Greitt í liljum er önnur ljóðabók Elíasar Knörr (Knarrar?) sem út kemur á íslensku. Opinberlega mun Elías heita Portela að eftirnafni, upprunninn í Galisíu á Spáni þar sem hann hóf sinn skáldferil. Fyrri bók hans á íslensku, Sjóarann með morgunhestana undir kjólnum, frá árinu 2010, hefur undirritaður því miður ekki lesið en semsagt: hér höfum við íslensku ljóðabók númer tvö frá ‒ augljóslega mjög færum ‒ erlendum höfundi sem hefur kosið að flytja á klakann, læra hið ástkæra ylhýra og yrkja á því. Þetta eitt og sér er auðvitað tilefni til að slá upp veislu, ef ekki heilli útihátíð. Nú er vinnuaðferð hans mér ókunn en það er alveg ljóst af þessari bók að hann hefur náð gríðarlega góðum tökum á málinu. Þeir sem hafa prófað að yrkja eða skrifa skáldskap á öðru en móðurmáli sínu þekkja eflaust þá tilfinningu sem því fylgir og eflist við það, að erlenda tungumálið sem maður er að vinna með sé hrár efniviður, eins og leir sem má móta og sníða á alla kanta. Þessi bók Elíasar ber þessa víða merki, meðal annars í leikglaðri næmni fyrir hljóðfræðilegum eigindum og samsetningum sem virka óvæntar, frumlegar og skemmtilegar fyrir innfædda, að minnsta kosti þann sem þetta ritar. Eitt dæmi:
gráthommar
hvíla við kistuna
og sofna
Hinum hefðbundnu grátkonum hefur hér verið skipt út í óvæntri vendingu sem teljast má dæmigerð fyrir þann kyngervisusla og það hinsegin ljóðmál sem flæðir um bókina alla.
Þetta er stutt bók, í raun bara svokölluð chapbook eins og önnur Meðgönguljóð sem Partus gefur út, en heildin er þétt. Ljóðin eru knöpp, meitluð, dularfull og streitast gegn einfaldri túlkun. Margræðnin byrjar strax í titlinum: við fyrstu sýn virðist liljan, blóm dauðans samkvæmt klisjunni, hér hugsuð sem gjaldmiðill, sem leiddi til vangaveltna hjá undirrituðum um tengsl viðskipta og dauðans, kapítalisma og dauðans, en í bókinni sjálfri reynist síðan fátt sem styður svo flata túlkun berum orðum. Hins vegar er ergi eitt meginþema, samanber erindið í Þrymskviðu þar sem Þór segir: „Mik munu æsir/argan kalla/ef ek bindask læt/brúðar líni“ og svo framvegis. Bókin hefst á ljóðinu „manifestó I“:
ræktum líkamann með ergi
og ræktum vopn
með líkamanum
ræktum ergi
þessa frjósömu ergi
með vopnum
Flestir ættu að geta verið sammála um að þetta er mjög flott. Hið stutta, harða og hlaðna orð „vopn“ er þrungið slagkrafti; það ríður af, ef svo má segja, á einkar fullnægjandi hátt. Að viðbættu yfirbragði stefnuyfirlýsingarinnar hefur ljóðið því eiginleika sem í menningu okkar eru jafnan eignaðir karlmennskunni, sem er auðvitað mjög íronískt því um leið er hér á ferð hin argasta ergi. Manni verður hugsað til persónunnar í sögunni Querelle de Brest eftir Genet sem segir: „Ég er svo mikið karlmenni að ég ríð meira að segja gaurum!“ (ívitnað eftir minni). Hvers eðlis ætli þessi vopn séu? Lesendum er látið eftir að túlka það, en þessum lesanda dettur til dæmis í hug að þau gætu verið frjálsir mannslíkamar, unaður og gleði innan samfélagsgerðar sem vill helst að flest fólk lifi í samfelldri, vægri óhamingju. En hvað um það, hér er semsagt stillt upp hringrásinni ergi → líkaminn → vopn → ergi, sem einnig er leiðin til listrænnar sköpunar, sé lögð rækt við þetta allt, ef marka má „manifestó II“, sem hljóðar svo í heild sinni:
handan við ergi bíður ljóðið
Í vandaðri umfjöllun Ásdísar Sigmundsdóttur fyrir vefritið Hugrás er bent á að ljóðin í bókinni fjalli gjarnan um eigin sköpun og skal því ekki mótmælt hér. Skáldið er ljóðunum bæði faðir og móðir, nokkurs konar tvíkynjungur eins og dæmi eru um úr dýra- og jurtaríkinu og goðafræðinni. Frjósemin er hér allt um kring, í samræmi við annað leiðarminni, það er vorið. Í fróðlegu viðtali við bókabloggið Druslubækur og doðranta segir höfundurinn sjálfur: „Greitt í liljum er einhver tilraun til að yrkja um vor og birtuna, eða frekar til að skrifa bók sem stefnir að vorinu“. Vissulega úir hér og grúir af vísunum í þann árstíma þegar náttúran vaknar og segir til sín, svo sem ræktun, sáningu, frjóvgun, plægða akra og fleira (jafnvel líkkistan í ljóðinu um gráthommana gæti fallið undir þetta minni), og „eftir vetrargjaldið/ilmar vorið“ eins og segir í lokaljóðinu, sem heitir einfaldlega „ergi“. Stundum birtist þetta með munúðlegum og erótískum en jafnframt frumlegum hætti, eflaust þökk sé fjarlægðinni áðurnefndu sem Elías hefur gagnvart íslenskunni, sem gerir honum kleift að koma í sífellu aftan að lesandanum. Hann getur líka verið mjög fyndinn, eins og í ljóðinu „raunadálkur II: samsemd“:
skáldið breimar
fyrir framan
spegilinn og
högninn spennist
upp
Í viðtalinu kemur einnig fram að Elías starfi að einhverju leyti innan hefðar kreasjónismans, gamallar framúrstefnuhreyfingar sem var náskyld súrrealismanum. Í því felst að ljóðinu er ætlað að vera sjálfstæð veröld með sína eigin innri rökvísi, eining sem vísar ekki út fyrir sjálfa sig, til raunheimsins eða höfundarins. Þetta er vitaskuld ekki alveg mögulegt; eins og Adorno benti á þá vísa ljóð alltaf til hinna efnislegu, sögulegu aðstæðna fyrir utan sig, jafnvel hvað mest þegar þau reyna að gera það alls ekki ‒ veruleikinn er nálægur einmitt vegna fjarveru sinnar.
En hvað sem því líður þá má Elías eiga það skuldlaust að kreasjónisminn hefur hér nýst honum til að skapa ferskt ljóðmál sem er algjörlega hans eigið. Stundum er kannski eins og hann sé að teyma mann full langt inn á einhverjar naívískar ævintýralendur sem höfða ekki til mín, en yfirleitt er það þó gert nógu dulúðugt og aðlaðandi til að halda lesandanum og gott betur. Ljóðmyndirnar líða fram ein af annarri, margræðar, kynngimagnaðar og bullandi argar. Margræðninni tengd er kannski pólitík erginnar eins og hún birtist hér á sviði textans: ergin er líkt og afl sem grefur undan hefðbundnu boðskiptahlutverki tungumálsins, hlutgervingin og fasisminn í málinu fá ekki hamið hana, nýja lífið sem hún kveikir brýtur sér leið. Þetta eru ljóð sem þurfa ekki að bera pólitík sína utanborðs; þau eru einfaldlega pólitísk í sjálfum sér, vopn sem spretta upp úr jörðinni þegar vorar.
Hafi eitthvað þessu líkt áður verið ort á íslensku þá eru þess varla mörg dæmi. Kannski að frátalinni fyrri bók Elíasar.