Skiptar skoðanir eru um nýjustu mynd Martin McDonagh. Móttökurnar eru nokkuð aðrar en þetta írska leikritaskáld á að venjast, en síðustu myndir hans In Bruges (2008) og Seven Psychopaths (2012) fengu heilmikið lof gagnrýnenda (voru þó aðeins blendnari tilfinningar gagnvart þeirri síðari). Þær voru hins vegar nokkuð vanmetnar, fengu ekki það mikla almenna athygli og fóru því framhjá mörgum áhorfendum. En nú var McDonagh í fremstu röð í keppninni um Óskarinn, svo ekki er hægt að segja að Three Billboards Outside Ebbing, Missouri hafi fengið slæmar móttökur né að hana skorti athygli.
Nýlega hafa þó töluvert margir gagnrýnendur snúist gegn henni. Svo margir að eftir því sem ég fæ best séð er það að verða meirihlutaskoðun að myndin sé – þrátt fyrir frábæran leik Frances McDormand – í besta falli stórlega ofmetin, ef ekki hreinlega léleg. Sumir eru jafnvel farnir að líkja henni við Crash (Paul Haggis, 2004).
Þannig segir t.d. Egill Helgason að myndin sé illa skrifuð, tímasóun og drasl. Gagnrýnandi The New Yorker, Tim Parks, finnur henni flest til foráttu, og segir myndina ekki bjóða uppá neina tilfinningagreind né áhugaverðar og hreinskilnar athuganir á samfélaginu sem hún setur fram. Hann líkir jafnvel aðalpersónunni og hvernig áhorfandinn heldur með henni við áhorf á Rambó. Það er þó óljóst hvort hann eigi þá við persónuna í First Blood (Ted Kotcheff, 1982) eða framhöldunum, en þar er töluverður munur á eins og frægt er: í fyrstu myndinni hefur persónan töluverða og áhugaverða sálfræðilega dýpt sem sést ekki í teiknimyndafígúrunni sem kom síðar meir. Því er þessi samanburður mun áhugaverðari ef átt er við fyrri. Mig grunar þó að hann eigi við síðari. Allavega, hann telur mynd McDonagh þó vera sjúkari, þar sem hún lítur niður á samfélagið sem hún sýnir með einhvers konar „clever“ yfirlæti, frá einhverjum hærri siðferðisstalli, án þess þó að segja nokkuð merkilegt um það eða jafnvel skilja það.
Þar fyrir utan hefur myndin verið sökuð, ef ekki beint um rasisma, þá um að taka alltof léttvægt á því alvarlega viðfangsefni. Svartar persónur hafa þannig lítið vægi í frásögninni. En gagnrýnin hefur beinst hvað mest að Dixon, persónu Sam Rockwell, blygðunarlausum rasista sem sumum gagnrýnendum finnst sleppa alltof vel miðað við viðurstyggilegar gjörðir hans. Hafa sumir jafnvel gagnrýnt það að Rockwell hafi fengið Golden Globe verðlaun fyrir leik sinn í myndinni.
Eftir því sem ég fæ best séð þá er það sem fer helst fyrir brjóstið á mörgum gagnrýnendum endirinn. Helsta vandamál myndarinnar að þeirra mati liggur í endurlausn persónanna, sérstaklega Dixon: að hún sé mjög bágborin eða illskiljanleg. Hann er ekki talinn verðskulda endurlausnina sem kemur í lokin, að gjörðir hans (tilraun hans til að fanga morðingja dóttur Mildred með því að láta berja sig til óbóta) nægja engan veginn til að réttlæta hana og fyrirgefa rasisma hans og ódæðin sem hann hefur framið. Slík gagnrýni er þó byggð á grundvallarmisskilningi á hvers konar mynd Three Billboards Outside Ebbing, Missouri er.
Hún er hreinlega ekki um endurlausn, hvorki Dixons né Mildreds. Eða, allavega ekki í þeim skilningi sem við erum vön þegar myndir sem tilnefndar eru til Óskarsverðlauna eru annars vegar. Hér er öllu heldur á ferðinni kvikmynd undir augljósum áhrifum frá hinni amerísku hefð gotneskra suðurríkjasagna (e. Southern Gothic). Margt í myndinni er vissulega furðulegt og gengur hreinlega ekki upp – ef hún er séð sem hefðbundið drama um sorg, hefnd og endurlausn. Sem gotnesk suðurríkjasaga fylgir hún þó ákveðnum strúktúr og rannsakar kunnugleg þemu á velþekktan hátt.
Sú hefð einkennist af sjúkum (andlega og/eða líkamlega) og siðferðilega brengluðum persónum sem firrtar eru samfélaginu, hryllilegu ofbeldi og furðulegum aðstæðum. William Faulkner er langþekktasti og öflugasti fulltrúi þeirrar hefðar, og Cormac McCarthy líklega helsti arftakinn í dag. Sögurnar snúast um siðferði á nokkuð sérstakan hátt, með sterkum kristnum undirtónum oftast, og leitast við að varpa ljósi á samfélagið með því að kanna utangarðspersónur á jaðri þess, draga þannig fram undirliggjandi spennu og hrylling sem leynist undir yfirborðinu (oftast arfleið þrælahalds og rasismi Suðurríkjanna, eins og hjá Faulkner). Sögurnar eru oft mjög ýktar, jafnvel absúrd, en þær bestu afhjúpa oft óþægilega sannleika í gegnum ósmekklegar persónur og aðstæður.
Ég skil einfaldlega ekki hvernig svo margir gagnrýnendur hafi getað misskilið hana svona. McDonagh gefur ýmis áberandi merki um hvers konar sögu hann sé að reiða fram, svo hún ætti ekki að þurfa að koma á óvart. Persónurnar og tónninn, ofbeldið og frásögnin öskra hreinlega á áhorfandann með líkindunum við gotneskar suðurríkjasögur. McDonagh taldi það ekki einu sinni nóg. Því lætur hann Welby, eiganda stofunnar sem sér um skiltin í titlinum, beinlínis vera að lesa A Good Man is Hard to Find eftir Flannery O’Connor þegar Mildred fer fyrst á fund hans. Gæti það verið skýrara?
Mér fannst sú vísun skemmtileg, en svo vill til að umrædd saga er í miklu persónulegu uppáhaldi. Hefði þó alveg mátt vera aðeins lúmskari (Kubrick vísar í sömu sögu í Full Metal Jacket (1987) á frábæran hátt).
Hvað um það. Það er O’Connor sem setur hvað sterkastan svip á myndina. Hjá henni sjáum við þennan kómíska absúrdleika, áhersluna á hið gróteska, ásamt yfirdrifnu ofbeldi sem Three Billboards einkennist einnig af. Þrátt fyrir að hafa verið kaþólikki eru sögur hennar alveg lausar við kristna móraliseringu. Hún sækir mikið í brunn kristninnar, en í gegnum einstakan stíl sinn gerir hún þau minni að einhverju furðulega kunnuglegu og framandi í senn – svo ekki sé minnst á óþægilegu og jafnvel sjokkerandi.
Ef við sjáum myndina sem gotneska suðurríkjasögu af sama toga (og ég skil raunar ekki hvernig annað er hægt) sjáum við strax að myndin er ekki um siðferðilega endurlausn Dixon eða Mildred. Öllu heldur er hún um týndar sálir sem öðlast reyndar einhvers konar endurlausn, en á brenglaðan máta sem gagnast þeim lítið í raun. Mildred og Dixon eru persónur sem báðar, á sinn hátt, láta reiði sína og gremju bitna á öðrum. Þær neita að líta í eigin barm og, þrátt fyrir að góðmennsku megi sjá undir yfirborðinu, neita þau alfarið að fara út í sjálfsrannsókn og skoða villur síns vegar (t.d. að kveikja í lögreglustöð eða beinlínis pynta fólk). Dixon virðist stefna í þá átt undir lokin, eftir að hafa verið sagt upp störfum og fengið hjartnæmt sjálfsvígsbréf frá Willoughby (Woody Harrelson), sem einmitt boðar þar eitthvað í líkingu við kristinn kærleika og fyrirgefningu. Hann virðist vilja snúa við blaðinu, en að hann skuli svo gera það með því að hjálpa Mildred drepa einhvern sem hafði þó ekkert með dauða dóttur hennar að gera, og halda því þessari eyðileggingu áfram á enn fókusaðri og væntanlega hryllilegri hátt, er endir að hætti gotneskra suðurríkjasagna. Ekki síst siðferðilega gruggugi mátinn sem hann er settur fram á og hefur greinilega slegið marga.
Mildred og Dixon hafna sumsé endurlausn og fyrirgefningu á skýran hátt. Þau koma saman í lokin á næman og einlægan hátt – einungis til að styðja brenglaða hugmynd hvors annars um réttlæti sem þau gefa ekkert eftir í. Ferðalag þeirra í lokin stefnir þannig ekki í átt að neinu góðu og því skrýtin sú gagnrýni sem telur myndina fegra persónu Dixon með því að láta hann sleppa svo auðveldlega – hvað þá að myndin sé að réttlæta, fegra eða koma rasisma til varnar eins og einhverjir hafa gengið svo langt að halda fram. Sú uppljómun og lærdómur sem persónurnar þó öðlast er á einhvern hátt göfug, en á mjög brenglaðan og óþægilegan hátt sem flókið er að greiða úr og átta sig á. Slíkt er hreinlega vörumerki O’Connor. Skemmst er að minnast persónunnar í sögunni sem myndin vísar til, sem hefði getað verið góð manneskja, hún hefði bara þurft einhvern til að miða byssu á sig alla ævi.
Ég er annars einungis búinn að sjá myndina einu sinni, og ætla því ekki að fara útí neina djúpa greiningu. En Mildred og Dixon eru auðvitað ekki hetjur. Þessi bókmenntahefð fjallar einfaldlega ekki um hetjur. Að minnsta kosti ekki í neinni hefðbundinni mynd. Því er það undarlegt að Tim Parks og aðrir fordæmi persónurnar á þeim grundvelli að við eigum að halda með þeim, að þær séu hetjur sem eru bara ekki nægilega sympatískar og því sé myndin grunn og illa skrifuð, sjúk jafnvel.
Mér sýnist á öllu að gotneskar suðurríkjasögur séu eitthvað sem eigi einfaldlega sérlega illa uppá pallborðið í dag. Síðasta mynd sem ég man eftir sem fékk svo neikvæð viðbrögð vegna endisins var No Country For Old Men (Coen bræður, 2008), sem er jú byggð á skáldsögu áðurnefnds Cormac McCarthy. Hvernig líta höfundar gotneskra suðurríkjasagna út, ef við förum hina leiðina og beitum þessum viðmiðum á þá? Við getum bara tekið Light in August Faulkners sem dæmi. Hvernig horfir t.d. eftirfarandi kafli við í dag, hvernig Faulkner skrifar um þegar aðalpersónan, Joe Christmas (sem er líklegast blökkumaður, þrátt fyrir að vera ljós á hörund), er geldur og drepinn á brútal hátt:
Then his face, body, all, seemed to collapse, to fall in upon itself, and from out the slashed garments about his hips and loins the pent black blood seemed to rush like the rush of sparks from a rising rocket; upon that black blast the man seemed to rise soaring into their memories forever and ever. They are not to lose it, in whatever peaceful valleys, beside whatever placid and reassuring streams of old age, in the mirroring faces of whatever children they will contemplate old disasters and newer hopes. It will be there, musing, quiet, steadfast, not fading and not particularly threatful, but of itself alone serene, of itself alone triumphant. Again from the town, deadened a little by the walls, the scream of the siren mounted toward its unbelievable crescendo, passing out of the realm of hearing.
Þetta: að sjá hið háleita í hinu gróteska, siðferðilega vafasama og jafnvel brútal hryllingi, er aðaleinkenni gotneskra suðurríkjasagna og ég er hreinlega ekki viss um að allir kvikmyndaáhorfendur (og einhverjir gagnrýnendur) séu almennt móttækilegir fyrir þeim í dag, af þessum neikvæðu viðbrögðum að dæma. Ég er auðvitað ekki að meina að fólk höndli ekki gallaðar og breyskar and-hetjur, vinsældir þátta á borð við Breaking Bad sýna fram á að slíkar persónur eru þvert á móti mjög vinsælar. Ég á heldur ekki við endurlausn í neinum ströngum skilningi. En í dag eru þó settar fram vissar (pólitískar, að mestu leyti) kröfur sem þarf að uppfylla á skýran hátt til að hægt sé að hafa samkennd eða samúð með persónum, eitthvað sem gotneskar suðurríkjasögur neita lesandanum/áhorfandanum um. Það er því áhugavert að fylgjast með þessum viðbrögðum, hvað gerist þegar mynd fer út fyrir þennan ramma. Maður spyr sig að hversu miklu leyti þau koma McDonagh á óvart, hvort þau hafi kannski einmitt verið það sem hann var á höttunum eftir? Ég skal þó ekki segja.
Tim Parks fordæmir myndina einmitt vegna þess hversu lítið hún segir um samfélagið með tilliti til byssuofbeldis, rasisma og annarra mála sem eru í umræðunni í dag. Hann kallar hana „tone-deaf“ af þeim sökum (eitthvað sem ég myndi einmitt segja að eigi mun meira við skilning hans á myndinni). Eitt helsta þema O’Connor sem myndin rannsakar einnig, endurnýjun (e. rejuvenation) í gegnum ofbeldi, er svo sannarlega ekki eitthvað sem passar vel inní andrúmsloftið í dag, það verður að segjast eins og er.
Önnur gagnrýni er framsetningin á blökkufólki. Nú er þetta sjónarmið sem ég tek alveg undir: aukinn sýnileiki minnihlutahópa í kvikmyndum, ásamt baráttu gegn staðalmyndum og fordómum, er eitthvað sem ég styð af mikilli ástríðu. Og myndin mætti svo sannarlega gera betur að því leyti. Þó fannst mér The Wire leikarinn Clarke Peters frábær og eftirminnilegur í sínu hlutverki (eins og alltaf). Það hlutverk var þó of lítið, ég tek undir það, en mér finnst einkennilegt að beina spjótum að þessari mynd sérstaklega vegna þessa, miðað við hvað almennt gengur og gerist í kvikmyndum. Hún verðskuldar varla fordæmingu af þessum sökum. Svo margar myndir komast upp með svo miklu verra.
Við hljótum líka öll að geta verið sammála um að það að gagnrýna Golden Globe verðlaun Sam Rockwell vegna þess að persónan sem hann leikur er rasísk er tóm steypa?
Annað atriði sem bent hefur verið á er „clever“ díalógur McDonagh. Hann fer víst illa í suma. Nú er þetta auðvitað bara hreint smekksatriði, ef hann fer í taugarnar á einhverjum er lítið hægt að segja við því. Ég segi það sama um díalóg Aaron Sorkin, sem mér finnst einmitt alltaf reyna að vera svo „clever“ á óþolandi hátt. Mér finnst samtöl McDonagh ekkert miðað við það sem maður sér hjá honum, sem er þó ávallt lofsunginn af gagnrýnendum – einmitt sérstaklega fyrir samtölin. Einnig eru þessi hnyttnu samtöl tónuð þó nokkuð niður frá fyrri myndum McDonagh, sem ég man ekki eftir að voru gagnrýndar af þeim sökum. Þvert á móti, gagnrýnendur hafa oftast hrósað samtölum McDonagh hvað mest. Mér finnst þetta a.m.k. einkennileg gagnrýni á myndina.
Ég hef einnig séð oftar en einu sinni þá gagnrýni að myndin sé illa skrifuð vegna þess að Dixon og móðir hans horfa á Don’t Look Now (Nicolas Roeg, 1973) í einu atriði, mynd sem þau þekkja augljóslega – en McDonagh hefur þá greinilega engan skilning á viðfangsefni sínu fyrst hann lætur svona vonlausa sveitalubba horfa á slíkt meistaraverk kvikmyndanna! Hér segi ég bara: í alvöru? Mér finnst slíkt segja mun meira um gagnrýnendurna sjálfa heldur en McDonagh eða myndina.
Að mínu mati var Three Billboards Outside Ebbing, Missouri auðveldlega ein af bestu myndum síðasta árs. Það var sérstaklega þetta literary gildi sem heillaði, frumleg samræða hennar við gotneskar suðurríkjasögur og hvernig hún nær einstökum tón þeirra. Þannig er hægt að sjá myndina sem vel heppnað dæmi um þá hefð í kvikmyndum (ekki er hægt að segja það sama um aðlaganir James Franco á skáldsögum Faulkner og McCarthy, því miður). Útkoman er mynd með að mörgu leyti frumlegri og áhugaverðri frásögn sem vekur upp erfiðar og óþægilegar spurningar í gegnum flóknar og frábærlega leiknar persónur.
Myndin er þó alls ekki gallalaus, ýmislegt annað má útá hana setja sem ég hef ekki farið útí. En mér sýnist þó af öllu að helsta synd hennar sé röng tímasetning, að hún passi illa inní pólitíska andrúmsloftið í dag. Hægt væri þó að líta svo á að hún sé öllu heldur einmitt hárrétt af þeim sökum. Margir ætlast til að hún hafi eitthvað áhugavert að segja um hluti sem eru fyrirferðarmiklir í samfélagsumræðunni, en sem hún er hreinlega ekki að fjalla um á þann hátt sem margir myndu vilja. Svona eins og góð list á það til að gera. Slík gagnrýni er þó að mörgu leyti skiljanleg og eitthvað sem myndin býður heim með því að fjalla t.d. um nauðgun og ofbeldi gegn konum – hvað þá rasískar löggur. En það gerir það líka að verkum að það sem hún hefur þó annað raunverulega uppá að bjóða virðist fara framhjá mörgum.
Þessi neikvæðu viðbrögð eru að mínu mati gott dæmi um nauðsyn þess að hreinsa hugann eftir fremsta megni, áður en notið er listaverks.