Víst er Stofuhiti ljóðabók

Viðtal við Berg Ebba um Stofuhita

Það er fökkt að byrja viðtal á því að andmæla þér – en mér finnst ekki svo fráleitt að kalla þetta ljóðabók. Þetta er ekki hefðbundin ljóðabók en einhverskonar ljóðræn essaya, kannski? Ég held að munurinn á hefðbundnum ljóðum og þessari bók, sé að þér gefst meira rými til að segja hið augljósa.

Einsog til dæmis hér:

Dæmi um fyrra upplýsingastökk var tilkoma Gutenberg-prenttækninnar. Þá margfaldaðist gagnamagnið í heiminum og möguleiki skapaðist á að prenta rómönsur og klámsögur. Kannski þótti mörgum nóg um þá.

En svo örskömmu síðar í textanum ertu kominn nær því að vera einsog við þekkjum þig úr ljóðum þínum:

Blaðamenn, klæddir Sherlock Holmes-legum skikkjum, stökkvandi upp í hestvagna með minnisblokk í hendinni til að ná í næsta skúbb. Þetta þótti svo slítandi að fólk fór í ópíumgreni á sunnudögum til að ná sér niður eftir vikuna.

Sorrí, en ég er bara af Google-kynslóðinni – ef þetta er ekki ljóðabók, hvað er þetta þá?

Það hefur verið eitthvað um það að fólk haldi að Stofuhiti sé ljóðabók. Það er ekkert skrítið. Í fyrsta lagi þá eru útgefin höfundaverk mín fram að þessu ljóðabækur og í öðru lagi gefur titilinn ekki mikið upp. Kannski finnst fólki kápan á bókinni jafnvel ljóðabókaleg. Ég hef reyndar ekkert mikið verið að leiðrétta þennan misskilning, enda er mér ekki mikið í mun að skilgreina hverskonar bók Stofuhiti er, þó að ég láti stundum fylgja með að undirtitill bókarinnar er „ritgerð um samtímann”, sem er vísun í ákveðið bókmenntaform. En nú, þegar þú nefnir að ákveðin stíleinkenni og efnistök í bókinni séu kannski þrátt fyrir allt í ljóðabókastíl, þá eru mín fyrstu viðbrögð að vera mjög imponeraður. Ég þarf varla að taka það fram að mér finnst ljóðabækur að sjálfsögðu flottustu bækurnar – og eitthvað segir mér að margir rithöfundar séu sama sinnis. Það er flottara að skrifa ljóð heldur en að skrifa skáldsögur, þó að hið síðarnefnda sé stundum talið meira alvöru. Þannig að útfrá hreinum hégómlegum ástæðum ég mjög sáttur ef fólk telur að hér sé ljóðabók á ferðinni.

En í allri þessari umræðu skiptir kannski minnstu máli hvað mér finnst um þetta. Höfundar eiga ekkert endilega að hafa lokaorðið um það hvernig tegund af bókum þeir skrifa. Í mínu tilfelli þurfti ég reyndar að presentera verkið með einhverjum hætti til útgefendans og þá notaði ég hugtök eins og „ritgerð” eða „greining” eða „samfelld frásögn í ritgerðarstíl”. Ég vildi að ég hefði þorað að negla handritinu á borðið og segja skýrt: „þetta eru ljóð” en ég hefði aldrei þorað því, enda segir mér einhver leikjafræði að það hefði ekki verið vænlegt til árangurs.

Þannig að jafnvel þó ég skilgreini bókina ekki sem ljóðabók, þá þýðir það ekki endilega að ég hati að hún sé skilgreind þannig. Ég myndi raunar fíla það mjög vel. En til að vera samkvæmur sjálfum mér þá held ég mig við það sem undirtitilinn segir: „ritgerð”.

Ég ætla ekki að púlla neitt „Yes, yes, you did, Mister Hopkins“-móment – en ég get ekki fallið frá því að þetta sé ljóðaessaya. Hún minnir mig ögn á aðra slíka  Það sem mér þykir að heiminum eftir Ingólf Gíslason  – þið byrjið meira að segja á því að skilgreina ykkur; Hann skilgreinir sig sem fjarþrælahaldara útfrá kaffinu sem hann drekkur, en þú segist vera „12% emo, 17% hipster, 17% jock, 7% hippa, 15% nörd, 12% punk, 3% DNX, 2% lumberjack, 17% goth og 4% preppy, …[en] enginn Svíþjóðardemókrati eða þess háttar ógeð“ og svo í kjölfarið að í dag geti fólk ákveðið að vera eitthvað, án þess að eiga eitthvað eða sinna ákveðnu starfi. En báðar bækurnar nýta svo þessa sjálfskilgreininguna sem verkfæri í því sem er framundan, útlistun á heimsmynd höfundar – en hoppa duglega á milli þess að segja hið augljósa, fullyrða um heiminn og dæla fram ljóðrænum vísunum og frásögnum.

Eitt hef ég lært á undanförnum árum, og það er að það er vonlaust að búa til heildarskema til að útskýra hlutina. Maður endar hvort sem er alltaf á að því að eitthvað eitt sem maður segir stangast á við eitthvað annað. Að mínu mati er meira upplýsandi að dúndra bara út nógu mikið af líkingum og hugmyndum og ekki eyða of miklum tíma í að sortera þær eftir vægi eða líkindum við það sem maður er að reyna að útskýra. Að dæla út ljóðrænum vísunum, er einmitt mjög góð lýsing á þessu. Sjálfur hef ég fengið hugmyndina til að gera þetta úr jafn óvæntri átt og uppistandi. Í uppistandi gildir miklu frekar að dæla út sem flestum vísunum og líkingum í stað þess að reyna að semja hinn fullkomna brandara. Grínið verður til þegar hlutir eru skoðaðir aftur og aftur og sífellt frá nýju sjónarhorni. En það má reyndar vel vera að hægt sé að setjast niður og skrifa brandara á nokkuð slípaðan hátt frá a-ö, þó að það sé aðferð sem hafi ekki gagnast mér.

Það var einhver snjall heimspekingur með þetta sem sitt mottó. Ég man ekki hver það var, en það var einhver síð-20. aldar franskur drjóli, ef ég man rétt. En allavega, sá náungi sagði að til að útskýra samtímann þurfi maður bara að draga upp mynd eftir mynd eftir mynd – sífellt að vera á iði. Það er af sem áður var þegar heimspekingar gátu tottað pípu og lagt drög að symmetrískum kenningum og málað heiminn þar inn í rólegheitum. Ætli það sé ekki vegna þess að heimurinn er að breytast hraðar.

Ég man eftir þessari bók sem þú vísar til, Það sem mér þykir að heiminum, og ég held að það sé fullt af köflum í Stofuhita sem beita svipuðum stíl og má finna þar. Það er fullt af „ranti” í Stofuhita, sem ég stilli ekki upp hér sem neikvæðu orði. Rant er vitundarstraumur þar sem allt er látið flakka með blöndu af kæruleysi og einnig eins og mikið sé í húfi, og það er ákveðin kúnst að gera það. Mér finnst bók Ingólfs full af þannig stíl og þykir eiginlega hálf vænt um það ef Stofuhita er skipað á svipaðan bás. Bók Ingólfs er að vísu mun móralskari, en kannski er það ekki endilega svo. Ég lagði upp með að reyna hafa Stofuhita móralslausa bók. Það var nánast upplegg mitt að hvorki færa rök fyrir því að við lifum á frábærum tímum né að allt sé að fara til fjandans. En þó að það sé ákveðið upplegg, þá er bókin ekki móralslaus. Ef einhverja niðurstöðu er að finna er hún helst á þá leið að ef maður reynir að vera móralslaus í þessum heimi þá brenni maður til agna, en bruninn er seigur og í raun soldið þægilegur, það er „bruni við stofuhita” sem ég nefni í bókinni.

En þrátt fyrir allt þetta, þá er Stofuhiti varla ljóðabók.

Mér finnst líka þessi bók ríma mjög vel við ljóðabækurnar þínar. Heimsmyndin sem þú býrð til er mjög svipuð þeirri í fyrstu ljóðabókinni þinni Tími hnyttninnar er liðnn – svo þess vegnar langar mig að æpa aftur og aftur: VÍST ER ÞETTA LJÓÐABÓK. Upphafsljóðið í bókinni inniheldur þessar línur:

ímyndaðu þér borg…
taktu svo þessa mynd úr höfði þínu
og eyddu henni, eyddu henni á nokkrum mínútum
á nokkrum yndislegum mínútum
láttu sprengjum rigna yfir borgina

Ah! Það er kafli í Stofuhiti þar sem þú einmitt dáist að Tsar Bomba Sovétmanna. Dáist að kraftinum, sköpuninni en óttast samt eyðilegginguna – einhver rómantík um framfarir, eyðileggingu og tækni. Svona einsog í þessu ljóði?  

Flest ljóðskáld eru að huga að innra lífi sínu, semja kannski níðvísu um nágrannann og hvað tunglið fær þá til að drekka mikið – þú ert búinn að byggja Nýja Breiðholtið á tunglinu og beinir öllu vopnabúrinu þínu að okkur – meikar þetta sens?

Það er sama attitjútið í textanum og í ljóðunum þínum. Ég er einhvern veginn á því að ef þetta er ekki ljóðabók, þá byrjaði hún samt sem ljóðabók en varð óvart eitthvað allt annað. Hvernig varð bókin til ef hún byrjaði ekki sem ljóðabók?

Ég er reyndar að fíla alltaf meira og meira þessa löngun til að nálgast Stofuhita sem ljóðabók. Þetta sem þú vísar í er náttúrulega eitt af mínum lífsgátum, og ég eyði töluverði púðri í að fjalla um það í Stofuhita; það er þessi aðdáun á tækni, ekki síst tortímandi tækni, en að sama skapi dýrkunin á þeim hamförum sem þessi sama tækni getur skapað. Ég tala mikið um sprengjur í Stofuhita, og ég viðurkenni fúslega að ég er sjúklega áhugasamur um sprengjur. Það er eitthvað við þá hugmynd að geta geymt alla þessa orku og fóðrað sjálfsmyndina með henni. Rétt eins og íbúar þjóða sem áttu stórar sprengjur áttu að vera beinni í baki heldur en íbúar þjóða sem áttu engar sprengjur. Þannig var mentalítetið í Kalda stríðinu. Og í Stofuhita er ég með þessa stóru allegoríu að bera ógn kjarnorkusprengna kalda stríðsins saman við ógnina við gagnaleka í dag.

En svo er líka hægt að koma með minni dæmi. Stundum finnst mér svo magnað að í ljósi þess að við erum öll með snjallsíma í hendinni þá erum við í raun alltaf bara nokkrum ákvörðunum frá því að tortíma okkur. Við gætum tekið upp snjallsímann og skrifað tvít sem myndi tryggja fullkominn mannorðsmissi, allavega ef við myndum í kjölfarið henda snjallsímanum ofan í klósettið og aldrei fara á netið aftur. Ég sé þetta alveg fyrir mér. Skrifstofumaður missir vitið í augnablik, tekur upp símann sinn, og með hreinan losta fyrir sjálfstortímingu ritar hann niður eitthvað eiturspýjandi rugl uppfullt af kven- og kynþáttahatri og límir við frétt sem er í gangi og allir fylgjast með. Það er alveg hægt að gera þetta í 140 stafbilum. Að því loknu fer hann inn á klósett og sturtar símanum sínum niður, sest svo í bílinn sinn og keyrir upp í sumarbústað. Þegar hann snýr til baka tveimur vikum seinna bíða hans nokkur þúsund líflátshótanir, sumar jafnvel utan úr heimi, því eitt tvít getur í alvöru gert svo mikinn usla. Það er eins og sprengja að því leyti. Áður gátu svona romsur farið fram óséðar, og gerðu það í stórum stíl. Núna er það þannig að margt sem fólk hugsar gæti tortímt því ef taugaboðin skyldu leka fram í fingurgómana og þaðan á snjallsímalyklaborðið. Margir eru bara einu tvíti frá tortímingu. Ég er handviss um að margt sem fólk skrifar inn á lokaðar grúbbur á Facebook sé þess eðlis að ef það væri sett í annað samhengi fyrir augu almennings þá gæti það vakið upp hneykslunar tsunami í samfélaginu. Og stundum finnst mér svo kreisí að fólk sé jafn kærulaust með þetta og raun ber vitni. Í einn browser-gluggann er skrifuð hrikaleg athugasemd um fórnarlamb eineltis inn í lokaðan þráð, en í annan browserglugga er link á frétt um árveknisátak gegn einelti deilt á samfélagsmiðli.

Og stundum líður mér eins og við séum bara millimetrum frá stórri sprengingu. Mér líður þannig í alvöru, sérstaklega þegar stór mál koma upp í samfélaginu og allir eru að tjá sig. Ég er heillaður af tækni sem hefur svona mikil áhrif, jafnvel þó áhrifin séu tortímandi. Ég er hræddur við nútímatækni, ég hugsa að lesendur skynji það þegar þeir lesa bókina, þó að oft sé þunn lína á milli þess að vera heillaður og að hræðast. Þessar hugleiðingar set ég svo í samhengi við hvað mér finnst í raun ótrúlegt að fólk sé ekki sífellt að kveikja í. Ég skil ekki hvers vegna fólk er ekki upp til hópa brennuvargar því ekkert endurspeglar ástand manneskju betur en logandi eldur. Og niðurstaða mín er sú að fólk er í raun sífellt að kveikja í, en bruninn er öðruvísi en áður. Það er seigur bruni. Við verðum að viðhalda þessum seiga bruna til að koma í veg fyrir sprengingar. Við verðum öll að þola það að hjarta okkar brenni við stofuhita, þó það sé hvorki fallegt né rómantískt.

En varðandi þennan mann í sumarbústaðnum sem tvítaði hræðilega tvítinu þá má reyndar líka ímynda sér að þegar hann snýr aftur eftir tvær vikur þá séu allir búnir að gleyma hneykslinu, enda virðist samfélagið ekki hafa þrek í líku hlutfalli við ofsa, þegar kemur að siðferði – en það er önnur umræða. Svo er líka hægt að gera eins og Donald Trump og aftengja tortímingarkraft sprengjunnar með því að sprengja sífellt nýja sprengju á hverjum degi. Eitthvað segir mér samt að í hans tilfelli muni gamla góða karma frænka ná honum fyrir rest, en sjáum til.

En hvert vorum við komnir? Jú. Veistu. Það má alveg kalla Stofuhita ljóðabók, þó að ég muni kannski ekki gera það sjálfur og forlagið ekki heldur, þá get ég ekki sagt annað en að það opni skemmtilega vídd á umfjöllunarefnin.

OK, við erum eiginlega sammála. Þetta er eiginlega ljóðabók.