Hugljúf barnasýning eða krítískt ádeiluverk

Ég er mættur kortéri fyrir sýningu í Hof. Sýningin er Núnó og Júnía, ný fjölskyldusýning Menningarfélags Akureyrar. Hún er vel sótt, heilu kortéri fyrir opnun er aðstaðan framan við dyrnar að salnum þétt skipuð. Dyrnar eru opnaðar stuttu eftir að ég mæti og ég flýt með straumnum inn í sal og finn sætið mitt.

Áður en sýningin hefst eru áhorfendur sefaðir með flaututónlist.

Foreldrar sem sitja framan við mig útskýra verkið fyrir börnum sínum svo: „Það er þoka sem veldur veikindum, veikindin gera fólkið ósýnilegt og eina vörnin gegn þokunni er að vera frumlegur og skapandi“, ég læt það vera að þylja mottóið sem heyrist á fyrstu mínútu sýningarinnar – Vertu besta útgáfan af sjálfum þér – fyrir þau.

Hvort að sýningunni séu settar of þröngar skorður með því að kalla hana fjölskyldusýningu, er fyrsta hugsunin sem ég glími við í þegar hún er yfirstaðin. Þá er ég strax afvegaleiddur með pælingum í þá átt að tilurð verksins, og sá markhópur sem höfundar sjá fyrir sér, hafi áhrif á hvernig verkið þróast.

Verkið sjálft er metnaðarfullt á öllum vígvöllum. Sagan er vel uppbyggð og dregur áhorfandann inn í verkið andlega og hugmyndafræðilega. Hugmyndin um heim Kaldóníu er aðlaðandi í fyrstu en fljótt kemur í ljós togstreita milli stjórnar og þegna. Sviðsmyndin er tiltölulega einföld, að mér sýndist, en afar áhrifarík. Tónlist í sýningunni er lágstemmd en magnandi fyrir upplifun áhorfandans á verkinu.

Aðalleikararnir, þau Alexander, Bjarni og Dominique, sýna vel hvað í þeim býr. Tilvist áhorfenda er viðurkennd í verkinu og kemur það afar vel út. Tilkynning um að slökkva á farsímum er sett í samhengi við sýninguna á sniðugan hátt svo hægt er að sökkva sér algjörlega í stemninguna. Það er tilefni til þess að hrósa fyrir slíkt á sýningu þar sem stór hluti áhorfenda eru ungir og áhrifagjarnir á töfra og þær sýningar sem þeim eru sýndar.

Allir leikarar verksins, stórir jafnt sem smáir, stíga á svið fullir metnaðar og sjálfstrausts í hlutverkum sínum. Trú allra þeirra sem eiga hlut að verkinu skín í gegn og fyllir áhorfendur, sem eru að mestu leyti ungir og áhrifagjarnir, einlægan áhuga á verkinu og örlögum persónanna sem í því hrærast. Ég minnist þess að foreldrar hafi þurft að minna börn sín á að um skáldað verk væri að ræða, örlög persónanna væru ekki eiginleg, bæði fyrir byrjun sýningar og í hléi.

Verkið er gríðarlega opið til túlkunar. Þá er fátt í þjóðfélaginu ekki tekið fyrir í þessu hápólitíska verki. Í heimi þar sem „djöflasýra á við Skoppu og Skrítlu“ (eins og ungur faðir og æskuvinur undirritaðs komst að orði) ræður ríkjum á sviði barnasýninga er sýning sem þessi, þar sem boðskapur og ádeila komast að og eru sett í búning sem börn skilja og læra af, þá er ekki þar með sagt að boðskap sé ekki að finna í sýningum Skoppu og Skrítlu. Heldur það að barnasýningar eru oftast hugsaðar fyrir börn undir 10 ára aldri og kynna hrárri og svarthvítari hugmyndir á borð við: „Verum alltaf góð hvert við annað“. Þá er boðskapur Núnó og Júníu, ásamt listilegri myndlíkingu þokunnar, einn sá allra flottasti sem undirritaður hefur komist í kynni við á síðustu árum.

Svo fátt eitt sé nefnt deilir verkið á samfélagið og viðhorf þess nú á dögum, sérhæfingu náms og þá stefnu sem menntakerfið er að taka í þeim efnum og síðast en ekki síst narsissisma. Vitaskuld má vel vera að ég, ómenntaður og draumsýnn gagnrýnandi yðar (fjöldans), lesi það sem ég vil úr verkinu. Það er í eðli gagnrýnenda að leitast eftir hlutdrægni. Það er einlæg trú þessa auðmjúka gagnrýnanda að verkið eigi erindi við alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla. (Afsakið viðbjóðslega klisjuna, hún var á óskammfeilinni auglýsingu aftan á sýningarskrá verksins)