Ég hef klæðst hömum fjölbreyttum
áður en ég hlaut minn búning endanlegan,
ég man það mjög vel.
Ég hef verið spjót gyllt þráðbeint,
ég trúi því sem mér er greinilegt,
ég hef verið tár á himni,
ég var hin dýpsta stjarna,
ég hef verið orð innan um stafi,
ég var í upphafinu bók,
ég var ljósum birta
í eitt og hálft ár.
Ég var eitt sinn brú
sem spannaði þrjá tigu fjarða.
Ég var braut, ég var örn,
ég var bátur sjómanns nokkurs.
Ég var í veislu gleðskapurinn,
ég var dropi í úrhelli,
ég var sverð í höndum kreist,
ég var skjöldur í orrustu,
ég var hörpustrengur
í níu ár.
Í vatninu, í froðunni,
ég var svampur í eldhafi,
ég var tré í dularfullum skógi.
Ég er ekki sá sem ekki syngur
um Bardagann, hversu smár sem hann er.
Ég mun syngja um það hvernig runnarnir börðust.
Til Guledig af Prydain,
sem er varðmaður fljótra hesta,
og stýrir stórum flota
gekk ófreskja með skolt mikinn
og hundrað höfuð
barist var undir tungurót hennar
líkt og barist var á höfði hennar.
Svört karta var það,
með hundrað klær.
Snákur, flekkóttur með kamb mikinn,
hundrað syndugar sálir
kvöldust í holdi hennar.
Ég var á Kaer Vevenir
hvar saman komu grös og jurtir.
Skáldin sungu,
vígasveitirnar voru undrandi
yfir upprisu Brythónanna
sem gjörði Gwyddyon.
Og við kölluðum til Skaparans
og til Krists til að dæma framgönguna
uns Eilífðin
vildi gjarnan hjálpa skepnum sínum.
Skaparinn svaraði
með röddu frumefna:
Takið ham trjáa
gangið í orrusturöð
færið úr flokki ykkar þá
sem ekki hafa reynslu af slagsmálum.
Svo urðu þeir allir að trjám,
og við það að vera ekki lengur tré,
hófu hamlaus trén upp röddu sína
í fjórum flokkum samhljóms.
Hlé kom í slaginn.
Látum linna átökum í dag!
Gegnum dyninn steig fram kona,
öllum ögrandi.
Hún var í fremstu víglínu óvinahersins.
Við misstum ekki móðinn
undir níðingsorðum svefnlausrar kerlingarbelju!
Blóðið skal ná okkur upp á mið læri!
Sterkustum þriggja stríðsmanna girndar
var sleppt lausum á heiminn
og við hættum að hugsa
um Flóðið
um Krist á Krossinum
og komandi Dómsdag.
Elrin, í fararbroddi,
mynduðu fremstu röð,
víðitrén og reyniviðurinn
stóðu þeim næst.
Hin sjaldséðu plómutré
ollu undrun manna.
Glænýr gljámispillinn
varð fyrsti vendipunktur orrustunnar
þyrnum prýddir rósarunnar
glímdu við mikla sveit.
Hindberjarunnarnir stóðu þétt saman
og urðu öðrum fremri við að sanna
hve líf mannsins er viðkvæmt.
Geitlauf og gjarðarurtir
ásamt bergfléttunni fremst í flokki,
gengu til orrustu með hvinviðnum.
Kirsuberjatréð lék sér að áskorendum sínum.
Björkin var, þrátt fyrir mikla andagift,
sett aftast í raðirnar,
ekki sökum heigulskapar
heldur einmitt hömluleysi hugrekkis hennar.
Gullregnið sannaði
sína villtu náttúru fyrir þeim ókunnugu.
Fururnar héldu sig framarlega,
í miðjum slagnum
nokkuð sem ég síðar lofsöng
í viðurvist konunga.
Álmurinn og hans valinkunnustu
færðu sig ekki fet.
Þeir slógust til miðju,
til hliðar og aftur.
Hvað valhnotuna varðar, má segja
að mikil var stríðsreiði hennar.
Gleðilegt var hlutskipti markarunnans,
hann varð stríðsbolinn, meistari heimsins.
Morawg og Morydd
unnu stórvirki í furuham.
Kristþyrnirinn varð þakinn grasgrænu
en hélt heilum hug.
Þyrnirunninn varðist á alla kanta
og var á höndum særður.
Öspin grisjaðist,
hún grisjaðist í slagnum.
Burknarnir voru niður troðnir.
Einirinn sem fremst fór
lauk slag særður í skurði.
Hvinviðurinn slapp ekki ómeiddur,
svo mjög breiddi hann úr sér um völlinn.
Beitilyngið slapp blessunarlega,
enda gætti það sín.
Múgurinn heillaðist
meðan yfir stóð orrusta mannanna.
Eikin stórstíga
lét skjálfa himinn og jörð.
Hún varð mjög til varnar gegn óvininum,
nafn hennar er tekið alvarlega.
Bláklukkurnar börðust,
og ollu usla,
en krömdust og kreistust.
Perutrén klufu í herðar niður
óvini sína á sléttunni.
Sökum þeirra ofbeldis
varð skógurinn allur ösku þakinn.
Kastaníutrén hlutu engan sigur
sökum feimni.
Svart varð rafið,
skruppu saman fjöllin
skógurinn allur grisjaðist
eins og forðum í miklum sjógangi,
eftir að heyrðist stríðsópið.
Laufþak bjarkarinnar huldi okkur
og hamskipti aftur vinsuðum og skrældum skrokkum okkar.
Eikargreinar töfruðu okkur
með seiðum Mael-Derws,
sem brosti undir stein.
Skaparinn er síst ástríðufullur eldhugi,
enda á hann hvorki föður né móður.
Þegar ég kem til lífs,
mótar skapari minn mig
af ávöxtum ávaxta,
af ávöxtum hins fyrsta Guðs,
af blómarósunum í hlíðinni,
af blómum trjánna og runnagróðursins,
af jörðu og hennar heimsins skaki
var ég mótaður
af blómum brenninetlu
af vatni hinnar níundu öldu.
Ég var af Math merktur
áður en ég gerðist ódauðlegur
ég var af Gwyddyon merktur
hinum mikla lausnara Brythóna,
af Eurwys og af Euron,
af Euron og af Modron,
af fimm sinnum fimm meisturum vísindanna
af vitrum börnum Maths.
Í miklum skilnaði
varð ég fyrir töfrum meistarans
þegar hann varð brenndur til hálfs.
Af hinum vitrasta vitring var ég merktur
áður en heimurinn var til,
um það leyti sem ég hlaut lífið.
Verðugt var fólk heimsins,
skáldin urðu af góðverkunum alsæl.
Ég hef hneigt mig fyrir dýrindis söng,
ég hef fullnægst að nóttu,
ég hef sofið í norðurljósi.
Ég var um borð í bátnum ásamt Dylan,
syni öldunnar,
í miðju fleti
í faðmi konungs
þegar vötnin líkt og óvænt regn spjóta
féllu af himnum ofan
lengst niður í undirdjúpin.
Í orrustunni verða fjórum sinnum tuttugu hundruðir.
Þeir munu fara með sínum vilja.
Enginn verður í þeim her
deginum eldri eða yngri en ég.
Kraftaverk: Hundrað menn fæðast,
hver þeirra eru níu hundruð manna með mér.
Sverði mínu var í blóði brynnt.
Ég hlaut mikinn heiður frá Meistaranum
og skjól þar sem hann var.
Gangi ég á vígstað Villigaltarins
semur hann, afsemur hann,
semur hann lofgjörð
hann, sem hefur nafn skínandi og hönd sterka:
með eldingu blæs hann móð í hermenn sína
sem dreifa sér sem sinueldur um merkurnar.
Efst á fjallstindi var ég snákur flekkóttur,
ég var naðra í tjörn,
ég var stjarna með gogg boginn,
ég var gamall prestur með bikar
í hökli.
Ég fer ekki með fleipur í spádómum mínum.
Gegnum þokur fjórar og tuttugu
spái ég um örlög hvers manns:
Fimm sinnum fimm menn gráir fyrir járnum.
Ég sá undir hné mínu
sex gula stóðhesta.
En hundrað sinnum betri
er hestur minn Melygan:
Hann er gæfur sem sjávarfug
sem heldur sig við lygna strönd.
Ég var hetja á blóði drifnum melum
innan um hundrað foringja.
Rauður er steinninn í belti mínu,
gullspengdur sköldur minn!
Þeir eru ekki enn djúpinu fæddir,
þeir sem fundu mig,
nema Goronwy frá sléttum Edrywy.
Fingur mínir eru langir og hvítir.
Langt er síðan ég hef lagt stund á preststörf.
Lengi gekk ég um jörðina
áður en ég varð fær vísindamaður.
Ég hef þvælst um týndur,
ég hef sofið í hundrað eyjum,
ég hef stigið villtan dans í hundrað borgum.
Ó, þið vitru drúídar,
spyrjið Arþúr
hver finnst í söngvunum
eldri en ég!
Einhver hlýtur að hafa velt fyrir sér Flóðinu,
fylgst með Krossfestingunni,
og vitað af komandi Dómsdegi.
Gimsteinn í gulli girtur,
ég er stórkostlegur,
ég er flinkur smiður.
ÍTAREFNI UM LJÓÐIÐ OG UM ÞÝÐINGU ÞESS Á ÍSLENSKA TUNGU
Höfundur ljóðsins er Taliesin. Hann var velskur Bard, Skáld, sem lifði á sjöttu öld. Bardar lærðu til söngs og galdurs og voru mörg ár í þjálfun. Taliesin er í dag vafalítið sá þekktasti þeirra og er það örfáum bókum sem sluppu við vargeld rómverja og víkinga að þakka. Ein sú bók heitir einfaldlega Bók Taliesins, handrit frá fjórtándu öld. Þar leynist þetta ótrúlega ljóð. (Til gamans má geta að Deep Purple skírðu aðra plötu sína eftir þessari bók). Til að reyna að ná tengslum við ljóðið verðum við að ferðast aftur í tíma, þangað sem kristni var ný, galdrar gamlir, og tengsl milli handanheima og áþreifanlegs raunveruleika mjög óskýr og loðin. Eins ber að hafa í huga að okkur skortir skilning á myndhverfingum þeim sem í ljóðinu finnast. Talnaspeki kelta og nöfn fornra kappa eru okkur merkingarlaus. Ljóðið er okkur í raun óskiljanlegt. En þar einmitt liggja vandamál og töfrar keltneska heimsins – rómverjum tókst ætlunarverk sitt og víkingarnir brenndu afganginn. Við skiljum þá ekki lengur, þessa fornfeður Evrópu. Við getum engu að síður velt þeim fyrir okkur og leyft þeim að veita okkur innblástur. Við gefum Taliesin orðið eitt augnablik:
Ég er sá sem hreyfir eldinn
til heiðurs Guðs Meistara…
Ég er skáld sem þekkir stjörnurnar
og syng
minn innblásna söng
við sólarlag á fallegum degi.
Innblásin er sannarlega Skógarorrustan, Cad Goddeau. Það er hennar upprunalega velska nafn. Þetta er mjög órætt ljóð um orrustu á Bretagneskaganum hvar Taliesin sjálfur og hetjan Gwyddyon, sonur Dôns, berjast ásamt herliði við nafnlausan óvinaher sem leiddur er af óþekktri konu. Þeim gengur illa í slagnum og neyðast með Guðs hjálp til að beita göldrum til að sigra. Gwyddyon breytir Bretónunum í tré og plöntur ýmsar og við það fer Skáldið Taliesin á blússandi ljóðaflug og segir okkur söguna. Hann fer svo á mikið tímaflakk með lesandann og útskýrir tilurð sína sem er hreint út sagt með ólíkindum. Sitthvað fann ég um nokkra þá sem ljóðið nefnir á nafn: Gwyddyon er töframaður og hetja. Hann leiðir her bretóna. Morawg er samkvæmt mínum rýru heimildum óþekktur en Morydd sem með honum fremur stórvirki í furuham er samkvæmt sumum heimildum faðir Töfraskáldsins Myrddin, sem við þekkjum sem Merlín. Hann kunni Sköpunarvísuna. Mikilvæg persóna í ljóðinu er Math ab Mathonwy, en hann er frændi Gwyddyons og fyrsti töframaðurinn á Bretlandseyjum. Nafn hans, Math, getur verið Fath eða Wath, og líkist Woten, germanísku nafni Óðins, og þar með Við, Wood, Wydd á velsku. Gaman væri að vita meira um konuna sem leiðir óvinaherinn en um hana fann ég ekkert. Aðeins er minnst á Villigöltinn göldrótta, og er það að öllum líkindum annaðhvor hinna frægu Twrch Trwyth eða Yskithyrwynn Pennbeidd (það veitir ekkert af tveimur göldróttum villigöltum). Nóg um þessa gelti. Töfrar ljóðsins duga alveg einir og sér.
Ég þýddi ljóðið í einum rykk seinnipart nokkurn á Eyrarbakka í desember 2014 sem hluta af jóla-og nýársbréfi til vina minna. Þýðingin er að mestu úr frönsku og er textinn fenginn úr bókinni “Les Celtes et la civilitation celtique – mythe et histoire” eftir Jean Markale, gefin út af Payot árið 1975. Til hliðsjónar hafði ég nokkra texta á ensku sem ég fann á netinu og eins notaði ég hinar og þessar orðabækur og wikipediur til að styðja mig í slagnum við hin fjölbreyttu plöntu-og trjáheiti sem skreyta ljóðið. Sumar setningar ljóðsins eru mjög óræðar – upprunalegi textinn virðist erfiður í þýðingu. Þá bar ég setningar saman úr ensku og frönsku og reyndi að fá hvað skýrasta niðurstöðu á milli þeirra – en þeir textar eru óræðir líka. Þessi þýðing er hratt unnin, hún var upprunalega ekki ætluð til birtingar, en Starafugl frétti af henni og fékk áhuga. Viti einhver um aðra þýðingu á þessu ljóði á íslensku, sem mér finnst ekki ótrúlegt að sé til, má gjarnan láta mig vita af henni. Ég geri að lokum tilvísun í Markale, sem tekur fram í bók sinni um keltana að Skógarorrustan, Cad Goddeau, skal ávallt lesin í heild sinni.