The Reign of King Edward III kom út nafnlaust árið 1596 og sextíu árum síðar komst sú hugmynd á prent að það væri talið eftir William Shakespeare. Æ síðan hefur verið japlað, jamlað og fuðað um málið en árið 2002 setti Royal Shakespeare Company verkið á svið og eignaði það sínum manni afdráttarlaust í kynningarefninu. Núna í haust kom út virðuleg Arden-útgáfa af Edward III, sem fer eins nálægt því að kanónísera það og komist verður.
Því auðvitað verður aldrei neitt vitað með vissu.
Eins og þau Richard Proudfoot og Nicola Bennett tala um í innganginum þá voru áhyggjur samtímamanna Shakespeares um hver yrði arftaki Elísabetar að magnast á þessum árum. Drottningin dottin úr barneign og allt í voða, óstöðugeiki og mögulega borgarastríð við sjóndeildarhring. Þetta eru vandræði sem ekki hrjáðu Játvarð þriðja, sem átti sæg af sonum. Reyndar kom í ljós að það er heldur ekki gott, því deilur afkomenda hans um rétta erfðaröð urðu eldsneyti Shakespeares í heil átta leikrit.
Ein kenningin um hvað Edward III hefur farið lágt sem leikrit og ekki ratað í Folio-útgáfuna tengist reyndar þessum arftakaáhyggjum. Eftir að Jakob sjötti af Skotlandi var gerður að krónprinsi Englands varð auðvitað algert nónó að gera grín að Skotum, eins og gert er hér í einni senu (skotarnir eru ribbaldar og skræfur, og svo segja menn „bonnie“ og allt), sem vill svo til að er ein þeirra sem talið er líklegast að sé eftir okkar mann.
Því langflestir eru sammála um að ef eitthvað af verkinu sé frá Shakespeare runnið þá sé það í það minnsta alls ekki allt úr þeirri áttinni. Eric Sams, sem við kynntumst aðeins þegar við töluðum um Edmund Ironside fyrir nokkrum vikum, er reyndar á því að Edward III sé að fullu Shakspeareverk, en Sams er furðufugl og sérhæfir sig í svona skoðunum.
Að sjálfsögðu fer drjúgur hluti greiningarinnar hjá Proudfoot & Bennett í að skoða sönnunargögn. Leita að fingraförum og DNA-i úr William í texta verksins. Ýmsum aðferðum er beitt:
Kven-endingar: Að enda stakhendulínur á áherslulausu „auka“atkvæði ku vera sérkenni á texta Shakespeares, eða allavega yrkir hann oftar svona en samferðamennirnir. Þá á ekki síst við þegar kvenendingin er stakt einsatkvæðisorð.
N-gram greining: þar sem tíðni stuttra frasa, 3–10 orð, er skoðuð með tölfræðigrúski og tíðni slíkra orðasambanda borin saman við önnur verk höfundanna.
Báðar þessar rannsóknaraðferðir leiða líkur að því að senur 2, 3 og 18 (verkinu er ekki skipt í þætti í einu prentuðu útgáfunni) séu verk okkar manns. Það vill líka svo til að 2 og 3 eru nánast sjálfstætt „stuttverk“, sem engin ummerki sæjust um væru þær strikaðar.
Af smærri atriðum má t.d. nefna línuna „Lilies that fester smell far worse than weeds“ (2. 617) sem einnig er lokalína sonnettu 94. Og tíðni orðanna „Sovereign“ og „Liege“ sem Shakespeare notar mikið, og eru áberandi algengari í þeim hlutum verksins sem af öðrum ástæðum eru taldir hans.
Það er semsagt niðurstaðan að Shakespeare „eigi“ þessa afmörkuðu hluta að miklu leyti. Ummerki um hann eru mun rýrari á öðrum stöðum og það ræðst eiginlega frekar af því hverju menn trúa um kringumstæður aðkomu hans hvort hann sé talinn eiga þar mikinn, lítinn eða engan hlut að máli.
Proudfoot og Bennett velta upp nokkrum möguleikum á þessu. Minni spámenn á borð við Thomas Kyd, George Peele og Thomas Nashe eru nefndir, sem og næststærsti spámaður tímans. Langbitastæðasta hugmyndin er óneitanlega sú að Shakespeare hafi lokið við verk sem Christopher Marlowe hafði í smíðum þegar honum varð sundurorða við drykkjufélaga sína á krá í Deptford og var stunginn til bana vorið 1593. Þau fara ekki djúpt í textafræðilegar líkur á að Marlowe hafi komið að samningu textans. Benda þó á formleg líkindi við Tamburlaine the Great, The Massacre at Paris og Edward II. En ég ætla einfaldlega að hafa þetta fyrir satt. Enginn veit neitt og þá lætur maður fagurfræðina og dramað ráða.
Marlowe vann semsagt að (mjög) sjálfstæðu framhaldi af verki sínu um Játvarð II þegar hann var drepinn, hvort sem það var vegna njósnastarfsemi, þátttöku í leynireglum guðleysingja eða einfaldlega út af þrasi um bjórreikninginn. (Um þetta allt er langskemmtilegast að lesa í A Dead Man in Deptford eftir Anthony Burgess). Yngri kollegi Marlowes lauk við hálfskrifaða leikritið, lagaði eitt og annað smálegt og bætti við einum útúrdúr frá eigin brjósti. Verkið var sýnt en náði ekki mikilli hylli og var látið hverfa þegar við blasti að Jakob sjötti af Skotlandi yrði Jakob fyrsti af Englandi.
Ég er ekki þaullesinn í Marlowe, en þindarleysið í stakhenduflaumnum, sem aukinheldur er ákaflega fagmannlegur og pottþéttur, hljómar honum líkt. Það sem kannski truflar áferð kenningarinnar aðeins er hvað verkið er efnislega ótengt Edward II. Hér er enginn endurómur af hinum hroðalegu endalokum hans, ekkert unnið með að sonur hans (og/eða sonarsonur) þurfi á einhvern hátt að „sanna sig“ sem karlmenni og stríðsgarpur eftir að faðir hans var næstum búinn að fórna konungsríkinu fyrir kærastann sinn. Nokkuð sem mætti kalla sjeikspírskt dauðafæri.
Í staðinn er Edward III einstaklega einfalt, beinskeytt og „línulegt“ verk: Konungur ákveður að fara í stríð. Elsti sonur konungs ákveður að hætta í skóla og og fara með pabba sínum í stríð. Þeim gengur mjög vel. Sérstaklega syninum sem reynist vera náttúrutalent og vinnur fræga sigra á ofurefli andstæðinganna. Tjaldið.
Einfalt. Beinskeytt. Pínu leiðinlegt, verður að viðurkennast.
Útúrdúrinn hans Shakespeares (atriði 2 og 3) er reyndar svolítið skemmtilegur. Bæði í sjálfum sér, og svo líka vegna þess hvað hann er mikill og skrítinn útúrdúr.
Eftir að ákvörðun um innrás í Frakkland er tekin í lok fyrsta atriðis þarf kóngur að hrekja skoskan innrásarher norður fyrir landamærin áður en hægt er að einhenda sér yfir Ermasundið. Davíð Skotakonungur annar er staddur í kastala hertogans af Salisbury og er í þann mund að nauðga hertogaynjunni og ræna þegar heyrist lúðraþytur. Davíð er skræfa (sjá skotaskömmunarkenninguna hér að ofan) og hundskast burtu með allt sitt lið. Frúin fagnar Játvarði (því þetta er hann) innilega. Mögulega aðeins of innilega, því hann verður umsvifalaust heiftarlega ástfanginn og við erum skyndilega stödd í heimi Two Gentlemen of Verona:
She is grown more fairer far since I came hither,
Her voice more silver every word than other,
Her wit more fluent. What a strange discourse
Unfolded she of David and his Scots!
‘Even thus’, quoth she, ‘he spake’, and then spoke broad,
With epithites and accents of the Scot,
But somewhat better than the Scot could speak:
‘And thus’, quoth she, and answered then her self
For who could speak like her but she her self
Breathes from the wall an Angel’s note from Heaven
Of sweet defiance to her barbarous foes.
When she would talk of peace, me thinks, her tongue
Commanded war to prison; when of war,
It wakened Caesar from his Roman grave,
To hear war beautified by her discourse.
Wisdom is foolishness but in her tongue,
Beauty a slander but in her fair face,
There is no summer but in her cheerful looks,
Nor frosty winter but in her disdain.
I cannot blame the Scots that did besiege her,
For she is all the Treasure of our land;
But call them cowards, that they ran away,
Having so rich and fair a cause to stay.2.191–213
Harðgiftur konungurinn reynir síðan að feta í fótspor Skotakóngs, á örlítið penni hátt, og fá hina fögru hertogaynju til fylgilags við sig í krafti stöðu sinnar. Fær meðal annars föður hennar til að hafa milligöngu. Löngu síðar í verkinu kemur reyndar í ljós að drottningin er heima ólétt meðan þessu fer fram (sem er reyndar tölfræðilega næstum óhjákvæmilegt miðað við hve mörgum börnum þeim tókst að koma í heiminn). Frú Salisbury tekst á endanum að koma vitinu fyrir Játvarð og hann brunar í stríð. Er hún – og þessi tryllta og kjánalega ást – úr sögunni.
Það er mjög shakespearskur blær á þessu. Mun meira flug á málinu öllu en annarsstaðar í verkinu. Og sumt endurómar í seinni verkum:
An evil deed, done by authority,
Is sin and subornation: Deck an Ape
In tissue, and the beauty of the robe
Adds but the greater scorn unto the beast.2.609–612
Through tatter’d clothes small vices do appear;
Robes and furr’d gowns hide all. Plate sin with gold,
And the strong lance of justice hurtless breaks:
Arm it in rags, a pigmy’s straw does pierce it.King Lear 4.6.163–165
Magnað er síðan til þess að hugsa að einmitt þessar sjeikspírsku senur, þar sem kóngurinn hegðar sér eins og dómgreindarlaus dólgur í boði losta síns, eiga sér skýra hliðstæðu í Edward II eftir Marlowe, þar sem kóngurinn fellur vegna þess hve ást hans á Piers Gaveston tekur alla hans athygli og orku frá bæði drottningu sinni og skyldustörfum.
Senur 2 og 3 eru mjög sjálfstæðar í verkinu. Nánast það eina sem vísar í þennan millikafla eru þessi frýjuorð Frakkakonungs (vanmat er grunntónninn í franska liðinu):
For what’s this Edward but a belly god,
A tender and lascivious wantoness,
That th’other day was almost dead for love?6.155–157
Að öðru leyti gengur aðallega á með fagnaðarlátum yfir vel heppnuðum hernaðaraðgerðum, vangaveltum um hvernig næstu hernaðaraðgerðir muni ganga og almennum stríðslátum. Stríðsrembing jafnvel. Hér er konungurinn til dæmis að furða sig á franskri þvermóðsku:
Ah, France, why shouldest thou be thus obstinate
Against the kind embracement of thy friends?
How gently had we thought to touch thy breast
And set our foot upon thy tender mould,
But that, in froward and disdainful pride,
Thou, like a skittish and untamed colt,
Dost start aside and strike us with thy heels!6.27–33
Og hér er stríðshetjan sonur hans, Játvarður Svartiprins, að beita Zenónskri rökvísi til að sanna fyrir sjálfum sér að franska ofureflið sé hreint ekkert slíkt:
Death’s name is much more mighty than his deeds;
Thy parcelling this power hath made it more.
As many sands as these my hands can hold,
Are but my handful of so many sands;
Then, all the world, and call it but a power,
Easily ta’en up, and quickly thrown away:
But if I stand to count them sand by sand,
The number would confound my memory,
And make a thousand millions of a task,
Which briefly is no more, indeed, than one.
These quarters, squadrons, and these regiments,
Before, behind us, and on either hand,
Are but a power. When we name a man,
His hand, his foot, his head hath several strengths;
And being all but one self instant strength,
Why, all this many, Audley, is but one,
And we can call it all but one man’s strength.
He that hath far to go, tells it by miles;
If he should tell the steps, it kills his heart:
The drops are infinite, that make a flood,
And yet, thou knowest, we call it but a Rain.
There is but one France, one king of France,
That France hath no more kings; and that same king
Hath but the puissant legion of one king,
And we have one: then apprehend no odds,
For one to one is fair equality.12. 40–65
Þegar faðir hans fréttir af ofureflinu sem drengurinn þarf að kljást við og er hvattur af herforingjum sínum að senda liðsauka er þetta svarið:
Then will he win a world of honor too,
If he by valour can redeem him thence;
If not, what remedy? we have more sons
Than one, to comfort our declining age.8.21–24
Já, Játvarður, þú átt sæg af sonum. Enginn þeirra varð samt kóngur og afkomendur þeirra bitust um völdin í heila öld. En kaldlyndið er bara önnur hlið á hinni riddaralegu rómantík sem Játvarður III var sannanlega fulltrúi fyrir og gegnsýrir allt leikritið:
KING EDWARD.
Audley, content; I will not have a man,
On pain of death, sent forth to succour him:
This is the day, ordained by destiny,
To season his courage with those grievous thoughts,
That, if he breaketh out, Nestor’s years on earth
Will make him savor still of this exploit.DARBY.
Ah, but he shall not live to see those days.
KING EDWARD.
Why, then his Epitaph is lasting praise.
8.33–40
Orðstír deyr aldrei. Og satt er það: Svarti prinsinn er einn dáðasti stríðsgarpur enskrar sögu. Hann er samt ekki í Valhöll, dó á sóttarsæng 1374, 45 ára að aldri. Tveimur árum síðar fór svo faðir hans og barnungur sonur þess svarta varð Ríkarður II. Það fór nú eins og það fór.
Það er óþarfi að efast um að Edward III sé að hluta undan fjöðurstaf Shakespeares. Sennilega ekki að stórum hluta. Og stór hluti þess er rislítill skáldskapur og framvindan flöt. Nú er ég búinn að lesa það fyrir ykkur og þið getið látið það eiga sig.
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.