Þjóðskáld undirheimanna, Jóhamar, hefur sent frá sér Dauða & djöful, stutta en innihaldsríka sjálfsævisögu um andrúmsloft bernskunnar sem kristallast í lykt af steiktum lauk. Bernska sem birtist sem afstaða manns, hlutskipti í heiminum, útkast; sýn.
Bókin, sem hefur engan útgefanda, engan útgáfustað, hefst á nokkrum ljóðum. Myndauðgi þessara ljóða setja mann strax úr jafnvægi, eða úr skorðum, og virka vel sem inngangur að sögunni sjálfri, birtingarmynd þess hvert bernskan leiðir, undirbúningur fyrir það sem koma skal „í kringlubíó hringsnúningsins í höfðinu“ (bls.3). Uppfrá því hefst eiginleg sagan, sem eru brotakenndar minningar manns sem er utanveltu í samfélaginu, skáldið sjálft sem bítur í skottið á sér með því að líta til baka.
Hver er Jóhamar? Hann er draugur á Laugaveginum. Laugavegurinn er draugur. Jóhamar sést ekki en hann sér okkur. Enginn veit hvernig hann lítur út. Hann er draumur allra skálda á daginn en martröð þeirra á nóttinni. Honum bregður fyrir á tíu ára fresti. Gúggli leiðir mig á blaðsíðu 622 í Biskupasögum þar sem fram kemur að hann sé bóndi. En hvar? Önnur síða bendir til þess að hann sé hjólbarðasali í Norður-Karólínu.
Hvítt kjalarlaust leikfangaskip veltur um koll.Í fjarska eru hvít seglskip og Esjan grá í dumbunginum.Rigning allt sumarið.Norðankaldur ágústnæðingur. Top 40 í kanaútvarpinuog afi kreppir hnefann á buxunum sem strekkjastá sveru læri hans og bölvar kommúnistum,horfir svo eldsnöggt á pabba og segir: Eins og ég vitiekki hvað þið hugsið.(bls. 51)
Samkvæmt völundarhúsinu leitir.is gaf Jóhamar síðast út bókina Start the violence fyrir tíu árum, henni nokkurnveginn samhliða kom ljóðabókin Skáldið á daginn, bók sem ég hef í hávegum og hvet alla til að lesa. Árið 1988 kom Byggingin, skáldsaga um miðbæinn eins og hann er orðinn í dag. Ljóðabókin Leitin að Spojíng árið þar á undan. Snemma á 9da áratugnum var Jóhamar hluti af súrrealistahópnum Medúsu en á síðari hluta 9da áratugarins var hann hluti af Smekkleysuklíkunni. Eftir því sem ég best veit er Jóhamar ekki hluti af neinu í dag, hann er alveg sér á báti í íslenskum bókmenntum, hann rær á dýpri mið en flestir aðrir og kemur sjaldan í land, og þá aðeins með nokkra furðufiska sem enginn hefur séð áður.
Sökum þess hversu langt líður á milli bóka hef ég á tilfinningunni að margir ungir lesendur og mörg þeirra frambærilegu ungskálda sem geysast nú fram á ritvöllinn eins og Mahómet spámaður á skáldfáknum Búreka sem kemur við í öllum deildum himnaríkis og þekkir alla hina spámennina, þá þekki þau ekki Jóhamar. Og það er synd en snögglega afgreidd skömm.
Enda þótt óljóst sé hvaða persónu skáldið hefur að geyma, eða hverskonar fyrirbæri skáldið er í Jóhamri, þá er það lesturinn sjálfur sem gerir Dauða & djöful merkilegan. Bókin er óvænt innskot í fremur fyrirsjáanlega veröld og hressandi fyrir vikið. Og þótt mér finnist hún ekki ná sömu hæðum og Skáldið á daginn, sem er snilldarverk, þá kemur engu að síður myndmálið og framsetningin og tungumálið stöðugt á óvart. Hún er fyndin, frumleg, áreynslulaus og harmræn. Miskunnarleysið aðgengilegt. Hún hefur eitthvað gjafmildi eða örlæti á hugsun og tilfinningar sem svo margar bækur af svipuðum toga hafa ekki. Texti sem hefur engu að tapa. D&d endurræsti að minnsta kosti í mér trúna á skáldskapinn sem á það stundum til að drepa á sér.
Það eru engu að síður ískyggileg tíðindi að Jóhamar sendi frá sér bók, rétt eins og þau eru gleðileg, því hann á erindi við samtímann. Skemmst er að minnast þess að Start the violence kom út árið 2007.
Skriftar hann skráargötum.Kerling í frúardyngju lifur líkri,rassgatar þar landvættiálnarlangs brúðgumasvo sem ung lausungardrottninglaugi iljar sínar og egg blá.(bls. 5)
Í D&d birtist mynd af manni sem er rígbundinn frelsi sínu, þetta er maður í gömlum hlekkjum sem ófust um hrifnæman dreng sem er að vaxa upp á venjulegu íslensku heimili, séð neðanfrá, í gufu frá soðinni ýsu (ekki gufusoðinni ýsu). Þessir hlekkir læstu sig um tíma, vana, aðstæður, viðhorf, andrúmsloft, þannig að bernskuminningar bíta í skottið á sér, þær eru ouroboros og maður þarf að vera einhver Houdini til að losna úr viðjum æskunnar, sem er ekki hlekkjuð saman af áföllum heldur hversdagslegum atburðum eða tilvikum. Eða skapa úr þeim verk, eins og hér er svo vel gert, alveg sama þótt einhver sé á bak við þig að „draga blóðugt lík yfir parketið“ (34).
Og hvað varð úr þessum dreng?
Úr þessum dreng varð blankasti maður í heimi, algerlega óspilltur; skáldið Jóhamar.