Líkamsmálið í bókinni Ég er hér, eftir Soffíu Bjarnadóttur, lítur ekki út fyrir að vera kryptískt, þvert á móti gefur allt fas textans til kynna að merking allra mynda blasi við. En þegar taugaveiklaður karlmaður les:
ég munda fallegasta vopnið
það hættulegasta
– þá stendur hann frammi fyrir óþægilegum efa: á hún við pennann, tungumálið, eitthvert orð, einhvern líkamshluta, tilfinningu, ástina sjálfa? Hvað er hættulegasta vopnið? – Þú verður að segja mér það, ég ræð ekki við svona gátur! Ef þessi taugaveiklaði lesandi gætir ekki að sér varpar hann öllum fyrri samskiptum sínum, sem karls, við kvenverur, í textann – það er ekki bara skáldið eða ljóðmælandinn sem er í sárum, eða fæst við sár, og ekki bara skáldið eða ljóðmælandinn sem mundar þetta fallega, hættulega vopn, enda er ekki til neitt sem heitir „bara ljóðmælandi“ – ljóðmælandi er alhæfð persóna, hversu tiltekin reynsla sem býr að baki ljóðinu: konan, karlinn, maðurinn, manneskjan, öldungurinn, unglingurinn. Persónan eða raunin að baki henni. Hér fæst konan við sárin sín, stundum ávarpar hún karlveru sem virðist eiga hlut í þeim. Annað hvort er ég óskalesandi þessarar bókar eða alls, alls ekki.
Bókin fæst við hreyfinguna niður – stundum hreyfinguna upp, og henni lýkur á uppleið – en ferðalag bókarinnar liggur fyrst og fremst niður. Við erum stödd, eins og kemur fram í fyrsta ljóði bókarinnar, í „hjóli þjáningarinnar“, sem er búddísk lýsing á jarðvistinni, hjól sem snýst án afláts, knúið áfram af fýsnum okkar og fávísi. Hjól er það sem fer upp um leið og það fer niður. „Við erum í hjóli þjáningarinnar. En þetta eru ekki slæm tíðindi.“
Þó að hjólið hreyfist óhjákvæmilega í báðar áttir er hver rim þess aðeins á einni ferð í einu. Lungann úr bókinni liggur okkar leið niður. „Reykelsisanga leggst yfir“, „Einn daginn óx trjágrein / niður af himni”, „Horfi á himininn / steypast yfir sjóinn // dáist að / endanlegu falli“, „ég leggst í vatnamosa“,
Gref mig niður
niður
Þetta eru fyrstu hreyfingarnar niður í bókinni. Enn erum við aðeins á sjöttu síðu ljóða, og gegnum bókina höldum við áfram niður, niður – niður í viðtengingarhætti: þú „tækir um höfuð mitt / reigðir það niður / niður“ en oftar í framsöguhætti: „Brýst út sem flóðbylgja / niður varir, höku, háls, myndar slóða“, alveg niður: „sekk án átaka án harmkvæla / friðsæl til botns“.
Fyrsta móthreyfingin, hreyfingin upp, liggur til þín, elskhugans sem bókin ávarpar:
Ég loka augunum
svíf hægt upp
í mjúka hvítuna
líkami minn
þinn
líkami þinn
minn
veggfóðraður
í himininn
(s. 31)
En þetta er minning, við vitum það. Eins og sakir standa erum við enn á leiðinni niður. Næst þegar eitthvað hreyfist upp lærum við lexíu um þá átt: leiðin upp er afar, afar hæg:
Það tekur mosa aldir að vaxa.
Við lærum það sem börn, þess vegna má ekki tæta mosann, ekki skilja eftir sár í landslaginu, á bakvið þessar breiður liggur aldalöng þolinmæðisvinna þrautseigrar náttúru. Hreyfingin upp er hreyfing þess sem grær – og það meikar sens því hreyfingin niður liggur í eða um sár:
og ég skrifa þér um aldir
um sárið þar sem ég bý
sárið sem ég hýsi.
(s. 12 – og ítrekað, lítið breytt, á s. 50)
— og eitthvað rifið:
lófi leitar
í rifið fóður
Önnur andstæðupör sem takast á eru ljós og myrkur – leiðin niður liggur inn og í myrkrið þar sem „eru engir ljósastaurar“, en leiðin upp liggur út og til ljóssins: „Mynd mín gegnsæ en skýr. Jafn skýr og sólargeisli frá guði. … Ég veit af hellinum fyrir aftan mig.“ Andstæðupörin eru hins vegar ekki öll þar sem þau eru séð, aftur og ítrekað falla þau saman, meðal annars í upphafi og endi bókar – í fyrsta ljóðinu með hugmyndinni um hjólið, sem hreyfist í báðar áttir í einu, og í síðasta ljóðinu, sem hljóðar svo:
Í gær heyrði ég að myrkrið væri ekki
andstæða ljóssins
myrkrið er
vagga ljóss
bjartast frá kviku
Þarna liggur leikur bókarinnar – því hún er full af leik, þrátt fyrir mæðuna og sárin – sem þegar nánar er að gáð leysir upp – nei, heldur flækir saman og dregur þannig dár að – andstæðunum sem hún ber fram. „Finndu hvítuna, birtuna, aðgangsharða valta yfir þig“ – birtan er ekki nauðsynlega eitthvað létt, eins og okkur annars hættir til að halda, heldur eitthvað þungt, eitthvað hættulega þungt.
Nálgun ljóðanna á líkamlega tilveru og nánd rasar að því er virðist hiklaust milli varfærnislegs orðfæris, jafnvel háleits en í það minnsta metafórísks og abstrakt, annars vegar, og þess klúra, hins vegar:
Ríddu mér aftur
í kok
ég gleypi
hvítar
leifarnar
af þér
– og þetta er nýtt, ekki vegna þess að dónaskapur hafi ekki áður sést í ljóðum heldur vegna þess að hér er ekkert dónalegt, heldur hefur ástinni áskotnast ný táknmynd eða öllu heldur nafnhvörf, ef ég man íslenskuna fyrir metonymy rétt: hér er hluti hafður fyrir heild, kokríðing fyrir ástina, og þó að það sé tongue-in-cheek, írónísk ögrun leiki um orðin, er hér ekkert sýnískt. Textanum gengur ekki til að hæðast að myndinni sem hann dregur upp. Þegar María mey birtisti í næstu línum er það ekki sem andstæða þess sem á undan fór heldur framhald. Mér dettur til samanburðar í hug ljóð Óttars Martins Norðfjörð fyrir rúmum áratug, þar sem hliðstæður klúrleiki er notaður í allt öðru augnamiði, að sýna hve heimur versnandi fer, jafnvel sem eins konar uppgjafaryfirlýsing ástarinnar á þessum síðustu og verstu.
Sem leiðir okkur aftur að hjóli þjáningarinnar: Ég er hér sprettur úr samtímanum og samtímans verður vart í myndum sem ekki hefðu birst í ljóðabók á öðrum tímum – en það er ekki kjarni málsins, birtingarmyndir löngunarinnar, bindingarinnar, aðskilnaðarins og þjáningarinnar eru tilfallandi, tími þessarar bókar er ekki samtíminn heldur einkatími, fastinn er þessi hreyfing, upp og niður, til og frá, líf sem tætir í sig líf, við sleppum ekki.
Skýrslugerð um tímabundna vanhæfni til skýrslugerðar: bókin birtir ástand lífs í átökum. Eins og það ástand er hún bæði brothætt og sterk, seig en inn í sig. Mynd innan úr djúpinu, af hreyfingunni niður, niður og möguleikanum upp.