Sú minningabók sem hér er til umfjöllunar spannar tímabilið 1979 til ársins 2017. Tekur hún við af hinni fyrri, Týnd í Paradís, frá árinu 2015. Sú hverfist um fyrstu æviár höfundarins Mikaels Torfasonar sem fæddist árið 1974. Hefir höfundur og sögumaður verkanna kunngjört að úr verði þríleikur. Má eiga von á einu bindi til.
I
Týnd í paradís fjallar að stærstum hluta til um líf foreldra Mikaels, Torfa Geirmundssonar og Huldu Fríðu Berndsen, hvernig til kom að þeir gerðust meðlimir Votta Jehóva. Ennfremur er greint frá lífi þeirra áður en þeir gengu söfnuðinum á hönd. Líf sem var ekkert sældarlíf og einkenndist af fjárhagslegu basli, alkóhólisma aðstandenda og geðveilu. Sagan hverfur jafnframt aftur í tímann og rekur sögu ættmenna foreldranna og þar af leiðandi ættmenna sögumanns. Alþýðufólk. Höfundur sjálfur hefir sagt að verkið sé saga alþýðufólks.
Verkið tekst á við tíðaranda áttunda áratugarins. Tíðaranda sem ólíkur var þeim sem við eigum að venjast. Margt er nú telst eðlilegt að ræða á opinberum vettvangi lá þá í þagnargildi. Staða konunnar var önnur. Almennt var staður konunnar í eldhúsinu. Eldhúsið má sjá sem táknmynd þess að konunni beri að þjónusta mann sinn og fjölskyldu. Slíkt viðhorf getur tengst Biblíunni. Í „Fyrstu Mósebók“ (2:22-24; 3:20) er til að mynda greint frá að Eva sé sköpuð fyrir Adam og úr rifi hans. Biblían er og oft notuð til að styðja þá lífsskoðun að konunni beri að vera karlmanninum undirgefin, að hún hafi rétta hnakkasvipinn, svo vísað sé til rithöfundarins Svövu Jakobsdóttur.
Afstaða og umræða gagnvart vímugjöfum, ofbeldi og fátækt var önnur þá. Eins og kunnugt er hefir opnast fyrir umræðu sem áður þótti ekki eiga erindi í þjóðfélagslega umræðu. Nú er slík bannhelgi ósjaldan brotin með reynslusögum fólks. Reynslusögum sem óhikað eru birtar í fjölmiðlunum. Alþýða nútímans tjáir sig opinskátt og af hispursleysi um hvers konar ofbeldi. Fíkn af margvíslegu tagi ratar og títt í fjölmiðlana. Ber þar að nefna sjúklega löngun í áfengi, eiturlyf, klám, mat og kynlíf. Þeir sem glíma við geðveiki fara heldur ekki með veggjum né þeir sem líða skort sakir fátæktar. Í samhengi þess síðastnefnda er rétt að minnast á útvarpsþættina Fátækt fólk sem Mikael hafði veg og vanda af. Líkast til vísar nafngiftin til samnefndrar bókar Tryggva Emilssonar frá árinu 1976.
Týnd í paradís sver sig í ætt við umræðuna. Syndafallið gerir það líka. Umræðan er opinská og játningaglöð. Játningaflóra. Verkin eru bermælt og taka mið af kalli tímans, að skila skömminni þar sem hún á heima, að engin skömm sé að því sem komið hefir fyrir. Ekki sé við viðkomandi að sakast, hann þurfi ekki að rogast með vanæru.
Eins og gefur að skilja stólar Mikael ekki á eigið minni þegar kemur að fyrra verkinu. Fæstir geta framkallað minningar frá fyrstu árum ævi sinnar. Slitrur kannski en ekki þannig að úr verði heilleg frásögn. Við samningu verksins naut hann reynslu sinnar sem blaðamaður. Hann stundaði rannsóknarvinnu og tók viðtöl við fólk sem kemur fyrir í verkinu. Einkum og sér í lagi foreldra sína. Syndafallið er unnið á viðlíka hátt. Þar er þó stærri hlutur byggður á minni og minningum höfundar.
Verkið er, líkt og fyrirrennarinn, vel uppsett. Skýrt og skilmerkilegt. Sextíu og fimm kaflar, með lýsandi kaflaheitum, á 254 síðum sem gera hvern kafla að meðaltali þrjár koma níu síður. Línubil tvöfalt, letur stórt. Textinn hliðskipaður, stuttar setningar og málsgreinar. Hnitmiðaður. Sögunni er miðlað á einfaldan hátt. Orðfæri jarðbundið, alþýðlegt. Mikael sjálfur er sögumaður. Þar af leiðandi er sögunni miðlað í fyrstu persónu. Að mestu leyti. Flakkað er fram og aftur í tíma og á tíðum er stuðst er við þriðju persónu frásögn þegar atburðum sem sögumaður upplifði ekki er lýst. Þar hefði verið hægt að beita viðtengingarhætti. Skortur á viðtengingarhætti er þó ekki til vansa. Sömuleiðis er á tíðum notast við skírnarnöfn foreldranna. Við það, svo og notkun þriðju persónu skapast fjarlægð á atburði sem standa sögumanni nærri.
Textinn hefir sumpart á sér yfirbragð blaðagreina, sem miðast einkum við að koma frásögn, upplýsingum, hugleiðingum til skila á greinagóðan hátt. Sagan er sögð í þátíð en af og til er söguleg nútíð notuð til áhrifaauka. Rithöfundurinn Mikael Torfason á einnig sína spretti. Skáldlegu spretti. Þeim finnst víða staður.
Þessi maður [Torfi faðir Mikaels] var kletturinn minn og þess vegna tók ég kannski upp á því að faðma eikartré. Það voru engir klettar hjá gistiheimilinu til að taka utan um en það var nóg af stórum trjám. Mér leið eins og ég héldi utan um pabba þegar ég faðmaði trjábolinn. Hann var alltaf svona hrjúfur og grófur þegar ég var að alast upp já honum; erfiður til faðmlags, eins og stórt eikartré. maður náði aldrei almennilega utan um pabba.
(bls. 136)
Útkoman er læsilegt verk.
Mikael Torfason hefir auk blaðamennsku getið sér nafn sem skáldsagnahöfundur. Liggja eftir hann fimm slíkar: Falskur fugl (1997), sem hefir verið kvikmynduð, Saga af stúlku (1998), Heimsins heimskasti pabbi (2000), Samúel (2002), fyrir hana var hann tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna, Vormenn Íslands (2009). Hann hefir einnig skrifað leikrit og staðið að útvarpsþáttum. Gerði hann jafnframt kvikmyndina Gemsar.
II
Aðalpersónur Syndafallsins eru þrjár. Foreldrarnir Torfi Geirmundsson hársnyrtir og Hulda Fríða Berndsen húsmóðir svo og sonurinn Mikael Torfason. Eins og gefur að skilja spila systkini Mikaels, Ingvi, Lilja, Bashir og Tryggvi, einnig rullu í verkinu. Þau, ásamt öðrum persónum, eru þó í aukahlutverkum. Torfi er fyrirferðarmestur þótt Mikael hafi ekki haft í hyggju að láta föður sinn vera rúmfrekan í sögunni.
Einhvern tíma verð ég að skrifa bók um það nákvæmlega hver þessi maður var; Torfi Geirmundsson. Nema ég sé að skrifa þá bók núna. Ég hef verið að skrifa þessa sögu mína í svo mörg ár og var í miðjum klíðum að skrifa bók um okkur mömmu þegar pabbi kom gulur heim frá Taílandi og ruddist inn á síðurnar og tók yfir söguna.
(bls. 133-134)
Torfi Geirmundsson breytir sem sagt gangi sögunnar með því að veikjast, verða fyrir lifrarbilun. Lifrarbilun sem rakin er til óhóflegrar áfengisneyslu. Hún dró hann til dauða 13. maí síðasta árs.
Við [Ingvi bróðir sögumanns] stóðum hvor sínum megin við pabba þegar hann gafst upp á því að anda. Ég hélt um hönd hans og þreifaði á brjóstinu á honum og kyssti hann á ennið. Hann barðist ekki um heldur dró bara andann í hinsta sinn og svo slokknaði á honum.
(bls.253)
Frásögnin hefst 1982. Þremur árum eftir að „við vorum rekin úr Vottunum. Pabbi var gerður brottrækur fyrir hórdóm og mamma á endanum líka. […] [N]ú var syndafallið hafið. Fjölskyldan hafði átt í vændum eilíft líf í aldingarðinum […] En það mátti ekki syndga í paradís Vottanna og því enduðum við eins og Adam og Eva.“ (bls. 14) Hér er vísað til Fyrstu Mósebókar og Rómverjabréfs (5:12) Nýja testamentisins er Adam og Eva tapa fullkomleikanum og er vikið úr Eden.
Í þvi samhengi er viðeigandi að benda á þetta:
Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
(Fyrsta Mósebók 3:7)
Með erfiði skalt þú þig af henni [jörðinni] næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlits þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ertu og til moldar skalt þú aftur hverfa.
(Fyrsta Mósebók 3:17-20)
Eins og nafnið bendir til er nokkuð um vísanir í Biblíuna fyrir utan hina augljósu. Ef draga á saman innihald bókarinnar í stuttu máli fanga þessar tilvitnanir verkið ágætlega: Synd, erfiði, dauði.
Brottvikningin úr Vottunum kemur í kjölfar skilnaðar þeirra hjóna. Það er þó ekki Eva -Hulda Fríða- sem veldur syndafallinu eins og í Biblíunni heldur Adam -Torfi. Eftir skilnaðinn má segja að
Vindlingar og viskí og villtar meyjar
gera mann óðan á örskammri stund.(Höfundur óþekktur. Tekið af Megasukk-plötunni Hús datt (2005))
verði einkunnarorð Torfa (hér er fært í stílinn). Einir öfgar taka við af öðrum. Hann kemst í álnir, drekkur mikið áfengi, skemmtir sér. „Honum gekk allt í haginn. Torfi níunda áratugarins átti nóg af peningum og ferðaðist eins og hann lysti.“ (bls. 187) Hann kvænist á ný, er konunni ekki trúr. Hann var Huldu Fríðu ekki heldur trúr. Hélt framhjá henni með systur hennar. Torfi verður hluti af þotuliði þess tíma, ratar í fjölmiðla fyrir nýjungar í háriðnaðinum. Hann vekur athygli og er hluti af þeim sem bera með sér breytingar í íslensku samfélagi. Samfélagi þar sem ekkert sjónvarp er á fimmtudögum og til tíðinda telst að maður bjóði upp á hártoppa. „Árið 1980 var Ísland svo lokað að það þótti eiginlega hálfgerð fífldirfska að horfa til útlanda eftir ráðgjöf, eins og pabbi gerði í hártoppaviðskiptum sínum.“ (bls. 98) Torfi setur einnig á laggirnar fyrstu unisex-hársnyrtistofuna á Íslandi. „Þá þótti það [unisex-stofan] ótrúleg nýjung og merki um framsýni að þjónusta bæði kyn, konur og karla og bara alla, börn og gamalmenni jafnvel.“ (bls. 97) Þetta var á þeim tíma sem „Ringo Starr heimsótti Atlavík. Við erum tiltölulega nýhætt að tala um þann viðburð Íslendingar því hér gerðist lengi vel svo fátt.“ (bls. 237) Ringo heimsótti Ísland 1984. Torfi kvænist í þriðja sinn, er þeirri konu ekki heldur trúr. „Hann hafði eignast barn í framhjáhaldi […] [er um son hans Bashir sem hann eignaðist í Englandi að ræða] og gat ekki hætt að halda framhjá.“ (bls. 167) Hann er ekki við eina fjölina feldur í kvennamálum. Halla tekur undan fæti, hann drekkur meir og meir. Hann og Mikael drekka saman. Mikael fer í meðferð. „Stundum líður mér eins og það hafi verið allt aðrir feðgar sem rifust blindfullir um það hvort hinn ætti að hætta að drekka eða ekki.“ (bls. 143) Torfi endar í gluggalausum kjallara undir hárgreiðslustofu sinni á Hverfisgötu, drekkur líter af vodka á dag og dettur svo í það um helgar.
Hann [Torfi] hafði alltaf verið þjakaður af þessum þremur alvarlegustu fíknisjúkdómum mannkyns: Trúarbrögðum, kynlífi og brennivíni […] Og þegar upp var staðið valdi pabbi brennivínið fram yfir konur og kristindóminn. Honum var á endanum sama um allt annað. Enda er fíknin í alkóhól miklu sterkari en guð og ástin og við. Fólkið hans.
(bls. 91)
Fer hann í meðferð. Er allsgáður um hríð. Dettur í það aftur. Fær lifrarbilun. Veikist alvarlega, verður ósjálfbjarga. „Pabbi vaknaði ekki fyrr en hann var búinn að gera svo mikið í bleyjuna að hann neyddist til að hringja á sjúkraliða sem kom og hjálpaði mér að þrífa hann.“ (bls. 219) Er á spítala í Svíþjóð upp á að fá nýja lifur. Kannski. Fær ekki lifur af því hann hafði ekki verið algáður í sex mánuði. Deyr úr lifrarbilun.
„Hann var breyskur og óútreiknanlegur“ (bls. 184) er sú mynd sem dregin er upp af Torfa. Einnig mynd af manni með þetta viðhorf: „Hann hristi höfuðið og beit á jaxlinn. Hann flúði aldrei af hólmi, hann pabbi. Það var sama hversu mikil fyllibytta hann var, alltaf var hann til staðar.“ (bls. 227) og Mikael sjálfur segir: „Já, ég held ég trúi því að pabbi hafi aldrei séð eftir neinu.“ (bls. 231) Leitast er við að miðla andstæðum, þversögnum sem kristallast í ljósmynd af Torfa sem fjallað er um á bls. 132:
með tvær konur upp á arminn. Þetta er allt annar Torfi en við viljum minnast. Þetta er ekki þessi góði afi Torfi, pabbi minn sem ég sakna á hverjum degi. Pabbi sem var besti vinur minn og sá um mig öll bernskuárin. Nei, á þessari tilteknu ljósmynd er afi barnanna minna ekki sjáanlegur. Þessi Torfi er eldrauður í framan og drykkjuþrútinn. Hann er kominn með bjúg í andlitið og fingurnir eru tvöfaldir.
Flest líf, flestar bækur geta verið fljótafgreiddar í lýsingum. Þetta er í grunninn hluti Torfa í verkinu þótt fleira hangi á spýtunni og að komið sé inn á fleiri þætti.
Pabbi er miklu dýpri og margslungnari persónuleiki en karakter í bók eða sjónvarpsþætti. Í skáldskap þarf að vera lógík fyrir því sem persónan gerir eða segir. Reynsla mín af lífinu hefur hins vegar sýnt mér að við erum flest margföld þversögn og ýmislegt sem við gerum og segjum er ekki í neinu rökréttu samhengi við nokkuð annað í lífi okkar.
(bls. 117)
Líf Huldu Fríðu breytist einnig við skilnaðinn. Gengur textaleg nálgun og út frá falli hvað hana áhrærir. „Fyrsti smókurinn lagðist ljúft ofan í lungun og reykurinn stóð úr henni eins og spjót. Nú var hún fallin kona.“ (bls. 52) Torfi „hafði verið hennar alfa og ómega í Vottunum. Hún var góð húsmóðir, hlýðin eiginkona. Passaði að gera ekkert til að styggja mann sinn og öldungana í söfnuðinum.“ (bls. 18) Eftir skilnaðinn verður hún einstæð móðir sem málar „rauða eldingu framan í sig inni á litlu baðherbergi í blokk í Breiðholti“ og gerir sig líklega til að fara á skemmtistaðinn Hollywood. Líf hennar sveiflast frá Jesú og hlýðinni húsmóðir til pönks, diskós og sígarettna. Hún verður og ein af þeim mæðrum sem uppgötva við skilnað að tilveran getur verið flókin. Hún hafði verið í vernduðu umhverfi manns síns og Vottanna, ekki þurft að hugsa fyrir sig eða taka ákvarðanir.
Hún var tuttugu og átta ára gömul en ósjálfstæðari en flestar konur af hennar kynslóð. Vottarnir líta á konur svona svolítið eins og konurnar í Handmaid’s Tale eftir Margaret Atwood. Þær eru til undaneldis og eiga að sjá um börnin. Það hlutverk fór mömmu vel þegar hún var vottur. Þegar þau pabbi skildu átti hún ekki einu sinni tékkareikning af því að pabbi skammtaði henni peninga eftir þörfum.
(bls. 37-38)
Upp úr 1980 þótti erfitt að vera einstæð móðir í Breiðholti. En þær voru margar og fundu huggun í fjöldanum. Skilnaðartíðni margfaldaðist á þessum árum og samfélagið tók miklum breytingum. Ungar konur völdu frekar að vera blankar einstæðar mæður en að lifa í ómögulegu hjónabandi.
(bls. 69-70)
Eitt af þremur börnum Huldu Fríðu og Torfa dvelur hjá henni að staðaldri. Lilja. Mikael og Ingvi koma til hennar á helgum.
Í kjölfar skilnaðarins/syndafallsins ber á andlegum kvillum í fari Fríðu Huldu. „Mamma veiktist fyrst alvarlega þegar pabbi fór frá henni á annan í jólum 1978.“(bls. 50) Reynir hún til að mynda að sálga sér. Síðar kemur í ljós að Hulda Fríða er geðveik. Hún fær greiningu árið 2014.
(bls. 69)
Stundum upplifir hún [Hulda Fríða] allan geðhvarfaskalann í einu. Ofsakvíða, djúpt þunglyndi og brjálaða gleði. Dagur með mömmu er eins og dagur í íslenskri náttúru þegar allra veðra er von […] Þannig er veðráttan á Íslandi og það er þetta veður sem geisar í höfðinu á mömmu á hverju einasta degi.
(bls. 70)
Líf Huldu Fríðu tekur skref niður á við. Hún missir fjárhagslegt öryggi, geðheilsuna og það öryggi sem felst í þeirri vissu að trúa á æðri mátt. Hún er jafnframt á því að útliti hraki. Hún finnur til vanmáttar gagnvart Torfa sem áður hafði beðið eftir henni „eftirvæntingarfullur og glaður þegar þau voru í tilhugalífinu. […] Hulda Fríða, átján ára, leit út eins og fyrirsætan Twiggy […] ung og lífsglöð.“ (bls. 83) En nú lítur hún „ekki lengur út eins og fyrirsætan Twiggy. Hún var hálfgert flak, fátæk verkakona úr Breiðholti. Henni fannst hún einskins virði, ómenntuð og heimsk. Torfi var hins vegar bæði gáfaður og fallegur.“ (bls. 84)
Það breytist einnig. Hún kýs „Kvennalistann. Þá var hún femínisti og merkt kona, fannst henni. Hún var búin að gefa okkur Ingva frá sér og var staðráðin í að verða ein af þessum sjálfstæðu og ákveðnu konum sem hún las um í blöðunum. Þess vegna kaus hún kvennalistann.“ (bls 127) Hún finnur sér nýjan mann. Sér yngri mann. Villa. „Okkur fannst ómögulegt að vita af mömmu okkar með öðrum en pabba en sáum um leið ekkert athugavert við hvað sem pabbi gerði. Allt sem hann sagði var rétt og þannig hafa karlar viljað hafa það um aldir alda.“ (bls. 65)
Mamma hefur sagt mér að hún eigi þá ósk heitasta að það verði séð um hana. Það fylgdi því svo mikið óöryggi að alast upp á drykkjuheimili að stundum var stöðugur og góður maður það eina sem hún óskaði sér. Einhver sem myndi taka utan um hana og lofa henni að það yrði allt í lagi.
Ósk hennar rættist í Villa.
(bls. 104)
1986 tekur Hulda Fríða u-beygju í lífinu og gengur aftur í Vottana. Hún byrjar að trúa á ný að heimsendir sé á næsta leyti og konunni beri að vera manni sínum undirgefin. „Hún hefði glöð gefið Jehóva líf sitt þar sem veröldin var hvort sem er á vonarvöl“ (bls 126.) hún „sjálf diskópönkdrottningin úr Breiðholtinu […] beið nú óþolinmóð eftir Harmageddon (bls. 28)
Sögumaður missir tengslin við móður sína og „þau pabbi hefðu allt eins getað búið hvort á sinni plánetunni, svo ólíkar voru aðstæður þeirra. Pabbi var nýríkur atvinnurekandi en þau mamma og Villi ráku ósköp venjulegt íslenskt alþýðuheimili í Breiðholti.“(bls. 123)
Fríða Hulda breytir aftur um stefnu og segir skilið við Vottana og nær að koma einhvers konar jafnvægi á líf sitt. Mikael og Hulda finna aftur tengslin.
Þarna mitt á milli er Mikael Torfason. Sögumaður og sögupersóna, afsprengi hins nýja og gamla. Hann og þeir af hans kynslóð fæðast inn í samfélag sem tekur hröðum breytingum. Í æsku hans var eðlilegt að börn væru send í sveit á sumrin. Til að vinna. Það tekur við af Drottni. „Allt í einu áttum við bræðurnir ekki lengur að verða hermenn Drottins heldur sannir íslenskir karlmenn.“ (bls . 97) Mikael var tíu sumur í sveit á sex mismunandi bæjum. Íslenskt vinnusiðferði, íslenskir karlar í krappinu. Viðhorf sem tengist auk þess áfenginu og er gegnumgangandi umfjöllunarefni í verkinu. Beint og óbeint.
Syndafallið er aukinheldur saga hans, ekki síður en foreldra hans. Í honum kristallast sömuleiðis samfélagsbreytingar. Sagan er jafnframt saga rithöfundar. Endurspeglar umfjöllunarefni Mikaels í gegnum tíðina. Allavega sumpart.
En staðreyndin er sú að maður er foreldrar sínir 50/50. Ég er þau til helminga með kostum þeirra og göllum. Ég er ekki þau bæði, alveg öll plús hvort þeirra um sig. Nei, ég er helmingur af þeim báðum. Tilviljunarkenndur kokteill soðinn saman með getnaði sem átti sér stað níu mánuðum áður en ég fæddist og þau voru enn gift og í Vottunum. Það er svo langt síðan að hrært var í þennan undarlega kokteil, Mikael Torfason. Og auðvitað er ég meira en bara þau 50/50. Ég komst ekki til manns í einhverju tómarúmi. Ég ólst upp hjá þeim til skiptis, aðallega hjá pabba, hérna í Reykjavík og ég er mótaður af umhverfi mínu eins og aðrir.
(bls. 205)
Eina viðurkenningin sem ungur rithöfundur leitar eftir er að hann sé eins og aðrir. En svo kemst maður smátt og smátt að því að það sem gerir mann að rithöfundi er þessi einstaki genakokteill. 50/50 mamma og pabbi. Plús lífsreynslan sem gerir þig allt öðruvísi en alla aðra.
(bls. 206)
Ég er rithöfundur og mínar hugmyndir enda oftar en ekki í bók eða leikriti. Ætli það sé ekki munurinn á okkur pabba. Ég vakna ekki upp í sértrúarsöfnuði eða á Landspítala með skorpulifur. Ég skrifa frekar bók um það.
(bls. 94)
Eins og í mörgum minningabókum er hér einnig tekist á við minningaglímuna. Minningar og raunveruleiki kunna að stangast á. Minningar fólks af sama atburði koma ekki heldur alltaf heim og saman. Mótsagnir.
Mér skilst að ég hafi verið lífsglaður og óvenju uppátækjasamur drengur þegar ég var átta ára. Raunar hef ég komist að því nú á síðustu árum. Ég stóð lengi í þeirri meiningu að ég hefði verið svo óhamingjusamur, þunglyndur og leiðinlegur. En fólk segir mér að ég hafi oft verið mjög skemmtilegur og sjarmerandi þegar ég var átta ára.
(bls. 12)
Tilfinningarnar eru ekki einu sinni raunverulegar. Kannski eru ekki til neinar staðreyndir, aðeins túlkanir, svo ég snúi upp á kunna tilvitnun í heimspekinginn Nietzsche. Í hvert sinn sem maður rifjar upp eitthvað endurskrifar maður sögu sína. Þetta gerir maður aftur og aftur, ár eftir ár, áratug eftir áratug.
(bls. 107)
III
Ekki er hægt að leggja fjölskyldusögu Mikaels Torfasonar að jöfnu við líf hinnar dyggðum prýddu sjönvarpsfjölskyldu Ingalls sem fyrst rataði á sjónvarpsskjái árið sem Mikael Torfason fæddist. Téð sjónvarpsþáttaröð gekk undir engilsaxneska heitinu Little House on the Prairie en fékk íslensku nafngiftina Húsið á sléttunni. Naut þáttaröðin talsverðra vinsælda á Íslandi. Hún rataði þangað þegar engin sjónvarpsdagskrá var á fimmtudögum og einvörðungu ein sjónvarpstöð með lítið úrval af afþreyingarefni til að drepa tímann. Tíminn var miklu lengur að líða þá.
Hvað sem íslenskri sjónvarpssögu líður er klárt að fjölskylda Mikaels hefir sína djöfla að draga. Ekki er minnst á alla djöflana í þessari umfjöllun. Tóninn er sleginn í upphafi verks með þessari tilvitnun í Önnu Karenínu Tolstojs.
Hamingjusamar fjölskyldur eru allar eins en hver er óhamingjusöm fjölskylda er óhamingjusöm á sinn einstaka hátt.
Þetta er minningabók sem dregur enga dul að minni getur verið gloppótt og að persónur breytist með tíð og tíma. Minning um atburði og persónur kann einnig að vera breytingum undirorpið. Í þessu samhengi sver sagan sig til að mynda í ætt við minningabækur Sigurðar Pálssonar og gerir því skóna allar frásagnir, sannsögulegar eða diktaðar séu skáldskapur á einn eða annan hátt.
Margt er mótsagnakennt í verkinu sem er viðeigandi enda lagt upp með að mannskepnan hagi sér ekki á rökrænan hátt og að slík frásögn endurspegli lífið betur en skáldsaga sem leitast við að láta sögupersónur haga sér í rökréttu samhengi við það sem á undan er gengið.
Í Torfa og Huldu Fríðu og lýsingum Mikaels á þeim og sjálfum sér endurspeglast tíðarandinn. Bæði sá sem var svo og sá sem við lifum nú. Verkið er því öðrum þræði um samfélagsbreytingar og augljóslega um áfengissýki og geðveiki. Verkið tekur á viðhorfum gagnvart þessum sjúkdómum og gengið er út frá því að ekki sé hægt að hafa stjórn á þeim. Í verkinu er glímt við spurningar eins og hvað sé geðveiki og hvað sé persónuleiki og viðhorf samfélagsins sem kann að sveiflast. „Suma daga er alkóhólismi krónískur heilasjúkdómur en aðra er það bara aumingjaskapur að geta ekki stjórnað drykkjunni.“ (bls. 250)
Svo er þetta auðvitað saga um heimssýn, stefnufestu eða skort á henni, fyllirí, öfga, trúarbrögð, ættarböl og (kannski ekki síst) um týpískt fullorðið barn alkóhólista og geðveikrar mömmu.
Bókin hefði mátt við betri prófarkalestri – og má nefna að ljóðabók Valdimars Tómassonar, sem getið er, heitir ekki Dvalið við dauðans dyr heldur Dvalið við dauðalindir .