Í fyrra kom út platan Hefnið okkar með rappdúóinu Úlfur Úlfur. Hljómsveitin er skipuð Arnari Frey Frostasyni og Helga Sæmundi Guðmundssyni. Á plötunni eru tólf lög.
Kannski er ég ekki rétti maðurinn til þess að skrifa rýni um rapptónlist. Þó ég hafi hlustað eitthvað á rapp síðan ég heyrði fyrst í Beastie Boys og Run DMC 15 ára gamall, þá hefur stefnan sú arna aldrei náð verulega sterkum tökum á mér. Það hafa, jú, verið stöku lög sem ég hafði gaman af og einhverjar plötur rötuðu meira segja í plötuskápinn hjá mér. En rapp getur varla talist minn tebolli.
Þrátt fyrir það þá finnst mér Hefnið okkar vera fín skemmtun. Hún vaggar þægilega á barmi þess að vera poppuð og myrk. Tónlistarlega séð er þetta sjálfsagt emorapp eins og Earl Sweatshirt og aðrir úr Odd Future hópnum stunda. Kveðið er á íslensku og kannski er allt of miklum enskuslettum. Ég veit það ekki. Flæði rappsins er fínt, mjög íslenskt en reyndar á ég stundum nokkuð erfitt með að láta staccato rapp Arnars ekki fara í taugarnar á mér. Mér finnst þetta leiðinda stíll. Þó verður að segjast eins og er að honum hefur farið fram frá síðustu plötu sveitarinnar.
MIkilvægasti hlekkurinn í góðu rappi eru textarnir og því miður þá eru þeir mjög misjafnir á Hefnið okkar. Mér finnst þeir satt best að segja samhengislausir á fyrri hluta plötunnar. Það er vaðið úr einu í annað eins og það sé verið að fylla atkvæði frekar en að segja eitthvað markvert. En þeir verða samt betri er líður á. Eins þykir mér þeir flestir bitlausir og oft ekki rista djúpt. Besta stund plötunnar finnst mér í laginu MUA þar sem þeir takast á við geggjaðan húsnæðismarkað Reykjavíkur. Þar kemur eftirfarandi lína Þú ert betri kandídat en ég að gera muthafucking bófarapp. Þarna þykir mér líklegt að skotið sé á Sölva Blöndal hjá Gamma og fyrrverandi forsprakka rappsveitarinnar Quarashi. Og mikið á hann það skilið.
Heyrst hefur að þetta sé síðasta plata Úlfanna og nokkuð er um að þeir rappi um að rappið sé fyrir ungt fólk og þeir séu að verða of gamlir. Ætli þeir hafi ekki bara rétt fyrir sér þar, í.þ.m. þegar kemur að þeim sjálfum, því að það verður að segjast eins og er að það er nokkuð erfitt að hlusta á þrítuga menn garga á mömmu sína að þeir séu ekki að nota hendur og taka þá alvarlega. Svo er líka hálf hallærislegt þegar fullorðnir menn eru að tala um hvað það sé kúl að reykja kannabis.
Kannski er það vegna langrar veru minnar í BNA en ég á líka erfitt með að þola það að hlusta á einhverja íslenska hvíta forréttindaplebba kalla einhvern homie. Þetta er tungutak sem á sér uppruna í fátækrahverfum í stórborgum Bandaríkjanna og mér myndi aldrei detta í hug að kalla vini mína sem koma úr slíku umhverfi þetta.
Hefnið okkar er fín plata þrátt fyrir allt, hljóðheimurinn stendur fyrir sínu og flæðið ágætt og auðvelt er að horfa framhjá göllunum og kjánaskapnum í textunum. Ef ég gæfi stjörnur þá værum við líklegast að tala um þrjár, kannski þrjár og hálfa.