Ritstjórnarpistill: Vill einhver elska … ?

Hvað gerir maður við leikara sem maður ætlar ekki að nota lengur? Í vikunni sagði Kristín Eysteinsdóttir, nýráðinn leikhússtjóri Borgarleikhússins, upp þremur leikurum – þar af tveimur á barmi eftirlaunaaldurs – og réði sex aðra til starfa. Í viðtali sagði Kristín að uppsagnirnar hefðu ekkert með aldur að gera heldur snerust um endurskipulagningu leikhópsins í ljósi þeirra verkefna sem framundan eru. Að baki þeirri endurskipulagningu liggur einhvers konar faglegt mat, reikna ég með – og niðurstaðan var þessi. Þrír út og sex inn.

En hvað gerir maður þá við leikara sem maður ætlar ekki að nota lengur? Sem maður vill ekki nota lengur. Maður verandi sá sem ræður og sá sem ber ábyrgð á gæðum leikhúss. Maður rekur leikarana út á „guð og gaddinn“ – svo að segja. Eldra fólk á ekki auðvelt með að fá vinnu við nokkurn skapaðan hlut og þess vegna sárnar okkur alltaf þegar við heyrum af uppsögnum þeirra. Við reiðumst fyrir þeirra hönd. Okkur finnst að fólk eigi að fá að hætta með reisn. Án þess að það sé endilega skýrt hvernig sú reisn á að líta út. Við segjum, það átti að fá að hætta 67 ára en ekki 66 ára eða 65 ára og það átti að vera kvatt af sviðinu með blómum og lófaklappi. Einsog 67 ára sé einhver töfragrensa þar sem maður verði skyndilega gagnslaus, þar sem hlaupinu ljúki af náttúrulegum orsökum. 65 ára er maður í banastuði en 67 ára á barmi eilífðarinnar.

En hvað gerir maður við leikara sem maður ætlar ekki að nota lengur ef maður má ekki reka hann? Á að hengja hann upp á snaga í búningadeildinni þar til hægt er að setja hann á fleka og ýta honum út úr húsi við drynjandi lófaklapp? Eða ber leikhússtjóra einfaldlega að sjá til þess að allir í húsinu fái hlutverk við sitt hæfi? Svona einsog í grunnskólasýningum þar sem allir verða að fá að vera með? Það séu alltaf nóg af sýningum sem passi leikurunum. Eða á að láta fólk leika hlutverk sem eru ekki við þeirra hæfi – unga leika gamla, konur leika karla og það allt saman. Það er gaman en það er líka viss fagurfræði (og pólitískt steitment) og hún gæti orðið þreytt og þunn ef hún væri í öllum sýningum. Maður spyr sig líka: hvernig úreldist leikhópur? Ef þetta er spurning um rétta eða ranga samsetningu, hvað er það þá sem er að breytast, ef þetta hefur ekki með aldur að gera, einsog borgarleikhússtjóri fullyrðir? Vantaði hávaxnari leikara? Fleiri ljóshærða? Hvaða listræna og faglega sýn er hér að baki – kannski skuldar leikhússtjóri einfaldlega áhorfendum sínum einhverja útskýringu. En við verðum þá að vera tilbúin til að hlusta.

Og almennar: hvað gerir þjóðin við listamann sem hún hefur ekki lyst á lengur? Fæstir listamenn eru svo heppnir að vera fastráðnir – sjálf leikhúsin eru full af verktökum, fyrir utan galleríin, bókasöfnin, tónleikastaðina. Það er alþekkt vandamál að margir eldri listamenn eiga erfitt með að ala önn fyrir sér með list sinni – og listamenn á öllum aldri heltast úr lestinni á hverjum einasta degi, ekki síst þeir yngstu. Þeir elstu eru kannski bara þeir þrjóskustu, þeir sem létu sér segjast síðastir. Og spurt er: á maður skilið að lifa af list sinni alla ævi, hafi manni einhvern tíma tekist það? Á maður skilið að lifa af list sinni alla ævi hafi maður einu sinni gert eitthvað magnað? Hvaða prinsipp viljum við halda í heiðri – og hversu mikið erum við tilbúin til að binda einfaldlega hendur þeirra sem fara með fjármagnið, leikhússtjóra eða launasjóða?

Listamenn eru upp á athygli annarra komnir. Upp á velþóknun annarra komnir. Ekki bara leikhússtjóra heldur lesenda og áheyrenda og launasjóða og ritstjóra og ekki síst kollega. Við lifum flest á klappi og klíku (les: „tengslaneti“) og þurfum að berjast á hverjum degi við að halda heilindum okkar. Starfsöryggið er eiginlega ekkert og af þeim sökum, meðal annars, er mikið af fólki í þessum bransa sem er hálfgerðar mellur, og annað eins finnst af þindarlausum smjöðrurum. Maður lifir við þá tilfinningu alla daga jafnt að hætti maður að sprikla af lífs og sálarkröftum, af allri heimsins taugaveiklun, þá sé þetta bara búið. Starfsaðstæðurnar eru einfaldlega þannig. Einsog hákarlinn sem sekkur ef hann hættir að synda. Að ef maður þóknist ekki öllum – eða of fáum – þá verði manni bara ýtt út í kant.

Kannski er eitthvað í þessari virkni sem gerir listina dýnamískari – heldur öllum á tánum. Og það er fátt jafn óþolandi og að horfa upp á meðalmennsku umbunað á meðan þeir sem voga svelta – ég veit ekki hvort nokkur myndi styðja það í raun að atvinnuöryggið í listaheiminum yrði bara einsog á hverjum öðrum vinnustað. Ekki nema kannski búrókratar og meðalmennskudýrkendur. En það gerir umhverfið engu mannúðlegra og það fer ekki betur með fólkið sem þarf að lifa við þetta. Og það gerir það svo sannarlega ekki ásættanlegra að fólk sé rekið úr vinnu rétt áður en það smellur inn á eftirlaunaaldur. Það er eins ömurlegt og það verður, hvort sem fólkið vinnur í frystihúsi eða leikhúsi.