Eitt einfaldasta og algengasta frásagnarform nútímabókmennta gengur út á að söguhetja, sem við getum fundið til með og jafnvel speglað okkur sjálf í, kljáist við óuppfylltar þrár og langanir. Oft er sjálf þráin skiljanleg og rökrétt, en ef sagan er dramatísk er útfærslan harmræn og órökrétt, og ef hún er kómísk er eltingarleikurinn kannski jafn órökréttur, en útfærsla hans verður kjánaleg. Í Glæpi og refsingu þráir Raskolnikov að vera ekki aumingi með hor heldur ofurmenni og allt „fer úrskeiðis“ hjá honum (ef það má orða það þannig í dag, þegar gerandi er annars vegar – hann leggur sitt eigið líf í rúst með því að drepa okurlánakerlinguna og raunar er það að einhverju leyti boðskapur sögunnar) – í kómedíunni fer „eins“ fyrir söguhetjum með langanir sem erfitt er að uppfylla og byggja á ranghugmyndum um gang heimsins, en það er fyndnara. Þeir detta á andlitið en standa ekki alblóðugir upp aftur. Þeir detta bara aftur. Stíga á hrífu. Velta niður stiga. Og þannig heldur það áfram að eilífu því það er engin lausn – maður getur ekki gefið sig fram, einsog Raskolnikov, og beðið Guð að fyrirgefa sér, því það er alls ekkert fyndið. Maður heldur bara áfram að vera breyskur og heimskur og jafnvel hreinlega vondur. Því þannig er bara lífið.
Barnabókin Mig langar svo í krakkakjöt („Je mangerais bien un enfant“) eftir franska rithöfundinn Sylviane Donnio, myndskreytt af Dorothée de Monfreid, fjallar um ungan krókódíl sem á íslensku heitir Grettir en á frönsku Achille – Akilles. Grettir er vanur að borða banana í morgunmat en dag einn lendir hann á einhverri forgelgju, einhverju mótþróaskeiði, og harðneitar að borða bananana sem krókódílamamma færir honum. Þess í stað heimtar hann krakkakjöt. Nú eru góð ráð dýr, því á bananaekrunni „vaxa bananar, ekki börn“, einsog krókódílamamma er fljót að benda á. Krókódílapabbi fer í bæinn og kaupir stóreflis pylsu en Grettir fúlsar við henni, þegar í ljós kemur að hún inniheldur alls ekkert krakkakjöt. Þá baka foreldrar hans fyrir hann girnilega súkkulaðiköku, í nornapotti yfir hlóðum – því Grettir veit fátt betra en sætindi – en það er sama sagan með það. Grettir vill bara krakkakjöt. Að lokum rýkur Grettir burt í fússi, ákveður að fara að niður að á til að baða sig, og finnur þar alvöru krakka af holdi og blóði. En uppgötvar fljótlega að hann, sem er bara pínulítill sætur krókódíll, er ekki nógu stór til þess að ráða við krakka. Þetta verður til þess að hann ákveður að taka upp bananaát aftur, svo hann verði á endanum nógu stór til þess að geta veitt sér krakka í matinn.
Bókin er kómedía og það er engin eiginleg lausn á löngun Grettis í krakkakjöt – draumurinn lifir og við sjáum fyrir okkur að margar kómískar aðstæður séu framundan í lífi hans og foreldra hans.
En bakktrökkum aðeins hérna. Auðvitað langar Gretti „auma“ alls ekki að éta krakka, það vita allir foreldrar. Krakkakjötið er fullkomið aukaatriði. Það sem Grettir þráir er það sama og Raskolnikov þráir. Hann þráir að ráða, hann vill ekki láta segja sér fyrir verkum og láta mata sig á veruleikanum, að einhver annar ákveði hvað hann eigi að borða eða hvað honum finnst gott. Mótþróaskeið barna er tegund af ofurmennisþrá og snýst fyrst og fremst um valdbeitingu, að snúa foreldra sína í duftið. Þetta er ómeðvitað, að mestu (vona ég), en alveg jafn kalkúrað og ástríðufullt fyrir það. Mataræðið er hið fullkomna svið til þess að tjá þessa þrá – það er holdlegt, framfleytir lífi og er nátengd hinum libidísku kenndum, dauðanum, ástinni og lostanum – og það er svið sem maður getur mjög auðveldlega hamið sjálfur, þrátt fyrir að maður sé barn. Átakið sem þarf til þess að neyða mat ofan í barn er meira, fyrir bæði barn og foreldri, þolanda og geranda, en svo að nokkur þoli það í meira en augnablik og það þjónar á endanum engum tilgangi – að koma einum bita niður kostar tíu sinnum fleiri kílójúl af átökum en bitinn veitir.
Hér mætti svo auðvitað bæta við heilli sálspekilegri vídd í viðbót, sem tekur mið af því að Grettir er auðvitað sjálfur krakki – í einhverjum skilningi er þetta narsissísk dauðaþrá, hann langar að éta sig og hverfa út í alheiminn, nærast á eigin fegurð og bragðgæðum, vera sjálfum sér nægur í heimi sem er ekkert nema utanaðkomandi kröfur.
Mig langar svo í krakkakjöt vakti athygli mína vegna þess að titillinn var óforskammaður og skrítinn – þetta er furðulegur boðskapur á tímum sojalattéhippans en kannski býður hann einmitt upp á samræður um fæðuhringrás dýraríkisins, um vald og valdleysi: Myndum við setja nokkuð spurningamerki við unglinginn sem vill fá krókódílaskinnsskó (eða aðra leðurskó) í jólapakkann? Er það ekki eðlileg þrá? Af hverju mega krókódílar þá ekki éta börn? En við lifum náttúrulega líka í samfélagi sem þolir varla að Grýla eða Jólakötturinn éti börn – Grýla þarf að vera dauð í öllum sögum, hafa gefist upp á rólunum (og vippunum og rennibrautunum og klifurgrindunum) og það fá allir svo mikið af klæðnaði allan ársins hring hérna í allsnægtunum að jólakötturinn hlýtur að vera löngu soltinn í hel. Að skepnur éti hver aðra þykir fyrst og fremst sorglegt, ef ekki hreinlega óhjákvæmilegt óeðli hjá náttúrunni – mórölsk svik við eigin krúttleika.
Við Aino Magnea (4 ára) áttum ekki í neinum slíkum samræðum um þessa bók og hún hafði fátt um hana annað en að segja að hún hefði verið fín. Hún var samt svo ósannfærandi þegar hún sagði það að ég þurfti að þráspyrja: Er þetta góð bók? Á ég að mæla með henni við önnur börn? Við eigum sennilega eftir að lesa hana nokkrum sinnum aftur – ég er búinn að taka nokkrar atrennur sjálfur, til þess að skrifa þennan texta – en ég er ekki viss um að hún standist þær væntingar sem ég gerði til hennar í upphafi, þótt hún sé ágæt og þótt ég geti séð mig í foreldrunum sem tekst ekki að mata börnin sín og Aino geti séð sig í barninu sem er að reyna að bylta feðraveldinu („einn gaffal fyrir pabba!“). Það vantar kannski einsog einn vinkil í söguna, sem þræðir sig full einfaldlega frá A til B. Sem er leiðinlegt vegna þess að grunnhugmyndin er einmitt áhugaverð til umræðu og óforskömmuð – það er list í henni, þyngd og fegurð. Þá eru myndirnar líka „bara fínar“.
Ég vil samt ekki hljóma of neikvæður heldur – því bókin er þrátt fyrir allt í plús. Alveg þrjár stjörnur af fimm. Bara svo það sé á hreinu.
Þýðingin er þjál og falleg – það er Guðrún Vilmundardóttir sem stýrir lyklaborðinu – og ég set mig ekki upp á móti því að Akkilesi hafi verið skipt út fyrir Gretti þótt ég sé enn að velta því fyrir mér hvað það þýðir. Kannski er þetta bara til að hafa kunnuglegra nafn ef börnin skildu lesa sjálf, eitthvað sem þau geta stafað sig fram úr – en þá er líka ágætis menningarpólitík, á fjölmenningartímum, að börn fái líka að stafa sig fram úr ókunnuglegri nöfnum. Akkilles og Grettir þóttu báðir myndarlegir, þótt Grettir sé fremur ljótur þegar hann er myndgerður (hvernig sem á því stendur), og auðvitað miklir kappar. Grettir krókódíll er enn lítill bógur en það stendur til bóta við sögulok – það má ímynda sér að síðar meir, þegar hann verður farinn að rífa í sig börnin í þorpinu og næra sig á holdi þeirra, eigi hann eftir að standa í sínum eigin Trójustríðum eða verða dæmdur til skógar. Það væri óvitlaust að skrifa um það nokkrar barnabækur.