Af hverju er Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson ekki skyldulesning í grunn- eða framhaldsskóla?
Eftir lestur þessarar mögnuðu sögu Tryggva finnst mér helst til undarlegt að hana hafi ekki rekið á fjörur mínar fyrr.
Ég er enginn sérfræðingur í sögu Íslands eða þeim bókmenntum sem nýta sagnaarfinn en þykir mikilvægt að viða að mér fróðleik til skilnings á rótunum. Þó svo að allsnægtir hafi ávallt verið til staðar þá þekkir maður gróflega sína sögu; sögu fátæka Íslands, vosbúðina, sjálfstæðið, klisjurnar og ekki klisjurnar. En núna held ég að ég hafi hreinlega aldrei haft lifandi skilning á aðstæðum fólks fyrir mína daga, Fátækt fólk fékk mig, á einhvern hátt, til þess að lifa vosbúðin, lifa þau örlög að dauðinn er alls staðar en fegurðin líka.
Tryggvi fæddist 82 árum áður en ég fæddist en mér líður eins og geimveru frammi fyrir því samfélagi sem hann fæddist í. Áttatíu og tvö ár. Kannski er ekki skrýtið að fólk hræðist að við séum búin að slíta ræturnar við gamla, fátæka Ísland í okkar gjörbreytta heimi.
Enda fer fátæka fólkið hans Tryggva ekki hátt. En það ætti að gera það. Tryggvi nýtti sínar fábreyttu aðstæður til fulls og hann lifði. Hann kunni að lifa í endurtekningunni, að þekkja dalinn, fjöllin, hverja einustu hæð og hól, hvert veðurbrigði, hvað hundurinn var að meina, kindin eða hesturinn, hann sá hvernig dýrin hugsuðu.
Næmnin fyrir fegurðinni er (náttúrulega) ólýsanleg. Lýsingarnar á Öxnadalnum, tíminn sem hann hafði og nýtti til að velta öllu fyrir sér og komast þannig í djúp tengsl við umhverfið. Þær fengu mig til þess að hugsa um mín eigin tengsl við umhverfið, okkar eigin væntingar, hvað við viljum, hvað þykir kúl. Ég hef komið til Kasmír, ég hef komið til Rómar og ég hef komið til Balí, plánetan er falleg. Það eru ótrúlegir hlutir alls staðar en því fleiri staði sem ég heimsæki, því fleiri fallegar evrópskar borgir, fallega skógardali, fallegar strendur, því meir myndast abstrakt mynd af fallegri evrópskri borg, fallegum skógardal, fallegri strönd í huga mér í stað hins einstaka staðar.
Ég ólst líka upp í sveit. En ég hafði sjónvarpið, ég hafði bækurnar, bílinn, snjóþotuna, mér var alveg sama um hundinn, hugsuðu kindurnar? Ekkert af þessu hafði Tryggvi, vart til bók á heimilinu, hann notaði einungis hugann til þess að búa til töfraheiminn, hann talaði við fólk, dýr og jafnvel fjöllin.
En það er ekki aðeins næmni Tryggva sem hreif mig heldur einnig réttlát reiðin og skilningur á fólki, góður vilji gagnvart fólki. Lýsingarnar á lífi foreldra hans á eyrinni, þegar faðir hans var veikur og móðirin með mörg börn að reyna að finna mat, hvernig dönsku kaupmennirnir lokuðu dyrunum, arðránið var algert og arðurinn fluttur til Kaupmannahafnar. Presturinn hjálpaði ekki heldur, heldur minnti móðurina á að dýrðina væri að finna í fokking næsta lífi! Tryggvi skefur ekki af því hvað honum finnst þetta ósanngjarnt, þetta er ömurlegt og þetta er arðrán. Aðstæðurnar voru hræðilegar, mikilmennin horfðu upp á örbirgðina en samt var góssið sent til kóngsins Köben.
Það er svo margt sem mig langar að skrifa um, mörg atriði sem snertu mig en ég veit ekki hvort þau snerta þann sem les um þau óbeint í gegnum mig. Bókin þarf einfaldlega að vera lesin. En ég get ekki setið á mér, ég verð að segja frá nokkrum dæmum. Fyrst er að nefna skilninginn á fátæka fólkinu og ástæðum þeirra gjörða, það hafði engan annan kost, fátæktin búin að mergsjúga það, móta hugsunarganginn, „hún var bara svo fátæk hún Guðný, hún gat ekkert að þessu gert.“
Svo er að nefna hið ótrúlega fallega samband hans við kornabarnið systur hans, en honum var falin hennar umsjá ungum að aldri. Hvernig hann lýsir tengslum sínum við systur sína og hvernig hann reynir að halda lífi í henni þegar hún veikist er magnþrungin lýsing. Að lokum verð ég að nefna það þegar hann nær að hugsa sig í spor skagfirsks hests sem hefur verið seldur til Eyjafjarðar en þráir heimahagana. Hvernig hann undirbýr flóttann, lætur verða af því, búin að halda í minninu allan tímann í hvaða átt hann á að fara yfir fjöllin til Skagafjarðar. En svo villist hann á heiðinni og lendir í sjálfheldu, kemst ekki áfram, japlar á mosanum, það haustar, hann fór of seint, japlar á mosanum uns allt er búið og hann stendur í sömu sporum þangað til hann fellur niður (örendur) og Tryggvi gengur fram á beinagrindina á þessum skrýtna stað á heiðinni.
Einmitt vegna þess að Tryggvi skefur ekki af eymdinni og ósanngirninni, einmitt vegna þess að þetta er sönn saga, sett fram á svo næman og skilningsríkan hátt, snertir hún mig. Þess vegna snertir hún mig mun frekar en skáldsaga sem lýsir fátæka Íslandi og ýjar að því undir rós hve ósanngjarnt þetta var allt. Stundum þarf að lýsa ástandinu með berum orðum og gera það að skyldu að lesa það, ef ekki skyldu í skóla þá að skyldu í lífinu.
Þá er næst að hella sér í framhald Fátæks fólks, Baráttuna um brauðið og sjá hvernig Tryggvi nýtir sér næmni sína, mannskilning og réttláta reiðina eftir fátæka æsku.
Birtist áður á Druslubókum og doðröntum.