Þýðing: Jóhann Helgi Heiðdal

Síðasti frelsarinn (1933)

I

Nótt eina, á öld sem er löngu liðin, vaknaði maðurinn og sá sjálfan sig.

Hann sá að hann var nakinn undir stjörnunum, heimilislaus í eigin líkama. Rýnandi hugsanir hans leystu allt upp. Undur og stórmerki, hryllingur á hrylling ofan spratt fram í huga hans.

Þá vaknaði konan einnig og sagði að það væri kominn tími til að fara út og drepa eitthvað. Hann greip því bogann sinn, sem fenginn var í gegnum samstarf andans og handanna, og gekk út undir stjörnurnar. En þegar dýrin komu til vatnsbólsins, þar sem hann af gömlum vana beið þeirra, fann hann ekki lengur fyrir tígrinum í blóði sínu. Í hans stað var kominn mikill sálmur um sameiginlega þjáningu allra lifandi vera. Dag þennan kom hann ekki heim með feng og þegar þau fundu hann við næsta fullt tungl sat hann dauður við vatnsbólið.

II

Hvað gerðist? Rof í sjálfri einingu lífsins, líffræðileg þversögn, óhæfa, fáránleiki, ofþroski með hörmulegar afleiðingar. Lífið hafði skotið yfir markið og sprengt sjálft sig. Ein tegund var ofvopnuð – með anda sem hafði hingað til gert hana almáttuga, en var á sama tíma stórhættuleg fyrir velferð hennar. Þetta vopn var eins og sverð án handfangs og þverstangar, tvíeggja blað sem klýfur allt; en sá sem vill nota það verður að grípa um blaðið og snúa oddinum gegn sjálfum sér.

Þrátt fyrir nýju augun sín lágu rætur mannsins enn í efninu, sál hans var bæði samofin og undirlögð blindum lögum þess. En á sama tíma gat maðurinn litið á efnið sem eitthvað framandi, samsamað sig með öðrum fyrirbærum, séð í gegnum og staðsett sitt eigið atferli.

Hann kemur til náttúrunnar sem óboðinn gestur; árangurslaust réttir hann út hendur og grátbiður um að vera sameinaður skapara sínum. Náttúran svarar ekki lengur, hún skóp undur með manninum, en afneitaði honum í kjölfarið.

Hann hefur misst tilverurétt sinn í alheiminum, hann hefur borðað af tré þekkingarinnar og verið gerður brottrækur úr paradís. Hann er máttugur í nærumhverfi sínu, en bölvar mætti sínum, af því að gjaldið sem hann þarf að greiða er friður sálarinnar, sakleysið, vopnahlé í amstri lífsins.

Þar stendur hann með sína nýju sýn, svikinn af öllu, í forundran og angist. Dýrið þekkir líka til angistarinnar, í þrumuveðri og undir kló ljónsins. En angist mannsins beinist gegn sjálfu lífinu, já gegn eigin veru. Fyrir dýrinu snerist lífið um að eyða kröftum sínum, það var fengitími og leikur og barátta og hungur, og svo á endanum að gefast upp fyrir lögmálum nauðsynjarinnar. Hjá dýrinu takmarkaðist þjáningin við það sjálft. En hjá manninum snýst hún um heimsangistina og lífsörvæntinguna.

Frá fyrstu vegferð barnsins í gegnum á lífsins stendur foss dauðans hátt yfir dalnum, færir sig sífellt nær, og nagar, nagar gleði þess. Maðurinn lítur yfir jörðina, og hún andar eins og stórt lunga; þegar hún andar út, þá streymir yndislegt líf út um allar holur og teygir sig í átt að sólinni. En þegar hún andar inn, þá fer harmakvein í gegnum fjöldann, og líkin falla í jörðina líkt og haglél.

Hann sá ekki aðeins sinn eigin dag, kirkjugarðarnir mjökuðu sér inn í sjóndeildarhring hans og óp hinna gleymdu árþúsunda orguðu á hann, svívirtir, fallnir skuggar og mæður með brostna drauma. Tjald framtíðarinnar rifnaði og sýndi honum martröð af endalausum endurtekningum, tilgangslausum lífrænum úrgangi og rusli.

Þjáningar milljarða manna hafa óleysanlegt tak á honum í gegnum samúðina, frá öllu sem gerist streymir grín og háð sem beinist gegn réttlætiskröfunni, dýpsta prinsippi hans sem kemur á röð og reglu.

Hann sér sjálfan sig verða til í móðurkviði, hann réttir út hönd sína og hún skiptist í fimm hluta, hvaðan kemur þessi djöfullega tala, og hvað hefur hún að gera með sálina? Hann tekur sjálfum sér ekki lengur sem gefnum, hann finnur á eigin líkama hinn stærsta hrylling; þetta ert þú, hingað nærð þú og ekki lengra.

Hann fær sér máltíð, hann sem í gær var dýr sem gat sjálft hlaupið um. „Nú soga ég þetta upp og geri það að hluta af sjálfum mér – hvar byrja ég og hvar enda ég?“

Hlutirnir hlekkja sig saman í orsök og afleiðingu og allt sem hann vill ná taki á leysist upp fyrir tilstilli djúpra hugsana. Bráðum sér hann gangverkið á bakvið, jafnvel það sem var honum áður kært, líkt og bros hans heittelskuðu.

Að lokum eru eiginleikar hluta bara eiginleikar hans sjálfs. Ekkert er til án hans, allir vegir liggja aftur að honum sjálfum, heimurinn er aðeins draugalegt bergmál af hans eigin rödd – hann stekkur upp öskrandi hástöfum og vill kasta sér út með skítugu máltíð sína, hann finnur geðveikina koma og vill finna dauðann áður en hann missir getuna til þess.

En þegar hann stendur frammi fyrir dauðanum sem óhjákvæmilegt næsta skref, þá áttar hann sig einnig á tilveru dauðans og kosmískri merkingu skrefsins sem hann er að fara að taka. Fantasían sem hann býr til býður upp á hræðilega möguleika bakvið tjald dauðans og hann sér að jafnvel hér er engin undankomuleið. Og nú getur hann fylgt útlínunum á líffræðilegum-kosmískum aðstæðum sínum: hann er varnarlaus fangi alheimsins, hann er í geymslu til að vera fórnaður á altari nafnlausra möguleika.

Á þessu augnabliki finnur hann sig í viðvarandi örvæntingarástandi.

Slík „kosmísk örvæntingartilfinning“ er grundvallarþáttur í sérhverjum mannshug. Tegundin virðist eftir því sem næst verður komist vera dæmd til falls, þar sem allar skilvirkar leiðir til að varðveita og halda áfram með lífið eru útilokaðar þegar öll athygli og orka einstaklingsins fer í að umbera eða bægja burt þessa hörmulegu háspennu innra með sér.

Þetta, að tegund geti með ekki með góðu móti lifað vegna ofþroska einnar getu, er harmleikur sem er ekki einungis bundinn við manninn. Til dæmis hefur verið bent á að sumir hirtir í fornöld, gátu ekki haldið höfðinu uppi vegna þess að þeir þróuðu með sér of stór horn. Slíkar stökkbreytingar kasta sér blint fram án tillits til umhverfisins.

Mannshugurinn getur – á sorglegan hátt –  verið skilinn sem slíkt horn, sem í allri sinni stórkostlegri prýði klemmir eiganda sinn fastan við jörðina.

III

Hvers vegna er mannkynið þá ekki löngu útdautt vegna stórra geðveikisfaraldra? Hvers vegna er það tiltölulega fáir einstaklingar sem brotna vegna þess að þeir geta ekki umborið pressu lífsins, vegna þess að skilningurinn gefur þeim meira en þeir geta borið?

Bæði saga mannsandans og rannsókn á okkur sjálfum og öðrum gefur eftirfarandi svar til kynna:

Flestar manneskjur læra að bjarga sér með því að takmarka innihald meðvitundarinnar á listilegan hátt.

Ef risahjörturinn hefði reglulega brotið fremst af hornum sínum hefði hann kannski getað haldið út lengur. Í veikindum og sársauka að sjálfsögðu, gegn sínu eigin sjálfi, gegn þeim kjarna sem gerði hann einstakan. Því frá skaparans hendi fékk hann köllun um að vera fulltrúi vissrar dýrategundar. Það sem hann græðir þá í líftíma tapar hann í merkingu. Ferðalagið í gegnum lífið fer fram án vonar, hreyfing sem er ekki gegn viðurkenningunni. Öllu heldur dreifist hún yfir stöðugar rústir hennar; sjálfseyðandi kapphlaup við heilagan vilja blóðsins.

Hvernig tilgangur lífsins er samofin við fallið er, fyrir bæði risahjörtinn og manninn, tragíska þversögnin. Með áhrifaríkri sátt við hlutskipti sitt (Bejahung) bar síðasti Cervis Giganticus einkenni tegundarinnar allt fram til endalokanna.

Maðurinn bjargar sér sjálfur og heldur áfram. Hann býr til, ef við notum gamalt og mikilvægt hugtak í víðari merkingu, afmörkun á skaðlegri umfram meðvitund sinni. Þetta ferli á sér í rauninni stað samfellt, svo lengi sem við erum vakandi og vinnusöm, og skapar skilyrði fyrir félagslegri aðlögun og því sem almennt kallast heilbrigt og eðlilegt líf yfirhöfuð.

Geðlækningar gefa sér ennþá þá forsendu að hið „heilbrigða“ og góða fyrir lífið er það sama og það sem er persónulega hæst. Þunglyndi, „lífsangist“, átraskanir o.fl. eru án undantekninga skilin sem einkenni á sjúku ástandi og er meðferðin í samræmi við það. Í mörgum tilfellum eru þessi fyrirbæri tímabundin skilaboð frá dýpri og beintengdri tilfinningu fyrir lífinu sem á rætur í hinni and-líffræðilegu tilhneigingu, bitrir ávextir frá snilligáfu hugsunarinnar eða tilfinninganna.

Það er ekki sálin sem er sjúk, heldur vörnin sem annað hvort brestur eða er fjarlægð vegna þess að hún – réttilega – er skilin sem svik gegn hæstu getu sjálfsins.

Lífið í heild sinni – sem við horfum upp á í dag – er frá byrjun til enda undirlagt af afmörkunar aðferðum, félagslegum og persónulegum; við getum rakið þær alla leið til hversdagsins í sínum allra algengustu birtingarmyndum. Jafnvel þótt þær birtast á margan ólíkan hátt, virðist vera hægt að benda á að minnsta kosti fjórar höfuðgerðir, sem að sjálfsögðu birtast einnig í alls konar samspili: einangrun, akkering, truflun og tilfærsla.

Með einangrun á ég við algjöra útskúfun á truflandi og eyðileggjandi hugsunum og tilfinningum úr meðvitundinni. Full þroskuð og grimm getur hún birst hjá sumum læknum sem, í sjálfsvörn, sjá aðeins tæknilegu hliðar starfs síns. Hún getur einnig þróast út í hreina sóun, t.d. hjá venjulegum glæpamönnum og nemendum í læknisfræði, þar sem einhvers konar næmni fyrir tragískum hliðum lífsins leiðir til tilrauna til að útrýma henni með ofbeldi (fótbolti með kadaverhöfuð, o.fl.)

Í hinu daglega amstri birtist einangrunin sem samkomulag um gagnkvæma þögn. Fyrst og fremst fyrir barnið svo að það byrji ekki undir eins að vera hrætt við þetta líf sem það er nýbyrjað á, og getur í staðinn viðhaldið sjálfsblekkingum sínum þar til það þolir að missa þær. Á móti má barnið ekki pirra foreldra sína með óþægilegum spurningum um kynlíf, saur og dauða. Meðal hinna fullorðnu gildir reglan um „góðan tón“ og sem opin birtingarmynd af þessu getum við veitt því athygli að maður sem grætur út á götu er í framhaldinu fjarlægður af lögreglunni.

Akkeringarferlið er einnig til staðar frá því snemma í barnæsku: foreldrarnir, heimilið og nærumhverfið sem barnið elst upp í er tekið sem gefið og gefur barninu öryggistilfinningu. Þessi huggun, sem er mikilvæg upplifun, er fyrsta, og kannski hamingjusamasta vörnin gegn alheiminum sem við kynnumst á allri okkar lífsgöngu. Hér liggur án efa skýringin á hinni umtöluðu „tengingu barnsins“; spurningin um hversu miklu leyti hún er einnig kynferðislegs eðlis skiptir engu máli í þessu samhengi.

Þegar barnið uppgötvar seinna meir að þessir föstu punktar eru alveg jafn „tilviljunarkenndir“ og „hverfulir“ og allir aðrir, upplifir það krísu sem einkennist af ráðaleysi og angist og leitar það samstundis að nýju akkeri: „í haust byrja ég í 7.bekk“.

Ef skiptin virka ekki af einhverri ástæðu getur krísan annaðhvort farið í lífshættulega átt, eða framkallað það sem ég vil kalla akkeringarkrampa: ríghaldið er í dauðlegu gildin og falið er eftir bestu getu fyrir sjálfum sér og öðrum að þau eru gölluð, að maður sé andlega gjaldþrota.

Það sem fylgir í kjölfarið er varanlegur skortur á öryggi, „minnimáttarkennd“, ofmetnaður, stress. Að svo miklu leyti sem slíkt ástand fellur undir ákveðna flokka er það móttækilegt fyrir meðferð hjá sálgreinanda þar sem leitast er við að skipta um akkeri á farsælan hátt.

Hægt er að ímynda sér akkeringuna sem lagningu á föstum punktum, eða uppbyggingu á múr í kringum fljótandi óreiðu meðvitundarinnar. Venjulega á hún sér stað ómeðvitað, en getur einnig verið full meðvituð (maður „setur sér takmörk“). Akkeri sem virka almennt vel fá mikla samúð, sá sem „fórnar sér alveg“ fyrir sitt akkeri (fyrirtækið, málefnið) er gerður að fyrirmynd. Hann hefur myndað kröftuga mótstöðu gegn upplausn lífsins og aðrir njóta góðs af fordæmi hans.

Við sjáum þetta birtast á grimman hátt, sem meðvituð athöfn, hjá siðlausum bóhemum: „ganga skal í hjónaband snemma, þá koma takmarkanirnar af sjálfu sér“. Hér lætur maður líf sitt ráðast af nauðsyn. Augljóslega slæmum hlut er viljandi hleypt inn í þeim tilgangi að styðja við taugarnar, þétt ílát fyrir lífstilfinningu sem smám saman lekur sífellt meira. Ibsen kemur með prýðileg dæmi („lífslygar“) með Hjalmar Ekdal og Kandídat Molvik. Það er enginn annar munur á akkeringu þeirra og samþykki samfélagsins en sá að akkeri hins fyrra gefur ekki af sér neinar jákvæðar praktískar og efnahagslegar afleiðingar.

Sérhver menningarheild er stórt og afmarkað akkeriskerfi sem byggt er á grunnstoðum; hinum grundvallar menningarhugsunum. Meðal manneskjan kemst af með sameiginlegu burðartækjunum sem persónuleikinn byggir sér sjálfur, á meðan að úrvals manneskjan er hætt að byggja, aðallega vegna sameiginlegu burðartækjanna sem ganga í arf (Guð, kirkjan, ríkið, örlög, lífslög, fólkið, framtíðin). Því nær grunnstoðunum burðarstykki liggur, því hættulegra er það að hreyfa við því. Hér er reglan bein vörn í formi laga og hótana um refsingar (rannsóknarréttur, ritskoðun, íhaldssöm lífssýn.)

Burðarþol hvers einstaka stykkis fer annaðhvort eftir því hvort séð hefur verið í gegnum skáldskapareðli þess, eða hvort það er viðurkennt sem nauðsyn þrátt fyrir að það er orðið gagnsætt. Þannig er haldið áfram með trúarbragðarkennslu í skólanum, jafnvel framkvæmd af trúleysingjum, vegna þess að þeir sjá ekki neinn annan miðil sem fengið getur börn til að tileinka sér félagslegu hegðunarmynstrin.

Þegar séð er í gegnum skáldskap burðarstykkisins, eða þegar ónauðsyn þess er viðurkennt, er oftast reynt að skipta því út með nýju („takmarkaði líftími sannleikans“) – af þessu leiðir gjörvöll sagan um átök andans og menningarinnar sem, ásamt efnahagslegri samkeppni, fjörugt innihald mannkynssögunnar samanstendur af.

Græðgin í efnislega hluti (vald) stafar í rauninni ekki af þeirri ánægju sem ríkidæmi býður beint upp á; enginn getur setið á meira en einum stól eða borðað sig meira en saddann. Gildi auðsins liggur öllu heldur í því að hann býður upp á mikið úrval af akkerum og möguleikum til að beina athyglinni annað, sem eigandinn getur kosið að vild.

Í akkerismyndun hjá bæði samfélaginu og einstaklingnum er það svo að þegar einn hluti brestur fylgir í kjölfarið krísa sem er alvarlegri því nær grunnstoðunum stykkið liggur. Á hinu innra sviði, þar sem maður er í skjóli ytri klæðningarinnar, eiga slíkar krísur sér stað daglega og án teljandi sársauka („vonbrigði“); hér er jafnvel hægt að leika sér með akkerisgildin (brandarar, slangur, áfengi). En ef óvart er rifin hola alla leið í gegnum vegginn í slíkum leik, breytast aðstæðurnar á augabragði frá því að vera skemmtilegar yfir í hrylling. Tilveran starir í augun á okkur og með andvarpi dauðans rennur það upp fyrir okkur að mannshugurinn hangir í vef sem hann bjó til sjálfur –  og undir niðri liggur helvíti.

Sjaldnast heppnast það að skifta út grunnstoðunum án erfiðra félagslegra krampa og hættu á algjörri upplausn (siðaskiptin, bylting): Á slíkum tímum reiða einstaklingar sig í auknum mæli á eigin getu til að mynda akkeri, og fjöldi þeirra sem ekki umbera ástandið eykst. Þunglyndi, siðspilling og sjálfsvíg fylgja í kjölfarið (þýskir herforingjar eftir stríðið, kínverskir stúdentar eftir byltinguna).

En annar veikleiki í kerfinu er afleiðing af þessu sambandi, að á ólíkum og hættulegum vígstöðvum þarf oft að leggja gjörólíkar grunnstoðir.  Þegar þær eru svo byggðar upp á rökréttan hátt, endar það með árekstri á milli ósamrýmanlegra tilfinninga og hugsana. Í sprungunum á milli þeirra getur örvæntingin læðst inn. Í slíkum tilfellum getur manneskja orðið andsetin af eyðileggingarhvöt; hún aftengir sig gjörvöllu, listilega smíðuðu lífsverkinu og fær – vegna óttasleginnar andúðar – mikinn áhuga á að gera borðið hreint. Þessa tilfinningu má rekja til þess að öll varnaðar lífsgildin hafa tapast, og nú felst ánægjan í kærulausri samsömun með dýpsta leyndarmáli veru okkar; hinni líffræðilegu ósjálfbærni, hinni óumflýjanlegu tilhneigingu til falls.

Við elskum akkeri af því að þau bjarga okkur, en við hötum þau vegna þess að þau takmarka frelsistilfinningu okkar. Þegar okkur líður nægilega hraustlega þá er það af þeim sökum ánægjulegt að koma saman og leggja úreld gildi í gröfina með fullri tónlist undir. Efnislegir hlutir fá hér táknræna merkingu (róttæk lífsafstaða).

Þegar manneskja hefur útrýmt öllum þeim akkerum í kringum sig sem hún kemur auga á, og hefur aðeins þau ómeðvituðu eftir, skilur hún sjálfa sig sem persónu sem hefur öðlast frelsi.

Mjög vinsæl varnaraðferð er truflunin. Þá er athyglinni beint frá hinum hættulegu mörkum með því að halda henni upptekinni með sífellt nýjum skynjunum sem koma að utan. Þetta er venjulega til staðar strax í barnæsku; án leiðsögn er barnið einnig óþolandi fyrir sér sjálfu: „Mamma, hvað á ég að gera?“. Lítil ensk stelpa sem var í heimsókn hjá norskri frænku sinni kom út úr herbergi sínu og sagði: „Hvað gerum við nú?“ Stúlkubörnin urðu snillingar í augnablik: „Sjáðu voffann! Sjáðu þarna, það er verið að mála kastalann!“ Fyrirbærið er alltof vel þekkt til að þurfa frekari útlistun.

Truflunin er til dæmis lífstaktík betri borgaranna. Hægt er að bera hana saman við flugvél, sem búin er til úr málmi, en reiðir sig á náttúrulögmál sem heldur henni uppi svo lengi sem hún er á ferð. Hún verður að vera stöðugt á ferð, þar sem loftið getur aðeins borið hana í augnablik. Flugmaðurinn getur orðið sljór og latur af vana, en um leið og mótorinn fer er krísan aðkallandi. Taktíkin er oft full meðvituð. Örvæntingin getur legið beint fyrir neðan og brotist fram í losti, með skyndilegum gráti. Þegar öll tækifæri til truflunar eru fullreynd, hefur „lífsleiðinn“ innreið sína og nær hann frá mildu kæruleysi til banvæns þunglyndis. Konan, sem fyrir tilviljun er minna tilbúin til að viðurkenna sannleikann en karlmaðurinn og er því lífsöruggari, notfærir sér helst truflunina.

Það sem er sérstaklega slæmt við fangelsisvist er það að flestir möguleikar til að dreifa athyglinni eru teknir burt. Og þegar að ástandið býður einnig upp á fáa aðra möguleika til að bjarga sér, kynnist fanginn örvæntingunni. Þær aðferðir sem hann skuldbindur sig til, í þeim tilgangi að komast hjá síðasta þrepinu, liggja í meginreglunni sjálfri. Á slíku augnabliki upplifir hann sál sína í neindinni, og þar er ekkert að finna annað en afdráttarlausa ósjálfbærni ástandsins.

Í heilbrigðri menningu kemur lífsörvæntingin ekki oft upp á yfirborðið þar sem varnarhættirnir eru bæði flóknir, sjálfvirkir og virka langoftast sem skyldi. En þessi afmörkuðu svæði eru einnig dauðadæmd, hér er lífinu aðeins viðhaldið með erfiðum vandamálum. Dauðinn birtist alltaf sem útgönguleið, en lætur möguleikann um framhaldslíf standa opinn. Þegar upplifunin af dauðanum veltur á því hvernig maður finnur fyrir honum og sér hann, getur þessi lausn verið nokkuð ásættanleg. Og ef það heppnast í statu mortis að viðhalda ákveðinni stellingu (ljóði, bendingu, „að deyja standandi“), það er, eitt loka akkeri eða truflun („dauði Aases), þá eru þessi örlög alls ekki þau verstu sem hægt er að hugsa sér. Dagblöðin, sem þjóna hér þöggunarferlinu til tilbreytingar, leitast alltaf við að finna skýringar sem vekja ekki upp áhyggjur – „sagt er að síðasta minnkun á hveiti…“

Þegar manneskja tekur eigið líf í þunglyndi er það náttúrulegur dauði hvers orsök liggur í sálinni. Nútíma villimennska sem leitast við að „bjarga“ þeim sem ætla að fremja sjálfsvíg er byggð á skelfilegum misskilningi á eðli tilvistarinnar.

Einungis lítill hluti mannkyns getur spjarað sig með „breytingunni“ einni saman, hvort sem það er vinnan, félagslegt samneyti eða skemmtanir. Maður andans krefst þess að breytingarnar hafi samhengi, línulega framþróun.  Ekkert endanlegt er hægt að friðþægja til lengdar, farið er eilíflega áfram, safnað færni, komið sér upp starfsferil. Fyrirbærið nefnist „þráin“ eða „tilhneiging til að fara yfir mörkin“. Þegar takmarki er náð, flytur þrá manns yfir á næsta stað; það er ekki takmarkið sjálft sem hefur gildi, heldur afrekið – ekki hin mikla hæð heldur fall lífsferilsins niður á við. Stöðuhækkunin frá óbreyttum til korprál getur haft meira upplifunargildi en frá ofursta til hershöfðingja.

Öll ástæða til „framfararbjartsýni“ er útilokuð af þessu fyrsta sálfræðilega lögmáli. Hin mennska þrá einkennist ekki bara af „baráttu gegn“, heldur einnig í jafn miklum mæli af „flótta frá“. Og ef við notum orðið í trúarlegri merkingu, þá verður síðasta einkennið það eina mögulega. Af því að hér hefur enginn hingað til haft það á hreinu hvað hann vildi, en alltaf verið skýr á því hvað hann vildi ekki, einmitt hinn jarðneska táradal, þ.e., eigið ósjálfbæra lífsástand.

Ef þessi tilfinning, sem sett var fram ofar, er dýpsta lag sálarinnar, þá er einnig hægt að sýna fram á að trúarlega þráin er grundvallar tilfinning og upplifun. Vonin um að hún sé guðdómlegt viðmið sem felur í sér loforð um eigin staðfestingu er hinsvegar sett í virkilega sorglegt ljós með þessum forsendum.

Hvað varðar fjórða örvæntingarmiðilinn, tilfærsluna, þá snýst hún meira um umbreytingu, frekar en útrýmingu. Með hjálp hæfileika og stíls getur sjálfur lífssársaukinn í sumum tilfellum verið breyttur í upplifunargildi. Jákvæðar hneigðir koma þar til og notfæra sér það vonda í eigin tilgangi með því að hengja sig á hliðar hins listræna, dramatíska, hetjulega, lýríska eða kómíska.

Án þess að þjáningin hafi tapað skarpasta broddi sínum á annan hátt, eða er ekki enn orðin einráð í huganum, getur svona nýting þó varla dugað mjög langt. Fjallaklifrarinn nýtur ekki útsýnisins yfir jörðina á meðan að hann er við að kasta upp vegna svima, aðeins þegar þessi tilfinning er sigruð getur hann notið útsýnisins – með akkeri. Til að skrifa harmleik verður maður fyrst á vissan hátt að losa sig við – svíkja – sjálfa harmleiks tilfinninguna, til þess að geta virt hana fyrir sér frá öðru sjónarhorni sem kemur utanfrá, t.d. fagurfræðilegu. Hér er hins vegar boðið upp á villtasta hringdans í gegnum sífellt nýja íróníska verkstjóra – „vítahring“ (circulos vitiosus) af mest niðurlægjandi toga. Hér getur maður farið á hundaveiðar með eigið sjálf yfir fjölmörg héruð og nýtt sér að fullu getu meðvitundarinnar til að útrýma sjálfri sér.

Núverandi grein er dæmigerð tilfærslu tilraun. Höfundurinn þjáist ekki, hann skrifar og skrifar og verður gefinn út í tímariti. Tilfærslan er þó sjaldgæfust af þeim varnarháttum sem hér eru til umræðu.

IV

Er það mögulegt fyrir „frumstæðar náttúrur“ að spjara sig án allra þessara krampa og kippa og lifa í samhljómi með sjálfum sér í ótruflaðri vinnugleði og ást? Að svo miklu leyti sem þessi lýsing á við manninn, tel ég að svarið verði að vera nei. Það besta sem hægt er að segja um t.d. nátturufólk er að þau eru einu skrefi nær hinni fallegu líffræðilegu hugsjón en við ó-náttúrufólk. Og jafnvel þótt að okkur hafi hingað til tekist að koma meirihlutanum í gegnum alla stormana, þá höfum við einmitt fengið stuðning frá þeim hliðum náttúru okkar sem eru lítið eða passlega þróaðar. Jákvæða grundvöllinn (vörnin ein og sér getur jú ekki framkallað líf, aðeins hindrað það í að slökkna) þarf að sækja í þær líkamlegu athafnir sem hæfa náttúrunni og þann hluta af sálarorkunni sem er undirgefinn líffræðinni. Þetta þarf að gera þrátt fyrir erfiðleika sem stafa einmitt af takmörkun skilningarvitanna og nauðsyn vinnunnar fyrir uppihald lífsins og ástarinnar.

Og það er nákvæmlega á þessu afmarkaða sviði hamingjunnar, fyrir innan mörkin, sem síaukin siðmenning, tækni og stöðlun hefur svo skemmandi áhrif. Því í takt við að stærsti hluti skilningsgetu okkar yfirflæðir í samspilinu við umheiminn eykst atvinnuleysi sálarinnar. Gildi tækniþróunar fyrir lífsstarfið í heild verður að dæma eftir getu þess til að gefa manninum tækifæri til að auka starf sálarinnar. Mörkin eru óljós, en fyrstu skurðartækin eru kannski dæmi sem hægt er að nefna um slíka jákvæða uppfinningu.

Allar aðrar tækninýjungar hafa ekki gildi fyrir líf neins annars en uppfinningamanninn sjálfan; hann er sekur um grófan og tillitslausan þjófnað frá upplifunarforða alls mannkyns og – ef hann þráast við þrátt fyrir neitunarvald ritskoðunarinnar – ætti að fá hörðustu refsingu. Annar glæpur meðal margra annarra af þessum toga er notkunin á flugvélum til rannsókna og kannananna sem þjóna óljósum tilgangi. Með gráðugri munnfylli gerir maðurinn á þennan hátt út af við ríka möguleika á upplifunum sem hefði getað komið mörgum til góða ef einhver – með kvarti og kveini – gæfi upp veglegan skammt sinn.

Krónísk veikindi nútímans einkennast sérstaklega af því sambandi sem var verið að snerta á. Skorturinn á náttúrulega (líffræðilega) grundvallaðri starfsemi sálarinnar birtist meðal annars í hinum stóra flótta í truflunina (skemmtanir, íþróttir, tónlist – „taktur tímans!“). Akkeringin hefur verri skilyrði – öll erfðu, sameiginlegu akkeringskerfin eru holótt af gagnrýni og angist; leiði, ráðaleysi og örvænting smeygja sér í gegnum rifurnar líkt og lík í lestinni.

Kommúnisminn og sálgreiningin, hversu ósamrýmanleg sem þau annars eru, leitast bæði (kommúnisminn hefur jú einnig sína andlegu íhugun) við að breyta enn og aftur hinni gömlu útgönguleið með nýjum hjálpartækjum: með – í þessari röð – ofbeldi, list og því að gera manninn líffræðilega nothæfan með því að leysa hann úr snöru hins hættulega skilnings ofþroskans. Í báðum tilfellum er hugmyndin hryllilega rökrétt. Meðvituð hnignun til praktískari og meira viðeigandi mælikvarða myndi auðvitað bjarga tegundinni fyrir horn. En maðurinn myndi ekki, vegna eigin veru, geta fallið í ró í slíkri uppgjöf – eða fallið í ró yfirhöfuð.

V

Ef við tökum þessar hugleiðingar út á bitru endastöðina, er enginn vafi um niðurstöðuna. Svo lengi sem mannkynið heldur áfram í þessari örlagaríku blekkingu, að það er líffræðilega skapað til þess að sigra, er veruleg breyting ómöguleg. Á sama tíma og fólksfjöldinn eykst og andrúmsloft sálarinnar þrengist munu varnarhættirnir neyðast til að taka á sig sífellt grimmari mynd.

Og maðurinn mun halda áfram að dreyma um frelsi og viðurkenningu og nýjan frelsara.

En eftir marga slíka frelsara, þegar verið er að reka suma á hol með trjám og aðrir eru grýttir á torgum, þá kemur síðasti frelsarinn.

Þá stígur fram sá maður, sem fyrstur allra þorði að bera sál sína og beina henni lifandi út til ystu hugsana ættbálksins, til sjálfrar hugmyndarinnar um fallið. Ungur maður sem hefur uppgötvað lífið í sínum kosmíska grunni, og hvers sársauki er sársauki jarðarinnar. Þvílíkt öskur frá múgnum sem krefst þess að hann verði drepinn þúsund sinnum þegar rödd hans umlykur jörðina líkt og slíðri, og þessi framandi boðskapur heyrist í fyrsta og eina skiptið:

Alheimurinn er kraftmikil á, en á jörðinni er laug með kyrru vatni.

Fallið er skrifað á enni yðar – hversu lengi viljið þið rekast í oddinn? En það er einn sigur og ein kóróna og eitt frelsi og eitt svar.

Þekkið yður sjálf – verið ófrjósöm og leyfið jörðinni að falla í hljóða á eftir yður.

Og þegar hann hefur svo mælt munu þau stökkva á hann, snuðframleiðendurnir og ljósmæðurnar fremst í flokki, og jarða hann undir nöglum sínum.

Hann er síðasti frelsarinn. Eins og sonurinn kemur á eftir föðurnum, kemur hann á eftir bogamanninum við vatnsbólið.

Frá þýðanda:

Peter Wessel Zapffe fæddist árið 1899 í Tromsø í Noregi. Hann lagði fyrst stund á lögfræði áður en hann taldi sig þurfa að takast á við heimspekina og stærstu spurningar lífsins seinna á lífsleiðinni. Hann hafði þó hæfileika á ýmsum sviðum og skrifaði, fyrir utan heimspekiverk, einnig smásögur, leikrit, ljóð og ritgerðir um ýmis efni. Zapffe hallaðist alla sína tíð að skáldskapnum, það sést ekki einungis í eftirfarandi texta, það átti t.d. einnig við á meðan hann var í lögfræðinámi, en hann vakti nokkra athygli fyrir að skila þar inn lokaritgerð í ljóðaformi. Er sú ritgerð enn til sýnis í Oslóarháskóla. Eftir að hann lauk doktorsnámi hafnaði hann prófessorsstöðu og lifði alla sína ævi að mestu leyti af ritstörfum, en tók þó stundum að sér stundakennslu í rökfræði við Oslóarháskola. Hann var alla sína tíð mjög ástríðufullur fjallaklifrari og fjalla mörg skrif hans um þessa iðju, ásamt því að hún hafði mikil áhrif á heimspeki hans. Zapffe dó árið 1990 í Asker í Noregi.

Textinn sem hér birtist er mun styttri útgáfa af doktorsritgerð hans Om det tragiske sem kom út í skugga seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1941. Er verkið greining á helstu harmleikjum bókmenntasögunnar þar sem Zapffe dregur víðtækar heimspekilegar afleiðingar fyrir tilvistina. Í stuttu máli er afstaða Zapffe sú að mannleg tilvist sé tragísk þversögn og slys náttúrunnar. Náttúran lætur okkur í  skaut ýmsar þarfir og er auðvelt að uppfylla þær flestar, t.d. næring, skjól, samskipti, o.s.frv. En meðvitundin, sem einungis maðurinn býr yfir, hefur innbyggða þörf fyrir skilning, tilgang og viðurkenningu sem ómögulegt er að uppfylla. Náttúran skaut þannig langt yfir markið og veitti manninum eiginleika sem er – þegar allt kemur til alls – uppspretta hryllings. Meðvitundin leiðir óhjákvæmilega til tilgangs- og merkingarleysi lífsins – eitthvað sem önnur dýr eru fullkomlega laus við. Hann telur því manninn vera þversögn í þeim skilningi að meðvitundin gerir hann brottrækan úr dýraríkinu, þar sem hann á þó heima, og neyðir hann til þess að eltast við ómöguleg takmörk.

Sýn Zapffe á tilvistina er því neikvæð svo ekki sé meira sagt. Spurningin sem vaknar þá óhjákvæmilega er auðvitað sú hvernig lífið geti yfirhöfuð gengið, hvernig svo margir komist í gegnum það yfirhöfuð, ef þetta er raunin? Svar Zapffe við því er að bæði einstaklingurinn og samfélagið búa til ýmsar varnir gegn sínum eigin hugsunum og koma þannig í veg fyrir að tilgangsleysi og hryllingur lífsins er skilinn með fullum hætti. Í eftirfarandi texta útlistar hann og greinir fjóra megin varnarhættina sem notaðir eru til að bæla eða bægja burt hryllingi tilvistarinnar.

Sökum neikvæðrar sýn sinnar á tilvistina aðhylltist Zapffe „and-natalisma“, stefnu sem gengur út á að mannkynið ætti að hætta að fjölga sér. Taldi hann því að mannkynið ætti kerfisbundið að útrýma sjálfu sér smám saman. Er það eina leiðin út úr vonlausu ástandi mannlegrar tilvistar að hans mati. Var hann samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann og kona hans til fjörtíu og sjö ára eignuðust engin börn.

Ásamt norska heimspekingnum Arne Næss, sem var vinur hans og kollegi, var Zapffe einnig umhverfisverndarsinni þegar sú stefna, eins og við þekkjum hana í dag, var á byrjunarstigi. En sumir gagnrýnendur hans vilja einmitt meina að hugsjónir umhverfisverndarinnar séu í mótsögn við heimspeki hans.

Neikvæð og svartsýn heimspekileg afstaða Zapffe virðist kannski við fyrstu sýn vera svo róttæk og einkennileg að hann hljóti að standa einn á báti, einhvers staðar yst á jaðrinum í heimspekisögunni. En hugsun hans á sér þó sterkar rætur í henni og er hún í raun í beinu framhaldi af einhverjum stærstu og mest lesnu heimspekingum sögunnar. Stærsti áhrifavaldur hans var t.d. Schopenhauer. Zapffe gagnrýndi hann þó harkalega fyrir að ganga ekki nógu langt í svartsýni sinni með því að bjóða upp á lausn frá þjáningu tilvistarinnar, þó tímabundin sé, í formi fagurfræðilegrar ánægju. Aðrir áhrifavaldar voru Nietzsche og Freud, en finna má þó nokkrar vísanir í þá báða í eftirfarandi texta, sérstaklega geðveikina sem Nietzsche endaði ævina í. Raunar mætti segja að hún svífi yfir vötnum og sé í bakgrunninum í gegnum hann allan.

Áhugavert er að hafa í huga að Zapffe gaf út höfuðverk sitt, Om det tragiske, svo til á sama tíma og Sartre kom fram á sjónarsviðið með tilvistarstefnuna. Þrátt fyrir að tilvistarstefnan sé í grunninn heimspeki bjartsýni og því á vissan hátt andstæð heimspeki Zapffe,  þá er ljóst að þeir eiga einnig margt sameiginlegt. Í báðum tilvikum er maðurinn skilinn sem vera sem kastað er inn í ókunnugt og framandi umhverfi þar sem hann þarf að spjara sig sjálfur án leiðarvísis. Angist er lykilhugtak hjá þeim báðum. Þeir fjalla einnig báðir um hinar ýmsu aðferðir sem sjálfsveran notar til að blekkja sjálfa sig og leyna óþægilegum sannleika um tilvistina. Stór ástæða fyrir þessum líkindum er að sjálfsögðu sú að báðir koma þeir úr sama jarðvegi róttækra samfélagsbreytinga og efa um vestræna siðmenningu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Hugsun Zapffe ætti að mati þýðanda að vera skilin sem angi af tilvistarstefnunni, þó hann hafi tekið hana í áttir sem Sartre, de Beauvoir,  Camus og Heidegger hefðu verið ósammála.

Það eru vissulega mjög fáir sem eiga eftir að fylgja Zapffe að máli. Hugsun hans er þó þess verð að kynna sér af a.m.k. tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi er hún áhugavert framlag til fjölbreytileika heimspekisögunnar. Heimspekin ætti að skoða allar hliðar mannsins og tilvistarinnar, sama hversu óþægilegt það kann að vera. Þrátt fyrir að langflestir muni (vonandi) hafna ályktunum Zapffe og sýn hans á tilvistina, þá vekur hann upp ýmsar mikilvægar spurningar á áhrifaríkan hátt og fær lesandann til að takast á við þær. Óhætt er að segja að fáir heimspekingar hafa gengið jafn óhræddir til verks í því að fylgja sannfæringu sinni til enda – sama hvert hún leiddi.

Í öðru lagi telur þýðandi að líta ætti á svartsýnisheimspekina – hefð sem telur m.a. hann og Schopenhauer – á svipaðan hátt og efahyggjuna. Alveg eins og að efahyggjan og óttinn við hana hefur í gegnum heimspekisöguna verið uppspretta innblásturs fyrir marga stærstu og áhrifamestu heimspekinganna, t.d. Sókrates, Descartes, Kant og Husserl, þá ætti einnig að taka svartsýnisheimspekina alvarlega sem áskorun. Því það er alls ekkert augljóst eða sjálfgefið að lífið sé þess virði að lifa og hafi tilgang eða merkingu. Þetta ætti að vera eitt helsta viðfangsefni heimspekinnar, eins og tilvistarspekingarnir vildu meina. Gildi Zapffe liggur ekki síst í því að færa hugsun lesandans inn á þessa braut, hjálpa honum að skilja þetta viðfangsefni í nýju ljósi og spyrja óþægilegra spurninga.