MannauðsMountain afhjúpað

Afhjúpun verksins MannauðsMountain eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur fer fram laugardaginn 11. október kl. 17 í Höggmyndagarðinum á Nýlendugötu 17a.

Verkið tekst á við veruleika hins undirskipaða vinnandi manns og vísar beint í Mountain, verk Sigurðar Guðmundssonar frá áttunda áratugnum, þar sem hann túlkaði þennan sama veruleika með ljósmynd af sér sjálfum liggjandi undir hrúgu af slitnum skóm, bókum og brauði.
Mannauðsfjallið samanstendur meðal annars af broti úr texta lagsins Work Bitch með Britney Spears, grænni baun fyrir prinsessur og baunagrassklifrara, ljósaskilti, nokkrum þeirra efna sem skapa húsakynni meðal Jóns og Gunnu, og spegli sem trónir á toppnum.

MannauðsMountain er hluti af halarófu verka eftir Snorra Pál og Steinunni Gunnlaugsdóttur, sem sameinast undir titlinum EF TIL VILL SEK og fara fram frá 20. september til 20. október.