Ögn af ógn: Um Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur

Það er bannað að lokka mann inn med óljósu loforði um ofbeldi og enda svo á enn óljósari staðhæfingum um okkur og ykkur, „us against them“. Skamm.

Ofbeldi segi ég. Tölum aðeins um ofbeldi. Eins og hvert annað smelluglatt gimpi laðaðist ég að Koki á forsendum þess að:

a) ég þekki fyrri verk höfundar og hafa þau yfirleitt svalað losta mínum fyrir hinu myrka í mannsálinni í bland vid ríkt myndmál sem kveikir í hugmyndafluginu (líkt og eldsálin í Kjötbænum)

og

b) mér skildist að umfjöllunarefnið væri, á einfaldastan máta, heimilisofbeldi og treysti Kristínu til að hafa á því áhugaverðan vinkil.

Svo er ekki beint. Væntingar mínar til bókarinnar eru mínar eigin, þeim verður ekki klínt á neinn annan svo sem. En þær spretta ekki úr engu. Er verið að markaðssetja Kok vitlaust, mögulega? Eða tekst henni ekki að skila því sem hún segist ætla sér? Á hvaða forsendum á ég þá að meta bókina? Hennar eigin eru óljósar, jafnvel eftir annan og þriðja lestur.

Það virðist vera lenskan í íslenskum bókmenntum að annaðhvort tala um það sem er fallegast (ástin, líkaminn, náttúran etc.) eða það sem er ljótast (nauðgun, pólitík, kúgun etc.). En er hægt að dansa á línunni þarna á milli og segja samt eitthvað sem situr eftir í minninu? Eru það forsendur verksins? Jú, það er líklega þetta sem Kok reynir. Í stað þess að leggja fram eitthvað sem svart og hvítt er hér daðrað við þetta gráa, ekki á einhvern „50 Shades“ hátt heldur eins og til að gefa „réttari“ mynd af samböndum. Enginn er ástfanginn upp fyrir haus alla daga. Og hafi maður asnast til að gefa frá sér hjartað er stutt í sársaukann, það er gallinn við að vera berkjaldaður, treysta. Það þarf ekki að beita heimilisofbeldi eða kúgun til að sambönd geti verið bæði góð og vond, í einu, allt í bland. En þetta flókna samspil þess sem heillar og þess sem særir okkur í samskiptum við hvort annað er líklega enn flóknara, enn ýktara þegar aðilar sambandsins bæta ofbeldi ofan á venjulegar samskiptaleiðir. Það er þess vegna sem hugmyndin um ljóðabók með myndum um heimilisofbeldi heillar. Efniviðurinn er marglaga og djúsi.

En Koki tekst ekki að beina nýju ljósi á samskipti kynjanna, á afhverju viðkomandi heldur áfram að trúa á ástina eftir að höggin hafa dunið eða hvaðan þörfin til að meiða þá sem maður segist elska kemur. Hún segir frekar eitthvað um eitt tiltekið samband, virkar sem sértæk hugleiðing sem hefur víðari skírskotanir en kærir sig ekki um að sjá hvað hið sértæka getur sagt um hið almenna. Verkið verður því óþarflega smátt, er erfitt lesendum sem leita að samsömun eða skilningi á því sem gengur á og virkar á endanum sjálfhverft.

Það glyttir í ljótleikann í Koki af og til en aldrei þó þannig að hroll sæki að manni. Ofbeldið er þarna en sterkara myndmál, bæði í texta og í myndum gæti virkilega haft áhrif á lesandann. Kristín hefur áður sýnt að hún er fær um að beita bæði myndum og máli þannig að tilhrifin sitji eftir brennd bakvið augnlokin. Birtingarmyndir sambandsins, og þess ofbeldis sem virðist leynast þar, sem og fegurðin þess á milli, eru skýrari í myndunum sem kallast á við textann en þó ekki þannig að lesendur finni til. Fegurðin er fjarri manni nema þá í einhverjum upphöfðum hversdagsleika, en aftur ná myndirnar betur að valda hughrifum en textinn.

Myndirnar eru nefnilega sterkar, tvíræðar, „glimpses of life“ sem bæði heilla og hreyfa, en samtal þeirra við textann minnkar bæði. Hvort um sig, myndir og texti, gætu vakið hugmyndaflug lesandans og leyft honum að fylla sjálfur í eyðurnar, sækja efnivið í eigin myrkustu hugarfylgsni og finna þar með eitthvað í sjálfum sér, óvænt eða grafið. En saman verða einn plús einn einhvernveginn minna en tveir.

Hvad stendur þá eftir? Lítil saga af tveimur einstaklingum. Eitthvað sem hefur verið stungid undir teppi og bælt. Ögn af ógn sem nagar líkt og textinn við Luka (Suzanne Vega), en ekki jafn sterkt. Ef ætlunin var að sýna hvað heimilisofbeldi getur orðið hversdagslegt þá tókst það. Og mér ætti ekki að standa á sama. En samt stendur mér á sama. Skamm á mig? Ókei. En skamm líka á Kristínu Eiríks fyrir að hreyfa ekki við mér.