Jarðhnik og flekaskil í Hörpu

Tónlistarhátíðin Tectonics fór fram í þriðja sinn hér á landi dagana 10.-12. apríl sl. Listrænn stjórnandi og hugmyndasmiður hátíðarinnar er Ilan Volkov, en hann hefur jafnframt gegnt starfi aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands undanfarin ár. Líkt og áður var Sinfóníuhljómsveitin í lykilhlutverki á hátíðinni ásamt fjölda listamanna sem þar kom fram. Heiðursgestur hátíðarinnar í ár var bandaríska tónskáldið Alvin Lucier, flutt voru eftir hann fjölmörg verk og tók hann sjálfur þátt í flutningi á sumum þeirra. Í bæklingi hátíðarinnar bendir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, á þá staðreynd að í jarðfræðilegum skilningi liggur Ísland á flekaskilum. Enska orðið Tectonics, eða jarðhnik eins og það hefur verið þýtt, vísar í hreyfingar þessara fleka. Enn fremur segir Arna Kristín: „Einkenni flekaskila eru opnar gjár og sprungur, mikill jarðvarmi, sigdalir og eldgos.“ Við þetta má bæta að á flekaskilum þar sem flekarnir eru að reka í sundur, líkt og raunin er hér á landi, myndast ný jarðskorpa. Það má því segja að Tectonics beri nafn með rentu; hátíðin hverfist um nýja og tilraunakennda tónlist þar sem áheyrendur og meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands kanna nýjar lendur.

Það er hægt er að skipta flytjendum sem komu fram á hátíðinni í tvo hópa: Annars vegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og hins vegar íslenskir og erlendir flytjendur sem sérhæfa sig í nýrri og tilraunakenndri tónlist af ýmsum toga. Vissulega flytja margir tónlistarmenn innan raða Sinfóníuhljómsveitar Íslands samtímatónlist reglulega, en hjá hljómsveitinni er áherslan á annað og eldra tónmál. Þá er kannski eðlilegt að spyrja: Af hverju ætti stofnun eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands sem er íhaldssöm í eðli sínu að standa fyrir slíkri hátíð? Kannski einmitt vegna þessarar sömu íhaldssemi. Árleg þriggja daga samtímatónlistarhátíð er ein leið til að vinna gegn henni, fara út á flekaskilin og kanna nýja jörð.

Ilan Volkov mátti sjá í ýmsum hlutverkum á hátíðinni. Hann brá sér í hlutverk hljómsveitarstjóra, kynnis, dyravarðar, ljósmyndara, upplýsingafulltrúa, spunatónlistarmanns og fleira. Svo því sé haldið til haga þá er það heldur óvenjulegt fyrir sinfóníuhljómsveitarstjóra. Þeir halda sig oftast innan sinfónískra tónbókmennta í tónlistariðkun sinni og eru flestir með ímynd hins ósnertanlega gagnvart áheyrendum. Ég hef að minnsta kosti aldrei farið á sinfóníutónleika þar sem hljómsveitarstjórinn var líka dyravörður.

Á fyrstu Tectonics hátíðinni fyrir tveimur árum var áhersla lögð á tónlist eftir John Cage enda var það afmælisárið mikla þegar liðin voru 100 ár frá fæðingu hans. Í fyrra var bandaríska tónskáldið Christian Wolff heiðursgestur hátíðarinnar og í ár var það önnur lifandi goðsögn, Alvin Lucier. Ilan Volkov verður því lengi í minnum hafður sem maðurinn sem gerði gangskör í því að flytja okkur bandaríska tilraunatónlist, tónlist sem lítið hefur verið flutt opinberlega hér á landi. Þetta er tónlist sem er í eðli sínu afar ólík vestrænni klassík, hvað þá höfuðverkum sinfónískra tónbókmennta, og á jafnvel lítið sem ekkert skylt við hana. Það er eitthvað stórkostlegt við það að tónlistarleg framúrstefna (er enn við hæfi að nota það orð?) fái sitt pláss í húsi eins og Hörpu og hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það sýnir þá tónlistarlegu breidd sem hljómsveitin og húsið er — þrátt fyrir allt — til í að bjóða upp á. Kannski getum við að einhverju leyti þakkað smæðinni, við erum jú vön að ganga í öll störf, stundum af illri nauðsyn.

Þetta var fyrsta Tectonics hátíðin sem ég sæki. Sjálf hef ég verið fjarri góðu gamni í námi við bandarískan háskóla þar sem flutningur verka eftir ofangreind tónskáld var daglegt brauð og þótti jafn sjálfsagður hlutur og flutningur á verkum eftir Beethoven og Brahms við evrópsk konservatorí. Í framhjáhlaupi er gaman að geta þess að fyrir ári síðan flaug Christian Wolff beint af Tectonics á Íslandi til þess að kenna við þennan sama háskóla og svaraði, þegar hann var beðinn um hollráð handa ungu tónlistarfólki í dag, að sennilega væri gott að setjast að á Íslandi því þar væru spennandi hlutir að gerast. Go Iceland og áfram Ísland hugsaði ég þá.

En aftur að Tectonics í ár, þar var margt og mikið í gangi þótt ekki hafi ég sótt nema hluta hátíðarinnar. Það má spyrja sig hvort hátíðin eigi endilega að vera svona umfangsmikil í ekki stærra samfélagi. Það var svo sem ekki að sjá að tónleikasókn væri slæm miðað við það sem gengur og gerist þegar tilraunatónlist er annars vegar. Engu að síður var afar mörgum viðburðum raðað þétt á þrjá daga, svo taka við margar vikur þar sem lítið sem ekkert heyrist af framsækinni tónlist hér á landi.

Á mörgum viðburða á hátíðinni var eitt tónskáld eða tónlistarmaður í forgrunni, aðrir voru afar blandaðir. Það átti til dæmis við um opnunartónleikana þar sem boðið var upp á mikla tónlistarlega breidd. Sum verkanna voru sérstaklega pöntuð af hátíðinni og þá komum við að mikilvægum punkti, nefnilega frumkvæði listræns stjórnanda hátíðarinnar í að virkja hérlenda listamenn. Mér er það til efs að verk eftir Pál Ivan frá Eiðum, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Davíð Franzson og Skúla Sverrisson hefðu orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir tilstilli Tectonics (verk Valgeirs Sigurðssonar var pantað af Sinfóníuhljómsveitinni í Winnipeg en frumflutt á Íslandi á hátíðinni). Það eitt og sér er bæði merkilegt og mikilvægt því þarna er verið að sá fræjum, gera tilraunir og veita listamönnum tækifæri til að spreyta sig á fyrirbærinu sem við köllum sinfóníuhljómsveit. Og á meðan breytist hún að minnsta kosti ekki í steingerving.

Ég myndi gefa Tectonics margar stjörnur ætti ég slíkar en látum nokkra ferkílómetra af spánýrri jörð nægja. Hápunktur hátíðarinnar í mínum huga var án efa flutningur Alvin Lucier á eigin verki, Music for Solo Performer, sem var magnaður í að minnsta kosti tvennum skilningi. Einnig var stórkostlegt að fá tækifæri til að vera í svona miklu návígi við sinfóníuhljómsveit eins og verk Davíðs Franzsonar bauð upp á. Áheyrendum gafst kostur á að ganga á sokkaleistunum (skóhjóð hefðu yfirgnæft tónlistina eins og Ilan Volkov benti strangur á) að vild um rými Norðurljósa þar sem meðlimir hljómsveitarinnar voru á víð og dreif á meðan flutningi stóð. Að skynja nærveru hljómsveitar og áheyrenda á þennan hátt er eftirminnilegt og afar ólíkt formúlunni eins og við þekkjum hana: Ósnertanleg hljómsveit situr á sviði og áheyrendur út í myrkvuðum sal.

Dropinn holar steininn er málsháttur sem leynist örugglega í einhverju páskaegginu nú um páskana. Hann á svo sannarlega við um það starf sem unnið er á Tectonics. Ég gæti trúað að eftir nokkur ár muni meðlimir Sinfóníunnar vera hættir að birta myndir og meðfylgjandi háðsglósur á Facebook, eða þeirri framtíðarbók sem við verðum stödd á, af óhefðbundinni nótnaskrift líkt og þeirri sem þeir fengu að glíma við í ár. Hún verður sjálfsagður hlutur og kynnt til sögunnar í grunnnámi í tónlistarskólunum. Ég gæti líka trúað að með tímanum breytist dómharka flytjenda gagnvart samtímatónlist og höfundum hennar, þegar samtímatónlist er aftur orðin lifandi partur af starfi hins almenna hljóðfæraleikara en ekki útúrdúr frá vestrænu kanónunni sem er enn allsráðandi í tónlistarheiminum. Að minnsta kosti þeim sem enn stimplar sig með lýsingarorðinu klassískur.