New York City Dagur 1, 13i ágúst 2016
Lendi um hádegisbil og finn eitthvað útúr þessu með að koma mér til Brooklyn þar sem ég gisti. Er tekið á móti mér af ungum ljóshærðum manni sem elskar söngleiki og hann segir mér að kærastinn hans sé sofandi enda kominn beint af túr um landið. Ég kem mér fyrir, fæ þá flugu í höfuðið að labba niður á Manhattan, þar sem New York City Fringe er með götupartý. Google reiknar gönguna sem 5 mílur, 1 klst og 45 mín. Úti eru 34°.
Að labba Malcolm X Avenue niður á Broadway er eins og að finna sig í kvikmynd frá tíunda áratugnum. Karlmenn spila körfubolta við Hip hop undirspil, börn hlaupa yfir garðspraututæki, nema í bíómyndinni er það brunahani. Borgin andar ofnblæstri. En enginn abbast upp á unglegu hvítu konuna í bláa kjólnum. Hún á líklega ekki við því svona yfirbuguð af hita.
Ég kem niður að brú, búin að finna vatnsmelónu og lychee smoothie og líður allt í einu eins og aðalhetjunni í myndinni, sem getur allt og gleðst yfir að vera í bestu borg í heimi. Manhattan blasir við, eins og sjónhverfing í eyðimörkinni og ég syng ‘concrete jungle where dreams are made from, there’s nothing you can’t do’ með sjálfri mér. En það eru engir góðir skuggar á brúnni og hitinn er farinn að segja til sín. Hendur mínar blása upp og ég finn slagæðina pumpa blóði.
Lower Manhattan er alveg jafn mikið bíó, brunastigar hlykkjast utan um rautt múrverk og eldri maður kallar mig til sín. Hann er hissa að ég tali við hann, konan á undan mér hefur hunsað hann. En hann er góður kaþólikki og elskar alla jafnt. ‘Good for you’ segi ég og geng af stað. ‘Stay sweet’ kallar hann á eftir mér.
Ég finn loks götupartýið á East 4th street sem New York City Fringe heldur en þoli ekki lengur við á fótunum og fer inn í Fringe Lounge. Ég er komin til að networka en langar mest til að vera ein. Harka af mér og tala við hina og þessa um sýninguna. Ein eldri kona er á leið á sýningu hinum megin við götuna. Hún á aukamiða, vinkonan beilaði, vil ég ekki bara taka’nn? Ha jú takk ok kúl.
Við höldum inn í Wow café leikhúsið, svartan kassa á þriðju hæð. Þeir segja að loftkælingin sé á en það er uppselt og heitt og verkið er fílasófískt samtal þriggja um sálina, fullt af orðalengingum sem höfundi hafa fundist gáfulegar en söguþráð er hvergi að finna. Mér leiðist óheyrilega, veifa prógramminu til að kæla mig og lít á úrið. ‘Moving on up’ fær hinsvegar rokna klapp í lokin og allir eru voða sáttir. Ég kem mér út án þess að yrða á nokkurn.
Finn japanskan stað sem selur ‘craft sake’ (og bjór) og nautakjöt á hrísgrjónabeði. Sit við barinn og hlusta á R’n’B og Hip hop og bíómyndin byrjar aftur. Nú er aðalhetjan okkar þreytt og ekki beint lónlí en svona kodak mómentum væri betur varið með einhverjum.
Ég held heim, gul birta lýsir upp göturnar og subway notendurnir eru eins og póstkort, öll mismunandi týpur og litarhættir. Stelpur dotta á öxlum stráka. Takturinn dillandi í lestinni.
Kem heim til parsins og ungrar stelpu sem hefur verið í danstímum í allan dag en finnst hún samt svo feit eitthvað og strákarnir skiptast á gróusögum og hugmyndum um næstu IKEA ferð og bröns.
Góða nótt New York.