„Óstöðvandi gufuskipið sorg“

 – um Af ljóði ertu komin eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Af ljóði ertu komin.
Bjartur 2016. 66 bls.
 Nú er gamla gengið komið saman enn á ný: Dauðinn, Tíminn, Ástin – þetta eru yrkisefnin í Af ljóði ertu komin, áttundu ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur. Steinunn hefur verið að fást við þessi eilífðarefni allt frá sinni fyrstu bók, Sífellum (1969), en er langt því frá að endurtaka sig hér. Hún er nefnilega eitt þeirra skálda sem getur komið aftur að sömu yrkisefnunum; fundið á þeim nýjan flöt og vakið nýjar spurningar. Og það gerir Steinunn í Af ljóði ertu komin, sem er merkileg og mikilvæg bók.

Fyrsti hlutinn ber titilinn „Siglingarljóð“. Þar sjáum við „endilanga manneskju í áralausum bát“ (9) halda út á haf, í hinstu ferðina. Yfir öllu ríkir ró en líka söknuður, eftirsjá. „Það kemur í ljós úr bátnum, með andlit mót himni, / að skýin eru elskhugar öldunnar“ (11). Þannig hefst þriðja ljóð bálksins, eitt sterkasta ljóð bókarinnar. Ferðalangurinn er ávarpaður í annarri persónu sem skapar fjarlægð, en sjáið þetta: „Það hvarflar þá að þér, meðan skýin fara í dansinn, / að þú munir líka hafa elskað eins og alls konar ský“. Þetta er ótrúlega falleg og einföld mynd, af hverju hafði engum dottið þetta í hug áður? Niðurstaðan, nokkrum línum seinna, er hins vegar full eftirsjá og gerir fegurðina flókna en ekki einfalda: „Og skýin sýna þér loksins svart á hvítu / að örlát ástin til þín var stærri en sú sem þú gafst // þótt vanþakklát manneskja héldi eitthvað annað, þá …“

Svona yrkja alvöru skáld. Steinunn dregur ekki bara upp skýrar og frumlegar myndir heldur bætir einhverju við, gefur eitthvað af sér. Eins og í fimmta Siglingarljóðinu (11-12), en þar sigla hin ýmsu fyrirbæri inn í líf ljóðmælanda, t.d. „Morgunroði á vangann“ og fiðrildi. En líka „Óstöðvandi gufuskipið Sorg“ og „Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.“ Það er djarft að tefla fram einhverju jafnstóru og óstöðvandi gufuskipinu sorg, það er áhætta að leyfa því skipi, þeim kafbáti, að sigla í gegnum heila ljóðabók. En þannig er góður skáldskapur. Hann er áhætta. Niðurstaðan hér er frumleg og sláandi; það er eitthvað satt í svona ljóðlist.

Steinunn hefur alltaf leikið sér með fjölbreyttan tón í verkum sínum og það sama gildir hér. Hoppum yfir í fjórða hlutann, „Um hinstu rök“. Þar yrkir Steinunn enn um Dauðann, en nú er hann „fyrirsjáanlegur gaur. / Óþarfur elskhugi sem vill bara eitt – bara eitt: / óheyrilegar aðfarir, oft langdregnar. / Og er vís til að hrína þegar hann loksins fær það.“ (35) Þetta er fyrst fyndið en svo óþægilegt. Vel gert. Í næsta ljóði er Dauðinn svo orðinn „andskotans túramaður“ sem er „væminn fantur, eins og gamli Karamazov“ (36). Fyndin og hárrétt lýsing á bæði túramanninum og dauðanum.

Eins og sést er mikil leikgleði í Af ljóði ertu komin og tónninn eða nálgun við yrkisefni langt í frá einföld. Steinunn hefur líka alltaf haft gaman að orðaleikjum. Í ljóðinu „Farandverk“ syndir ljóðmælandi „frá gömlum syndum í Laugardalslaug. / Þúsund metrana, velsyndug“ (28). Og á öðrum stað segir: „Dánir vinir eru ekki allir / og ekki allir þar sem þeir eru séðir“ (56). Í ljóðabálknum „Um allt og ekkert þvert“ notar Steinunn þversagnir til að sýna hvað manneskjan er máttvana í veröldinni. „Ekkert gerist um leið og það gerist“ (48) segir í níunda ljóði bálksins en það tíunda hefst á þessum orðum: „Þótt ekkert gerist um leið og það gerist / þá gerist heldur ekkert fyrr en um leið og það gerist“ (49). Í ellefta ljóðinu er útgangspunkturinn svo þessi: „Af því að ekkert gerist um leið og það gerist, / er lífið samansett úr andartökum sem við missum af“ (50). Steinunn hefur áður ort í svona „lífsspekistíl“, t.d. í hinum frábæra ljóðabálki „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ úr Hugástum (2004). Þetta er vandmeðfarið form, býður upp á algjöra flatneskju og ódýr sniðugheit. Ég hef ekki hugmynd um af hverju þetta gengur svona upp hjá Steinunni, en það gengur upp.

Í þessari stuttu rýni ætla ég ekki að gera öllum hlutum bókarinnar sérstaklega skil en verð þó að koma að lokahlutanum, „Öldutralli“. Þetta eru bara tvö ljóð sem kallast skýrt á við fyrsta hlutann. Spurningin um hvar ferðalagið sem lagt er upp í í upphafi endar hljómar aftur hér. Hafið færir fréttir af „eyðilegum stöðum þar sem sálin mætti hokra í framhaldsútlegð“ (64). Og söknuðurinn, sem hefur læðst aftan að manni alla bókina, honum er hleypt lausum í allra síðasta ljóðinu og þá fara setningarnar að brotna upp og ljóðlistinni leyft að miðla því sem hún ein getur miðlað. Ég veit hreinlega ekki hvort hægt sé að gera söknuðinum, hinum djúpa söknuði, betri skil en hér er gert. Mér finnst ekki taka því að fiska út stakar setningar, ljóðið verður að fá að standa heilt og fær að gera það hér í lokin.

En ég sagði hér að ofan að þetta væri sönn ljóðlist. Kannski er út í hött að nota orðið satt þegar talað er um skáldskap. Getur ljóðlist verið ósönn? Ég veit það ekki. En ég skal þó segja og standa við að þetta er örlát ljóðlist: okkur er gefin hlutdeild í einhverju sem er persónulegt, ekki því það er einkalegt, heldur sprottið upp úr leit annarrar manneskju að stórum sannleika. Þegar slík ljóðlist rís hvað hæst getur hún verið sláandi eða fyndin eða brothætt eða falleg. Eða bara einhvern veginn svona:

Verður áfram til, tralla hverflyndar öldurnar,
verður áfram til, sönglar fjarræn golan
verður áfram til, áfram,
verður, verður …

Það er ekki hægt að jarða sorgina,
ekki hægt að brenna söknuðinn
og setja hann í duftker,

er ekki, er ekki, er ekki
hægt …

verður áfram til, sorgin,
söknuðurinn …

kaldavermsl táranna …

allar götur, áfram, verður.

Það er letrað í legsteininn, nafnið,
áþreifanlegt …

en sorgin er nafnlaus, óáþreifanleg,
hvílir ekki.

Liggur í loftinu allar götur.

Dreifist ekki með öskunni,
yfir æskustaðina:

Blágresisbrekkuna.

Hrauntjarnir.

(„2“ úr „Öldutrall“, bls.65-66)