Hálfvolgur Kalli

Bækurnar um Kalla kalda eftir Filippus Gunnar Árnason með teikningum eftir Önnu Þorkelsdóttur eru orðnar þrjár talsins: Kalli kaldi og snjósleðinn, Kalli kaldi fer í búðina og Kalli kaldi og veiðiferðin. Allar bera þær undirtitilinn „Skemmtileg saga fyrir stráka og stelpur“.

Í snjósleðabókinni ætla Kalli og vinur hans Bjarni að fara út að renna sér á sleða en uppgötva að systir Kalla, Lára, hefur verið fyrri til og náð sleðanum. Kalli lætur ekki deigan síga heldur gerir tilraun til að nota pappakassa til að renna sér í, sem reynist auðvitað vonlaust klúður. Á endanum kemur pabbi Kalla og gefur honum glænýjan sleða.

Í Kalli kaldi fer í búðina fer Kalli í búðina með mömmu sinni, týnist og finnst aftur.

Söguþráðurinn í Kalli kaldi og veiðiferðin minnir mikið á aðra nýlega barnabók, Gummi fer á veiðar með afaÍ stað þess að fara á sjó með afa sínum einsog Kalli fer Gummi að veiða á stöng með afa sínum, en einsog Gummi þá fer Kalli sér að voða og dettur út í. Hann bjargast auðvitað, afi veiðir tvo fiska og þeir fara heim til mömmu og allt er í fínasta lagi. Kalli kaldi og veiðiferðin fæst líka sem litabók.

Bækurnar þrjár hefjast allar á sömu tveimur málsgreinunum – sem er alveg í lengsta lagi, Einar Áskelsbækurnar létu duga að eiga fyrstu setninguna („Þetta er Einar Áskell“) sameiginlega.

Í stóru, stóru húsi við einhverja götu í Reykjavík býr strákur sem heitir Karl, en flestir kalla hann Kalla Kalda [svo] 1, því hann þykir nokkuð frakkur.

Kalli er 5 ára, með ljóst hár og stór blá augu. Hann þarf að deila herbergi með stóru systur sinni sem heitir Lára, en er stundum kölluð Lára Klára [svo]. Hún er sjö ára og rosalega frek, eða það finnst Kalla alla vega.

Lára frekjudós kemur ekkert við sögu nema í snjósleðabókinni – þar sem hún er búin að taka sleðann þegar Kalli kemur og hunsar hann svo þegar hann spyr uppi í brekku hvort hann geti fengið að renna sér á honum. Ég átta mig ekki á því hvers vegna henni er fengið svona stórt hlutverk í þessum inngangstexta. Og pínlegt að í bókaflokki sem leggur áherslu á að vera fyrir bæði kynin skuli allt hverfast um hugrekki litla bróðurs á meðan rétt er vikið orði að stóru systur til að koma því að hvað hún sé mikil frekja.

Á baksíðu stendur að bækurnar séu ætlaðar 2-6 ára. Ég las þær fyrir fimm ára son minn og fannst hann of gamall fyrir þær. Það er dálítið einsog einfaldur söguþráðurinn og teikningarnar séu ætluð yngstu lesendunum en orðafjöldinn á síðu ætlaður eldri lesendum. Yngri lesendur þreytast á að fá ekki að fletta og eldri lesendur hafa hvorki nóg kjöt á beinunum í söguþræði né margbrotnari myndir til að einbeita sér að. Bækurnar færast þannig full mikið í fang enda varla hlaupið að því að höfða til sex ára barns og tveggja ára barns með sama lesefninu. Það hefði nokkuð unnist með því að skera textann niður – það væri áreiðanlega einfaldara verk en að gera meira krefjandi sögur úr sama þræði og gæða þær margslungnari myndskreytingum. En þetta væru samt dálítið „lestrarbókalegar“ sögur – einsog þær væru samdar á tímakaupi af þreyttum bjúrókrata á Námsgagnastofnun. 2 Þær gætu virkað einsog þær eru, fyrir þolinmóðan þriggja ára strák sem er ekki alltof sérsinna, en ég veit ekki hvort þær myndu skilja nokkuð meira eftir sig en rétt svo bærilega skemmtun. Aðrir eru líklega ýmist of gamlir eða of ungir. 3 4

Frásögn: 2 stjörnur
Myndir: 2 stjörnur

 

   [ + ]

1. Þetta er kannski smámunasemi í mér, en „kaldi“ á auðvitað að vera með litlum staf, einsog þegar Kalli er uppnefndur „Kalli kassi“ í Kalli og snjósleðinn.
2. Ég ber vel að merkja fyllstu virðingu fyrir starfsmönnum Námsgagnastofnunar, sem og bjúrókrötum víðs vegar, ég á við erkitýpuna í samfélagsminninu, einhverja fígúru sem ég kynntist sjálfur í barnabókum, hugsanlega dönskum.
3. Eða of sérsinna.
4. Eða of kvenkyns.