Á YSTU NÖF
faðir þinn fálki
móðir þín rjúpaog tólf ár á milli þeirra
aldur er ekki gjá
sem hægt er að svífa yfirþau þurftu að kallast á
hvort frá sinni brúnmóðir þín hætti snemma
að fella fjaðrirog þegar hún fór að sýna
sig í hvaða ham sem erflaug ránfuglinn úr
augum föður þínsog hann fljótt á eftir
í leit að nýrri bráð
Föstudaginn 13. síðastliðinn kom út fyrsta ljóðabók Fríðu Ísberg, Slitförin. Um Fríðu segir á heimasíðu forlags hennar:
„Fríða Ísberg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, og grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist frá Háskóla Íslands. Fríða hefur áður birt ljóð í bókinni Ég er ekki að rétta upp hönd og í Tímariti Máls og Menningar. Hún skrifar bókagagnrýni fyrir Times Literary Supplement og var einn af ritstjórum Meðgöngumála, smásagnaseríu Partusar. Árið 2017 hlaut Fríða nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta og þriðju verðlaun í Ljóðstaf Jóns úr Vör.“
Þetta er það sem segir um þig á heimasíðu Partus, upptalning sem ég stal til að fólk vissi hver þú værir. Og svo er ég búinn að koma því á framfæri að þú hafir verið að gefa út ljóðabók. Ertu sátt við þetta eða langar þig að bæta einhverju við?
Svo var ég líka með hlaðvarpsþáttinn Póetrý Gó? Með Brynju Hjálmsdóttur. Podcast um göngutúra og ljóðlist. Hann er ennþá inni á Alvarpinu, fyrir áhugasama.
Póetrý Gó: http://nutiminn.is/alvarpid/poetry-go/
OK, ég ætla að byrja á því að spyrja þig út í Ég er ekki að rétta upp hönd sem þið Svikaskáldin gáfu út fyrr í ár.
FYRST OG FREMST SKÁLD
Svikaskáldin eru þú ásamt:
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir,
Melkorka Ólafsdóttir
Sunna Dís Másdóttir,
Þórdís Helgadóttir,
Þóra Hjörleifsdóttir
Mér skilst að það sé nánast ómögulegt að vera listakona og vinna með öðrum slíkum án þess að einhver sé tilbúinn að skilgreina það sem femínískan gjörning án þess að hafa eitthvað annað fyrir sér en að þarna séu jú konur að vinna saman – eflaust oft erfitt fyrir listakonur. En ég verð samt að spyrja: Hvers vegna varð þessi hópur til?
Skemmtilegt að þú spyrð „hvers vegna,“ frekar en „hvernig“. Svikaskáld urðu til af því að við þurftum að gefa út ljóð. Gera eitthvað. Við ákváðum að fara saman upp í sumarbústað og skrifa bók. Hún átti svo að koma út mánuði síðar. Þetta var uppreisn gegn fullkomnunaráráttunni og svikaraheilkenninu – að líða eins og kona sé aldrei nógu góð. Ég er ekki að rétta upp hönd vísar til þess en á sama tíma að nú neituðum við að bíða lengur eftir orðinu. Við tókum orðið.
Svo er spurning með femínismann. Við vorum uppteknar af því að þetta yrði fyrst og fremst ljóðabók. Punktur. En auðvitað vorum við þarna sex konur samankomnar, óneitanlega í einhversskonar vígahug. Mér finnst ákveðinn munur á kvenlægu verki og femínísku verki. Það er meiri aktívismi í því síðara. Að sama skapi myndi ég ekki skilgreina okkur sem femínískt ljóðakollektív, þó að við séum allar femínistar. Kannski tengist þetta kröfu femínismans að vera fyrst og fremst manneskja. Sem skáld erum við fyrst og fremst skáld. Ekki fyrst og fremst konur.
Haha, ég verð þá að spyrja þig næst: Hvernig varð þessi hópur til? Hvernig völdust manneskjurnar í hópinn?
Ég var fengin sem ritstjóri fyrir bók sem nokkrir krakkar úr ritlistinni ætluðu að gefa út. Það hefði orðið svona höfundaskipt safnbók. Í þeim hópi voru meðal annars Ragnheiður Harpa, Þóra og Melkorka. Svo duttu strákarnir út og við fjórar hittumst í bröns og ræddum málin. Ég fékk inngöngu í hópinn sem skáld. Við ákváðum að byrja frá grunni. Hringdum í Þórdísi og Sunnu og spurðu þær hvort þær vildu koma með okkur upp í bústað til að skrifa bók, fyrstu helgina í febrúar. Engar frekari útskýringar, þannig. Þær sögðu báðar já.
Þú segir: „Það hefði orðið höfundaskipt safnbók“ Mér finnst einmitt áhugavert hvernig bókin er uppsett. Það er ekki mikil áhersla lögð á höfundinn, textarnir flæða einhvern veginn allir saman og maður þarf að hafa fyrir því að fletta aftast til að sjá hver er hvað. „Hefðbundin safnbók“ myndi með mjög skýrum hætti tilkynna manni að hér sé nýr höfundur. Það var semsagt með vilja gert?
Já, við vildum að bókin yrði lesin sem heildarverk, því hún var skrifuð þannig. Í sumarbústaðinum vorum við með þétta dagskrá; ein fékk orðið í tíu mínútur með stökkpall eða hugleiðingu og svo voru skrif í klukkutíma. Ég veit ekki með þig, en þegar ég les höfundaskiptar safnbækur, þá hef ég alveg gerst sek um að lesa bara eftir höfundana sem ég þekki eða held upp á.
Jú, jú, ég myndi líka byrja að lesa höfundana sem ég þekki…
HUGSAÐI FREKAR UM ORÐSPOR FORELDRA SINNA EN SJÁLFA SIG
Sigurður Pálsson ritstýrði nýju ljóðabókinni þinni Slitförin. Hvernig kom það til?
Ég byrjaði að skrifa handritið „Vindhani“ um sumarið 2015, og það átti að verða Meðgönguljóðabók sem Kári Tulinius ritstýrði. Það handrit var í besta falli hræðilegt. Aumingja Kári. Svo fór ég í ljóðatíma til Sigurðar í ársbyrjun 2016. Valhoppaði heim af uppljómun og skrifaði elsta ljóðið í bókinni, „Þegar pabbi hringir til að spyrja um veðrið.“ Svo leið önnin og ég skrifaði fleiri ljóð í þeim dúr. Mér datt í hug að ég gæti fengið ljóðahandritið metið sem 10 eininga lokaverkefni. Bað um Sigga. Hann sagði nei. Svo liðu nokkrir mánuðir. Ég spurði aftur. Siggi sagði já. Handritið vatt upp á sig, breytti um nafn og varð að 30 eininga MA verkefni í ritlist.
Ég þekkti Sigurð afar lítið, en hann kenndi mér ljóðagerð fyrir tíu árum síðan. Mér fannst ótrúlegt að ég gat hent í hann einhverju hrafnasparki og hann fann ljóðrænuna – hann virtist geta fundið hana allstaðar og beint manni á rétta braut.
Hvernig var samstarfið? Hversu mikið breyttist handritið í samtali ykkar?
Siggi var bara á annarri bylgjulengd en við hin. Handritið tók vissulega stakkaskiptum meðan á ferlinu stóð en frekar út frá skriflega partinum heldur en ritstýringu. Semsagt: Framleiðslan breyttist, frekar en að eftirvinnslan hafi breytt handritinu. Þetta væri ekki sama handrit án Sigurðar Pálssonar. Siggi fann hnúta í ljóðunum sem þurfti að leysa, en það voru miklu frekar samtölin í kring um verkið sem einkenndi samstarfið. Hann sjálfur hafði auðvitað skrifað þrjár minningabækur um uppvaxtarárin.
Hvernig er Slitförin um uppvaxtarár?
Slitförin tekst á við ungling á tímum einstaklingshyggjunnar. Öll eigum við að verða eitthvað. Spurningin er ekki að lifa af, heldur lifa vel. Það er blessun og bölvun velmegunarinnar. Þaðan sprettur kvíðinn. Örvænting þúsaldarkynslóðarinnar er að finna ekki sjálfa sig. Og svo eru auðvitað vensl unglingsins við foreldrið. Það er nánast ekki hægt að skrifa um hvað unglingurinn velur án þess að skrifa um það sem hann hafnar. Mótþrói gagnvart foreldrinu er nauðsynlegt skref unglingsins til að verða að eigin sjálfi. Sarga naflastrenginn sjálfur í sundur.
lyklar
við yfirgefum sorgina
með því að ganga inn í annað herberginaflastrengurinn
stendur út
hún kveikir á eldspýtunniog þú ýtir maganum fram
tveir lyklar ganga að sorginni:
við stingum þeim upp í okkurskolum niður með saltvatni
glennum síðan upp skoltana
til að sýna að allt sé fariðhvorug grunar hina
um undanbrögð
Bernskuminningarnar í bókinni gera textana (þú afsakar) mjög persónulega, en á sama tíma mjög framandi. Ljóðmælandinn ert þú, en samt alls ekki. Maður er aldrei það sem maður var, og gloppóttar minningar búa til fjarlægð, jafnvel draumkennt ástand. En á sama tíma er fátt eins persónulegt, og lýsandi, og hvernig maður man fortíðina, eða er tilbúinn til að lýsa henni.
Já, einmitt. Slitförin er mjög persónuleg en jafnframt skálduð ljóðasaga. Ég þurfti að taka söguþráðinn aðeins frá sjálfri mér til að fá frelsi til að skrifa bókina. En svo inn á milli koma ljóð sem passa við mína persónu, ljóð sem gera lesendum líklega erfitt að rífa okkur ljóðmælandann í sundur.
Þú óttast ekkert að þessi óljósa aðgreining leiði til þess að fólk eigi eftir að pönkast í þér? „Hvernig geturðu skrifað svona? Líður þér ekki vel?“ – að fólk taki textunum meira einsog sálgreiningu á þér heldur en einmitt textum? (Ég spyr því ég er alltaf að lenda í því að vera sálgreindur útfrá textum.)
Ja, ég er auðvitað að sýna mín eigin slitför. Stundum verður maður að opna ofan í kviku. Ég hugsa oft um bassa þegar ég hugsa um sköpun. Að sækja sína eigin sannfæringu og koma henni út á blað. En svo er annað mál hvort staðreyndirnar í ljóðunum þurfi að vera réttar til þess að gera það? Þegar ég færði söguna frá mér var ég nú frekar að hugsa um orðspor foreldra minna heldur en sjálfa mig.
Ég hef aldrei pælt í þessu áður (sjálfhverfur mjög) að ljóðabækur gætu verið notaðar gegn foreldrum
KJÖRAÐSTÆÐUR FYRIR KVÍÐA
Já, ég verð að spyrja þig út í það sama og ég spurði Brynjar. Um daginn birtist á Starafugl dómur eftir Braga Pál um bók eftir Jónu Kristjönu. Þú skrifaðir feisbúkk- status (sem ég læt fylgja með hér) þar sem þú gagnrýndir dóm Braga Páls og til urðu þessi nýyrði um fagurfræði í ljóðlist: „spíttljóð“ og „strætóljóð“
Hver er munurinn á þessum tveimur skólum? Hvaða fagurfræði er ríkjandi?
(Jájá, ég geri mér grein fyrir því að þessi hugtök eru búin til og hugtök ná aldrei alveg 100% yfir neitt)
Já, þú last hugsanir mínar – það er of einfalt að ætla að skipta íslensku ljóðasenunni í tvennt. Að minnsta kosti ef strætóljóðlist á að ná yfir allt sem er ekki spíttljóðlist. En gerum ráð fyrir því að hugtakið strætóljóðlist nái yfir „áferðafallegu“ ljóð vorra tíma og spíttljóðlist nái yfir „hráu“: Öll ljóð eiga klisju yfir höfði sér. Hvort sem það er verið að yrkja um brund eða fjöll. Hvorugt yrkisefnið er klárað. Við erum ekki búin með neitt. Svo að ég fái að vitna í geggjaða línu úr nýju bókinni hennar Soffíu Bjarnadóttur, Ég er hér: „Við erum í hjóli þjáningarinnar. En þetta eru ekki slæm tíðindi.“
Ég fór að hugleiða hvort að þetta væri einhver uppreisn gegn fortíðinni. Mörg ungskáld í statusnum sem lögðust gegn vessapóesíu, að það sé brund í ljóðum og gegn groddalegri fagurfræði almennt.
Er þetta ekki hinni eilífi hegelski tískupendúll? Fólk sem fann sig ekki í indíinu fagnar hiphopinu, fólk sem finnur sig ekki í hiphopinu mun gera uppreisn eftir smá stund. En samt veit ég ekki hvort þetta sé endilega uppreisn. Ráðandi tíska gerir að einhverju leyti kröfu til manns en hey svo bara póstmódernismi og allt í klessu! Allir mega gera það sem þeir vilja. Nota vaxliti og vatnsliti og olíumálningu. Það sem gerir mig brjálaða er einmitt frekar þegar einhver segir að list eigi að vera hitt eða þetta. Fyrir utan gott/vont skalann. Hann er afsakanlegur.
Hegelski tískupendúll… hvað finnst þér einkenna fagurfræði ungskálda núna?
Hmm. Það hefur verið uppsveifla í femínískum ljóðum. Reiðum ljóðum. Sérstaklega í kjölfarið á mánaðarlegu Hispursmeyjakvöldunum sem Vigdís Howser heldur utan um. Ég sé ekki í fljótu bragði neina ríkjandi fagurfræði? Það er allur skalinn á þessu, sem er alltaf betra. Bæði betra. Gott báðum megin. Svo rottast skáld saman sem fíla hvort annað. En eitt yrkisefni sem mér finnst einkennismerki flestra ungra skálda í dag er kvíði.
Kannski erfitt að sinna jafn minimalísku formi einsog ljóðum án þess að kvíða fyrir því að fólk sjái í gengum mann – „svikaraheilkennið“ einsog þú minntist á í upphafi. Hvernig lýsir þessi aukna áhersla á kvíða í ljóðum sér?
Það eru bara kjöraðstæður fyrir kvíða þessa öldina. Nú hljóma ég eins og biluð plata en einstaklingshyggjan! Hún er samfélagsmein. Standardinn er of hár. Ekki bara gagnvart frama og lífsgæðum heldur líka andlegur standard. Kúltúral kapítalismi; að verða að upplifa, sjá, njóta, ferðast, finna sig. Upplifunin er orðin svo mikil markaðsvara. Svolítið eins og upphafning afmælisdaga? Þetta er dagurinn þinn. Þér á að líða öðruvísi. Þú átt að finna lykt af breytingunni. En þér líður ekki öðruvísi. Þér líður nákvæmlega eins.
Vá, ég svaraði bara alls ekki spurningunni. En ég held semsagt að kjöraðstæður kvíðans verki á listamennina eins og alla aðra.
Þú minnist á Hispursmeyjarkvöldin … endum þetta á sömu spurningu og Brynjar fékk. Hvernig finnst þér upplestrasenan vera núna?
Hún gengur í bylgjum. Mars á þessu ári var góður upplestrarmánuður man ég. Annars eru þetta 1-2 upplestrar á mánuði. Mismunandi crowd, og mismunandi dínamík, sem er jákvætt.
Og pláss fyrir spíttskáld og strætóskáld?
Já, ljóðastrætóinn gengur allan sólarhringinn, seven days a week.
En spíttskáldin þurfa kannski að sitja aftast?
Nei, spíttskáldin þurfa að sitja hvar sem þeim sýnist.