Eftir dálitla eftirgrennslan komst ég að því að skáldsagan A brief history of seven killings er skrifuð á Jamaica ensku. En ekki Jamaican Patois sem má heldur ekki rugla saman við rastafarískt orðafæri sem rithöfundurinn Marlon James beitir líka eilítið fyrir sig í skáldsögunni. Það þarf engan að undra hvers vegna hann er handhafi Booker verðlaunanna 2015. Þetta er mögnuð skáldsaga. Ég hafði mikið fyrir því að þræla mér í gegnum hana og gerði það í frekar hægum takti sem hentar henni furðu vel. Nokkurs konar reggítakti. Marlon James fléttar saman marga þræði í ABHSK en allt hverfist um persónu söngvarans (Bob Marley) og tilræðisins við hann og eftirmála þess þann þriðja desember árið 1976. Skáldsagan ABHSK er metnaðarfull skáldsaga og heimur hennar og sögusvið er á svipuðum skala og í skáldsögum höfunda á borð við Don Delillo og Thomas Pynchon. Reyndar varð mér af einhverjum orsökum stundum hugsað til Hillary Mantel og þríleiks hennar um Thomas Cromwell þar sem hvert skuggalegt plottið rekur annað. Sú mynd sem Marlon James sýnir okkur af Jamaica er frekar nöturleg. Hann dregur okkur inn í gettóið sem reis í Kingston á sjötta og sjöunda áratugnum og einfaldlega kallað frumskógurinn og þarf ekki að útlista frekar hvaða lögmál gilda þar. Í ABHSK er framtíð Jamaica í húfi. Hér tekst á nýlendupólitík, græðgi, fikt CIA við innanríkismál annarra ríkja undir yfirskini þess að um baráttu við kommúnisma sé að ræða. Hagsmunir námueigenda á þeim tíma er skáldsagan gerist og uppljóstranir Philip Agee sem svipti hulunni af vopnainnflutningi CIA til Jamaica spila stóra líka sinn þátt í sögunni sem teygir sig í tíma og rúmi. En það er Jamaica hlutinn sem er þungamiðjan í skáldsögunni og hvernig tungumál skilur fólk að og sameinar það. Ljósgeisli eyjunnar, þegar sagan gerist, er persóna söngvarans (sem engum ætti að dyljast að er Bob Marley og tilræðið við hann er sannsögulegur atburður). Konur vilja hann og menn vilja annað hvort vera hann – vera í náð hans – ræna hann eða drepa. Tungumál spilar stóra rullu í bókinni enda er það til marks um hvar í blóðugri goggunarröð eyjunnar þú ert. En það má líka beita því fyrir sig sem vopni og sem slíkt er það fágaðra en beltissylgjurnar og skammbyssurnar sem menn hika ekki við að beita til að ná fram vilja sínum. Eða þá kylfur lögreglunnar sem er beitt handahófskennt en þó alltaf niður á við. Á þá sem minnst mega sín. Það er áhugavert að lesa sögu um eyju í umróti sem á eina súperstjörnu. Það býður upp á ákveðinn samanburð. En það má fastlega búast við því að búttaðir, íslenskir pólitíkusar myndu ekki lifa daginn af á eyjunni sem Marlon James skrifar um hér. ABHSK er lestur sem reynir svolítið á en uppskeran er ríkuleg. Því á endanum fer eyjan að hvísla að manni sögur sem setja að hverjum heilvita eyjaskeggja ákveðinn hroll.