Ferskjan frelsar

- dálítið um narsissisma og hugmynd um hlutverk -

Lókal og Reykjavík Dance Festival sameinuðu eins og margir vita krafta sína í liðinni viku með hátíðinni Everybody is Spectacular. Skartaði hátíðin sem „headliner“ engri annarri en kanadísku performans rafpönk söngkonunni Peaches, sem hefur komið fram undir því nafni síðan hún flutti til Berlínar og að eigin sögn endurfæddist á svipuðum aldri og sjálfur frelsarinn þegar hann var krossfestur.

Peaches steig á svið í Borgarleikhúsinu með verkið Peaches Christ Superstar, sem er hennar eigin útgáfa af 70s stjörnusöngleiknum Jesus Christ Superstar.

Í tvo tíma söng hún og tók að sér öll hlutverkin en með henni á sviði var einn píanóleikari sem sá um undirleik. Í miðju verkinu var hlé ásamt búningaskiptum, Hún breyttist úr dívu söngkonu í þröngum húðlituðum samfesting og yfir í 80s geimrokkara í allt of stórum og skemmtilega klunnalegum jakka með andlitsmálningu sem minnti á David Bowie.

Peaches ákveður að vera allir, hún vill ekki setja sig í eitt hlutverk, hún vill vera í öllum hlutverkunum og lifir sig jafnmikið inn í þau öll. Á sama tíma er hún hugsanlega að benda á fáránleika þess að fólk sé alltaf að setja sjálft sig og aðra í hlutverk, að tilhneiging mannsins að skúffugera allt og alla sé ekki alveg málið, að við erum og getum verið öll hlutverkin. Fólk á það kannski til að lifa eftir þeirri hugmynd sem það hefur um sjálft sig í staðinn fyrir að leyfa sér að vera eins og það er, þ.e. allskonar.

Eins og áður kom fram steig hún inn á svið í seinni helmingi verksins í gulllituðum geimbúning, beggja megin sviðsins laumaðist reykur sem líkja mátti við 80s glamúrrokkmyndbönd. Með aðeins píanóleikara og reyk var „showið“ ekkert nema bara viðleitni hennar og nærvera, hún sannaði að hún þarf ekki á neinu að halda á sviðinu nema sjálfa sig. Á einhverjum tímapunkti fannst manni verkið þó sjálfhverft, að það snerist fyrst og fremst um hana sjálfa en ekki upplifun áhorfenda eða eitthvað annað viðfangsefni. Hún minnti þannig á krakka að æfa uppáhalds lögin fyrir framan spegil þegar enginn er heima. En þeir áhorfendur sem sátu þarna komu kannski ekki til að sjá söngleik, það kom einungis vegna þess að hingað var komin fræg ferskja, enda hefði þetta verk ekki virkað ef hún væri ekki fræg.

Kannski snerist verkið að einhverju leyti um einmitt það. Hún tekur sér hlutverk frægustu trúarlegu söguhetju mannkynssögunnar. Sjálf segir hún í viðtali að Jesús hafi líklegast verið haldin einhvers konar narsissisma og það kemur sterkt fram í endann þegar hún krossfestir sjálfa sig og svífur upp í loftið eins og gyllt jólastjarna og fær áhorfendur til þess að hlaupa upp á svið og dansa í kringum sig.

Í verkinu var hún bæði sá sem frelsar og sá sem krossfestir, bæði sá sem efast og sá sem breiðir út trú. Hún var í raun bæði dómarinn og fórnarlambið, Júdas og Jesús. Þegar hún var krossfest (af sjálfri sér) var hún í raun líka að krossfesta alla í leikritinu og að frelsa þá. En í leiðinni að gera einhvers konar grín að sjálfri sér í kómískum og hálfhallærislegum leikrænum tjáningum í eins manns söngleik um Jesú og alla hina. Og þó svo hún tali um að hún sé ekki að gera grín að þessum söngleik þá kemst maður ekki hjá því að hlæja.