Reykjavíkurdætur. Mynd: Facebooksíða hljómsveitarinnar.

Reykjavíkurdætur á Harlem

Einhvern tímann í byrjun árs 2012 skrifaði ég grein um ákveðna krísu sem mér fannst íslensk feminísk umræða vera í. Inntakið í greininni var það að kröfurnar sem verið var að setja fram væru of hófsamar – mér fannst eins og krafan væri að konur fengju bara hlutdeild í völdum karla: fengju að leika með í stjórnum fyrirtækja, framboðslistum þingflokka, íþróttafréttadeildum, Gettubetur-keppnum o.s.frv. Auðvitað er það fullkomlega sanngjörn krafa, en hún náði of stutt að mér fannst.

Ef við trúum því að valdastrúktur samfélagsins hafi í gegnum tíðina verið skapaður á grunni kynbundinnar verkaskiptingar og sterkari stöðu karla, er lógískt að hugsa að samfélagið allt hafi byggst upp á gildismati sem er „karllægt“ (hvort sem það er körlum eðlislægara eða þeir hafa eignað sér það í krafti valda sinna). Þetta er það sem kalla mætti feðraveldi: harka er álitin merkilegri en umhyggjusemi, staðreyndaþekking merkilegri en tilfinningagreind, verkfræði merkilegri en hjúkrun, orðið merkilegra en líkamleg tjáning – ekki vegna þess að það er það í eðli sínu þannig heldur vegna þess hvernig innri gerð samfélagsins hefur verið byggð upp.

Hinn „karllægi“ heimur sem við lifum í er að mörgu leyti ömurlegur og mér fannst sorglegt að (hvítar vel stæðar) konur sem komu auga á ömurleikann væru að krefjast hlutdeildar í honum frekar en að ætla sér að bylta honum. Því hugmyndin um að konur í valdastöðum stjórni öðruvísi, reki fyrirtæki öðruvísi, fjárfesti öðruvísi eða geri hvaðeina öðruvísi en karlar er auðvitað kjaftæði. Lítum frekar á þetta svona: konur sem stjórna eins og valdakarlar og fjárfesta eins og valdakarlar komast til valda vegna þess að gildismat strúktúrsins er karlvilhallt. Það má ekki vera markmið að koma konum í áhrifastöður í nafni femínisma ef þær heita Marine Le Pen, Pia Kjærsgaard, Siv Jensen og Vigdís Hauksdóttir. Vont karlrembusamfélag er vont karlrembusamfélag hvort sem því er stjórnað af körlum eða konum. Mér fannst það að telja hlutföll typpa og píka á meðlimum í stjórnum vondra stórfyrirtækja ekki gagnlegur femínismi, hann hlyti frekar að felast í að gjörbreyta samfélagsskipan sem ítrekað ýtir svokölluðum „kvenlegum“ gildum, „kvenlegum“ störfum og þar með (dökkum fátækum) konum niður á botn allra valdapýramída – bæði efnahags- og stjórnmálalegra.

Undir lok greinarinnar ætlaði ég þess vegna að senda ákall til íslenskra femínista um að hætta að sækjast bara eftir því að mega taka upp þá eiginleika sem hafa verið eignaðir körlum og þess í stað að krefjast þess að hin kynjuðu gildi yrðu metin til jafns – að troða „hinu kvenlega“ ofan í kokið á feðraveldinu. Í stað þess að festa á sig gervilimi vegna þrár eftir því að líkjast körlum, þætti mér sterkara að hampa píkunni svo karlar færu að þrá að vera riðið líkt og þeir væru konur: verðandi-konur.

(auðvitað hljómaði þetta eins og ofboðslega mikil kynjatvíhyggja og blablabla – það var að hluta til í retorískum tilgangi og að hluta til vegna þess að við getum ekki afneitað þessum grundvallarkategoríunum í sjálfsskilningi samfélagsins þrátt fyrir allan þann trans-inter-queer-leika sem fjöldi fólks upplifir. Í núverandi samfélagi eru karlmennska og kvenleiki staðreyndir þó að sú staðreynd að við séum flokkuð sem karlar og konur sé ekki endilega óbreytanleg staðreynd)

Eníveis. Ég þorði aldrei að birta þessa grein. Álasi mér hver sem vill: ég var of hræddur. Umræðan var óvægin. Karlar hötuðu konur og klámsálir voru knúzaðar til dauða í faðmi stóru systur. Fólk var vegið úr launsátri fyrir minni sakir. Og hvaða rétt hafði ég sem karlmaður að tjá mig um kvennabaráttu? Ég hafði ekki áunnið mér neinn trúverðugleika innan hreyfingarinnar. Var þetta ekki bara týpískur karllægur besserwisserismi? Hrútskýring/mansplaining? Aðilinn í valdastöðunni sem segir þeim valdalausa hvernig hann á að heyja baráttu sína?

Jú, örugglega alltsaman.

En óháð því þá hafa fleiri greinilega hugsað eitthvað svipað, eða ef ekki hugsað þá upplifað. Því það er eitthvað að gerjast. Nýr ölduhryggur femínisma sem er agressívari í hegðun og hugsun – frekar en orðum.

Þetta er svo augljóst þegar maður kemur á rappkvennakvöld Reykjavíkurdætra. Ég mætti í fyrsta skipti á föstudag, rambaði inn á Harlem eftir langan vinnudag.

Frá því að ég man eftir mér hafa tónleikastaðir verið leikvellir karlmanna – sérstaklega rappheimurinn. En á Harlem þetta kvöldið var ekki bara einstaka stelpa, heldur voru þær í miklum meirihluta. Eingöngu konur á sviðinu og áberandi fleiri konur í áhorfendaskaranum. Það var ekki bara andrúmsloftið sem var öðruvísi, það var eins og lögmálin hefðu breyst, hvað á og má gera. Uppi á sviðinu stóð stelpa og hreytti út úr sér rímum. Það var einhver stemmning í loftinu, einhver lykt, eitthvað andrúmsloft algjörs sjálfsöryggis, einhver sameiginleg meðvitund um það sem væri í gangi væri einstakt og skipti einhverju máli. Það er ekki oft sem maður upplifir slíkt. Ég get ímyndað mér að þannig hafi stemmningin verið á tónleikum Sex Pistols. Ég er nokkuð viss um að þetta hafi ekki verið einstakt móment þarna á föstudagskvöldið, heldur er þetta senan sjálf sem býr til stemmninguna.

Senur eru eflaust jafn mismunandi og þær eru margar, þær rísa og hníga, sumar eru hægar, lífseigar og langlífar, sumar eru svarthol sem sjúga í sig allan sköpunarkraft og hæfileika í sínu nánasta umhverfi, aðrar orkumiklar sprengistjörnur sem tætast nánast um leið og þær verða til. Á meðan senan er full af orku er hún það merkilegasta í heiminum fyrir þátttakendur, hún er það eina sem skiptir máli og hún skiptir öllu máli, allt er hægt, allt má. Þetta var þannig orka, þannig sjálfsöryggi, þannig stemmning. Tónlistin var sjaldnast neitt sérstök, en einhvern veginn skipti það ekki máli. Ég efast um að ég muni nokkurn tímann hlusta á plötu með einstaka rappettum sem komu fram, en einhvern veginn skipti það engu máli, listin réttlætti sig svo fullkomlega í núinu.

Það sem hamlar eflaust flestum senum er að þær eru lokaðar, ekki þannig að fólk þurfi að vera skráðir meðlimir, en þær eru útilokandi. Óskrifaðar hegðunarreglur, náin sambönd þeirra sem taka þátt gera það að verkum að erfitt er að fá að vera með. Að einhverju leyti virðast Reykjavíkurdætur vera öðruvísi – vonandi! Hópurinn stækkar og stækkar tekur meira inn í sig, það fjölgar í hópnum á sviðinu svo maður er hættur að greina hver er þar og hver á gólfinu. Má ég fara upp á svið? Mörkin milli senunnar og hljómsveitarinnar mást út. Það er eins og allir megi leika með, sama hversu hæfileikalausir þeir eru (enda eru hæfileikar stórlega ofmetið fyrirbæri). Samt ekki beint eins og sjálfshjálparhópmeðferð. Meira eins og í pönkinu.

Ég vona að þetta sé raunverulega stemmningin í Reykjavíkurdætrahópnum frekar en upplifun utanaðkomandi aðila með fyrirframgefnar skoðanir. Því er nefnilega ekki að neita að hugmyndin um gengið er áberandi í útliti og framkomu þeirra – maður er hræddur við Reykjavíkurdætur.

Þetta er ekkert nýtt í tónlistarheiminum. Rokkhljómsveitin er í eðli sínu gengi – Bítlarnir, Ramones, Sex Pistols, Mötley Crew og Mínus – en venjulega er það gengi sem fólk dáist að úr fjarlægð frekar en álítur að það geti orðið hluti af. Það er lokað mengi. Ef við förum lengra með útjaskaðar kynjaðar táknmynir þá er hið hefðbundna rokkgengi harður og stingandi fallus á meðan kvenlegt gengi er opið og umfaðmandi líkt og legið. Er rappgengið þá ekki kvenlegra eftir alltsaman? Posse – samfélag þar sem mörkin milli meðlima, gestasöngvara, hæpmanna og áhangenda eru óræðari og meira fljótandi: Wu-Tang Clan, XXX Rottweiler, Anticon kollektífan og Odd Future. Reykjavíkurdætur ganga inn í þessa hefð. En hættan þarna, líkt og í allri hópamyndun, er að grúppan storkni, lokist smám saman og „stofnanavæðist“ í kringum ákveðinn kjarna, með ákveðna stefnu, tísku, talanda og fastmótaða hírarkíu. Það er erfitt að greina hvort það hafi eða muni myndast einhver einráður heili ofan á líkama dætranna: einhver GZA, Erpur eða Tyler.

Kannski er gengishugmyndin nauðsynleg til að gera hópinn nógu samheldinn og ógnvekjandi svo hann geti komið af stað raunverulegum umbótum. Spurningin, sem hið kvenlega gengi ætti þá að spyrja sig er hvernig hægt sé að halda himnunni sem umlykir það hálfgegndræpri svo hún hleypi æ fleirum inn í sig, sé stöðugt opin fyrir breytingum, stækki og stækki svo hún geti myndað miðjulausa fjöldahreyfingu færa um raunverulega kollvörpun karlpungasamfélagsins.

Innan sviga: Þrjár áleitar spurningar læðast aftan að mér.

Spurning 1: Ég fer allt í einu að efast um að Reykjavíkurdætur séu yfirleitt að boða einhverja samfélagsbyltingu. Ég verð satt best að segja fyrir svolitlum vonbrigðum þegar einn meðlimur tekur upp á því að hrópa „BYLTING! BYLTING! BYLTING!“ en enginn tekur undir. Er þetta þá kannsi bara rökrétt framhald af sjálfsmyndarpólitík nýfrjálshyggjunnar?

Spurning 2: Tvisvar heyri ég rappetturnar á sviðinu kynna takthöfunda, í báðum tilfellum eru það strákar. Eru bara strákar að gera hip-hop takta, og ef svo: af hverju?

Spurning 3: Vinkona mín spyr af hverju rapparar (af báðum kynjum) þurfi alltaf að vera svona töffaralegir, með svona mikið attitjúd. Í smástund reyni ég að malda eitthvað í móinn – segi að það sé nú ekki algilt og blabla. Svo nenni ég því ekki lengur og viðurkenni að þetta sé valid spurning.

Svigi lokast.

Eins aðdáunarvert og það er að einstaka stelpur hafi náð að koma sér upp á svið í karllægu (rokk-og-rapp)tónlistarlífi landsins þá hefur senan verið karllæg og stelpur þurft að spila með í þeim leik, en hér er öllu umturnað, senan verður til til þess að vera kvenleg.

Sá praktíski skilningur sem ég legg í hugtak Nietzsches – sem var auðvitað þekktur kvenhatari – um ofurmennið, übermensch, þá er það sá sem leitast við að fullkomna hæfileika sína, fullnýta sína möguleika. Þetta gerir ofurmennið ekki í samkeppni eða andstöðu við aðra heldur eingöngu með það að markmiði að skapa listaverk úr sjálfum sér, listaverk sem hann getur verið sáttur við, listaverk sem er eingöngu dæmt út frá hans eigin fagurfræðilegu kvörðum.

Og þannig virðist stemmningin vera. Ofurkvendin skilgreina sig ekki í andstöðu við karlinn heldur reyna að fullkomna hæfileika sína án þess að velta fyrir sér karlinum – er í raun drullusama um karlmennsku og hið karllega. Reykjavíkurdætur eru skammarlaust konur. Þær virðast ekki óska þess að vera með typpi, eða haga sér eins og þær séu typpi, heldur eru þær að einmitt að gera það kvenlega svo töff að maður getur varla annað en öfundað þær af kyni sínu. Vildi að maður væri með kvenlegar línur og píku, ekki svo að maður gæti knúzað, heldur svo maður gæti riðið einhverjum gæja út í bæ.