Tómas R. Einarsson leitar aftur til Kúbu á nýrri plötu sinni, Bongó. Á disknum eru 11 ný lög eftir Tómas en textar eru eftir hann sjálfan og Sigtrygg Baldursson auk ljóða eftir Halldór Laxness, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Stein Steinarr og Ingibjörgu Haraldsdóttur. Um útgáfu sér Blánótt.
Tómas leikur sjálfur á kontrabassa, Sigríður Thorlacius og Bogomil Font sjá um söng. Rósa Guðrún Sveinsdóttir blæs í barítónsaxafón, Davíð Þór Jónsson sér um hljómborðsleik, Ómar Guðjónsson leikur á gítar, Samúel Jón Samúelsson spilar á güiro og básúnu, Snorri Sigurðarson blæs í trompet, Sigtryggur Baldursson sér um kóngatrommur, Einar V. Scheving spilar á timbales og maracas og Kristófer Rodrguez Svönuson leikur á bongótrommur og bjöllu. Allir syngja bakraddir. Um upptökur sá Guðmundur Kristinn Jónsson og Friðjón Jónsson sá um hljóðblöndun.
Bongó var tekin upp á aðeins þremur dögum í Hljóðrita í Hafnarfirði en það þýðir ekki að platan sé á nokkurn hátt hrá eða hroðvirknisleg. Þvert á móti, þessi plata hljómar eins og veisla fyrir eyrun. Spilagleðin ljómar, topptónlistarmenn í hverju horni og börn geta ekki ráðið við sig, fara að dansa og allir syngja með.
Eins og suður og mið amerísk tónlist er full af gleði þá eiga textar hennar oft það til að fjalla um raunir og mæðu fólks. Því formi er fylgt á þessari plötu. Strax á fyrsta lagi, sem heitir Man ekki neitt, er sungið frá sjónarhorni manns sem drekkur til að gleyma að mér virðist vegna ömurleikans sem fylgir því að búa í landi þar sem auðmenn koma eignum sínum í burtu en venjulegt fólk situr fast með sínar krónur. Þessi texti er eftir Sigtrygg og svo annar, Gæfunnar par, þar sem samband banka og lántakanda er lýst á kostulegann hátt. Þessir textar lýsa spillingu á Íslandi og lánleysi bankaokursins með hæðnina að vopni, oddhvössu vopni.
Í laginu Vor hinnsti dagur er notast við ljóð eftir Halldór Laxness um missi og í uppbrotskafla tekur Tómas upp á því að spila melódíuna við sænska þjóðlagið Vem Kan Segla Förutan Vind á bassann. Þetta þykir mér frábær vísun og minnir hlustandann enn frekar á hvað missir er erfiður að eiga við.
Léttustu textarnir á plötunni eru Tómasar, drykkjulagið Dakíri, Sundhetjan er lag um það hvað drengir eiga það til að leggja á sig til að vinna ástir stúlkna og Mambó fjallar um ómögulega laglínu fyrir venjulega rödd að syngja. Það er þó viss mæða og strit í umfjöllunarefni þeirra sem fellur vel að hefðinni þó að framsetningin sé létt.
Kvæði Kristínar Svövu Tómasardóttur þykja mér þó standa upp úr og sérstaklega þá heimsósómaljóðin ég myndi aldrei og Mörkin (Ég dreg mörkin) og lögin við þau eru frábær. Ég verð greinilega að kíkja í bókabúð næst er ég er á Íslandi og fá mér bók eftir hana.
Eins og fyrr segir þá er allur hljóðfæraleikur og söngur á disknum sérlega góður enda einvalalið tónlistarmanna að verki. Öll sóló eru vel leyst af hendi en samt þykir mér ástæða til að nefna Ómar Guðjónsson gítarleikara sérstaklega. Strax í fyrsta lagi sker hann sig úr með einstaklega skemmtilegu sólói og rifnum hljóm gítarsins. Í svona tónlist á maður ekkert sérstaklega von á því að heyra í rifnum gítar eða þá gítarleik sem minnir mann örlítið á niðurrifsdjass Marc Ribot (þó Ribot hafi sjálfur gert góðar Kúbuplötur). Ég vil samt taka fram að Ómar er vissulega ekki að stæla Marc Ribot að neinu leyti en nálgunin kemur út svipaðri átt.
Ég á ekki von á neinu nema góðu þegar ég skelli nýrri plötu með Tómasi R. Einarssyni á. En mér finnst hann hafa farið fram úr öllum mínum væntingum með Bongó. Hvar sem maður stígur niður á disknum er allt upp á tíu. Lögin eru hvert öðru betra, flutningurinn er framúrskarandi, frumsamdir textar eru virkilega góðir og ljóðin sem koma annars staðar frá eru mjög vel valin. Það ætti ekki að skipta neinu máli hvort þú, lesandi góður, fílar djass eður ei. Ef þú fílar tónlist þá ættir þú að hafa gaman af Bongó.