Vilmundur um vinstrimenn og pulsur

„Ég vil svo að lokum, herra forseti, vegna þess að hér er rætt um einkaleyfi, um höft og pólitíska misbeitingu, segja hv. alþm. dæmisögu. Árið 1978 voru borgarstjórnarkosningar í Reykjavík, og guði sé lof að þá komst að vinstri meirihluti í Reykjavík. Vita menn að borgarstjórnarfrelsishetjurnar sem áður höfðu starfað neituðu nema einum manni um leyfi til að selja pylsur í miðbænum? Það var einokun á pylsusölu í miðbænum í Reykjavík og það þurfti vinstrimeirihluta til að verða við því sjálfsagða réttlætis- og frelsismáli að fleiri aðilar fengju að selja pylsur. Frjáls verslun í litlum einingum fór fyrst að blómstra í miðborg Reykjavíkur þegar vinstri menn komust til valda. Þetta segir sögu um einokun. Þetta segir sögu um valdbeitingu, þetta segir sögu um höft, þetta segir sögu um hugmyndir, sem eru andstæðar frelsi, en í þágu hagsmuna fárra aðila. Þannig flokkur, herra forseti, er Sjálfstfl. Þannig koma fram of margir forustumenn í verkalýðshreyfingunni, því er nú verr og miður, herra forseti.“

Vilmundur Gylfason um vinstrimenn og pulsusölu.