Ilmurinn

Hvernig lykta framboðin til þingkosninganna 2017?

Þingkosningar nálgast óðfluga — aðrar á 364 dögum — þær þriðju innan rétt rúms tímaramma ótruflaðs kjörtímabils — og hefur upptaktur síðustu vikna tæplega farið framhjá flestum þokkalega sjáandi, heyrandi og lesandi slandíngum: framboðsfundir, fréttir og fréttaskýringar, lögbönn og langir athugasemdahalar, stöðugar áminningar um nöfn og andlit frambjóðenda, auglýsingaflóð í sjónvarpi, útvarpi, blöðum og á vefnum, auk annars kynningarefnis úr rönnum almannatengla. Líkt og í aðdraganda hverra annarra kosninga hafa kjósendur kerfisbundið verið hvattir — með beinum og óbeinum hætti — til að velja sitt X vandlega og með aðstoð ýmissa hjálparhellna: skynseminni, hjartanu, veskinu, reynslunni, sifjafræðinni, sögunni, minninu, augunum og eyrunum — svo fátt eitt sé nefnt. Nú síðast stóð meira að segja til að umbuna ungum kjósendum með aðgöngumiða á stóra popptónleika, áður en í ljós kom að téðar mútur mætti mögulega skilgreina sem kosningalagabrot.

Í þessum mikla hvirfilbyl gleymist nánast undantekningalaust nefið — eitt gagnmerkasta skynfæri mannskepnunnar. Vitaskuld er kroppslegur aðgangur kjósenda að frambjóðendum misjafn, auk þess sem lykt berst ekki auðveldlega í gegnum þá miðla sem helst eru brúkaðir í kosningabaráttunni. En skynfærin vinna saman: myndir geta kallað fram kenndir og líkamlegar tilfinningar, tilfinningarnar orð, orðin hljóm, hljómurinn myndir — og eins getur tilfinning fyrir lykt borist í gegnum myndir og orð, töluð jafnt sem rituð. Lykt hefur svo lúmsk en um leið augljós áhrif á hina ýmsu ákvarðanatöku mannsins — og er makaval þar eitt skýrasta dæmið. Og gott stjórnvald er jú sem góður maki.

Var því tekið til þess ráðs að framkvæma lyktgreiningu á þeim stjórnmálaflokkum sem kjósendum standa til boða í komandi kosningum — þeim síðarnefndu til hækju, halds og trausts þegar til kastanna kemur í kjörklefanum — og eru niðurstöður hennar kunngjörðar hér að neðan. Til að byrja með eru örfá orð látin falla um aðferðafræði og þátttöku, síðan farið yfir umsagnir álitsgjafanna um hvern flokk fyrir sig, þar á eftir eru niðurstöðurnar teknar saman og þeim troðið í ilmvatnsflöskur — þeirri spurningu svarað hvernig framboðin lykta í raun og veru — og að lokum er farið yfir aðrar niðurstöður, til að mynda hvað varðar áhuga- og eftirtektarverð mynstur í svörum þátttakendanna. Allra aftast er svo að finna lista með nöfnum og starfsheitum þeirra nefbera sem svöruðu kallinu.

Örfá orð um aðferð og þátttöku

Sendur var tölvupóstur á 222 valinkunna menn og þeim boðið að taka saman lista yfir þær lyktir sem, að skynmati þeirra, er að finna af hverju framboði. Tekið var fram að senda mætti stök orð (t.d. „mynta“), ögn nákvæmari lýsingar (t.d. „te úr ferskri myntu með smávegis sítrónu“), eða enn ítarlegri lýsingar (t.d. „lyktin úr munni bólfélaga sem nýlega hefur tuggið myntulauf óhóflega“). Þess var ekki krafist að hver og einn þátttakandi lyktgreindi alla flokkana. Voru verðandi álitsgjafar hvattir til að skilja fordómana eftir heima — halla sér helst ekki í áttina að fyrirsjáanlegum klisjum, heldur koma sér frekar þægilega fyrir á viðeigandi stað og ímynda sér að þeir væru nefið einbert.

Úrtakið var niðurstaða einskonar aðferðafræðilegrar snarstefjunar — því réð oft einungis hending hverjir fengu þátttökuboð — þó reynt væri að sampla nokkuð fjölradda sýnishorn af mannfélaginu. Níu tölvupósta fékk sendandi aftur í hausinn og voru ekki gerðar neinar tilraunir til að koma boðinu til viðkomandi með öðrum leiðum. Má því ætla að 213 manns hafi á endanum fengið boðið. Að lokum bárust sautján umsagnir, frá níu körlum og átta konum, sem öll fást við listir af einhverju tagi — skáldskap, tónlist, myndlist, leikhús og kvikmyndagerð — ef frá eru taldir laganemi, læknir og M.A. í sálfræði. Af öðrum auðséðum mynstrum vakti sérstaka athygli að engin svör bárust frá þeim talsverða mannfjölda sem fékk þátttökuboðið sent á póstfang á vegum Háskóla Íslandss. Langflestir álitsgjafanna fundu lyktir af öllum þeim flokkum sem í framboði eru. Þrír óskuðu nafnleyndar — sem boðið var upp í þátttökuboðsbréfinu — þar af tveir sem ekki gáfu upp neinar ástæður, en sá þriðji tók fram að leyndin orsakaðist ekki af pólitískum ástæðum, heldur öðrum og persónulegri.

Umsagnir álitsgjafa

Alþýðufylkingin

„Alþýðufylkingin lyktar eins og hinn smæsti meðal vor á hverjum tíma,“ eins og einn álitsgjafinn kemst að orði. Annar segir flokkinn lykta af spæni — ekki ferskum, ekki þeim sem notaður er í göngustíga, heldur spæni „inni á smíðaverkstæði sem staðið hefur óhreyfður í mörg ár.“ Sá þriðji nefnir við „sem rekið hefur um víðan sjá,“ en tekur sérstaklega fram að um sé að ræða lykt frekar en ilm. „Saggalykt en sólid viður,“ segir sá. Einn nefnir „fúkkalykt af gömlum dagblöðum.“ Annar segir flokkinn lykta af gömlum bókum að viðbættum ávæningi „af útilykt og ósóni, eða efninu sem verður til við logsuðu.“ Þrír nefna vota ull. „Regnblautur lopi,“ segir einn þeirra. Hinir tveir bera nefkennsl á blauta sokka: „gegnblautur ullarsokkur á ofni,“ segir annar þeirra, en hinn tiltekur blautt sokkapar sem þó er ekki óhreint. „Lyktin er ekki beinlínis slæm,“ bætir sá síðarnefndi við, „en sannfærir þig um að það sé alls ekki tímabært að reyna að nota þá.“ Af matarlykt koma fyrir volg mjólk, gufan sem myndast við spaghettísuðu og nýtýnd, rósrauð jarðarber sem sum eru enn óþroskuð. „Ferskur jarðarberjailmur með ögn af sítrus,“ eins og tekið er til orða. Einn tiltekur sérstaklega balkanskan veitingastað sem lengi vel var til húsa á Vitastíg: „Þeir eru ekki alveg að ná balkanska galdrinum rétt […] en þeir eru samt að reyna.“ Við hinn kommúníska smáflokk eru svo einnig kennd svitalykt, gúmmísvuntulykt, hlý stofnanalykt, „lofnarblóm (lavender) úr gömlum sængurfataskáp,“ og lyktin af „safaríkum stól með nýju áklæði úr Rúmfatalagernum.“

Björt framtíð

Björt framtíð „lyktar nákvæmlega eins og svart dúnvesti sem hangir á snaga,“ segir einn sérlega nákvæmur álitsgjafi. Blautt rúskinn er öðrum ofarlega í huga — eða öllu heldur í nös. Aðrir nefna til að mynda rotnun, silfurskottur, flóamarkað, blautsteypu og brunavax, sem ku vera „lyktin sem gýs upp þegar slökkt er á kerti.“ Ælufýla er nefnd til sögunnar, sökum gums sem engin — að meðlimum flokksins undanskildum — myndi leggja sér til munns. Einnig koma fyrir „sólarolían Hawaian Tropic“ og „veiplyktin Vanilla Robot,“ sú síðari í bland við léttan áfengisdaun. Tveir nefna klór og einn lyktina af nýlega endurstandsettum uppabar í Austur-Berlín. „Þarna var einu sinni stuð,“ segir sá sem minnist á barinn, „en sú lykt er löngu horfin.“ Einn álitsgjafanna segir flokkinn lykta „af rauðvíni, slæðingur af sólberjum í nefi og talsvert af ediki.“ Annar nefnir „rokgjarnan sítrónuilm á fjölfarinni götu,“ sá þriðji „jarðaberjatyggjókennt hlaup eða baðherbergisilm,“ og sá fjórði lyktina „í frystiherberginu nálægt hljómflutningstækjunum.“ Úr díteiladeildinni minnist einn á „herbergi sem er ekki vel þrifið miðað við hvað er þar margt nýrra muna og hannaðra, rétt eftir að íbúi vaknar í því við lokaðan glugga og hefur enn ekki nennt í sturtu.“ Enn er „ömmu- og afalykt“ ekki farin að gera vart við sig, segir viðkomandi, en í rýminu er „furðu mikill koltvísýringur miðað við hvað annars er bjart þarna inni.“ Annar segir „mjög ungmennalega lykt“ af flokknum: „eins og framhaldskóla-ilmvatn í bland við djammlyktina sem kemur einungis á fyrsta klukkutíma djammsins.“ Með öðrum orðum: „Dauf og sæt áfengis- og sígarettulykt í bland við ilmvatn eða rakspíra og sturtulykt.“ Og sá þriðji segir flokkinn lykta „eins og ráðherrajeppi í hægagangi sem tekur loks snöggt af stað inni í rúllukragapeysu.“ Úr þessum frekar nákvæmu lýsingum, sem virðast einkenna þefinn af Bjartri framtíð, sker sig loks ein: „Lyktarlaus,“ segir einn álitsgjafanna um hinn unga flokk sem samkvæmt skoðanakönnunum mun nú þurrkast út af þingi eftir stutt gaman við valdakatlana.

Dögun

„Það er engin lykt af Dögun,“ segir einn álitsgjafanna og virðast ófáir honum sammála. „Dögun hefur enga lykt,“ segir annar. „Lyktarlaus með öllu, varla til,“ sá þriðji. „Vart greinanleg lykt,“ segir sá fjórði sem leyfir flokknum þó að njóta vafans: „Gæti verið morgunroði.“ Sá fimmti segir pass til að byrja með — hann viti einfaldlega ekki hvort flokkurinn sé til í raun — en þó komi lyktin úr ljósritunarvél upp í huga hans, kannski einmitt vegna hinnar verufræðilegu óvissu. Og sá sjötti segir flokkinn nánast lyktarlausan, þó greina megi „daufa grænsápulykt í fjarska.“ Hreinlætisvörur og hreinsiefni gera vart við sig hjá nokkrum þeirra sem yfir höfuð finna lykt af Dögun. Einn nefnir hárlakk, annar mýkingarefni, enn annar efnalaug eða þvottahús, bætir við dekkjaverkstæði. „Megn saggalykt,“ segir einn. Brauð og beikon koma við sögu, sem og „soðinn vorlaukur,“ auk lyktarinnar af „af einu stöku ostapoppi sem finnst djúpt ofan í sjónvarpssófa — sem sagt vond en kraftlítil lykt.“ Þefskyn eins nemur negullykt — svo sterka að hann tiltekur hana þrisvar og sker sig úr fyrir ofurjákvæðninnar sakir: „Mætti nota oftar í matargerð,“ segir hann. Almennt eru álitsgjafar heldur stuttorðir um Dögun, og umsagnir þeirra ekki sérlega ítarlegar, að undanskildum einum sem segir flokkinn lykta „eins og úthverfi snemma að morgni, þegar maður er að labba heim úr partýi sem maður man ekki eftir að hafa farið í, veit ekki hvar er, og maður er í hverfi sem maður þekkir ekki.“

Flokkur fólksins

Kaffi, krem og kexpakki frá Frón — allt eru þetta þefsrætur sem nefndar eru í sömu andrá og Flokkur fólksins. Einnig koma við sögu eggjalíkjör, mötuneyti og hamborgarastaðurinn American Style. Samkvæmt einum álitsgjafanna lyktar flokkurinn af „þrúgum í gerjun,“ en hann nefnir einnig „bæjarhlaðskeim“ og „ávæning af hafnarlykt“. Einn finnur samtímis lyktina af hreinsiefninu Ajax og saltpéturssýru. „Steikingarbræla og sturta,“ segir annar — bætir við smjörlíki og sápu. Svipuð lyktrenningatengsl virðast hafa komið upp hjá þeim sem segir flokkinn bera með sér lyktina „sem berst að vitum þér þegar unglingurinn á Umferðamiðstöðinni, löðrandi í ódýrum hreinlætisvörum, færir þér kjammann og rófustöppuna.“ Í annarra nefjum virðist hreinlætisvörulyktin alls ekki til staðar. Einn finnur túrblóðsfnyk úr ruslafötu á kvennaklósetti í heimavistarskóla. Annar minnist á „föt sem búið er að ganga í nokkuð lengi án þvottar.“ Sá þriðji, ögn nákvæmari, nefnir „svita undir handarkrika á bol.“ Og sá fjórði segir flokkinn lykta „eins og gervigubb,“ konsept sem hann útskýrir að sé krakkasmíði. Einn álitsgjafinn nefnir í senn snyrtivörumerkið Old Spice („Þú værir ekki til hefði afi þinn ekki notað það,“ segir eitt slagorða þess) og ilmvatnið Chanel No. 5 sem Gabrielle Coco Chanel hannaði fyrir tæpri öld síðan: „fullkomið tákn hins íburðarmikla einfaldleika,“ eins og framleiðandinn kemst að orði. Í talsvert annarri tóntegund segir annar álitsgjafi flokkinn — sem fór í hástökkum fram að yfirlýsingunni um stofnun Miðflokksins — lykta eins og „hænsnaskítur með húbbabúbba-jarðaberjakeim.“ Loks segir einn flokkinn lykta „eins og fen fullt af flóttamönnum.“

Framsóknarflokkurinn

„Maður finnur ekki lyktina af Framsóknarflokknum,“ segir einn álitsgjafinn, en tekur þó fram að það sé ekki vegna lyktarleysis, heldur „af því það er blindbylur og maður er með trefil fyrir nefinu.“ Sökum þessarar þefstíflu, segir viðkomandi, gerist það gjarnan — án þess að tekið sé eftir — að Framsókn er „bara allt í einu komin aftur í ríkisstjórn.“ Aðrir eru honum óssammála — eða láta í það minnsta trefilinn ekki standa í vegi fyrir nösum sínum. Nýsoðið rauðkál, heimagert, ekki úr dós, rauð paprika, pera, nýopnuð kókosbolla með tómatsósu, ýldufýlan af grámyglaðri Bónusskinku: allt er þetta matur sem Framsóknarflokkurinn lyktar af — og einnig forsoðnar kartöflur í plasti. „Súr áfengisremma,“ segir einn og bætir við „gredduhormónasvitalykt, skemmdum tönnum, sótthreinsuðu læknastáli og sæði, hugsanlega úr öðru dýri en mannskepnu.“ Annar nefnir lyktina af „manni sem örvæntir í ljósabekk.“ Úr rómantíska ranninum minnist einn á „liljur vallarins“ — og útskýrir: „gamaldagsilmur, næstum horfinn.“ Annar nefnir „fimmhundruðkall í vasa,“ og enn annar „pappaspjald með grenilykt til að hengja í bíl.“ Fjósalyktin er vitaskuld klassísk — reyndar fyrir löngu orðin klisja — en einn álitsgjafanna vill ólmur minna á að téður þefur sé ekki af sjálfum kúnum, heldur af hlandi þeirra og hægðum, sem enginn kunni að meta að frátöldum saurflugunum. „Meira að segja þeir sem telja þennan þef viðeigandi í fjósi eða til að bera á tún,“ segir viðkomandi, „vilja ekki hafa hann heima hjá sér.“ Annar segir að um sé að ræða lyktina „undir pungnum,“ sem þó sé „ekki óþrifaleg.“ Enn annar segir elsta flokk lýðveldisins lykta eins og „tjörublandað torf og plast — skrifstofuvörur.“ Einhver segir flokkinn lykta „eins og afi þinn,“ og að lokum nefnir annar „einhverja ókennilega lykt, eins og ilmvatn sem komið er úr tísku og eimir eftir — í bland við ryk.“

Íslenska þjóðfylkingin

Einn álitsgjafanna segir flokkinn mjög lyktarlítinn. Annar veltir því fyrir sér hvort hann sé jafnvel lyktarlaus. Auk þess segist einn hreinlega „ekki setja nefið í þetta.“ Hvað sem því líður er nú ljóst að Íslenska þjóðfylkingin mun ekki standa kjósendum til boða í komandi kosningum, sökum þess að upp komst um fjölda falsaðra undirskrifta á meðmælalistum flokksins, sem kærðir hafa verið til lögreglunnar. En þar sem sagt var frá fölsununum um svipað leyti og lyktgreiningin hófst, auk þess sem flokknum hafði þá þegar tekist að hafa sín áhrif á kosningaumræðuna — átti meðal annars fulltrúa í fyrstu kosningaumfjöllun Ríkissjónvarpsins — kom ekki til greina að halda honum utan ilmsins. Samkvæmt einum álitsgjafanum lyktar flokkurinn eins og „snitsel með tómatsósu,“ eins og „Old Spice á signu fiskflaki, úldnu,“ samkvæmt öðrum, og líkt og „humarsúpa í hálfétinni skál í uppvaskinu á Lækjarbrekku,“ að mati þess þriðja. Hamborgarhryggur er einnig nefndur til sögunnar — reyndar að viðbættu hinu algenga a-i („hamborgarahryggur“) sem gæti þó vel verið hluti af greiningunni. Aðrir nefna meðal annars leður, saltsýru, teppahreinsivél, ryk og stál, auk bleklyktar „með blóðávæningi.“ Þarna liggur líka gamalt gólfteppi, sem og „gamall sokkur sem finnst úti í horni þegar verið er að taka til í skáp sem notaður hefur verið sem ruslaskápur í mörg ár.“ Loks nefnir einn álitsgjafinn „megna þynnku- og þvottaefnislykt í bland við joð og húsasóttarlykt.“

Miðflokkurinn

Af Miðflokknum er lykt „af stillönsum úr timbri og hráolíu — ef til vill brennt vín,“ eins og einn álitsgjafinn orðar það. Að mati annars lyktar flokkurinn eins og „dvergvaxinn maður í strætó með hárþynningu og þvottavenjur undir meðaltali.“ Upp úr matarkistunni dregur einn „vanillugums í vínarbrauði,“ annar pizzu með ananas, sá þriðji óreganó, fjórði orkudrykkinn RedBull, sá fimmti „svart te sem hefur staðið of lengi.“ Einnig eru nefnd rjómatertuboð sem voru, að sögn eins álitsgjafans, haldin á Íslandi þegar amma hans var ung — en þeim lýsir hann þannig: „Allt of mikill væmnisætukeimur og hugsanlega einhver sem hefur skyndilega fengið í magann og þurft að hlaupa á klósettið, og sú lykt hangir í loftinu og neitar að fara nokkuð.“  Einn nemur bæði lyfjalykt og sæta sýkingalykt. Tveir finna sérstæðar þefsblöndur: annar nefnir „asetonlykt með þykkum kjötbollu-undirtón,“ á meðan hinn tilgreinir ekki lykt, heldur lyktarmismun, nánar tiltekið „muninn á lyktinni af manni sem nærist mikið á mjólkurvöru og lyktinni innan úr nýjum bíl.“ Prumpulykt og plastlykt koma fyrir í umsögnum um hinn nýja flokk, einnig „nárinn á kraftlyftingamanni sem var reiður á æfingu,“ sem og tvær tegundir svita: „sviti af völdum kyrrsetu“ og „þynnkusvitalykt æsts skrifstofustólafólks.“ Auk þess er flokkurinn lyktarlaus að mati eins álitsgjafans. Annar segir lyktina blöndu af „hægðum stórtæks kókaínneytanda og sæði einhverrar skepnu,“ sem viðkomandi vill meina að gæti verið hrútur — en sé þó líklega búrhvalur. Einn nefnir „nálykt af hræi sem hengdi sig (eða var hengt) og hafði því þvaglát og missti saur í dauðateygjunum.“ Lyktin gefur til kynna, eins og hann tekur sérstaklega fram, að lík þessa yngsta stjórnmálaflokks lýðveldisins hafi „staðið í nokkrar vikur.“ Á svipuðum nótum finnur annar „rakaskemmda- og hreinsiefnalykt ýmiskonar í mjög miklu magni, sem blandast illa við nályktina sem gefur undirtóninn.“

Píratar

Píratar lykta af sandkassasandi samkvæmt einum álitsgjafanum. Tveir nefna lakkrís: annar lakkrís-melassa, hinn „lakkrís í kvikmyndahúsi á góðri spennumynd, seint að kvöldi.“ Appelsínusafi fær einnig að fljóta með. „Furuilmur úr fullu baðkari með froðu,“ segir einn. „Feu de bois,“ segir annar og þýðir útlenskuslettuna: „brenndur viður, bálköstur.“ Pírataþefnum líkir einn við líkamsræktarstöð þar sem mikill dugnaður mætir óþarfa rembingi, en tekur þó fram að svitalyktin sé í þessu tilfelli umberanleg. Annar, með ansi keimlíkt þefskyn, segir flokkinn lykta „eins og öxl af karlmanni í úlpu, hint af gerviefnum og svita,“ en lyktin sé „samt líka neutral, þægileg og traust.“ Sá þriðji, sem einnig finnur fyrir áreynslu, nefnir „stress-svitalykt margra kyrrsetulíkama í sama herbergi,“ að viðbættri „veiplyktinni Pink Candy.“ Einn nefnir „ilmjurtir og staðið loft,“ annar „ilmkerti úr IKEA,“ enn annar „óskilgreindan vökva í lokaðri flösku í ísskápum,“ sem hann segist eiga erfitt með að skilgreina, en hafi „væntanlega verið í ísskáp í yfir þrjá mánuði.“ Einn segir flokkinn lykta sem „nývaknaður elskhugi,“ en annar nefnir „langt andvarp manns sem hefur drukkið of mikið en reykir svo sterka jónu oní og uppgötvar of seint hvað hann hefur gert.“ Aðrir finna af Pírötum, sem almennt hafa á sér að því er virðist óafmáanlegan tölvu- og internetstimpil, sterka og einkennandi ritfangaverslunarlykt. „Það er bleklykt af Pírötum,“ segir einn þeirra. „Lyktin af plastmöppum, strokleðrum og nýydduðum blýöntum,“ segir annar. Sá þriðji fullyrðir að flokkurinn lykti af pappír — og útskýrir það nánar: „átjándu aldar handriti“ — en bætir svo við „útilykt, af rigningu.“

Samfylkingin

„Matjurtir, sturta, ryksugulykt,“ segir einn álitsgjafanna um Samfylkinguna. „Engin þeirra þung, engin úr djúpi klæðanna, vefnaðarins eða húðarinnar, allar á yfirborðinu, geta fokið burt og vikið fyrir öðrum á sviphendingu.“ Stingur þar upp á lyktinni „af bláa blóðinu í dömubindaauglýsingum.“ „Tvíburabróðir (sinus pil),“ segir annar, „með örlitlum keim af kardimommu og negul — ótengt hægðainnihaldi.“ Einn nefnir sjampó úr körfu snyrtivöruframleiðandans Neutrogena — fyrirtækis sem lofar „sýnilegum árangri á einungis einni viku.“ Annar segir lyktina vera „rósailm úr glasi,“ sem hann segir líka vera „þokkalega sannfærandi.“ Einnig rennur hitaveituvatn og „léttkolsýrt vatn með kemískum perubragðbæti.“ Flokkurinn „lyktar af kattarhlandi á gæsaberjalyngi í nefi, sem sé hvítvíni,“ segir einn. „Sauvignon Blanc, með ávöxtum,“ tilgreinir hann. „Þynnkulykt undir Colgate-tannkremi og varalit,“ segir annar. „Lyktin af skemmdum eplum, gerjuðum einiberjum og rotnuðu haustlaufi,“ sá þriðji. „Laufhrúga að hausti,“ sá fjórði. „Eins og af gervigrasi,“ sá fimmti. Minnst er á húmmus, þó ekki sé sérstaklega tekið fram eftir hverskonar uppskrift, en íslenskir framleiðendur kjúklingabaunakæfunnar eiga það til að menga hana með mjólkurvörum. Einn segir Samfylkinguna lykta „eins og miðaldra matarklúbbskvöld“ — og skýrir nánar: „Mjög góð hráefni í boði, en allt of mikill matur gerður og allir borða yfir sig. Lyktin er því blanda af góðri matarlykt, prumpi og ofáts-svita.“ Annar segir flokkinn aftur á móti lykta „eins og heiðursborgari Reykjavíkur á hverjum tíma.“ Af öðrum þeftegundum má greina lykt úr ljósritunarvél, lykt af „brenndu holdi, brenndu plasti,“ og stállykt af nýpússaðri Macintoshtölvu, þó örlítil reykelsislykt hafi reyndar fylgt nýjum formanni, að sögn eins álitsgjafans — en „bara smá, hún liggur þarna í loftinu á skjön við pússuðu málmlyktina.“

Sjálfstæðisflokkurinn

„Sjálfstæðisflokkurinn lyktar eins og nef sem þefar græðgislega af feni,“ segir einn álitsgjafinn um valdahoknustu stjórnmálasamtök landsins. Fiskur, segir annar. Bernaise sósa, sá þriðji. „Bourbon vanilla, moskus, með örðu af mannaskít,“ sá fjórði, sem setur lyktina í sögulegt samhengi: „eins og í Frakklandi fyrir byltingu.“ Á matseðlinum er kæst skata, kæstur nár einnig, sem og „fnykurinn af viðbrenndu kandíflosi í bland við væminn þefinn af bleika tyggigúmmíinu sem var bannað um víða veröld, meðal annars vegna þeirra baneitruðu gerviefna sem sullað var saman við sætuefnin.“ Þarna er „þynnkuandadráttur“ og lyktin af „áfengi sem sprettur út um opnar svitaholur á nýsápuþvegnum líkama.“ Sjálfstæðisflokkurinn „lyktar af koníaki og rakspíra,“ að mati eins álitsgjafans. Annar bætir um betur og segir: „Margir, margir rakspírar.“ Nef hins síðarnefnda finnur einnig „margar sturtusápur, svitalyktareyða, krem, andlitsfarða.“ Og listi hans er nokkuð langur: „Undir niðri: ljósabekkir, sólströndin frá síðustu helgi. Keimur af flugvél, dass af nýjum bíl og nýþrifnum bílaleigubíl. Munnskol. Lyktin af fólki sem hefur aldrei borðað mat. Kannski vegna Gatorade, ekki viss.“ Málmlykt, segir einhver. „Einangrunarplast vafið utan um stál,“ segir annar. „Blýklumpur í flotkví,“ sá þriðji. „Bensín, sæði og barnapúður,“ sá fjórði. Tveir skynja svepp: annar „lykt af svartri myglu inni í vöruhúsnæði,“ en hinn „myglulykt af gömlu bílsæti úr plussi og hægþornandi steypu.“ „Sterk hreinsiefnalykt,“ segir einn og bætir við: „Það er ómanneskjulegasta lyktin.“ Annar segir ómögulegt að skilgreina þefinn „fyrir mengun frá sterkri lykt af hreinsikitti fyrir klósett (bónusmerki) — öll sýni menguð.“ Loks segir einn, hokinn baðvörslureynslu, Sjálfstæðisflokkinn lykta „eins og svelgur á baðstöðum“ — og upplýsir hin fáfróðu um að svelgur sé fyrirbærið „sem er undir niðurfallslokinu og safnar saman blautum hárum, sandi og alls kyns rusli.“

 

Viðreisn

Viðreisn lyktar eins „andfúll hundur,“ segir einn álitsgjafinn. „Gólf, nýskúrað með gluggahreinsi, að morgni dags á skemmtistað í miðbænum á sunnudagsmorgni,“ segir annar. „Ilmspjald hangandi á baksýnisspegli í nýjum bíl,“ segir sá þriðji. Einhver finnur lyktina af Chanel No. 5 — ofangreindu ilmvatni — á meðan aðrir nefna meðal annars dragt, sprittþveginn málm, tannhreinsunarefni, fatahreinsun og viðbygginguna við Leifsstöð. Moppa skýtur upp kollinum, sem og „nýopnaður snakkpoki“ og „mynta í íslensku súkkulaði,“ auk þess minnst er á harðfisk með hnetusmjöri. „Mjög ákveðin lykt,“ segir sá sem finnur fiskinn, „en lýsingin er samt áhugaverðari en raunveruleikinn.“ Einn álitsgjafanna sendir með umsögn sinni ljósmynd af bakka sem á hefur verið raðað banönum — vöfðum þunnum kjötsneiðum og bræddum osti — sem hann segir lykta eins og Viðreisn. „Lyktin er ekki slæm, dísæt og klístruð, reykt og feit allt í senn,“ útskýrir hann, en heldur því á sama tíma fram að sjónrænt eyði samsetningin allri matarlyst. Annar segir flokkinn lykta af „gömlum snjáðum peningaseðlum sem velkst hafa um sveittar, handáburðarsmurðar krumlur.“ Enn annar segir þefinn vera af „blómum í iðnaðarhverfi,“ sem sennilega eru fjólur, auk þess sem finna megi ávæning af ediki. „Sveitalykt,“ er einnig nefnd til sögunnar, „eins og á gömlum sveitabæ,“ auk eftirfarandi blöndu: „vanillu-tóbaks-kaffi-kókos-hýbýlailmur.“ Loks segir einn flokkinn lykta af „mikilli og tíðri samkvæmisdrykkju,“ auk „reyks úr líkbrennslu sem minnir á nýbakaðar vöfflur.“


Vinstri græn

Samkvæmt klínísku mati eins álitsgjafans lyktar Vinstrihreyfingin grænt framboð eins og röntgen. Og líkt og apótek að mati annars. Sá þriðji nemur lyktina af nýkreistri sítrónu, rétt eins og sá fjórði sem finnur þó einnig „kaffi-, kleinu- og svitalykt.“ Sá fimmti finnur súkkulaði. „Eins og jarðgöng sem liggja í hring djúpt ofan í jörðinni þar sem alltaf er verið að baka lummur,“ segir sá sjötti. Og „útblásturlykt úr iðnaðarryksugu,“ sá sjöundi — sem lætur þó alls ekki þar staðar numið: „gamall rakspíri, sterk handsápa, stíflulosunarefnislykt upp úr klóaki,“ bætir hann við. Með einni umsögn fylgir ljósmynd af mat sem sagður er bera lykt VG. Úr fjarlægð og í fljótu bragði virðist þarna vera eftirréttur úr ananas: „Eitthvað svona sætt og gott og ekki bara sykurfroða heldur ávaxtafylling,“ eins og álitsgjafinn tekur til orða. Þegar nær er komið má aftur á móti finna undarlega lykt sem gefur skörpu nefi til kynna — sem og sannast þegar smakkast — að undir yfirborðinu er lifrapylsa með mæjónesi og Worcesterskíris-sósu, skreytt ólífum. Einn nefnir „myglulykt innan úr kirkju,“ en annar lyktina af nýþrifnum sumarbústað og bætir við: „Auk þess stýrð manna- og kvennalykt, valin líkamslykt frekar en ósjálfráð. Nánar tiltekið lyktin í nösunum af þessu tvennu fyrir utan bíldyrnar, sem standa þegar opnar, á leiðinni úr bústaðnum. Einhvers staðar þar í grenndinni er líka lykt af fölskvalausu lyngi en taugakerfi mannskepnunnar er ómögulegt að finna bæði í einu.“ Aðrir finna aftur á móti gróðurlyktina. Einn þeirra segir flokkinn lykta „eins og heitur og sólbakaður mosi á sumardegi þegar maður er í sumarfríi og hefur ekkert að gera, svo maður ákveður að keyra útí sveit og finna mosa og leggjast á hann.“ Nýslegið gras nuddar nasir annars. „Lykt af töðu og grasi,“ segir enn annar — og bætir við: „Talsverður ávæningur af sundlykt.“ Einhver finnur „birki-ilm að vori eftir regn,“ og tekur fram að „mykjulykt berist með blænum.“ Og þarna er líka sjávargróður. „Eins og við hafið, þari,“ segir einn. „Daunn af kolaryki yfirgnæfir hangikjötslyktina,“ segir annar. Nef þess þriðja nemur bæði „bensín og nýbrennt malbik.“ Loks finnur einn hina sígildu en um leið mjög svo sérstæðu angan af „vatnsleysanlegri málningu með serosanguinous bóluvökva og sólhatt.“

Niðurstöður

Alþýðufylkingin — Sterk og afgerandi lykt af blautri ull í bland við gamlan við og pappír. Töluverð innanhúslykt, til dæmis af húsgögnum. Eimur af ýmiskonar vökvasuðu og dálítill jarðarberjakeimur.

Björt framtíð — Engin yfirgnæfandi lykt. Þungt loft og nokkuð sterkur klórkeimur, hreinlætisvörur, áfengisdaunn og kemísk ilmefni. Einnig léttur en lýjandi þefur af liðinni tíð.

Dögun — Afar lítil lykt, jaðrar hreinlega við lyktarleysi. Þó þokkalegur vottur af hreinsiefnum og kemík. Í fjarska: dálítil lykt af feitum mat og þefur af óþægilegum morgni.

Flokkur fólksins — Mixtúra almenns óþrifnaðar og yfirþyrmandi hreinlætisvörulyktar. Sterk kjöt- og steikingarbræla úr iðnaðareldhúsi í bland við svolítinn keim af áfengi og ólífi.

Framsóknarflokkurinn — Ótal lyktir, enginn yfirgnæfandi. Blandast saman á máta sem minnir á gráma. Erfitt, ef ekki ómögulegt, að greina einn tón fram yfir annan. Helst nokkuð sterk líkamslykt blönduð elli, ýldu og sýru, auk úrgangs úr mennskum og ómennskum skepnum.

Íslenska þjóðfylkingin — Ýmsar dýraafurðir, úldnar og illa leiknar. Áberandi ryk- og ruslalykt, auk þefsins af gömlum og illa förnum húsum. Fingurbjörg af hreinlætisvörum og hreinsiefnum.

Miðflokkurinn — Sterk nálykt blönduð sætuefnum, bæði náttúrulegum og kemískum. Kröftug líkamslykt, helst sökum kyrrsetusvita og úrgangs af ýmsum toga. Fremur vægur en eftirtakandi keimur af hreinsiefnum og vínanda, auk gráleitrar fæðublöndu.

Píratar — Yfirgnæfandi ritfanga-angan með dálitlum keim af viði, bæði ferskum og brenndum. Nokkuð sterk en þó umberanleg svitalykt, almenn líkamslykt og talsverð lakkríslykt. Ilmeffekt, bæði náttúrulegur og kemískur, auk vægrar útilyktar. Nasaþefur af etanóli og grasi.

Samfylkingin — Sterk en hikandi haustlykt, blönduð ávaxtagerjun og öðru alkóhóli, auk talsverðrar brunalyktar. Þónokkur bragðefnaþefur, bæði kemískur og náttúrulegur, í bland við hin ýmsu krydd. Handfylli af hreinsiefnum og hreinlætisvörum. Dass af viðrekstri og dropi af kloflykt.

Sjálfstæðisflokkurinn — Sterk hreinsiefna- og hreinlætisvörulykt í bland við málmlykt og veglega skammtaðan kæsi, etanól, svepp, sjávarlykt og svelgsfnyk. Bolli af sykri, hálfur af viðbrenndum, auk teskeiðar af kemísku sætuefni. Dálítil nálykt og nett angan af ýmiskonar úrgangi.

Viðreisn — Afgerandi hreinsiefna- og hreinlætisvörulykt, auk hlutlauss textílkeims, sem saman yfirgnæfa dálítinn gróðurilm, sæta og væmna hýbýlalykt, örlitla nálykt, andfýlu og etanólangan.

Vinstri græn — Sterk gras- og almenn gróðurlykt, myglusveppur þar með talinn, í bland við dágóðan skammt af iðnaðar- og reyklykt. Keimur af sítrónu sem kreist er yfir nýbakað. Slatti af klíník og töluverð hreinsiefnalykt. Auk þess snyrtivörustýrð líkamslykt.

Aðrar niðurstöður og möguleg stjórnarmynstur

Að Alþýðufylkingunni einni undanskilinni er hreinsiefna- og hreinlætisvörulykt að finna af öllum framboðunum, auðvitað mismikla og miskemíska — og undantekningalaust í bland við aðrar lyktir — en alltaf nokkuð áberandi. Eða eins og einn álitsgjafinn kemst að orði í sérstökum viðauka sem hann sendir með umsögn sinni: „Flokkarnir eiga það allir sameiginlegt, þó í mismiklum mæli, að einkennast einkum af lykt sem er neitun á lykt, hvort sem er hreingerningavörum eða tilraunum til að lofta út um alltof litla glugga.“ Sterkust og mest afgerandi er þessi lykt af Viðreisn, en fast á hæla hennar koma Sjálfstæðisflokkurinn og Flokkur fólksins ásamt hinni annars lyktarlitlu Dögun. Færa má þokkaleg rök fyrir því að téð lykt fari dvínandi eftir því sem lengra til vinstri er haldið — en vinstri vængurinn er samt sem áður langt því frá laus við hreinsiefnin og hreinlætisvörurnar.

Alþýðufylkingin sker sig einnig úr hvað áfengislyktina varðar — reyndar í félagi við Vinstri græn í þetta sinn — en af flokkunum tveimur er enga slíka að finna. Að öðru leyti binst hún ekki stökum stjórnmálasamtökum, heldur dreifist nokkuð jafnt yfir flokkspólitíska litrófið — frá Samfylkingu og þaðan til hægri. Í ofanálag bætist við fjóra flokka sérstaklega tilgreind þynnkulykt: Íslensku þjóðfylkinguna, Miðflokkinn, Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn, auk þess sem finna má lykt af komandi timburmönnum í tilfelli Dögunar. Reykingalykt — í báðum tilfellum væga — er einungis að finna af smáflokkunum tveimur úr síðustu ríkisstjórn, Viðreisn og Bjartri framtíð, og það sama gildir um ediklykt. Af Bjartri framtíð má einnig finna dálitla veiplykt — rétt eins og af Pírötum.

Brunalykt er að finna af sjö flokkum. Hún á sér þó alls staðar ólíkan uppruna ef frá er talið brennda holdið sem bæði Viðreisn og Samfylkingin anga af, en það blandast reyndar brenndu plasti í tilfelli síðarnefnda flokksins. Myglu, fúkka og sagga má finna víðsvegar í hnitakerfi stjórnmálanna: af Alþýðufylkingu, Vinstri grænum, Miðflokki, Framsókn, Sjálfstæðisflokki — og dálítið af Dögun. Rotnunarlykt er af Bjartri framtíð — og sterk klórlykt af henni einni — auk þess sem nálykt er að finna af bæði Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Sá síðastnefndi er svo einn þriggja flokka sem bera með sér bensínlykt, en henni deilir hann annars vegar með stóra andstæðingnum á hinum enda hins hefðbundna pólitíska áss, Vinstri grænum — hinsvegar með hinni hverfandi Björtu framtíð.

Allir flokkarnir lykta af einhverjum mat — mismiklum þó og missmekklega samsettum — en oftast verður úr fremur bragðvond kássa sem helst minnir á gráma. Af stakri matarlykt má þó nefna jarðarberjalykt, sem finna má af Alþýðufylkingu, Bjartri framtíð og Flokki fólksins, en í tilfelli hinna tveggja síðarnefndu er reyndar um kemíska rót að ræða. Af Alþýðufylkingunni og Bjartri framtíð er líka sítrónulykt, náttúruleg í báðum tilfellum, sem einnig er af Vinstri grænum. Píratar lykta einir af appelsínum, en perulykt má finna af tveimur flokkum: náttúrulega af Framsókn — kemíska af Samfylkingu. Fiskilykt finnst helst til hægri — af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Íslensku þjóðfylkingunni — en kjötlykt aftur á móti við miðju og til vinstri: af Miðflokknum, Framsókn, Flokki fólksins og Vinstri grænum. Af tveimur síðastnefndu flokkunum er kaffilykt í ofanálag, sem þeir deila reyndar með Viðreisn. Áberandi kryddlyktir er svo helst af finna af Samfylkingunni. Þar á meðal er negull, sem einnig má greina sé nefinu troðið dýpst ofan í Dögun.

Skítalykt úr mönnum og dýrum er að finna af fimm flokkum: VG, Miðflokknum, Flokki fólksins, Framsókn, og Sjálfstæðisflokknum. Af síðastnefndu flokkunum þremur má einnig finna sæðislykt — ótengda tegund í tilfelli Sjálfstæðisflokksins, en úr ómennskum skrokkum í tilfelli hinna tveggja. Prumpulykt finnst svo bæði af Samfylkingunni og Miðflokknum. Af níu flokkum er svitalykt — mismikil og -þolanleg — auk þess sem hún orsakast af ólíku atferli í tilfelli hvers flokks. Framsókn lyktar til dæmis af „gredduhormónasvita,“ en Miðflokkurinn aftur á móti bæði af „þynnkusvita æsts skrifstofufólks“ og „svita af völdum kyrrsetu,“ en hið síðarnefnda á einnig við um svitalykt Pírata, sem blandast þó bæði stressi og líkamsræktarsvita. Svitalyktarleysi þriggja stjórnmálaflokka á sér svo augljósar skýringar: í tilfelli Sjálfstæðisflokksins er það hið gríðarmikla vopnabúr flokksins af snyrti- og hreinlætisvörum — en almennt lyktarleysi þegar kemur að Íslensku þjóðfylkingunni og auðvitað sérstaklega Dögun. Auk síðarnefndu flokkanna tveggja er lyktarleysi einnig kennt við Bjarta framtíð og Miðflokkinn, þó það sé reyndar einungis í undartekningartilfellum.

Allnokkra málmlykt er að finna af fjórum flokkum: Framsókn, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Ljósritunarvélalykt er af Dögun og Samfylkingu — og af síðarnefnda flokknum er einnig ryksugulykt sem hann deilir með Vinstri grænum. Peningaseðlalykt finnst af Framsókn og Viðreisn, blekþefur af Pírötum og Íslensku þjóðfylkingunni — blandaður blóði í tilfelli síðarnefnda flokksins — og lykt sökum blautrar steypu af Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokknum. Mikil gróðurlykt finnst af Vinstri grænum — og talsverð af Viðreisn — auk þess sem sérstaklega er tilgreind útilykt af Pírötum og Alþýðufylkingunni. Annars renna úti- og innilyktir að mestu saman hjá öllum flokkum.

Fæstar lyktir virða flokkapólitísk landamæri og stjórnarmyndunarmöguleikarnir eru ótæmandi.

Álitsgjafar

Andri Leó Lemarquis, læknir
Ásdís Thoroddsen, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður
Ásgeir H. Ingólfsson, ljóðskáld og kvikmyndagagnrýnandi
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, myndlistarmaður
Eva Hauksdóttir, laganemi
Gunnhildur Hauksdóttir, myndlistarmaður
Heiða Eiríksdóttir, tónlistar- og útvarpsmaður
Hermann Stefánsson, rithöfundur
Haukur Már Helgason, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður
Jón Karl Stefánsson, M.A. í sálfræði
Nafnlaus karlkyns rithöfundur
Nafnlaus kvenkyns rithöfundur
Nafnlaust karlkyns ljóðskáld
Rúnar Guðbrandsson, leikstjóri
Sara Björnsdóttir, myndlistarmaður
Steinar Bragi, rithöfundur
Steinunn Gunnlaugsdóttir, myndlistarmaður