í uppsetningu Glennu
Leikrit: Þórarinn Leifsson
Leikstjórn: Vigdís Jakobsdóttir
Leikarar: Halldór Halldórsson (Dóri DNA), Þorsteinn Bachmann, Magnea Björk Valdimarsdóttir,
María Heba Þorkelsdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Arndís Hrönn Egilsdóttir.
Tónlist og hljóðmynd: Jónas Sigurðsson
Leikmynda- og myndbandshöfundar: Helena Stefánsdóttir, Arnar Steinn Friðbjarnarson
Búningar: Eva Signý Berger
Ljósahönnun: Halldór Örn Óskarsson
Á miðju síðasta ári skrifaði Vigdís Jakobsdóttir grein þar sem hún fór fram á að barnaleikhúsi yrði gert hærra undir höfði, en einungis þrjár sýningar komu til greina til Grímuverðlaunanna það árið. Hún fór fram á leiksýningar „…fyrir yngri áhorfendur um stríð og frið, um umhverfið, fjölmiðla, lýðræði, ábyrgð, völd, virðingu, kynjahlutverk, kynhneigð, fjölmenningarsamfélagið, lífið, dauðann – um allt sem skiptir máli í lífinu.“
Hún lét ekki sitja við orðin tóm og er listrænn stjórnandi Glennu, nýs leikhóps sem stendur fyrir sýningu Útlenska drengsins í Tjarnarbíói. Vigdís er einnig leikstjóri verksins sem skrifað er af Þórarni Leifssyni og fjallar um Dóra litla, hávaxinn og stóran alíslenskan dreng sem verður fyrir því óláni að fá lélega niðurstöðu úr svokölluðu Pítsa-prófi. Aðstoðarskólastjórinn Ágúst kemst að þeirri niðurstöðu að einkunnir Dóra séu það lélegar að þær sanni að hann er ekki Íslendingur – hann hljóti því að vera útlendingur og innflytjandi og því alls óvíst hvort hann hafi landvistarleyfi. Aðstoðarskólastjórinn sannfærir foreldra Dóra um að best sé að halda honum í skólanum og upp kemur kunnuglegt ástand þar sem útlenski drengurinn er merktur og niðurníddur af samnemendum og aðstoðarskólastjóranum.
Verkið er vitaskuld hápólitískt og minnir nokkuð á The Wave – bók sem skrifuð var um tilraun í Chubberly High School í Palo Alto í Kalíforníu – þar sem sögukennari gerði samfélagslega tilraun með að stofna nokkurskonar fasistahóp í skólanum. En Útlenski drengurinn er íslenskur, hann er upp úr raunveruleika nútímans sem gjaldfellir einstaklinga frá öðrum löndum, svona fyrirfram, og þar sem hælisleitendum er haldið í langtímaóvissu um hvort mál þeira verði tekin fyrir, hvort þeir fái landvistarleyfi eða er sparkað úr landi. Verkið virðist eiga að höfða til ungmenna í kringum fermingaraldurinn, er ekki barnaleikrit en samt ekki alveg fullorðins. Hugmyndirnar á bak við uppsetninguna eru góðra gjalda verðar og mjög þarfar í umræðu dagsins í dag. En hins vegar er það spurning hvort að góður ásetningur nægi til þess að sýningin teljist góð. Ég tel svo ekki vera. Það þarf meira að koma til en að vilja vel og vera með góðan boðskap. Sýningin nær aldrei flugi. Hún einfaldlega virkar ekki.
Það er ekki hægt að benda á eitthvað eitt sem er að – þetta eru margir samverkandi þættir sem gera það að verkum að sýningin í heild sinni líkist fremur uppsetningu hjá áhugaleikhópi fremur en þaulvönu atvinnufólki. Í fyrsta lagi er það handritið. Hugmyndin virðist vera að skrifa verk út frá leikhúsi fáránleikans, enda eru uppsettar aðstæður þannig að þær gefa góð fyrirheit um að hægt sé að ná nokkrum hæðum í absúrdismanum. En þar við situr. Upphafshugmyndin er góð – stjórsnjöll hreinlega – að fá þann úrskurð úr prófi að maður sé útlendingur – það býður upp á fjölmarga möguleika í leikhúsi fáránleikans. Hinsvegar þá sleppir fáránleikanum mjög fljótlega og verkið fer að verða fyrst og fremst pólitískt. Svolítið ærslakennt á köflum eins og hjá Dario Fo, en samt er ekki hægt að bera það saman við Dario Fo að öðru leyti.
Verkið er uppfullt af setningum sem mega missa sín, gera það einungis að verkum að kjarninn í samtölunum fer á víð og dreif. Samtölin ná ekki almennilegu flugi, eru fremur hversdagsleg og hafa takmarkað hlutverk við framvindu verksins. Hinsvegar er töluvert um ágætar setningar og vísanir eins og „Ekki hugsa um hvað skólinn geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir skólann!“ Margir stórskemmtilegir frasar sem gengu vel í fullorðna áhorfendur en fljúga vel yfir höfuð ungmennanna. En auðvitað verða fullorðnir að fá sitt. Það skorti hinsvegar gamanið fyrir yngra fólkið. Ég heyrði því miður nær eingöngu fullorðna hlæja á sýningunni þó svo að salurinn væri hálffullur af krökkum. Einnig var framvindan í verkinu svolítið vanhugsuð. Atburðirnir koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Það myndast engin spenna, engin undirliggjandi áhætta, engar vísbendingar um mögulega framvindu til að skrúfa upp spennuna. Að auki var prédikunarbragur á verkinu. Það er mun vænlegra að áhorfendur uppgötvi sjálfir veruleikann á bak við leikritið en að upplýsingar um stöðu mála séu sagðar beint út.
Leikurinn var nokkuð ærslakenndur. Það var flýtibragur yfir honum svolítið eins og leikararnir þyrftu að klára verkið sem fyrst. Samtölin fengu lítið að anda. Það var ekki tími til að melta það sem var í gangi hverju sinni. Halldór Halldórsson sem fer með hlutverk Dóra litla er ekki þjálfaður í leiklist þó hann sé menntaður á því sviði og kom það berlega í ljós í sýningunni. Hlutverkið útheimtir stærri tilfinningaskala en hann ræður við og því kemur hann ekki nógu vel út í hlutverkinu. Hlutverk af þessu tagi er einfaldlega nokkum númerum of stórt fyrir hann. Því öðlaðist maður litla sem enga samúð með karakternum. Það skorti fínni blæbrigði og það virtist smita út frá sér til annarra leikara í sýningunni. Þorsteinn Bachmann fer með hlutverk Ágústs aðstoðarskólameistara. Hann ætti að ráða vel við það hlutverk en einhvernveginn fannst manni hann ekki hafa fullkomlega hugann við efnið, eins og hann langaði ekki til að vera þarna á sviðinu. Arndís Hrönn fer ágætlega með hluverk skólastjórans. María Heba og Benedikt Karl voru nokkuð góð í hlutverki foreldranna en síðri í hlutverki nemendanna og Magnea hverfur svolítið í skuggann í öllum ærslunum, þó svo að sjá mætti að hún legði sig nokkuð vel fram í hlutverki Uglu.
Leiksviðið er uppsett þannig að vængir eða þil eru sitthvoru megin og á þau og vegginn á bak við er varpað myndbandi. Töluverð vinna virðst hafa verið lögði í þessa myndrænu uppsetningu og er það annar þáttur sýningarinnar sem verður að teljast nokkuð vel unninn. Hinn þátturinn er tónlistin sem er mjög vel gerð. Þar eru vinnubrögðin á hæsta leveli, en um þann hluta sá Jónas Sigurðsson. Annað er því miður ekki nógu vel gert. Sviðsmyndin að undanskildum þessum myndbandsvængjum er lítið fyrir augað. Eins og gripið hafi verið það sem hendi var næst – nokkrir stólar og borð og þessháttar sem er þvers og kruss á sviðinu, flækist meira fyrir en að það geri almennilegt gagn. Ljósin eru lítið notuð til að afmarka svæði. Lýsingin gerir því ekki nógu mikið fyrir sýninguna. Einnig er eins og skorti svolítið á tilfinningu fyrir stöðum á sviðinu – að rýmið sé notað meðvitað. Innkomurnar voru nokkuð óhreinar, svo og skiptingar og hópatriðin. Það var hreinlega líkast því að sýningin væri langt frá því nógu vel æfð. Sem líklegast verður að skrifast á leikstjórann.
Það má vel vera að með því að fjalla á þennan hátt um Útlenska drenginn skipi maður sér á bekk með pungrottum. En því miður er þessi blessaði drengur ekki uppskrift að ánægjulegri kvöldstund. Hugurinn er góður. Það er þarft verk að blása lífi í leikhús fyrir yngra fólk. Einnig að kryfja stöðu samfélagsins og sýna okkur hvernig við komum fram við annað fólk. Útlenski drengurinn er vissulega tilraun til þess. Hana mætti nota til að draga lærdóm af fyrir næsta verk hópsins. Eða eins og einn frömuður leikhúss fáránleikans sagði: „Ever tried. Ever failed. No matter. Try Again. Fail again. Fail better.“