Stjörnustríð á Loft Hostel

Danska ljóðskáldið sem gengur undir listamannsnafninu Sternberg mun stíga niður frá himnum til Íslands og lesa úr verkum sínum – miðvikudag á Loft Hostel klukkan 21.00. Með honum verða nokkrir íslenskir furðuhlutir.

Sternberg er konseptljóðskáld sem sent hefur frá sér fjölda ljóðabóka og fengið ýmsar viðurkenningar og styrki fyrir verk sín. Meðal annars hefur hann hlotið mikið lof frá Lars Bukdahl, einum helsta bókmenntagagnrýnanda Danmerkur. Nýjasta bók hans er Depressionsdigte (Kronstork, 2014). Hluti þeirrar bókar hefur birst í íslenskri þýðingu á vefritinu Starafugl.

Nánar á heimasíðu Sternbergs.

Eftirtalin skáld lesa upp:

Arngrímur Vídalín
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Ingólfur Gíslason
Jón Örn Loðmfjörð (Lommi)
Kári Páll Óskarsson
Nanna Hlín Halldórsdóttir
Sternberg

********

Arngrímur Vídalín er skáld og fræðimaður. Eftir hann liggja m.a. ljóðabækurnar Úr skilvindu drauma og Endurómun upphafsins. Hann stundar nú doktorsnám í miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir er skáld og gjörningalistakona. Hún er höfundur ljóðabókarinnar Daloon dagar og gjörningalistasýningarinnar Dagar undrabarnsins eru á enda (ásamt Rakel McMahon). Næsta bók hennar, Flórída, er væntanleg 2014.

Ingólfur Gíslason er skáld og stærðfræðingur. Hann hefur m.a. sent frá sér ljóðabækurnar Sekúndu nær dauðanum – vá, tíminn líður! og Það sem mér finnst helst að heiminum, auk fjölda greina og útvarpspistla um samfélagsmál. Hann stundar nú doktorsnám í stærðfræðimenntun við Háskóla Íslands.

Jón Örn Loðmfjörð (Lommi) er gagnskáld og þverlistamaður. Eftir hann liggja ljóðabækurnar Gengismunur og Síðasta ljóðabók Sjóns (ásamt Arngrími Vídalín), auk þess sem hann hefur tekið þátt í ýmsum sýningum, m.a. sýningunni Koddu (2010).

Kári Páll Óskarsson er skáld, rithöfundur og þýðandi. Hann er höfundur ljóðabókanna Oubliette og Með villidýrum, auk þess að hafa ritstýrt ljóðasafnbókunum Gáttir og Af steypu (ásamt Eiríki Erni Norðdahl).

Nanna Hlín Halldórsdóttir er skáld og heimspekingur. Hún stundar nú doktorsnám í heimspeki við Háskóla Íslands.