Mig langar að lýsa kynnum mínum af nýju plötunni hans Snorra Helgasonar, Vittu til. Ég hef ekki skrifað mikið um tónlist áður og því má segja að ég sé að fara út fyrir þægindarammann. Það segja allir að það sé hollt að fara út fyrir þægindarammann öðru hverju. Ég er hinsvegar gamall hundur og jafnvel þegar viðfangsefnið stendur utan þægindarammanns þá bara teygi ég höndina (eða loppuna ef ég á að halda mig við gamla hunds-myndlíkinguna) aðeins útfyrir og dreg svo viðfangsefnið inn í þægindarammann. Í þeim anda langar mig að tala svolítið um sjálfan mig, svo um aksturslagið hans Núma vinar míns, svo aðeins um Heimsljós bókina hans Halldórs Laxness sem ég er nýbúinn að stúta á hljóðbók áður en ég svo einhendi mér í umfjöllun um plötuna Vittu til.
Byrjum á mér. Ég er svokallaður hatari þegar kemur að tónlist. Ég hlusta mest á barrokk og dauðarokk og prísa mig sælan ef að eitt prósent af því sem ég sigta mig í gegnum nær máli. Í barokkinu enda ég oftast í Bach en í dauðarokkinu enda ég alltaf einhverstaðar úti á túni, í Portal eða einhverju svoleiðis. Ég verð alveg brjálaður þegar ég heyri eitthvað leiðinlegt en ég vil trúa því að öfgarnar nái í báðar áttir og að góð tónlist kannski gleðji mig líka af sama offorsi og vond tónlist ofbýður mér. Að þessu leyti er ég eins og Númi vinur minn úti í umferðinni. Maður skilur ekki hvað það eru stundum miklar tilfinningar í spilinu. Hann verður alveg brjálaður ef hinir bílarnir eru eitthvað að klúðra eða þvælast fyrir eða gleyma að gefa stefnuljós. Ég ímynda mér líka hann eigi kost á því að upplifa ofsagleði í umferðinni rétt eins og ofsareiði. Kannski kemur gleðin þegar hann rétt sveigir framhjá rolluhóp á Gemlufallsheiði, kannski kemur hún þegar kindurnar springa á húddinu eins og vatnsblöðrur. Mér finnst ég samt skilja hann Núma vin minn aðeins betur ef ég set aksturslagið hans í samhengi við tónlistaráhuga minn. Við erum bara tvær tilfinningaverur frá rómantíska tímanum ég og hann. Við erum bara svo næmir.
Yfir í Heimsljós. Það eru tvö atriði sem mig langar að ræða sérstaklega úr þeirri ágætu bók áður en ég svo sný mér að plötuumfjöllun. Í fyrsta lagi er það hin kærleiksríka mynd sem er dregin upp af íslenska sumrinu, í öðru lagi hvernig skáldinu, hlutverki þess og afstöðu er lýst í sögunni.
Sumarlýsingarnar í Heimsljósi eru nokkuð magnaðar og það var mikil reynsla að vera sjálfur staddur mitt í íslenska sumrinu á meðan þetta var lesið fyrir mann:
Það var sama blíðan. Þegar koma tveir góðviðrismorgnar í röð á Íslandi, þá er einsog allar áhyggjur lífsins hafi kvatt fyrir fullt og alt. Loftið var hrannað ilmi af jörð og sjó. Það var einn óþagnandi hindarhljómur í kliði sjófuglsins. Það bjó í sólskininu kyrlátur móðurlegur algleymisunaður. Það var eins og hin munuðsæla taða vallarins og hið alþýðlega gras mýrana mundi aldrei framar geta fölnað. Sjórinn var svo kyr og spegilskygndur að það var fráleitt að slíkur sjór mundi nokkrusinni geta orðið úfinn uppfrá þessu. Hinn bláskæri elskandi himinn virtist aldrei framar munu geta orðið leikvöllur miskunnarlausra veðra (Heimsljós I, 126-7).
Sjálft skáldið fær öllu margbrotnari útlistun. Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi er ýmist lýst sem hetju eða aumingja: Stundum er hann sakleysingi, spekingur, mannvinur fræðimaður og jesúsfígura, öðrum stundum er hann er hann svo kynferðisbrotamaður, glópur, tækifærissinni, framhjáhaldari og ræfill. Laxnessið mátar öll þessi hlutverk við skáldið en passar vel að ekkert þeirra beint festist. Það áhugaverðasta við meðferð Heimsljóss á skáldinu er svo staða þess og afstaða gagnvart samfélaginu. Á einhverjum punkti er reynt að virkja skáldið í pólitískan aktívisma og baráttu fyrir félagslegu réttlæti en það fer allt fyrir ofan garð og neðan. Skáldið hefur sterka réttlætiskennd og hjarta þess slær með hinum niðurníddu og smáu en á sama tíma svífur hugur þess hátt yfir öllum praktískum málefnum. Skáldið annaðhvort skilur ekki brauðstrit eða finnst það ekki áhugavert. „Ojá, hann er alltaf eitthvað að bambra manntetrið“ segir skáldið þegar að það fréttir af dugnaði einhvers (Heimsljós II, 12). Nóg um það í bili.
Í sumar hef ég hlustað talvert mikið á plötuna hans Snorra Helgasonar, Vittu til. Snorri er semsagt manneskja af holdi og blóði en í umslaginu er líka talað um hljómsveitina Snorri Helgason. Í stystu máli er þetta tónlist af því tagi sem Svíar kalla „singer/songwriter“ í viðleitni sinni til að hólfa allt niður og gera allt leiðinlegt, reyna að murka lífið úr öllu mögulegu með smákökuformið í annari og hamarinn í hinni. Ýmsir leggja hönd á plóg og þarna má eiginlega finna landsliðið í tónlist. Allur hljóðfæraleikur er til mikillar fyrirmyndar. Ég gæti til dæmis alveg rennt í gegnum plötuna og bara dáðst að því hvað bassinn er að gera. Trommurnar eru skoppandi léttar og stökkar eins og, tja, marengs? Mr Silla kemur sterk inn með bakraddir á völdum stöðum og Daníel Friðrik Böðvarsson á alveg glæsilegt hetjugítarsólu í laginu „Tvö á lífi“. Ég er líka viss um að Örn Eldjárn á eitthvað í öllum litlu línunum, krókunum og krúsídúllunum hér og þar. Snorri Helgason sjálfur semur svo flest lög og texta (að frátöldum textanum við lagið „Tungl, flóð og fjara“), syngur þetta undurblítt og spilar á gítar, mandólín, banjó ofl. Þetta er annars fyrsta plata Snorra sem er öll á íslensku. Mér finnst íslenskan fara honum betur en enskan sem hann hefur notað fyrri plötunum. Vittu til voru fyrstu kynni mín af tónlist Snorra en eftir að hafa heyrt þessi lög þá finnst manni pínu kauðalegt að heyra sungið á ensku um einhverja Carol eða eitthvað á eldri plötunum.
Lögin eru mjög lagskipt og maður er alltaf að taka eftir einhverju nýju. Það var til dæmis ekki fyrr en um tuttugustu hlustun sem ég til dæmis tók eftir básúnu í titillaginu sem var eins og falin í allra augsýn. Þó að öll lögin séu innbyrðis ólík þá hefur platan öll mjög heildstæðan hljóm. Mér finnst alltaf gaman þegar plötur ná þessum áhrifum en dæmi um svona plötur eru Heligoland með Massive Attack og My Beautiful Dark Twisted Fantasy með Kanye West. Hljóðheimur Vittu til kallar til dæmis fram í hugann einhvern appelsínugulan lit, nokkurveginn sama hvar maður drepur niður.
Hafandi að mestu afgreitt umfjöllun um plötuna svona í tónlistarlegum skilningi þá langar mig að snúa aftur að þessum tveim stefjum úr Heimsljósi sem ég minntist á hér að ofan; sumarið og skáldið. Mér finnst platan vekja upp mjög angurvær sumarleg hughrif og hér og þar heyrir maður textabrot í þá veru. Morgunsólin dúkkar upp í tveimur lögum (ókei, morgunsólin er kannski ekki eingöngu sumarfyrirbæri, en samt) og á öðrum stað er spurt: „Má bjóða þér sólbrúnt ævintýri/Á hlýrri nýrri og betri stað?”. Annarsstaðar er sungið um „sumarrós sem vex og grær í grænum mó“ og enn annarsstaðar býður Snorri hlustendum að búa til „eitthvað sem skiptir ekki máli“ og baka það svo í sólinni (ókei, sólin er ekki eingöngu sumarfyrirbæri heldur, en samt). Þetta eru eins og áður sagði ákveðin hughrif og ef mér virðist ganga illa að styðja við þau með rökum og dæmum þá á hinum eftir að ganga enn verr sem ætlar að reyna að hrekja tilvist þeirra fyrir mér. Hitt þemað sem ég vil ræða er skáldið. Mér fannst líkindin milli skáldsins, eða frekar einni birtingarmynd skáldsins, í Heimsljósi og Snorra Helgasonar, manneskju eða hljómsveitar eins og hún hljómar á Vittu til, vera áhugaverð. Textarnir fjalla gjarnan um abstrakt hluti eins og einsemd (í laginu „Einsemd”), drauma, að segja satt, að gera það sem maður vill og þvíumlíkt. Skáldið á plötunni er fjarrænt og orðin gjarnan almenn og óhlutbundin, eins og í laginu Sjakalinn: „Á gulrauðu engi ég ligg og leita svars/Það er þarna einhvers staðar ég man bara ekki alveg hvar”. Jafnvel þegar textarnir fjalla gagngert um hið daglega amstur þá eru þeir samt í órafjarlægð frá amstri dagsins: „Ég þarf að vakna snemma og gera ýmislegt, ég þarf að rétta út”. Mér persónulega finnst þetta skapa mjög ánægjuleg áhrif.
Ég vona að það sé ekki fullkomlega út úr kú að bera saman þessi tvö temu–annarsvegar hið yndislega og óraunverulega íslenska sumar og hinsvegar ímynd og hlutverk skáldsins–úr tveimur jafn gerólíkum verkum en mér þóttu líkindin vera eftirtektarverð. Ekki endilega himinhrópandi en samt eftirtektarverð.
Ég hef lesið annarstaðar að nokkur laganna hafi verið samin á og í kringum Galtarvita. Mér fannst sérstaklega áhugavert þegar Snorri lýsir því hvernig lagið „Það rúllar“ varð til. Hann var einn í vitanum og gekk allan daginn um dalinn þar í kring, Sunndal býst ég við, með kaffi á brúsa og rauðvínsbelju reyrða um sig miðjan og lét hugann reika. Mér fannst þessi saga minna mig á Ólaf Ljósvíking undir það síðasta:
Heila og hálfa daga var hann horfinn, leyndist í heiðadrögum og giljum eða á rölti uppundir jökli. Ef yrt var á hann galt hann dulrænu svari, menn höfðu hann á meðal sín en vissu þó ekki lengur hvar hann var (Heimsljós II, 273).
Úr varð svo lag og texti þar sem niðurlagið í hverju erindi er einfalt og víðsfjarri áhyggjum og erfiði: „Æ, það rúllar“. (Líkindi lagsins „Það rúllar“ við sönglag Schuberts, „Gretchen am Spinnrade“ eru svo efni í aðra grein).
Eins og ég minntist á í byrjun þá hata ég bæði mikið og innilega þegar tónlist er annars vegar. Ég vona að það skiljist líka á þann veg að ánægja mín og velþóknun er að minnsta kosti jafn innileg og verðmæt og hún er sjaldgæf; jafnvel ámóta öfgakennd og vegareiði Núma vinar míns. Ég er í stuttu máli ótrúlega ánægður með plötuna Vittu til. Ég væri ekki að hræra umfjöllun um hana saman við umfjöllun um Heimsljós ef mér þætti þetta ekki einhver sú albesta plata sem ég hef heyrt í langan tíma. Ef niðurlag Heimsljóss væri ekki orðin hálfgerð klisja þá lægi beinast við að gaspra eitthvað um að á plötunni Vittu til ríki fegurðin ein, og vissulega gerir hún það. Platan orkar á mig sem fölskvalaus tilraun til þess að skapa eitthvað fallegt og það hefur heppnast fullkomlega. Mig langar frekar að minnast aftur á þennan furðulega appelsínugula lit sem ég fæ upp í hugann þegar ég hlusta á þetta og enda í staðinn á gömlu konunni sem hefði allt eins getað verið að súmmera upp plötuna Vittu til þegar hún sagði: „Þegar ég lít yfir mína umliðnu ævi […] þá finst mér það allt hafa verið einn lángur sumarmorgunn“ (Heimsljós II, 279).