Djákninn á Myrká, Hungurleikarnir, The Matrix, Fringe, Dr. Faustus, Galdra-Loftur, Sjálfstætt fólk, Íslendingasögurnar, Neverwhere, þjóðsögurnar, saga Íslands sjálf – allar en samt engin.
Hrímland eftir Alexander Dan Vilhjálmsson er uppfull af tilvísunum en engu að síður með því ferskara og hugmyndaríkasta sem ég hef lesið lengi. Hér er rakin saga af landi sem er svo líkt Íslandi að höfuðborgin heitir Reykjavík en er engu að síður af allt öðrum heimi. Hér segir af huldufólki, mannfólki, blendingum af báðu auk vatnavera sem ferja vörur um Elliðaárdalinn og ættbálka risastórra fugla sem díla með dóp. Einnig koma fyrir Seiðskrattar, gymskrattar, Kölski sjálfur, vættir landsins og draugar. Þónokkuð hefur verið sótt í sci-fi heiminn líka og í bland við minni úr sagnahefð fortíðar eru hér vísar að ótrúlegri tækni, byggðri á öðrum lögmálum en við eigum að venjast.
Allt sem sótt hefur verið í þjóðsögurnar fær hér nýja túlkun og sci-fi-ið lyktar ekki af eftiröpun af Hollywood brellum. Ég vil ekki spilla fyrir þeirri upplifun sem það er að kynnast þessum heimi með því að lýsa honum of náið og segi því einfaldlega að hann er marglaga og heillandi og byggir á þeirri hugmynd að landið kraumi af seiðkrafti. Til að halda okkur við sci-fi-ið eru svo auðvitað ill öfl við stjórnvölin sem notfæra sér kyngina sem vopn og virkja. Heimsveldi sem kallast Krúnan er með tangarhald á öllu, stiftamtmaður stjórnar fyrir hönd konungs og dönsk ættarnöfn skipa aðalinn. Herinn er stórtækur, lögreglan allstaðar og krafan um sjálfstæði kæfð með offorsi. Hrímland er distópíusaga og eins og í öllum góðum distópíum er byltingar þörf.
Til eru kölluð Garún, myndlistarkona og róttæklingur og hennar fyrrverandi, Sæmundur sem selur hálandamosa og reykir of mikið sjálfur, þyrstur í fróðleik en leiður á skóla. Hann er hæddur af skólafélögum sínum og uppnefndur óði og fer eftir það sínar eigin leiðir. Þegar byltingin er kæfð með árás á Austurvelli skilja leiðir þeirra og hvort um sig einbeitir sér að eigin markmiðum. Sæmundur að því að finna rótina sem galdur sprettur af, hvaðan orð og taktur sækja mátt sinn og Garún að því að steypa samfélaginu sem útskúfar henni, hafnar og hegnir fyrir að vera blendingur. Viva la revolution.
Þegar hinir ýmsu hlutar Hrímlands eru taldir til er auðvelt að ætla að hér sé blandað of miklu saman, stefnt of hátt, reynt of mikið og að útkoman sé hallærisleg. En ólíkt mörgum fyrri tilraunum til að skrifa alíslenskar fantasíur (og/eða sci-fi) tekst höfundi ætlunarverkið. Heimurinn er heillandi, fjölbreyttur og ramm-pólitískur. Aðalpersónurnar gölluð eintök sem auðvelt er að sjá sjálfan sig eða vini í. Fléttan heldur alla leið, samtöl renna, hugmyndirnar eru risastórar en halda. Hrímland er spennandi fram að seinasta punkti og ætti að heilla hvaða fantasíunörd sem er.
Er allt vel ígrundað hvað varðar þjóðsögurnar? Nú ætla ég ekki að þykjast vera sérfræðingur í þeim en ekkert verkar illa á mann. Eru allar persónurnar frábærar? Nei, en engin þeirra er afleit og allar tala með eigin rödd auk þess sem þau Garún og Sæmundur eru afbragðs viðfangsefni. Í stuttu máli er þetta mjög vel skrifað og Alexander Dan Vilhjálmsson á hrós skilið fyrir hugmyndaauðgina, uppröðun kafla, stíl og sögu.
Tónlist Árna Bergs Zoëga sem fylgir með er einnig mjög metnaðarfull og fer verkinu vel. Saman mynda þessi tvö listaverk heillandi heim og við hlustun eftirá er líkt og bókin spili sig sem kvikmynd bakvið augnlokin. Bæði eru frábært bíó. Hver þarf Hollywood?