Móralíserandi markaðshyggja og dauði

Um leikritið Griðastað í Tjarnarbíó

Tjarnarbíó er í senn snobbað og auðmjúkt í framsetningu sinni gagnvart hinum óvönu leikhúsgestum. 1 Þar eru erindrekar hámenningarinnar hópaðir saman í hverju skúmaskoti. Skvaldrið er fágað og fjallar aðallega um bækur, mótíf og fleira háfleygt sem hinir óinnvígðu veigra sér að tjá sig um í miklum mæli. Undirritaður stendur því og hlerar.

Dyrnar eru opnaðar hvorki meira né minna en þremur mínútum í settan sýningartíma. Aðalleikari sýningarinnar, Jörundur Ragnarsson, þrammar um sviðið og muldrar lágt. Orð hans hverfa ofan í skvaldur hópsins sem fylkist inn í salinn á afar þjóðlegan hátt — í hinni íslensku þvögu.

Sýningin hefst á léttum nótum. Söguhetja býður áhorfendur velkomna eftir að hafa æft sig fyrir framan spegilinn fyrst. Það líður ekki á löngu þar til hláturrokum rignir yfir sviðið. Húmorinn er einbeittur og díalektískur. Gert er grín að mannlegu hátterni á hátt sem er fyndinn og umhugsunarverður. Tilfinningaleg upplifun húmorsins er samkennd. Hversdagslegir sjálfsálitabrestir og vanþóknun á eigin hugmyndum er uppistaða að flestu gríni sýningarinnar að einu gríðarlega dramatíseruðu atriði undanskildu — atriði sem fékk áhorfendaskarann í heild til að missa sig úr hlátri — þar sem örlög heimsins velta á notkun stærstu orsakar dauða hans (hlýnun jarðar). Eflaust væri brandarinn ekki einu sinni svo fyndinn ef ekki væri búið að setja hann fullkomlega upp með einni af fjöldamörgum dramatískum einræðum söguhetjunnar um heiminn og sinnuleysi okkar allra, allra sem ekki gera eins og hann.

Söguhetjan er nefnilega hetja. Byrðar heimsins hvíla á öxlum hans, ábyrgðin sem fylgir er sú að leiðrétta þá villu vegar sem mannkyn hefur farið. Nú hefur undirritaður hins vegar tekið of stórt upp í sig. Því með réttu er þetta þema sýningarinnar það sem fylgir atburðarásinni en algjört aukaatriði atburðarásarinnar sjálfrar. Talið um „svansmerktar vörur“, „polypropylene glycol“ og gagnrýni söguhetju á kínverjana sem úða á sig svitalyktareyði er allt unnið í þágu höfundar — sem greinilega er mikið niðri fyrir þegar málefni heimsins og hnatthlýnunar eru til umræðu.

Sagan fjallar annars, jöfnum höndum, um missi og höfnun. Hún fikrar sig örlítið inn á hættusvæði þess að hafna missi en heldur sig ekki of lengi þar. Söguhetjan dýrkar Ikea, sýningargestum er gert það ljóst í upphafi. Ef þeir átta sig ekki á því með því að stara á sviðsmyndina, sem er mótuð af billy bókahillum og fleiri Ikea vörum sem nefndar voru en undirritaður man ekki hvað heita, þá segir aðalpersónan það beint út á fyrstu mínútunum:

„Ikea er minn griðastaður“

Það er veigamikið atriði að fólk viti að Ikea sé hans griðastaður. Á einhverjum tímapunkti er því líkt við að fara í kirkju, trúarlegir undirtónar gera setninguna þess eðlis að sögupersónan verður viðkunnanlegri, á báða bóga. Trúlausir geta notað setninguna í rifrildum við trúaða vini sína og hinir trúuðu geta skilið það að eiga sér griðastað. Erfitt er að ráða því hvera viðbrögðin eru þegar gengið er inn einhversstaðar og því óþægilegt þegar slíkt er gagnrýnt. Fyrir fjöldamarga sem hlutu trúarlegt uppeldi er það afar róandi að ganga inn í kirkju eða mosku. Holdgervingur trúarinnar hlýtur tilfinningalegt gildi trúarinnar.(Ekki að ætlunin sé á neinn hátt að hefja trúarlegar rökræður)

Sögupersónan fær slæmar fregnir á griðastað sínum. Það sem fylgir er afneitun tilfinninga, níhilismi og depurð. Griðastaðurinn heldur þó enn stöðu sinni. Söguhetjan leitar í það að vera þar, flýr tilfinningar sínar og reynir að skilja heim þar sem missir er óumflýjanlegur. Á einhverjum tímapunkti spyr hann sig „Til hvers?“ og þótti undirrituðum það áhugavert. Til hvers er spurning sem á hvergi við söguhetjuna. Til hvers er þróttleysisspurning en ekki sinnuleysisleg. Persónan, þessi hatrammi baráttumaður jarðarinnar veit svarið nú þegar. Spurningin undirstrikar það hve mjög missirinn fær á hann, þó hann geri lítið úr því þegar færi gefst til.

Undir lok sýningar grundvallast gegndarlaus stríðsrekstur söguhetjunnar á hendur mengunarvöldum í innblásinni einræðu. Hún stendur yfir nokkra stund, aðalpersónan stendur á miðju sviði og starir tryllingslega á áhorfendur meðan orðin bylja út úr honum. Stutta stund náum við augnsambandi og undirrituðum stóð ekki á sama. Ræðan kemur að lokapunkti sínum, eftir að hafa rætt í lengra máli um dauðann og dauðleikann, þar sem aðalpersónan slær um sig með þessum meitluðu orðum: „dauðleikinn er uppstilltur í Ikea“. Falleg setning, eflaust góð fyrir sölutölur Ikea. Undirrituðum þótti henni temmilega ofaukið. Dauðleikinn sem slíkur er klisja, að hann sé markaðssettur er að sama skapi klisja og gríðarleg móðgun við mannkynið allt. Það er þó einn af afar fáum vanköntum sýningarinnar. Hún hefur mikið að segja, afþreyingargildið er einnig mjög gott og svo ekki sé talað um að það er hrein unun að hlusta á og sjá Jörund fara með orð höfundar. Það er því lítið mál að finna frið á sýningunni (rétt eins og sumir finna í Ikea).

   [ + ]

1. Sem ég vitaskuld tel mig vera, enda svo óvanur og ruddalegur leikhúsgestur að ég mæti iðulega í stuttermabol, gallabuxum og oftar en ekki órakaður.