Benedikt Hjartarson, dósent í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur í Hafnarhúsi sem unnin er í samvinnu við Rannsóknarstofu um framúrstefnu við Háskóla Íslands.
Í evrópskri menningarsögu er tímabilið frá 1909 til 1938 gjarnan kennt við sögulega framúrstefnu og þar með vísað til hreyfinga eins og ítalsks fútúrisma, rússnesks kúbó-fútúrisma, súrrealisma, kúbisma og konstrúktívísma. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nýjar rannsóknir á sögulegu framúrstefnunni, sem leitast við að varpa ljósi á eðli starfsemi hennar og draga fram áður lítt þekktar hreyfingar eða efnivið. Í fyrsta lagi verður sjónum beint að nýjum rannsóknum á bókmenntagrein manifestósins eða stefnuyfirlýsingarinnar og hvernig þær varpa nýju ljósi bæði á sérstöðu þessara hreyfinga og alþjóðlega útbreiðslu hinnar nýju fagurfræði. Í öðru lagi verður fjallað um nýrri fræðiskrif sem lagt hafa grunn að nýrri staðfræði alþjóðlegrar framúrstefnu og fela í sér endurskoðun á hefðbundnum hugmyndum um samband miðju og jaðarsvæða. Í þriðja lagi verða þessar nýju kenningar um staðfræði framúrstefnunnar kannaðar frá gagnrýnu sjónarhorni og þeirri spurningu velt upp, að hvaða marki þær halda fast í rannsóknarramma fræðilegrar hefðar sem takmarkar fremur en eykur skilning fræðimanna á viðfangsefninu. Í því samhengi verður áhersla lögð á mikilvægi breiðs sögulegs sjónarhorns á þær hugmyndir um þjóðfélagslega byltingu, menningarlega endurlífgun og andlega umbreytingu sem liggja verkefni hennar til grundvallar.