Þýðing: Jóhann Helgi Heiðdal

Liljur vallarins og fugl himinsins (brot)

Formáli

Þetta litla rit (sem í ljósi aðstæðnanna sem það sprettur af, minnir mig á mitt fyrsta, eða öllu heldur hinu fyrra í mínu fyrsta: formálanum í Tvær uppbyggilegar ræður frá 1843, sem kom út beint á eftir Annaðhvort – Eða) vona ég að muni ná til „hins einstaka, sem ég með gleði og þakklæti kalla lesandann minn“: „sá sem varð til í leyni og liggur hulinn – lítið blóm í skjóli hins mikla skógs“. Að gefnu tilefni vonast ég til að minna hann á, eins og hann minnir mig á, formálann við Tvær uppbyggilegar ræður: „hér er hægri höndin rétt fram“ – annað en í ritunum sem titluð eru með dulnefni, en þau setja út og grípa með vinstri.

5.maí 1849

S.K.

Bæn

Faðir á himnum! Það sem í félagsskap með mönnum, ekki síst í fjöldanum, er erfitt að læra að skilja og, ef það lærist annars staðar, gleymist auðveldlega í félagsskap með mönnum, ekki síst í fjöldanum – hvað það er að vera manneskja, og hvert guðdómlegt skilyrði þess að vera manneskja er: að við þurfum að læra það, eða ef það er gleymt, þurfum við aftur að læra það af liljunni og fuglinum; að við þurfum að læra það, ef ekki einu sinni fyrir fullt og allt, þá lítið í einu og smátt og smátt; að í þetta skiptið þurfum við að læra af fuglinum og liljunni þögn, hlýðni og gleði!

Guðspjallið, á fimmtánda sunnudegi eftir Trinitatis

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búin sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.


„Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður“ – áhyggjulausir um morgundaginn. „Hyggið að grasi vallarins – sem í dag stendur.“

Gjörðu svo og lærðu:

III.

Gleði.

Hyggjum þá að liljunni og fuglinum, þessum glöðu lærimeisturum. „Þessum glöðu lærimeisturum“, já því þú veist að gleðin er tjáningarík; og þess vegna er enginn færari um að kenna gleði en sá sem sjálfur er glaður. Glaði kennarinn þarf í rauninni ekkert annað að gera en að vera sjálfur glaður, eða vera Gleðin; hversu mikið sem hann ómakar sig við að miðla gleði – þegar hann er sjálfur ekki glaður, þá er kennslunni ábótavant. Þannig er ekkert léttara að kenna en gleði – æ, maður þarf bara sjálfur að vera ætíð sannarlega glaður. En þetta „æ“, æ það gefur til kynna að það sé síðan ekkert svo auðvelt –  nefnilega ekki svo auðvelt að vera sjálfur alltaf glaður, því ekkert er vissara en að það sé auðvelt að kenna gleði þegar maður sjálfur er það. En þarna úti hjá liljunni og fuglinum, eða, þarna úti þar sem liljan og fuglinn kenna gleði, er ávallt gleði. Og aldrei lendir liljan og fuglinn þannig í vandræðum eins og mannlegir lærimeistara gera stundum, að hafa það sem hann kennir skrifað á pappír eða standandi í bókahillunni, á öðrum stað, ekki alltaf við höndina; nei, þar sem liljan og fuglinn kenna gleði, þar er alltaf gleði – hún er jú í liljunni og fuglinum. Hvílík gleði, þegar birtir af degi, og fuglinn vaknar snemma fyrir gleði dagsins; hvílík gleði, þó í öðrum tón sé, þegar fer að rökkva, og fuglinn flýtir sér heim í hreiðrið; og hvílík gleði á hinum langa sumardegi! Hvílík gleði þegar fuglinn – sem ekki einu sinni syngur glaður við vinnu sína, heldur hvers vinna er að syngja – byrjar glaður að syngja sinn söng; hvílík ný gleði, þegar nágranninn byrjar svo einnig, svo annar, og svo þegar kórinn tekur undir, hvílík gleði; og svo loks þegar það er líkt og hafsjór af tónum, sem láta skóg og dal, himinn og jörð bergmála, haf af tónum þar sem sá sem sló tóninn í upphafi, veltir nú um af gleði: hvílík gleði, hvílík gleði! Og þannig út allt líf fuglsins; út um allt og alltaf finnur hann eitthvað eða réttara sagt nóg til að gleðja sig yfir; hann sóar ekki einu einasta augnabliki, en hann myndi telja sérhvert augnablik þar sem hann var ekki glaður vera sóun. Hvílík gleði, þegar döggin fellur og endurnýjar liljuna, sem kólnar þá og leggur sig til hvílu; hvílík gleði, þegar liljan, eftir baðið, þurrkar sér í fyrstu sólargeislunum með bestu lyst; og hvílík gleði langa sumardaginn! Ó, hyggið að þeim; hyggið – liljunni, og hyggið – fuglinn; og sjá þau svo saman! Hvílík gleði, þegar fuglinn skýlir sér hjá liljunni, þar sem hann hefur sitt hreiður, og þar sem hann hefur það svo ólýsanlega notalegt, á meðan hann stríðir og blekkir liljuna til að láta tímann líða! Hvílík gleði, þegar fuglinn hátt á greininni, eða hærra uppi, hátt uppi frá himninum heldur áhyggjulaus auga með hreiðrinu, og með liljunni, sem brosandi beinir auga sínu upp á móti honum! Yndislega, hamingjusama tilvera, svo rík af gleði! Eða er gleðin kannski minni af því, skilið á ómerkilegan hátt, þá er lítið sem gerir þau svo glöð? Nei, þetta, þessi ómerkilegi skilningur, er bara misskilningur, æ, sorglegur og niðurdrepandi misskilningur; því einmitt það, að það er lítið sem gerir þau svo glöð, er sönnun þess að þau eru sjálf gleðin og gleðin sjálf. Er það ekki svo? Líkt og ef glaðst væri yfir einhverju sem væri ekki neitt, og samt væri ólýsanleg gleði, það myndi sýna hvað best að sá væri sjálfur glaður og gleðin sjálf – eins og liljan og fuglin eru það, glöðu lærimeistararnir í gleði, sem af því að þau eru skilyrðislaust glöð eru gleðin sjálf. Sá sem einungis er glaður að uppfylltum vissum skilyrðum er ekki gleðin sjálf, gleði hans er jú gleði skilyrðanna, og háð þeim. En sá sem er gleðin sjálf, hann er skilyrðislaust glaður, eins öfugt, sá sem er skilyrðislaust glaður er gleðin sjálf. Ó við mannverur uppfyllum skilyrðin til að verða glöð, miklir erfiðleikar og áhyggjur – jafnvel þótt við fengjum öll skilyrðin, yrðum við kannski ekki skilyrðislaust glöð eftir allt. Það getur þó ekki verið öðruvísi ekki satt, þið miklu lærimeistarar gleðinnar, því með hjálp, jafnvel við öll skilyrðin, er það jú ómögulegt að verða meira eða annað en skilyrt glaður; skilyrðin og sá skilyrti tilheyra jú hverju öðru. Nei, skilyrðislaust glaður verður einungis sá sem er gleðin sjálf, og aðeins með því að vera skilyrðislaust glaður, verður maður gleðin sjálf.

Þó gæti maður ekki í stuttu máli útskýrt að hvaða leyti gleðin er innihald þessarar kennslu liljunnar og fuglsins, eða hvert er innihaldið í þessari kennslu í gleði, gæti maður ekki stuttlega útskýrt hugsunaráherslurnar í þessari kennslu þeirra? Jú, það getur maður auðveldlega, því eins einföld í hugsun og liljan og fuglinn eru annars, þá eru þau víst ekki hugsunarlaus. Maður getur það því auðveldlega, og leyfum okkur ekki gleyma að þetta sjónarhorn er strax rífleg einföldun, að liljan og fuglinn eru sjálf það sem þau kenna, tjá sjálf það sem kennarinn kennir. Þetta er – ólíkt hinum hreina og fyrsta frumleika, að liljan og fuglinn hafa í strangasta skilningi frá fyrstu hendi það sem þau kenna – hinn áunna frumleika. Og þessi áunni frumleiki í liljunni og fuglinum, hann er jú aftur einfaldur, því hvort kennsla sé einföld veltur ekki svo mikið á hvort notað sé einfalt, hversdagsmál, eða háfleygt og lært, nei, hið einfalda er að kennarinn sjálfur er það sem hann kennir. Og þannig er það í tilfelli liljunnar og fuglsins. En kennsla þeirra í gleði, hvað líf þeirra tjáir, er í stuttu máli eftirfarandi: það er í dag, sem það er, já það er óendanleg áhersla á þessu er; það er í dag – og það eru engar, alls engar áhyggjur af morgundeginum eða öðrum dögum. Þetta er ekki kæruleysi af hálfu liljunnar og fuglsins, heldur gleði þagnarinnar og hlýðninnar. Því þegar þú þagnar með þeirri dýrðlegu þögn, sem finna má í náttúrunni, þá er morgundagurinn ekki til; og þegar þú hljómar eins og sköpunin hljómar, þá er morgundagurinn ekki til, sá vesælli dagur, sem er uppfinning kjaftamennskunnar og óhlýðninnar. En þegar sá morgundagur er ekki til vegna þagnarinnar og hlýðninnar, þá er í þögninni og hlýðninni dagurinn í dag sá sem er – og þá er gleðin eins og hún er hjá liljunni og fuglinum.

Hvað er gleði, eða það að vera glaður? Það er, í sannleika sagt, að vera til staðar fyrir sjálfan sig; en það að vera sannarlega til staðar fyrir sjálfan sig, það er þetta „í dag“, þetta að vera í dag, í sannleika að vera í dag. Og á sama hátt og það er sannara að þú sért í dag, á sama hátt sem þú ert meira þú sjálfur með því að vera nærverandi í dag, á sama hátt er morgundagurinn, dagur óhamingjunnar, ekki til fyrir þér. Gleðin er tími nærverunnar með allri áherslunni á tíma nærverunnar. Því er Guð áhyggjulaus, hann sem eilíft segir: í dag, hann sem er eilíft og óendanlega hann sjálfur í nærveru dagsins í dag. Og þess vegna er liljan og fuglinn geðin, af því að þau, í gegnum þögn og skilyrðislausa hlýðni, eru þau sjálf í nærveru dagsins í dag. 

„En“ segir þú „liljan og fuglin, þau geta það vissulega“. Svar: ekkert en ef þú skalt með – en lærðu af liljunni og fuglinum þannig að þú verðir þú sjálfur í nærveru dagsins í dag, þá verður þú einnig gleðin. En, sem sagt, ekkert en; því þetta er alvara, þú munt læra gleði af liljunni og fuglinum. Þú verður að verða þér sjálfum minna mikilvægur, svo þú, af því að liljan og fuglinn eru nú einföld, kannski til að upplifa að þú sért manneskja, verður hnyttinn og talandi um einn einstakan morgundag segir: liljan og fuglinn, þau geta þetta, þau sem hafa ekki einu sinni þennan morgundag til að plaga þau, „en manneskjan, sem hefur ekki einu sinni áhyggjur af morgundeginum, hvað hann á að borða, en einnig af gærdeginum, veltandi fyrir sér hvað hann borðaði – og borgaði ekki fyrir!“ Nei, engir brandarar sem trufla kennsluna á óþekkan hátt. En lærðu, byrjaðu þó í það minnsta að læra af liljunni og fuglinum. Því það getur getur ekki verið eitthvað sem einhver trúir í raun og veru, þetta með að það sem fuglinn og liljan gleðjast yfir, og hvað annað þvíumlíkt, að það sé ekkert til að gleðjast yfir! Þú varðst til, að þú sért til, að þú „í dag“ færð allt það nauðsynlega til að vera til; að þú varðst til, að þú varðst manneskja; að þú getur séð, hugsaðu þér, þú getur séð, að þú getur heyrt, að þú getur fundið lykt, að þú getur bragðað, að þú getur fundið fyrir; að sólin skín fyrir þig – og þín vegna þegar hún verður, sérðu mánann fara af stað og svo kviknar á stjörnunum; að það verður vetur, að öll náttúran setur á sig klæði, læst vera ókunnug – og til að þú njótir; að það verður vor; að fuglarnir koma í stórum flokk – og til að gleðja þig, brýst það græna fram, skógurinn vex þar til hann er orðinn fallegur – og til að gleðja þig; að það verður haust, að fuglinn flýgur á brott, ekki af því að það fór svo mikið fyrir honum, ó nei, svo að þú komir ekki til með að leiðast hann, að skógurinn geymir sitt fínasta þar til næst, það er, svo næsta skiptið muni gleðja þig: þetta á að vera ekkert til að gleðja sig yfir! Ó, ef ég þyrði að láta í mér heyra; en af lotningu fyrir liljunni og fuglinum þori ég því ekki, og vil þess vegna, í staðinn fyrir að segja að þetta sé ekkert til að gleðja sig yfir, í staðinn segja: ef þetta er ekki til að gleðjast yfir, þá er ekkert til að gleðjast yfir. Hugsaðu þér, að liljan og fuglinn eru gleðin, og samt hafa þau, skilið á þennan hátt, mun minna að gleðjast yfir en þú, þú sem einnig hefur liljuna og fuglinn að gleðjast yfir. Lærðu því af liljunni og lærðu af fuglinum, þar er lærimeistarinn: er til, er í dag, og er gleðin. Sérðu þig ekki glaðan yfir liljunni og fuglinum, þar er jú gleðin sjálf, sérðu þig ekki glaðan yfir þeim, svo þú verður viljugur til að læra af þeim: því það er sama með þig og kennarinn segir um barnið „skortur á getu er ekki um að ræða, þar fyrir utan er málið svo auðvelt að það getur ekki verið skotur á getu; það hlýtur að vera eitthvað annað, kannski bara tímabundið illa upplagður og því má ekki í byrjun taka alltof hart á einhverju sem þarf ekki endilega að vera skortur á vilja, hvað þá þrjóska.“

Þannig eru liljan og fuglinn lærimeistarar í gleði. Þó búa liljan og fuglinn einnig yfir sorg, eins og náttúran býr yfir sorg; sligar ekki öll sköpunin undan eyðingu, sem þröngvað var uppá hana? Það er allt undirlagt af þessari eyðingu! Stjarnan, sama hversu fast hún situr á himninum, já, sú sem situr fastast, flytur sig þó um set í fallinu, og það sem aldrei færði sig til, mun einhvern tímann færa sig til, þegar það hrynur í djúpið; og allur þessi heimur með öllu sem í honum er, hann mun umbreytast, eins og maður skiptir um klæði, verður settur af, fórnarlamb eyðingarinnar! Og liljan, þrátt fyrir að hún komist hjá þeirri meðferð að vera kastað í ofninn um leið, mun þó visna, eftir að hafa þjáðst af hinu og þessu. Og fuglinn, þrátt fyrir að hafa fengið að deyja úr elli, hann mun þó einnig deyja, vera skilinn frá ástinni, eftir að hafa þjáðst af hinu og þessu. Ó, allt er eyðing, og verður á endanum að því einu, fórnarlambi eyðingarinnar. Eyðing, eyðing, maður andvarpar – því  að vera eyðingu undiropinn er að vera það sem andvarp merkir: innilokaður, bundinn, í fangelsi; og andvarpið samanstendur af: eyðingu, eyðingu!

En þó er liljan og fuglinn skilyrðislaust glöð; og hér sérðu skýrt, hversu satt það er, þegar Guðspjallið segir: þú skalt læra gleði af liljunni og fuglinum. Betri lærimeistara getur þú heldur ekki vonast eftir en sá sem þrátt fyrir að bera í brjósti óendanlega djúpa sorg, er þó skilyrðislaust glaður og gleðin sjálf.

Hvernig liljan og fuglinn bera sig hér að á þennan hátt, sem lítur næstum út eins og kraftaverk: í djúpustu sorg að vera skilyrðislaust glaður: þegar það er svo skelfilegur morgundagur, það að vera, það er að vera skilyrðislaust glaður í dag – hvernig bera þau sig að? Þau bera sig nokkuð einfaldlega að – það gera liljan og fuglinn ávalt – og sópa bara þessum morgundegi burt, líkt og hann væri ekki til. Orð sem kemur frá Páli postula hafa liljan og fuglinn gert að sínu, og eins einföld og þau eru, taka þau því ansi bókstaflega – æ, og einmitt það, að þau taka því bókstaflega, það er einmitt það sem hjálpar þeim. Það liggur ógnar kraftur í þessu orði, þegar það er tekið bókstaflega; þegar það er ekki bókstaflega tekið eftir bókstafnum, er það meira eða minna máttlaust, að síðustu einungis merkingarlaus talmáti; en það krefst skilyrðislaus einfaldleika að taka það skilyrðislaust bókstaflega. „Varpið allri sorg yðar á Guð“. Sjá, það gerir liljan og fuglinn skilyrðislaust. Með hjálp skilyrðislausu þagnarinnar og skilyrðislausu hlýðninnar varpa þau – já, eins og öflugasta varpmaskína varpar frá sér, og með ástríðu líkt og það sem kastað er er á sama tíma það sem mestu óbeit er haft á – allri sinni sorg frá sér; og varpa henni – með öryggi eins og færasta skotvopn býður uppá, og með trú og trausti sem aðeins færasta skytta öðlast – á Guð. Í sama núi –og þetta sama nú á sér frá fyrsta augnabliki, og í dag, stað á sama tíma og hið allra fyrsta augnablik – í sama núi eru þau skilyrðislaust glöð. Þvílík ótrúleg færni! Að geta tekið þannig alla sína sorg og þurfa aðeins einu sinni að kasta henni leikandi frá sér, og hitta markið svo öruggt! Þetta gerir liljan og fuglinn, og því eru þau í sama núi skilyrðislaust glöð. Og það er jú samkvæmt skipaninni; því Guð almáttugur ber allan heiminn og alla sorg heimsins – sorg liljunnar og fuglsins einnig – án nokkra erfiðleika. Hvílík ólýsanleg gleði! Gleðin yfir einmitt Guð almáttugum.

Lærðu því af liljunni og fuglinum, lærðu færni hins skilyrðislausa. Sannarlega er það ótrúlegt listaverk; en einmitt þess vegna skaltu gefa liljunni og fuglinum meiri gaum. Þetta er ótrúlegt listaverk, og, eins og „listaverk hógværðarinnar“, inniheldur það mótsögn, eða að það er listaverk sem leysir mótsögn. Þetta orð að „varpa“ leiðir hugann að notkun á krafti, eins og maður ætti að nota alla sína krafta, með óhemju kröftugu átaki – með valdi „varpa“ sorginni frá sér; og þó, þó er „vald“ einmitt það sem ekki skal nota. Það sem nota skal, og skilyrðislaust, er „eftirlátssemi“; og þó á maður að „varpa“ sorginni frá sér! Og varpað skal „allri“ sorginni frá sér; ef ekki er varpað allri sorginni frá sér, þá er jú mikið af henni haldið eftir, og þjáningin sem af henni stafar leiðir ekki til gleði, hvað þá skilyrðislausrar gleði. Og ef henni er ekki varpað skilyrðislaust á Guð, heldur eitthvað annað, þá verður maður ekki skilyrðislaust laus við hana, hún birtist á einn eða annan hátt aftur, oftast í formi enn stærri og bitrari sorg. Því að varpa sorginni frá sér – en ekki á Guð, það er „afþreying“. En afþreying er vafasamt og tvísýnt ráð gegn sorg. Hins vegar er það að varpa allra sorg – á Guð, er „samkoma“, og þó – já, undarlegt er þetta listaverk mótsagnarinnar! – samkoma þar sem skilyrðislaust er losað sig við alla sorgina.

Lærðu því af liljunni og fuglinum. Varpaðu allri þinn sorg á Guð! En gleðinni skaltu ekki varpa í burt, þvert á móti, hana skaltu ríghalda í af öllum lífs og sálarkröftum. Gerirðu það er auðvelt að reikna út að þú átt alltaf til staðar einhverja gleði; því ef þú varpar allri sorginni burt, áttu þá gleði sem stendur eftir. Þetta mun þó aðeins slá á þjáninguna. Lærðu því meira af liljunni og fuglinum. Varpaðu allri þinni sorg á Guð, alveg skilyrðislaust, eins og liljan og fuglinn gera það: þá verður þú skilyrðislaust glaður eins og liljan og fuglinn. Það er einmitt sú skilyrðislausa gleði: að tilbiðja almættið, hvers Guð ber alla þína sorg eins og hún væri ekki neitt. Og það næsta er einnig skilyrðislausa gleðin (það sem postulinn bætir við): í tilbeiðslu að þora að trúa „að Guði sé annt um þig“. Skilyrðislausa gleðin er einmitt gleðin yfir Guði, yfir hverjum og í hverjum þú getur ávallt glaðst yfir skilyrðislaust. Verður þú ekki skilyrðislaust glaður í þessu sambandi, liggur vandinn skilyrðislaust hjá þér, í vanfærni þinni í að varpa allri sorg þinni á hann, í skorti þínum á vilja, í sjálfumgleði þinni, í sjálfstæði þínu, þar liggur ástæðan fyrir að þú sért ekki eins og liljan og fuglinn. Það er aðeins ein sorg sem liljan og fuglinn geta ekki verið lærimeistarar í, hvaða sorg þurfum við ekki að tala um hér: sorg syndarinnar. Með tilliti til allrar annarar sorgar gildir það, að ef þú verður ekki skilyrðislaust glaður, þá er sökin þín, að þú vilt ekki læra af liljunni og fuglinum, í skilyrðislausri þögn og hlýðni að öðlast skilyrðislausa gleði með Guði.

Þó eitt í viðbót. Kannski segir þú með „ljóðskáldinu“: „já, ef hægt væri að byggja og búa hjá fuglinum, leynilega í einmannaleika skógarins, þar sem fuglinn og maki hans eru par, en þar sem er annars enginn félagsskapur; eða ef hægt væri að lifa saman með liljunni í friði vallarins, þar sem hver lilja skýlir sjálfri sér, og þar sem er enginn félagsskapur: þá gæti maður vissulega varpað allri sorg sinni á Guð og öðlast skilyrðislausa gleði. Því „félagsskapurinn“, einmitt félagsskapurinn er óhamingjan, að maðurinn sé eina skepnan sem plagar sjálfa sig og aðra með hugmynd sem er dæmd til að mistakast um félagsskap og ánægju félagsskaparins, og meira eftir því sem félagsskapurinn stækkar, öllum til glötunar.“ Svona skalt þú ekki tala til að byrja með; nei, íhugaðu málið nánar og viðurkenndu af skömm að það er þrátt fyrir ófyrirsjáanlega sorg ástarinnar, í krafti hvers fuglinn, hann og hún, eru par, og þau standa glöð ein og þrátt fyrir sorgina, eins og liljan er ein, og það er þessi gleði sem gerir það að verkum að félagsskapurinn truflar þau ekki; því það er að sjálfsögðu félagsskapur. Íhugaðu þetta aðeins nánar og viðurkenndu af skömm að það er í sanni einungis í skilyrðislausu þögninni og skilyrðislausu hlýðninni, sem fuglinn og liljan eru skilyrðislaus glöð yfir Guði – að það liggur í sanni þar, sem gerir það að verkum að liljan og fuglinn skeyta engu um það, og alveg jafn skilyrðislaust glöð í einrúmi og félagsskap. Lærðu því af liljunni og fuglinum.

Og ef þú getur lært að verða eins og liljan og fuglinn, æ, og ef ég gæti lært það, þá ætti þessi bæn að vera sannleikur hjá þér eins og hjá mér, síðasta bænin í „bæninni“ sem (eins og allar sannar bænir sem biðja sig glaða og glaðari og skilyrðislaust glaða), á endanum er ekkert, ekkert er beðið um eða langað í lengur, en skilyrðislausa gleðin endar í hyllingum og tilbeiðslu, þessi bæn: „því að þitt er ríkið og mátturinn og dýrðin“. Já, hans er ríkið; og því átt þú skilyrðislaust að þegja, svo þú truflar ekki með því að láta taka eftir því að þú sért til, heldur tjáir, í gegnum hátíðleika skilyrðislausu þagnarinnar, að ríkið er hans. Og ríkið er hans; og þess vegna átt þú skilyrðislaust að hlusta og skilyrðislaust hlýðinn að láta allt yfir þig ganga, því ríkið er hans. Og hans er dýrðin; og því átt þú, í öllu sem þú gerir og í hverju sem þú þjáist, að gera eitt í viðbót, að gefa honum dýrðina, því dýrðin er hans.

Ó, skilyrðislausa gleði: hans er ríkið og mátturinn og dýrðin – að eilífu. „Að eilífu“, sjáðu þennan dag, dag eilífðarinnar, hann tekur jú aldrei enda. Haltu því skilyrðislaust fast við þetta, að hans er ríkið og mátturinn og dýrðin að eilífu, fyrir þér er dagur „í dag“ sem aldrei tekur enda, í dag þar sem þú getur verið þú sjálfur í nærveru að eilífu. Lát því himininn falla, og stjörnurnar færa sig í umbreytingu alls, lát fuglana deyja og liljurnar visna: gleði þín í tilbeiðslunni, og þú í þinni gleði lifir í dag af sérhvert fall. Hugsaðu um hvað þér kemur við ekki sem manneskja heldur sem kristin manneskja, að kristilega er hætta sjálfs dauðans fyrir þér nauða ómerkilegur, þetta nefnist „í dag ertu enn í paradís“ og  ferðin frá tímanleika til eilífleika – mesti mögulegi munur – svo fljótt, og þótt hún gerist mitt í falli alls, samt svo fljót, að þú sért í dag enn í paradís, þar sem þú kristilega verður í Guði. Því verður þú í Guði, hvort sem þú lifir eða deyrð, og hvort sem hlutirnir eru með þér eða á móti, á meðan þú lifir; hvort sem þú deyrð í dag eða fyrst eftir sjötíu ár, og hvort sem þú mætir dauðanum á hafsbotni, þar sem dýpið er mest, eða þú springur í háloftunum: þú ferð þó ekki útfyrir Guð, þú verður, þú sjálfur með nærveru í Guði, og þess vegna enn í paradís á dánardeginum. Fuglinn og liljan lifðu aðins einn dag, einn mjög stuttan dag, og eru þó gleðin af því þau urðu réttilega þau sjálf í nærveru á þessum degi „í dag“. Og þú, sem hefur gulltryggðan hinn lengsta dag: að lifa í dag – og í dag að vera í paradís, ættir þú ekki að vera skilyrðislaust glaður, þú sem einnig ætti, þar sem þú getur, að fara mun, mun lengra en fuglinn í gleði, sem þú getur verið viss um, í hvert skipti sem þú biður þessa bæn, og það sem þú nálgast einnig, í hvert skipti sem þú biður þessa bæn gleðinnar: „því að þitt er ríkið og mátturinn og dýrðin – að eilífu, Amen.“