Amma þín var ekki beygla

Áður en geirvartan var frelsuð og ég líka kom til sögunnar

Um Margar myndir ömmu: Konur og mótun íslensks samfélags á 20. öld. Bók er hluti af Fléttum sem er ritröð á vegum RIKK. Er um fjórða bindi að ræða. Háskólaútgáfan gaf út árið 2016.1971 fengu konur í Sviss kosningarétt. Með því varð Sviss síðasta land Evrópu til að veita konum réttindi þessi.1 Á Íslandi var þetta skref stigið 1915 er konur fertugar og eldri fengu kosningarrétt. Þrátt fyrir þennan rétt urðu ekki margar konur alþingiskonur. Á árunum 1916 til 1978 sátu tíu konur á Alþingi. Sú tíunda var Jóhanna Sigurðardóttir. „Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri í Reykjavík árið 1994 höfðu aðeins tvær konur stýrt kaupstöðum á Íslandi“. (bls. 143, Ármann Jakobsson)

Án þess að mál sé einfaldað: Saga Íslands sýnir fram á að konur og karlmenn hafi ekki setið við sama borð. Það á við á flestum sviðum íslensks samfélags. Eins og kunnugt er hafa kvenfrelsissinnar haft sig mikið í frammi undanfarin ár. Enginn ætti að hafi farið varhluta af þeim tilraunum. Einna mesta athygli vakti þegar íslenskar geirvörtur voru frelsaðar. En þó brjóstvörtur, einkum á kvenmönnum, hafi eina helst fangað eftirtekt fólks má ljóst þykja að vaxinn er úr grasi kynslóð íslensks kvenfólks sem kallar ekki allt ömmu sína og er ákveðin í því að marka sér stað í íslensku samfélagi, láta rödd sína heyrast. Líklegt verður að teljast að sögubækur framtíðar muni ekki hundsa þær.

Þessi kynslóð varð ekki til í tómarúmi. Það liggur í augum uppi að miklar breytingar urðu á íslensku samfélagi á 20. öld og færðist staða íslenskra kvenna frá eldavél og úr eldhúsi. Þessi umskipti urðu ekki á einni nóttu. Án þess að útlista náið má halda fram að staða kvenfólks hafi verið fastmótuð allt fram á 20. öld, að það hafi ekki haft möguleika í líkingu við þá sem karlpeningurinn hafði. Einnig var rödd þeirra lengi vel lágvær, hvísl. Svo lágvær að hún rataði vart í sögubækur eða aðrar bækur. Síðan byrja hlutir að breytast. Smátt og smátt.

Margar myndir ömmu tekur á þessum tilteknu samfélagsbreytingum og leitast jafnframt við að gefa konum þessa tíma rödd, gefa sögu þeirra gaum. Eins og nafngift bókar gefur til kynna er rödd miðlað í gegnum frásagnir af ömmum.

Blanda hins persónulega og fræðilega, hlutlægni huglægni

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi stóð RIKK að fyrirlestrarröð. Margar myndir ömmu var yfirskrift fyrirlestra þessara. „Markmiðið var að segja sögur kvenna sem lifðu þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum 20. aldar og varpa ljósi á hugmyndaheim þeirra, framlag, stöðu og aðstæður.“ (bls. 11) Umrædd bók samanstendur af téðum fyrirlestrum sem breytt hefir verið í greinar. Nánar tiltekið tólf greinar eftir fræðimenn sem fjalla um líf formæðra sinna. Forseti Íslands, herra Guðni Jóhannesson, ritar formála og Irma Erlingsdóttir inngang. Grunntónn skrifa þeirra er að  sagðar séu sögur „sem aldrei átti að segja.“ (bls. 12)

Greinar eru mismunandi enda spanna þær ólík tímaskeið. Greinum er raðað upp í aldursröð og fer fyrst saga þeirrar konu sem elst er. 1853 fæddist hún. Sú yngsta fæddist 1926. Líkt og gera má sér í hugarlund kann að reynast erfitt að halda sig fullkomlega á hlutlægum slóðum þegar viðfangsefni stendur nær. Verk þetta sveiflast því á milli fræðilegrar og persónulegar nálgunar.

Tveir karlmenn og tíu kvenmenn eiga grein í bók.

Litla sagan varpar mynd á stóru söguna

Ekki verður farið í að rekja efni einstakra greina hér. Látið verður nægja að segja að samfélagsleg staða þeirra kvenmanna hverra líf er gert að umfjöllunarefni sé ólík (frá neðstu stigum til efstu) og að saga þeirra flestra sé saga sem sjaldan hefir fundið sér leið í sögubækur. Líf þessara kvenna var sjaldnast brautryðjandi í þeim skilningi að tilvist þeirra markaði söguleg spor. Þar eru þó undantekningar.

Ef tína á til orð til að kristalla verk innihaldslega væri það ósýnileiki. Íslensk saga er uppfull af frásögnum sem greina frá karlmönnum. Sagan greinir allajafna frá þeim aðilum sem gegndu vegamiklu sögulegu hlutverki, það voru að jafnaði karlar. Almennri sögu er og venjulega miðlað karllægt. Stór og lítil hlutverk eru oftast nær í höndum karla. Ástæða þess er oftlega skortur á heimildum um konur. Margar myndir ömmu er liður í því að breyta því og skapa möguleika á öðru sögulegu sjónarhorni.

Þær sögur sem finna má í verki eru ekki stórbrotnar í sögulegum skilningi, þær marka ekki stór og óafmáanleg spor í sögu Íslands frekar en sögur okkar flestra.

Við þurfum að vera assvíti dugleg við að útmála kynlíf vort og fataskáp til breyta holdi í eitthvað annað en mold.

Tilgangur þessara sagna er fyrst og síðast að segja frá þeim sem hingað til hafa verið nær ósýnilegar í íslenskri sögu. Saga þeirra ætti að geta gefið aðra sýna á stóru söguna.

Tekið úr verki

Til að gefa frekari mynd af innihaldi verks fylgja hér nokkrar tilvitnanir.

 

… í byrjun 20. aldar var takmarkað rúm fyrir plássfrekar konur á bekkjum stjórnmálanna þegar á reyndi. (bls. 47)

Guðmundur Hálfdánarson

Karlinn var yfirskipaður, enda talinn betur fallinn til opinberra starfa en konan var móðurleg góð, blíðlynd, trúuð, viðkvæm og kynlaus og því best til þess fallin að sinna öðru fólki innan veggja heimilisins. Gat hún ekki gengið í verk karlsins og hann ekki í hennar. (bls. 58)

Dagný Kristjánsdóttir

Hugmyndin um ævisöguna mótaðist af karllægum viðmiðum valdakerfis þar sem hún hafði það megin hlutverk að auka orðstír karla sem tilheyrðu ákveðinni stétt og í henni fengu konur í besta falli það hlutverk að varpa ljósi á drengskapinn, gleðimanninn eða gáfumanninn. (bls, 82)

Berglind Rós Magnúsdóttir

Ömmur minnar kynslóðar eru oft tengdar umhyggju og þolinmæði, hlýjum faðmi, kleinum og kakói. (bls. 161)

Erla Hulda Halldórsdóttir

… gert var ráð fyrir að áhugi kvenna beindist fyrst og fremst að móður- og húsmóðurhlutverkinu.

Annadís Gréta Rúdolfsdóttir

Ég finn mig fyrir því að amma er jafn áhugaverð í hversdagslífi sínu og sem brautryðjandi á hinu opinbera sviði. (bls. 313)

Súsanna Margrét Gestsdóttir

Amman

Allar eiga ömmurnar það sameiginlegt að hafa fæðst inn í samfélag sem markaði þeim ákveðin stað í tilverunni. Stað sem illmögulegt var að komast frá hvort sem það laut að menntun, stjórnmálum eða kynferði. Gildi þá einu hvort viðkomandi væri fædd  í efri eða neðri lög íslensks samfélags. Einu gildi jafnframt hvort um væri að ræða opinbert svið eða hversdagslegt. Ömmurnar eiga það einnig sammerkt að saga þeirra hefir ekki ratað upp á yfirborðið. Úr því er bætt í verki þessu svo og fleiri verkum sem út koma í gegnum RIKK.

Fyrir hverja er bókin?

Sennilega fyrir þig og ömmu þína.

   [ + ]

1. Höfundi greinar var bent á stađreyndavillu sem ráđ er ađ leiđrétta. Konur í Lichtenstein fengu kosningarétt seinna en stöllur þeirra í Sviss.