerlega sitthvor hugmyndin, enda anarkismi ekki það sama og anarkí.
2. Þótt honum verði reyndar á að kalla Unnar Örn „Unnar Arnar“ – í eignarfallinu. Því erum við sem berum þetta nafn að vísu vanir.