[nafnlaust] eftir Braga Pál Sigurðarson

 

Í tóminu er sturlun.
Rauðir ferlar hverfast um kúpuna.

Hey sturlun!
Hey random atburðir!

Í kremju milli fjörugrjóts.
Á leiðinni fram af hengifluginu,
þessar ljúfu stundir
í lausu lofti.
Loksins frjáls.

Ganga.
Skríða.
Hlaupa.
Kóma.
Hlusta.
Hreinsa.
Skríða.

Bébébéráðum kákákájémur bébébétri tététéíð
emmemmemmeð blóm í haga.

Slúðurvélin gengur vel, dælir út hálfsannleik með
klípu af hatri. Engin skýr lína á milli umræðna og
botnlauss kjaftæðis.

Þegar skipið byrjar að sökkva sest ég á stefnið og
þykist njóta þess að horfa á stjörnurnar í nístandi
næturfrostinu.

Ónýtt fólk
án vonar
fer í hringi
og deyr.

Eignarrétturinn.
Arðránið.
Dýpt flækjunnar.
Sorgin.
Ekkert breytist.
Engar byltingar.

Unga afl,
von breytinga,
bylting Íslands
er glerbrot og gubb.
Handahófskennt fálm.
Vandræðalegt kynlíf.
Miðbær Reykjavíkur
drap Che Guevara.

Ég er samt slakur.
Búinn að gefa byltinguna mína.
Núna fylgist ég með
nauðgunum ‒ morðum ‒ brennum ‒ kúgunum ‒ vonlausum
‒ karlpungum

og þegar ljósaperan springur
stekk ég fram af hengifluginu
hlæjandi í myrkrinu
frjáls

Birtist áður í ljóðabókinni Fullkomin ljóðabók (ljóð, eða eitthvað) Til hamingju!