Velkomin!
Fáið ykkur sæti, breiðið yfir ykkur teppin og slakið á. Sjá! Tjöldin opnast og það er ekkert nema myrkur á sviðinu. En þá kviknar ljós og þið eruð að horfa inn í íslenskutíma hjá Ragnhildi Richter í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hún er að biðja nemendur um að klippa út orð og setningar úr blöðum og setja þau saman í ljóð. Þetta er gert til þess að blekkja lesendur og til að fá þá til að ráða fram úr bulli á meðan að þeim finnst þau vera heimsborgaraleg og klár. Fremstur á sviðinu er Sigurður Pálsson, uppáhalds nemandi Ragnhildar, að skrifa fyrsta ljóðið í næstu ljóðabók sinni: Ljóð muna rödd.
Eldur og skuggar
og röddSólrík glaðværð
Það er rétta innstillinginÞannig á að berjast
við blýið og myrkviðinn
óréttlæti ofbeldi
og allan þann langa lista …Gleymdu aldrei áhrifamestu kennurunum:
Voltaire, Mozart, Nietszche …Eldur og skuggar
og rödd
berst þér til eyrna …
Þetta ljóð kveikir kannski ekki á bjöllum í fyrstu, en þegar ég las það aftur eftir að lesa alla bókina, skildi ég það. Magnað.
En að öllu gríni slepptu skrifar Sigurður Pálsson um lífið, tilveruna og grundvallaratriði lífsins á fallegan og dansandi hátt.
Bókinni er skipt í fjóra kafla; Eldur og skuggar, Jörð, Raddir í loftinu og Vötnin yfir vötnin undir.
Fyrsti kafli, Eldur og skuggar (munið eftir íslenskutímanum), gefur stemmningu fyrir þau ljóð sem á eftir munu fylgja. Sá kafli er myrkur og Sigurður leikur sér snilldarlega að því að leyfa lesandanum að fyllast af röddum og hverfa inn í heim ljóðanna.
Annar kafli, Jörð, byrjar á ljóði sem nefnist Náttmyrkrið. Einstaklega fallegt ljóð þar sem gefið er í skyn að þú eigir að treysta myrkrinu því að þá verði ferðin þín, í gegnum bókina, full af birtu og fegurð. Kaflinn fær þig til að brjóta heilan um mannlífið, landslagið og vilja mannsins og dýra.
Í þriðja kafla, Raddir í loftinu, skrifar Sigurður um tímann, veðrið og árstíðirnar.
En eins og oft á tíðum, er fjórði og síðasti kaflinn, Vötnin yfir vötnin undir, um ellina, lífshlaupið og dauðann.
Bók Sigurðar er full af myndmáli, viðlíkingum, ást, gleði, sorg, draumum og myrkri. Þar er einnig að finna nokkur orð sem ég þurfti að fletta upp í orðabók, ég er reyndar bara nítján ára svo það er kannski engin furða. (Fyrirgefðu Ragnhildur). En það sem mér fannst skemmtilegast við að lesa þessa ljóðabók var það að undirstrika orð sem mér þótti falleg, merkja inn duldar merkingar og lesa þau upphátt til að heyra rödd ljóðsins. Ljóðin eru öll mjög falleg og vel skrifuð en eitt þeirra situr fast í hjarta mínu; Út í buskann.
Ég get aldrei muna að segja
hið augljósa:Allir þessir ljóðtextar
eru handa þér
innst inniLeitandi hafa þeir læðst
óséðir úr næturdjúpinu
innst inni
læðst eins og kettir
handa þér allir samanNærmyndir leysast upp
í of mikilli nærveru
hverfa svo út í svonefndan
buskaHljómsveitin spilar tónlist
sem er bara til nú og nú
og aftur núOg á meðan tónlistin lifir
hverf ég ekkiMeðan tónlistin lifir
óttast ég ekkiBer enga virðingu fyrir
svonefndum buska
Þá hittir titill bókarinnar beint í mark. Ef þig langar til þess að leggja hugann í bleyti, leita að duldum merkingum og hafa það kósý undir teppi, skaltu lesa þessa ljóðabók og þá muntu heyra rödd ljóðanna bergmála í skúmaskotum hugans. Og rétt eins og ljóð muna rödd þá man rödd ljóð.