„Frekar áhugavert“: Um Lýðveldi Kviss Búmm Bang í Riga

Performans-námskeiðs-verkið Republic, eftir Kviss Búmm Bang, var hluti af seríunni The splendor and misery in the Schengen zone, sem var eitt margra verkefna í tengslum við Riga sem eina af menningarborgum Evrópu árið 2014.

Hugmyndin að baki verkinu er einföld – Þrjú kvöld í röð er skapað nýtt ríki. Fyrst afsala allir þátttakendur verksins (og þar á meðal sá sem hér skrifar) ríkisborgararétti sínum, flytja ,,eið” til hins nýstofnaða Lýðveldis (e. Republic), og gerast Públikanar (nafnið repúblikanar er náttúrlega upptekið). Þeir hlýða á ýmsustu fyrirlestra um þjóðernishyggju, sköpun þjóðar, að tilheyra hóp, og svo framvegis. Þátttakendur taka þátt í vinnustofum, yfirleitt með þekktum einstaklingum, þar sem þeir skapa þjóðartákn og menningararf, þjóðdans, mat, þjóðbúning, þjóðsöng, og fleira. Á lokadeginum voru herlegheitin svo kynnt almenningi sem leikhúsperformans fyrir 10 evru aðgangseyri.

Kviss Búmm Bang segja í manífestói sínu að meginrannsóknarefni sín séu hið eðlilega, og þar af leiðandi hið óeðlilega, sem þau rannsaki með því að fá fólk til þátttöku til lengri tíma. Hér kemur tilvitnun:

Við viljum færa leiklistina út í líf fólks með því að fá það til að skuldbinda sig til þátttöku í lengri tíma. Með því viljum við gera verkin hluta af hversdagslegri rútínu þátttakenda, að einskonar framlengingu á lífum þeirra og þar með vekja með þeim spurningar um þeirra eigin raunveruleika.

Þannig að markmiðið er að hafa áhrif í samfélaginu. Fá fólk til að hugsa um ákveðin fyrirbæri og gera svo eitthvað í því.

Það er hér sem ég ætti að hafa varan á. Það er ljóst að um er að ræða pólitískt leikhús og pólítískt leikhús hræðir að einhverju leyti yðar auðmjúka þjón. Ég mun reyna að vera óhlutbundinn og færa fátækleg rök fyrir mínum innri efasemdum.

Reynum að vera blátt áfram og gerum ráð fyrir (við verðum að gera ráð fyrir einhverju) að megintilgangur pólitískrar listar sé ekki fagurfræðilegur heldur pólitískur. Þannig að kríterían fyrir góða pólitíska list ætti að vera hvort það nái þeim markmiðum sem það setur sér sjálft og takist að ná fram breytingum í hugsun og gjörðum.

Markmiðið

Á öðrum degi Republic kom fram í máli eistneska fyrirlesarans Evu Sepping að Kviss Búmm Bang hefði fengið henni það verkefni að finna líkindi á milli leikhússins og ríkisins. Þegar kom að þjóðernishyggju vísaði hún í framandgervingu Brechts. Hér kemur tilvitnun:

Líkindin á milli þjóðernishyggju og leikhúss liggja í þeirri staðreynd að þótt áhorfandinn sé meðvitaður um að hann sé að horfa á sýningu og að atburðirnir á sviðinu séu ekki raunverulegir, þá sé hann samt tilfinningalegur þátttakandi og honum sé skemmt.

Mér finnst þessi samanburður vera nokkuð nákvæmur og ég geri ráð fyrir að hann sé lykilhugmynd í verkinu. Að sýningin sé myndhverfing. Sköpun ríkis = leikhús.

En vissulega verður tilraun til að fá fólk til að líta á merkingu þjóðernishyggju vart skoðuð án samhengis við pólitískt landslag í Evrópu samtímans þar sem þjóðernissinnar, jafnvel fasistar, eru á uppleið.

Ég fæ á tilfinninguna að markmið Republic hafi verið að fá fólk til að skilja að þjóðernishyggja sé tilbúningur, byggð á rómantískum hefðum, ætti þar af leiðandi ekki að vera tekin of alvarlega og við ættum ekki að gerast nasistar. Þetta eru ógeðslegar ýkjur hjá mér, en samt.

Mitt hlutverk sem gagnrýnanda er þá að reyna að leggja mat á það hvort Kviss Búmm Bang nái markmiði sínu eða ekki. Tókst Republic að leiða þátttakendur og áhorfendur að þeim skilningi að hugmyndin um ríki og þjóðerni sé „afstæð“ og hvort sá skilningur minni leiða til aðgerða (sem í þessu tilfelli fæli líklega í sér skynsamlegt viðhorf gagnvart manns eigin þjóðerni og umburðarlyndi gagnvart öðrum þjóðernum)?

Tekst Republic að ná markmiðum sínum?

Það er ekki auðvelt og hugsanlega ómögulegt og að svara þeirri spurningu. Því miður, get ég einungis fabúlerað með örfáum vissum og ályktunum, mig skortir einfaldlega úrræði til að framkvæma þá rannsókn. Á seinasta degi performansins reyndi ég að spyrja nokkra gesti – kannski var mínum eigin félagslega vanþroska um að kenna en besta svarið sem ég fékk var: „Frekar áhugavert.“

Hinsvegar hef ég upplýsingar um hverjir públikanarnir eru. Kannski svarið liggi þar? Á fyrsta degi verksins, voru þátttakendur spurðir spurninga um menntun, aldur, hjúskaparstöðu o.s.frv. Þannig að: meðalþátttakandi var kona (80% þátttakenda voru konur), um það bil 25-30 ára, með BA gráðu eða MA gráðu, gagnkynhneigð og með bílpróf. Meðalfjöldi barna var 0,2 á hvern públikan, og það var tiltölulega hátt hlutverk trúleysingja og mótmælenda.

Eins og ég sagði þá get ég einungis fabúlerað. Sú freisting að spyrja röngu spurningarinnar er of stór. Heldur þú að meðalpúblikan, geti verið ginnkeyptur fyrir þjóðernishyggju, útlendingahatri eða nýnasisma? Heldurðu virkilega að þessi unga, velmenntaða, barnlausa kona sé ekki, í það minnsta, nokkuð vel að sér í þeim hættum sem fylgi þjóðernisdýrkun?

(Aftur á móti er spurningunni hvort það sé samhengi á milli menntunar og umburðarlyndis ekki endilega auðsvarað. Þegar ég var í háskóla hafði ég mjög kláran prófessor sem var hómófóbískur. En sem sjálfsskipaður endurreisnarmaður mun ég fullur þrjósku trúa því að þar sé samhengi.)

Önnur spurning. Af hverju hundsar þesssi þjóðernissinnaða meðaltalskona demógrafísk vandamál þjóðarinnar? Hún er á besta barneignaraldri, en samt á hún bara 0,2 börn! Það er ekki mjög þjóðernissinnuð hegðun.

Fremjendur hins pólítíska leikhús kvarta stundum yfir því að ópólitísk list sé föst með hausinn upp í rassgatinu á sér; að hún sé list fyrir sakir listarinnar. Aftur á móti mun pólitískt leikhús ekkert afreka, sé það framið í sama litla elítuklúbbnum, nema lítilsháttar ertingu sem leiðir ekki til neins.

Ef pólitískri list mistekst að ná til „venjulegs fólks“ (ég biðst afsökunar á þessu ógeðslega hugtaki), þá er hún jafnvel verri en ópólitísk list, af því henni virðist frekar vera umhugað um að sýna að henni sé ekki sama, fremur en að ná fram einhverjum breytingum.

Menntað fólk eru skrýtnar skepnur. Í rauninni þá gæti hugmyndin sem birtist í manifestói Kviss Búmm Bang – að fá fólk til að hugsa og spyrja spurninga – snúist í höndunum á þeim. Því hún gerir ráð fyrir að áhorfandinn sé hugsunarlaus skepna sem hafi ekki enn uppgötvað möguleika sína til að hugsa og efast um hluti. Vandamál móralismans er ekki siðferðið heldur pedagógísku stellingarnar. (Ég trúi því að einhversstaðar í hjarta okkar allra sé uppreisnarseggur sem þoli ekki neina kennara.)

Ég hafði það á tilfinningunni að þessi performans næði ekki lengra en auglýsingapósterinn sem segir að heimilisofbeldi sé vont, alkahólismi skaðlegur, börnin séu að deyja í Afríku, o.s.frv. Hefur þú heyrt um marga sem hættu að reykja vegna hræðilegra mynda af ógeðslegum lungum á sígarettupökkum eða áminninga um að reykingamenn deyi ungir og þjáist af hræðilegum sjúkdómum? Kannski hjálpar það – ég hugsa að ef upplýsingar séu stöðugt endurteknar í okkar daglega umhverfi komist þær dýpra inn í undirmeðvitundina en við höldum, en performansinn? Jafnvel, þó hann sé 3×4 klukkutíma langur?

Af hverju?

Ef til vill mistókst Kviss Búmm Bang að bera kennsl á „óvininn“ – í þessu samhengi, leika sér með hættulegar abstraksjónir og staðalmyndir eins og „venjulega“ eða „normal“ einstaklinga (rétt eins og ég gerði fyrir nokkrum línum). Kannski mistókst þeim að bera virðingu fyrir þessum óvin. M.ö.o. – ég held þau hafi valið rangan vettvang, eða ef þetta var sá vettvangur sem þau langaði að ná til, þá völdu þau ranga taktík.

Kannski getum við sagt að miðilinn beri sökina – leikhúsið. Lengi vel hélt ég að hugtakið pólitískt leikhús væri mótsögn. Mér fannst það að gera pólitískt leikhús væri svolítið eins og að reyna að ná fram pólitískum breytingum með því að afhjúpa málverk í galleríi. Málverkið mun ekki gera neitt gagn, en myndasaga í stærsta dagblaðinu gæti gert það. Kannski að pólitísk list ætti að reyna að ná til almennings í gegnum síður afmarkandi farvegi eins og bíó, sjónvarp, samfélagsmiðla, popptónlist, íþróttir, og svo framvegis. Pólitísk list ætti að vera miklu hugaðri – hún verður að fara út á torg og tala beint til klikkhaussins sem metur verðleika manneskju eftir tungumálinu sem hún talar, húðlitnum eða kynhneigðinni.

Kviss Búmm Bang til varnar, þá ætti ég að taka fram að stofnun og fögnun Lýðveldisins var sýnd í beinni útsendingu á internetinu. Því miður held ég að ef að ég, sem meðalhipster frá Riga með takmarkaða menntun og vott af xenófóbíu, hefði séð þessa útsendingu, þá hefði ég snarlega skipt yfir á nýjasta Miley Cyrus vídjóið.

Hvað sem því líður væri rangt að skella skuldinni einungis á miðilinn. Á síðustu árum hefur lettneskt pólitískt leikhús vaxið og ég hef séð að minnsta kosti einn performans sem hefur vakið hjá mér áhuga til þátttöku. En í stað hefðbundins leikhúsvettvangs fór hann fram á vinsælli rokkhátíð. Þannig að pólitískt leikhús er til, en hvert er þá vandamálið?

Að mínu mati þá var helsta vandamál Republic að það var ekki nógu gáfulegt. Því mistókst að fela sig og þar með mistókst því að mata hina sjúku á lyfinu án þess að þeir yrðu þess varir. Það má vissulega færa rök fyrir því að það sé megintilgangur hins brektíska leikhúss (Brecht í þessu leikhúsi, er vitaskuld, mjög nálægur) – að vekja áhorfandann til þátttöku vitsmunalega og gera hann meðvitaðan um það sé verið að uppfræða hann. En frá því Brecht var og hét hefur margt breyst – leikhúsið, viðhorfið gagnvart upplýsingum, og síðast en ekki síst, pólitíkin. (Hér kemur ein vond spurning, tókst Brecht að sigrast á þjóðernissósíalismanum í Þýskalandi fyrir stríð?)

Fólk þarf svo sem ekki að vera á einu máli um hvort það sé orsakasamhengi á milli umburðarlyndis og menntunar (vissulega hefur, sérstaklega nýlega, sumt af því fólki sem ég taldi vel gefið fólk loks reynst vera rússófóbar, hommahatarar eða rasistar), en það er erfitt að neita því að það séu tengsl á milli þessara hluta og íhaldssamra pólitískra skoðana, sem oft haldast í hendur við íhaldssama list. Ímyndum okkur íhaldssaman leikhússunnanda velja hvað hann ætlar að sjá næst – fyrirlestur að nafni Republic, fjóra klukkutíma þrjá daga í röð eða einhvern hefðbundin söngleik?

Jafnvel þó Republic mistakist að fela sig, þá ber það grímu. Í lokahluta verksins, á milli alls hins fræðilega, voru sýndar vissar attraksjónir – nýtilkominn þjóðararfur Lýðveldisins, lettneskur kórsöngur í þjóðbúningum og fimleikasýning(!). Allt þetta hefði átt að vera sætsykur til blands í meðalið. Eins og lögin hans Brechts. En því miður þá var vélrænan svo mikil að sykrinum mistókst að leysast upp í glasinu og meðalinu var hafnað. Því einfaldari sem ætluð skilaboð performans eru, því erfiðara er að koma honum til skila án þess að vera áberandi pedagókískur.

Það jákvæða

Þrátt fyrir að sýningunni, að minnsta kosti að mínu áliti, hafi mistekist ætlunarverk sitt, þá ættum við alltaf að leita að því jákvæða.

Mér fannst myndlíkingin leikhús = ríki takast mjög vel, sem er undirstrikað sérstaklega með skírskotun til þess að verkið var framið í Lettneska þjóðleikhúsinu, þar sem Lettneska lýðveldið var stofnað.

Leikhúsinu tókst raunverulega að skapa ákveðna eiginleika ríkisins, þátttakendum var úthlutað „vegabréfi“ (skjali til staðfestingar ríkisborgararétti) og gestum var úthlutað skjali til staðfestingar á landvistarleyfi. Og landamæraverðirnir sem stóðu við inngang leikhússins og merktu samviskusamlega komu og brottfarartíma borgara fengu mig næstum því til að hugsa; er ekki þjóðríkið gjörsamlega fáránlegt apparat?

Kristinn Sigurður Sigurðsson þýddi úr ensku.