Lífið er sorglega laust við mikilvægi

Aðeins um Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Inngangur, fyrri hluti

Óhætt er að slá því föstu að samtíminn sveiflast öfganna á milli? Fjölmiðlar fræða okkur í sífellu um stríðs- og náttúruhörmungar með tilheyrandi sorg og dauða. Sorg og dauða sem erfitt er að kippa sér upp við vegna Stalínískrar tölulegrar nálgunar sem ætíð er móðins. Fjölmiðlar fræða okkur um uggandi uppgang hægri öfgaafla, að múslimar ætli sér heimsyfirráð eða dauða og að Donald Trump ógni ekki bara heimsfriðnum, heldur ógni hann ekki síður klofum um helming mannkyns.

Við fáum veður af allslags heimssögulegum atburðum, stórum atburðum sem máski munu rata á spjöld sögunnar með tíð og tíma, enda sem neðanmálsgrein eða verða strokleðrinu að bráð.

Svo kynnumst við munaðarlausum ísbjörnum í dýragörðum, krúttlegum bambusbjörnum, ást Justins Biebers á Fróni, erfiðleikum leikara við kynlífssenur kvikmyndar um ævi Móður Teresu, kattamyndböndum, syngjandi börnum með hrörnunarsjúkdóm á leikskóla. Allskonar!

Heimurinn er einnig uppfullur af litlum sögum á heimsmælikvarða. Oft greina þær sögur frá ógæfu, sársauka og þjáningu. Er stundum eins og Steinar Bragi stýri öllum heimsins lyklaborðum. Hann er enda þrautum þessa heims einstaklega vel kunnungur. En burtséð frá því hve vel rithöfundurinn atarna þekkir sorgar-þjáninguna þá upplifum við tíma þar sem ansi margir hafa tækifæri á sínum fimmtán mínútum. Hugsanlega hefir aldrei verið auðveldara að miðla sinni sögu og vel mögulega hefir heimurinn aldrei verið duglegri við að ganga milli bols og höfuðs á þagnargildum þessa heims. Það er, að er virðist, talað um allt.

Það er engin furða að kaþólska kirkjan, eða bara kirkjur heimsins, eigi undir högg að sækja þegar fólk sækir svona mikið í að játa hitt og þetta í fjölmiðlunum, oftar en ekki með það augnamið að slíkt sé samfélaginu til heilla. Tíðarandinn (vestrænn, hjá sumum er þetta bara væl) er sannlega játningaglaður.

Inngangur, seinni hluti 

Það er er gömul saga og ný að skáldverk endurspegli ríkjandi aldarfar. Reyndar liggur það svo mikið í augum uppi að kynlegt verður að teljast að draga fram svo augljós sannindi. Hjá Bjarti kom út, því að gera nýverið, skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skegg Raspútíns (317 síður). Skeggið það kallast vissulega á við tíðarandann. En meir um það hér fyrir neðan.

Skegg Raspútíns telst níunda skáldsaga skáldkonunnar, tíunda sé Sóley sólufegri (1998) talin með. Það er allajafna ekki gert sakir þess hve takmarkað upplagið var. Aðrar skáldsögur Guðrúnar eru:

Ljúlí, ljúlí (1999)

Fyrirlestur um hamingjuna (2000)

VAR TILNEFND TIL ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNANNA!

Albúm (2002)

Sagan af sjóreknu píanóunum (2002)

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss (2005)

FÉKK MENNINGARVERÐLAUN DV Í BÓKMENNTUM!!

Skaparinn (2008)

VAR TILNEFND TIL ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNANNA!

Allt með kossi vekur (2011)

FÉKK ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNIN!!

Englaryk (2014)

VAR TILNEFND TIL FJÖRUVERÐLAUNANNA!

Verður og að geta þess að Skegg Raspútíns er TILNEFNT TIL ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNANNA!

Auk upptaldra skáldsagna liggur eftir hana smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (1998) sem jafnframt var hennar fyrsta útgefna verk. Er og vert að minnast á Val: heimspekilegar smásögur, bók sem gefin var út af Námsgagnastofnun árið 2001, og ljóðabókina Á brún alls fagnaðar (2000) sem er sameiginlegt verk hennar og Hrafn Jökulssonar fyrrum eiginmanns Guðrúnar Evu. Inniheldur verkið einkum ástarljóð þeirra til hvors annars.

Guðrúnu Evu var ungað út í höfuðborginni 17. mars 1976. Einhverjum hluta æsku sinnar varði hún á landsbyggðinni en fluttist svo til Reykjavíkur á táningsárunum þar sem hún stundaði framhaldsskóla- og háskólanám og framfleytti sér með afgreiðslu á vínveitingahúsum. Hún var gift Hrafni Jökulssyni. Í Reykjavík bjó hún einnig og starfaði sem rithöfundur.

Guðrún Eva er Hvergerðingur um þessar mundir. Hefir hún búið þar síðan 2012 með seinni eiginmanni sínum Marteini Steinari Þórsssyni, fæddur í Reykjavík 16. október 1967, og dóttur þeirra Mínervu er fæddist á degi íslenskrar tungu árið 2011. Marteinn hefir bæði glímt við áfengissýki og þunglyndi á meðan Guðrún Eva hefir glímt við svefnleysi.

Einhver kann nú að spyrja hvað þessir inngangar eigi að fyrirstilla. Góð og gild spurning það. Þeir kallast á við innihald verksins.

Um hvað er Skegg Raspútíns?

Sagan er að allmestu leyti sögð af Evu í 1. persónu og verður því leitast við að greina frá innihaldinu í fyrstu persónu. Eva er skáldið sjálft og persónur verksins, allavega þær helstu, eiga sér raunverulegt líf þegar síðum verksins sleppir. Þær eru á Facebook.

Árið var 2012. Um miðjan desember flutti ég til Hveragerðis með eiginmanni mínum Matta og dóttur okkar, Mínervu. Við festum kaup á húsi við Laufskóga enda er „maður [orðin] miðaldra og vill fara aftur í sveitina.“ Með fluttningnum varð draumur að veruleika og allt var með ágætum til að byrja með. „Allt stefndi þó í óefni [en] ég vissi það ekki“. Það vildi nefnilega svo til að þegar framliðu stundir átti ég erfiðara og erfiðara með svefn uns ég svaf svo lítið að það tók „því varla að fara úr fötunum“. Það má örugglega tína ýmsar ástæður til en aðalástæðan var sennilega álag af margvíslegu tagi. Ekki var svo á það bætandi að maðurinn minn var þunglyndur „og blindur á allt annað en hrylling og vonleysi.“ Við áttum í hjónabandserfiðleikum.

Ef ég spóla nú aðeins fram í tímann eða til sumarsins 2014 þegar „liðnir voru nítján mánuðir af svefnleysi og stanslausri iðjusemi“ náði ég loksins að sofna með hjálp múskats og tælensks heimabruggs. Dreymdi mig magnaðan draum sem ég ætla ekki að rekja hér og nú. Frá draum þessum greini ég auðvitað í verkinu.

Áður en að draumsvefninum magnaða kom kynnist ég „hálfu ári eftir flutninginn“ konu um þrítugt frá Lettlandi að nafni Ljúba. Hún er grænmetissalinn minn og býr einnig við Laufskála. Það var eitthvað við hana sem fékk mig til að vilja vita allt um hana og svo fannst mér „svo mikil og gjöful birta í því hvernig hún talaði.“ „Áhugi minn á Ljúbu var ákaflega persónulegur þótt ég hefði aðeins óljósa hugmynd um hvað laðaði mig að henni. Vissulega hafði hún eitthvað við sig sem kallaði fram forvitni, eins og löngu látin kvikmyndastjarna eða lítt kannaður afkimi mannkynssögunar.“ Mér varð ljóst að eitthvað varð ég að gera með það sem hún sagði mér og „rann upp fyrir mér að það væri áhugaverðara að kynnast henni í gegnum mig og þá blandaðist minn hversdagsleiki inní.“ Þetta varð að nokkurs konar þráhyggju. Þeir sem hafa lesið verk mín í gegnum tíðina ættu að kannast við slíkt hjá mér.

Þetta er í rauninni sagan og inní hana fléttast svo alls kyns persónur eins og Hlynur sem er tuttugu árum eldri eiginmaður Ljúbu, Ingibjörg fyrrum eiginkona Hlyns og barnapía sonar þeirra Hlyns og Ljúbu, Vadim sonur Ljúbu frá fyrra sambandi að ógleymdri fjölskyldu Ljúbu í Lettlandi og enginn annar en Grígorí Jefemóvíts Raspútín sem ku hafa verið helgur maður, kvennagull, svallari og innsti koppur í búri rússnesku keisarafjölskyldunnar.

Þetta eru eiginlega þrjár sögur; mín eigin, saga Ljúbu og svo er það hann Raspútín. Sögusviðið er aðallega Hveragerði, Lettland, eða þorpið Gamla kirkja þaðan sem Ljúba kemur, og Rússland Raspútíns. Já, og svo er það auðvitað draumheimurinn.

Þetta er frekar látlaus saga eða ölluheldur látlaus texti enda

… þurfa ekki allar bækur að vera blóðsúthellingar. Þær eiga fullan rétt á sér en lágstemmdur texti á líka rétt á sér. Það getur verið mjög hressandi að lesa lágstemmdan texta þegar tíðarandinn er svona hávær og mikill skarkali. Í bókum og bíómyndum er mikið um limlestingar og endalaus morð og stundum verður maður þreyttur á því og man að lífið snýst ekki bara um það.

Hvað skal segja um Skeggið?

Skeggið er nátengt samtímanum og ekki af því að sögutíminn er frá miðjum desember 2012 fram í júní 2014 (eiginlega lýkur þó verkinu á eftirmála Ljúbu frá 30. júlí 2016) heldur af því að það myndar tengsl við játningaglaðan tíðarandann. Satt best að segja ber verkið keim af viðtölum og greinum við og um fólk sem hefir þurft að glíma við mótlæti. Rætinn, eða Óttar Guðmundsson, gæti sagt eitthvað á þá leið að verkið sé skylt þeirri áráttu, og lúxusvandamáli nútímamannsins, að barma sér yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Sem og að vilja sínkt og heilagt fækka tabúum þessa heims. Skáldkonan segir enda sjálf í viðtali í Mogga:

… auðvitað ekki bara ég sem er að fatta það, það er ný öld runnin upp þar sem pukur er úr sögunni og við erum svo fljót að gleyma að við munum ekki af hverju við vorum að pukrast með alla hluti. […] Hvaðan kemur þessi skömm yfir því að vera eins og allir eru? Fólk er alltaf að hrasa og reisa sig við og við veikjumst og gerum mistök.

Það er óhætt að segja að Guðrún Eva opni inn til sín þannig að sögusmettur landsins eða nánasta umhverfis þurfa síður að fabúlera um hana. Þær þurfa eingöngu að lesa verkið. Hún hefir enda ekki dregið dul á að verkið byggi á eigin lífi, þótt hafa beri í huga að um skáldskap sé að ræða. Hefir Guðrún Eva fetað áþekka leið áður, til dæmis í Albúmi og Á brún alls fagnaðar.

En þetta er, eins og Þjóðverjinn segir, bara hálf leigan (die halbe Miete) eða jafnvel minna þar sem lesa má ýmislegt í verkið. Hér verður þó látið nægja að horfa til þeirra þriggja þátta sem áður var imprað á.

Sögu Ljúbu er, eins og áður hefir komið fram, fléttað inn í sögu Evu; vandamálasögu Evu. Eva fær sögu hennar í skömmtum, eða hluta hennar eins og gefur að skilja. Ljúba opnar sig smátt og smátt eftir því sem sögunni framvindur.

Sú staðreynd að Ljúba sé frá Lettlandi (hún tiheyrir rússneskumælandi hópi Letta) getur vakið upp hugrenningatengsl við Sofi Oksanen og sögur hennar (já, hún er hálf-eistnesk en Lettland og Eistland eiga sitthvað sameiginlegt). Hjá Sofi er þó öllu meira um blóðsúthellingar og hörmungar og sögulega tengingin er öllu sterkari. Hér ber að horfa til fyrri inngangs.

Ekki er loku fyrir það skotið að hin gamalkunna skipting í „okkur“ og „hina“ skjóti upp kollinum. Útgáfan ætti þó að vera mildari en sú sem allajafna er ríkjandi. Því vissulega er, nú til dags, Ísland ekki svo langt frá Lettlandi í margháttuðum skilningi. Engu að síður er örugglega óhætt að segja að „við“ flytjum til annarra landa af því okkur langar til þess en Lettar flytji af því þeir eru á höttunum eftir betra lífi. Almennt séð.

Þarf enda ekki að lesa lengi í verkinu til að átta sig á því að Lettland og Ísland eru ekki beinlínis tvíburar.

Þegar ég [Ljúba hefir orðið] kom fyrst til Íslands dreymdi mig um að safna fyrir pípulögnum og klósetti, sturtu og vaski. Það tókst. Mamma þarf ekki að staulast á kamarinn og getur baðað sig á morgnana eins og almennilega manneskja.

Heimili Ljúbu var meira eins og sveitabær þar sem kynslóðirnar hafa búið, mann fram af manni, alltaf sama fjölskyldan sen heldur í vissar hefðir en endurnýjar aðrar. Fólkið vinnulúið en enginn hefur tíma til að búa sér til vandamál. Heima hjá mér var allt flóknara og óræðara; loðið, dularfullt.

Það að rækta sér til matar er ekki tómstundargaman þegar sulturinn vofir yfir. Og hann vofir alltaf yfir þegar almenningur er hnepptur í þrældóm af stjórnvöldum.

Kannski mætti notast við orð eins og framandlegur kunnugleiki í þessu samhengi. Svona dálítið eins og að horfa á þunglyndislegar finnskar kvikmyndir. Hér er heimur á ferð sem við þekkjum en samt ekki. Allavega þekkja varla þær Íslendingur (fleirtölumynd af kvenkynsorðinu Íslendinga) sem fæddar eru eftir seinna stríð hann varla.

Sagan er fremur hversdagsleg þótt margt liggi að baki hafi einhver nennu á að lyfta upp tjöldunum. Sagan er allavega sumpart yfirborðslega hversdagsleg og inniheldur textalega séð margt sem gæti allt eins átt sér stað á ættarmóti meðaljóna. Ljúba er ekki heldur neitt voðalega áhugaverður karakter. Eva er það reyndar ekki heldur. En þær eru hvorki merkilegri né ómerkilegri en hver annar. Og það er mergur málsins.

Það er erfiðara að átta sig á því hvað Raspútín er að gera þarna. Nærtækast er þó að tengja Raspútín sögulegu mikilvægi. Saga Ljúbu og Evu er andstæðan við það. Hún kemur að öllum líkindum (enginn veit sína ævina fyrr en öll er og fleiri klisjur) ekki til með að rata á spöld sögunnar.

[Innskot: Hér mætti örugglega leggjast í djúpsjávarleiðangur eða kryfja líkið. Það verður látið ógert.]

Til að slá botninn í þennan hluta þá sagði Viktor Shklovskíj:

Sjálfvirknin étur upp alla hluti, klæði, húsgögn eiginkonuna og óttann við stríð. […] Tilgangur listar er að gefa tilfinningu fyrir hlutum eins og við skynjum þá og sjáum en ekki eins og við séum að kannast við þá. Tækni listarinnar er fólgin í þeirra aðferð að gera hlutina framandi.

Slá má því á föstu að þessu verki takist að synda á móti þessari sjálfvirkni. Og til að gefa bókaútgefendum eitthvað til að nota í auglýsingaskyni skulum við segja að hér sé þessi fíni hvunndagslegi skáldskapur eða skáldaði hvunndagur á ferð. Við getum einnig notast við hvunndagslegur framandleiki.

Lokaorð

Þessi bók er eins konar játningabók með áherslu á eins konar. Þetta skálduð ævisaga (hluti af ævi) eða sver sig í það minnsta í þá ætt. Ekkert er nýtt af nálinni og er vel hægt segja að Þórbergur Þórðarson sé langafi Skeggsins. Hann er þó talsvert skemmtilegri og betri penni (hver er svo sem betri penni en hann?).

Innihaldslega kallast verkið á við játningaglaðan tíma þar sem „allur“ harmur er borinn á torg og „allir“ fá sínar fimmtán mínútur þó ekki sé nema á Facebook. Enginn virðist maður með mönnum nema sá hinn sami komi út úr skápnum með geðveilu- áfengis-, kynáttunar- eða átröskunarglímu. Ja, eða þá hann/hún bekenni að honum eða henni hafi verið einhvern tímann nauðgað. Smitast þetta hugarfar auðvitað í bókmenntirnar og er nærtækt að horfa til Hallgríms Helgasonar og bókar hans Sjóveikur í München í því samhengi. Allavega endurspeglar umrædd bók þennan tíðaranda sem hefir harm sinn og áhyggjur í sýningarkassa líkt og karl í kassa.

Einnig má horfa á söguna í ljósi íslenskara samfélagsbreytinga; aukinn fjöldi erlendra sest að á Íslandi til lengri eða skemmri tíma og allar þær persónur koma frá menningarlegum aðstæðum og hugarfari sem kann að vera ólíkt því íslenska.

Fyrst og fremst er þó um lágstemmda sögu að ræða, sögu sem gæti, þannig lagað séð, verið saga hvers sem er, þess sem lifir lífi sem er kannski sorglega laust við mikilvægi.


Heimildir:

Árni Matthíasson. 2016, 2. nóvember „Það er ekki ástæða til að fela neitt.“ Mbl.is.

Slóðin er: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1618802/?item_num=3&searchid=e3f5c650ca9cc493b4a66debfb3294194390fb29&t=285516364&_t=1481636873.96 (þörf er á aðgangi að gagnasafni Morgunblaðsins til að nálgast viðtalið)

Guðrún Eva Mínervudóttir. 2016. Skegg Raspútíns. Bjartur, Reykjavík.

Gunnar Leó Pálsson. 2015, 14. maí. „Hveragerði listamannabær landsins.“ Vísir.is.

Slóðin er: http://www.visir.is/hveragerdi-listamannabaer-landsins/article/2015705149971

Kristján Guðjónsson. 2014, 28. nóvember. Stelpan sem hitti Jesú Krist.“

Dv.is. Slóðin er: http://www.dv.is/menning/2014/11/29/gudrun-eva-minervudottir/

Viktor Shklovskíj. 1991 „Listin sem tækni.“ Spor í bókmenntafræði 20. aldar, bls.

21-42. Árni Bergmann íslenskaði. Ritstjórn Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.