Ég er skáld myrkurs
og ég er skáld haturs
ræsið mitt afdrep
flaskan mitt skjól
Ráfa um mannlausar götur
leitandi svölunar
úr skrælnuðum uppsprettum
hvíldar
á hrjóstrugum klettum
Dæmdur til nauðungarvistar
í myrkustu afkimum sálarinnar
sjálfskipuð útlegð
orðin grimmasta afplánun
Með herkjum ég kreisti
úr kúpunnar kverkum
fáein eitruð orð
er seint munu fullnægja
ykkar forhertu heimtingu
en kveikja beiskan þorsta
og kitla ykkar haturstaugar
Ég er skáld auðnar
og er ég skáld eymdar
líkaminn seldur
andinn glataður
Gleypið mig í ykkur!
Sporðrennið þessum aumu orðum
eins og maðkurinn jörðina
og mölurinn rykið
Lepjið blóð mitt með skorpnum tungum!
Myljið bein mín með morknum jöxlum!
Meltið hold mitt með fúnum görnum!
Ég er skáld einskis
og ég er skáld neindar
mín þjáning er yðar brauð
Í Rauða skáldahúsinu bjóða ný-sjálf skálda upp á einkalestur — þó allra lötustu skáldin mæti bara sem þau sjálf. Friðrik Petersen er eitt þessara alter-egóa.