Stjórn RSÍ mótmælir bókaskatti

Stjórn Rithöfundasambands Íslands mótmælir harðlega hækkun virðisaukaskatts á bækur. Með slíkri aðgerð er vegið til framtíðar að sjálfsmynd þjóðar sem býr í tungumáli og bókmenntum.

Nágrannaþjóðir, svo sem Færeyingar og Norðmenn, hafa metnað og dug til að standa vörð um þjóðtungu og menningararf með því að afnema með öllu virðisaukaskatt af bókum. Jafnvel í Stóra-Bretlandi er enginn virðisaukaskattur lagður á bækur. Enska á þó síst í vök að verjast.
Flestar Evrópuþjóðir halda virðisaukaskatti á bækur í lágmarki til að styðja við ritað mál, ýta undir læsi og efla málkennd. Þó er þar um að ræða margfalt stærri málsvæði og markaði.

Ef vilji væri til þess að viðhalda íslensku, töluðu og rituðu máli, myndu stjórnvöld hér nýta allar færar leiðir til að styrkja bókaútgáfu og efla.
Þess í stað er lagt til atlögu við tungumálið með aukinni skattheimtu á bækur.

Skattahækkanir munu draga úr úrvali íslenskra bóka. Útgáfulistar verða skornir niður og færri bækur verða til. Áhættusömum útgáfum á viðamiklum og metnaðarfullum fræðiritum fækkar verulega. Hratt dregur úr nýsköpun og erfiðara verður fyrir nýja höfunda að stíga fram.

Barna- og unglingabókamarkaðurinn stendur nú þegar höllum fæti og má síst við slíkri sendingu frá stjórnvöldum.

Stjórn Rithöfundasambands Íslands harmar einnig að viðbrögð stjórnvalda við eigin mistökum séu hugsanlegar mótvægisaðgerðir í formi styrkja. Skattahækkun er komin til að vera, en styrki má afnema og færa til eftir geðþótta.

Sótt er að tungumáli og bókmenntum úr öllum áttum afþreyingar og áreitis. Nú sem aldrei fyrr ættu stjórnvöld að gæta að þessu fjöreggi þjóðar, en hér heggur sá er hlífa skyldi.

Aukinn virðisaukaskattur á ritað mál skipar Íslendingum á bekk með aðeins fjórum þjóðum í Evrópu sem skattleggja tungumál sitt af svipuðum þunga.

Í þessum aðgerðum felast skýr skilaboð til landsmanna um vægi tungu og bókmennta til framtíðar. Það eru einnig dapurleg skilaboð til umheimsins sem enn horfir til sögueyjar og bókaþjóðar.
Í þessum gjörningi birtist menningarstefna, viðhorf og vilji stjórnvalda sem ber að harma.