Mynd tók Gulli Már

Ljóð eftir Díönu

deild 11e

ég skil við barnæsku mína
á dansgólfi í miðbænum
með ælu í ölglasi
er ég flýti mér á hringbraut
til að kveðja mömmu
í hinsta sinn

hvísla brottfararleyfi
í eyra
og syng barndómsvísur
frá fyrri tímum
kíki síðan í kringluna eftirá
til að kaupa símahulstur og
glimmergalla
fyrir næsta fössara

við heimkomu
veggfóðra ég húsið
með samúðarskeytum
drekk heila rauðvínsbelju
geng um ganga í leiðslu
þar til ég man
að ég fæ engu ráðið

grasið grænkar með sumrinu
næst á dagskrá
er að kenna pabba á þvottavélina

gísli marteinn

til að sýna umhverfinu stuðning í verki
en líka kapítalismanum
tek ég vagn númer eitt í ikea
kaupi mér tágakörfu
úr plasti
birgðir af kínóa fyrir meistaramánudag
held síðan tilbaka á hlemm
eftir að hafa troðið
mig út
af köttbullar og fröllum

á leiðinni klingja bjöllur þegar barn í kerru
brosir við biturð minni
svo ég
í endurnýttum kjól
með tannhvíttunarbrosi
stel því
legg í tágakörfuna
fleyti því niður laugaveginn