Það sem þarf til þess að bókabransinn lifi er að einhverjir lesi bækur. Á þessum hraðskreiðu tímum netheima, samfélagsmiðla og tækniframfara þarf til þess grípandi bækur sem halda lesendum við efnið. Það er kannski þess vegna sem glæpasögur tröllríða öllu um þessar mundir. Glæpasögur, að minnsta kosti ef eitthvað er varið í þær, grípa lesandann, halda honum föngnum og sleppa honum ekki fyrr en að lestri loknum. Fagurbókmenntir eiga gjarnan erfiðara með að fanga lesandann, sérstaklega þær sem eru listrænar, hafa óvenjulegan stíl eða reynast torskiljanlegar.
Þrátt fyrir að teljast til fagurbókmennta sleppir nýasta bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Saga Ástu, ekki tökunum af lesandanum fyrr en að lestri loknum. Það er afrek út af fyrir sig vegna þess að bókin er afar ruglingsleg á köflum og krefst af þeim sökum mikils af lesandanum. Efniviður sögunnar er áhugaverður og krassandi, hann kveikir forvitni með því að lýsa lífi fólks sem er dramatískara en hversdagsleg tilvera hins almenna borgara. Saga Ástu er frásögn af brotinni fjölskyldu sem svipar til þeirra umfjallana sem birtast reglulega í helgardagblöðum. Sagan vekur forvitni lesandans, eins og blaðagreinarnar, vegna þess að flest öll þráum við að vita hvað gerist bak við luktar dyr. Hér birtist þessi fjölskyldusaga, Saga Ástu, þó ekki til dægrastyttingar yfir morgunkaffinu heldur í skáldsögu þar sem textinn flæðir áfram, tekst á flug og grípur lesandann með sér. Ein persóna bókarinnar kemst svo að orði eftir að hafa heyrt frásögnina af fjölskyldu Ástu: „Að hugsa sér, öll þau örlög sem maður veit ekkert um, sögur sem maður þekkir ekki, og fær kannski aldrei að heyra. Mér líður eins og heimurinn hafi stækkað“ (bls. 395). Þetta er einmitt það sem bókmenntir eiga að gera, stækka heiminn. Þær eiga að gera manni kleift að upplifa tilfinningar, kynnast fólki og öðlast reynslu sem maður kæmist hvergi í tæri við annars.
Jón Kalman vefur saman ólíka þræði, sem vekja mismikinn áhuga hjá lesandanum, og saman mynda þeir heild sem segja má að sé órjúfanleg. Hvernig flakkað er á milli tímabila, sögusviða, stíls og frásagnarmáta getur orðið mjög ruglingslegt á köflum. Þetta einkenni verksins á þó þátt í að auka á upplifun lesandans af verkinu. Með þessu verður sagan að ráðgátu sem lesandinn tekur þátt í að leysa og þannig er athygli hans viðhaldið. Með því að veita aðeins vandlega valdar upplýsingar hverju sinni heldur Jón Kalman lesandanum á tánum. Höfundurinn neyðir lesandann til að fylgast með af athygli, velta upplýsingunum fyrir sér, lesa milli línanna, geta í eyðurnar og reyna eftir bestu getu að púsla saman þessari flóknu sögu Ástu.
Það er auðvitað ekki endilega allra að þurfa að vinna fyrir því að njóta bókar. Afþeyingarbókmenntir eru einmitt gerðar fyrir þá sem vilja bókmenntir í formi skyndibita og það er ekkert athugavert við það. Bókmenntir eiga að vera fjölbreyttar rétt eins og flóra mannfólks. Það er samt mikilvægt að fagurbókmenntir, sem gera tilraunir með mál, stíl og form, glati ekki þeim eiginleika að halda lesendum sínum föngnum. Þetta á sérstaklega við í samtímanum þar sem getan til að halda athygli er í bráðri útrýmingarhættu. Í Sögu Ástu sameinar Jón Kalman kosti afþreyingabókmennta á borð við spennu- og glæpasögur og fegurðina sjálfa sem þykir einkenna fagurbókmenntir. Höfundurinn segir frá harmrænum örlögum, lýsir tilfinningum sem nísta inn að beini, leikur sér með form og stíl, ásamt því að halda lesandanum við efnið allan tímann.